Vissulega er rétt að ganga með opinn hug til stjórnlagaþings en sjálfum finnst mér afar mikilvægt að núna eftir hrun verði lagður nýr sáttargrunnur undir íslenskt samfélag með allsherjarendurskoðun á stjórnarskránni.
Ég myndi til að mynda vilja taka til umræðu að kjósa forsætisráðherra eða jafnvel ríkisstjórnina alla beinni kosningu og svo væri brýnt að ná samstöðu um að opna fyrir persónukjör í þingkosningum í einhverri mynd og brjóta þannig upp ræði stjórnmálaflokkanna. Slíkt er þó vandasamt og viss hætta á lýðskrumi sem getur fylgt auknu persónukjöri. Því þarf að vanda hér sérlega vel til verka.
Ég er enn fremur áhugamaður um að beita þjóðaratkvæðgagreiðslum í auknu mæli og væri einnig til í að endurskoða kjördæmaskiptinguna, jafnvel að afnema hana ef samstaða næðist um slíkt.
Þá tel ég það enn fremur vera umræðunnar virði að ræða það í fúlustu alvöru hvort mögulega ætti að lækka kosningaaldurinn í sextán ár.
Stjórnlagaþingi bíður vandasamt verkefni. Öllu skiptir að fulltrúar á þinginu nái saman um heildstætt frumvarp að nýrri stjórnarskrá, annars er hætta á að Alþingi muni geta hunsað vinnu stjórnlagaþingsins.
Um frambjóðandann:
Eiríkur Bergmann Einarsson er doktor í stjórnmálafræði, dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst. Höfundur fjölda bóka og greina um þjóðfélagsmál, einkum um tengsl Íslands við umheiminn. Hefur um árabil ritað reglulega dálka í dagblöð, til að mynda í Helgarpóstinn, Blaðið/24 stundir, Fréttablaðið, Pressuna, DV og breska dagblaðið The Guardian. Eiríkur hefur kennt og tekið þátt í margvíslegu rannsóknastarfi við fjölda háskóla, bæði á Íslandi og víða um Evrópu. Tók á fyrri tíð þátt í margsvíslegu stjórnmálastarfi hérlendis og erlendis en er nú óflokksbundinn. Í sambúð og fjögurra barna faðir.
Nánari upplýsingar má finna á: