sunnudagur, 28. desember 2008

Litla stúlkan og sígarettan

Lauk rétt í þessu við bókina Litla stúlkan og sígarettan eftir franska höfundinn Benoit Duteurtre. Bókin kom út í þýðingu Friðriks Rafnssonar nú fyrir jólin.

Því miður er þetta hroðalega viðeigandi lesning í því samfélagi pólitísks rétttrúnaðar sem við höfum þróað á Vesturlöndum undanfarin ár. Söguhetjan hefur illan bifur á börnum en nautn af reykingum sem verður til þess að steypa honum í glötun og útskúfun úr samfélagi manna.

Þessi hrollvekjandi saga gerist í nálægri framtið sem er vægast sagt nokkuð ógnvekjandi. Duteurtre vefur sögu sína af miklu öryggi svo úr verður ægileg lesning, - sér í lagi fyrir miðaldra karlmenn. Enda nánast orðinn glæpur í sjálfu sér að vera karlkyns og kominn á miðjan aldur. Svoleiðis skepnur eru ekki í miklum metum í þjóðfélagi kvenlægrar æskudýrkunar.

sunnudagur, 21. desember 2008

Glatast fullveldi við aðild að Evrópusambandinu?

Í þeirri umræðu sem undanfarið hefur blossað upp um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa margir haft áhyggjur af fullveldinu, sjálfu fjöreggi þjóðarinnar.

Allt frá því í sjálfstæðisbaráttunni hefur vernd fullveldisins verið grundvallarmál í íslenskum stjórnmálum og því ekki að undra að spurt sé hvort fullveldið glatist við aðild að ESB?

Til að svara þeirri spurningu þarf annars vegar að skoða raunverulega merkingu fullveldisins og hins vegar núverandi stöðu Íslands í Evrópusavinnunni.

Svona hefst svolítið löng grein eftir mig í Fréttablaðinu í gær. Greinin er hér.

föstudagur, 19. desember 2008

Sannkölluð vetrarsól

Seint í gærkvöldi lauk ég við bók Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól. Held að ekki sé á nokkurn hallað þótt ég fullyrði nú morguninn eftir að saga Auðar er einhver sú besta sem ég hef lesið þetta haustið.

Í Vetrarsól er sagt frá Sunnu sem starfar hjá bókaforlagi í Reykjavík og þarf að halda utan um ansi marga þræði svo líf hennar hreinlega rakni ekki upp. Einn þeirra er tengslin við stjúpsoninn sem hún situr hálfpartinn uppi með. Þann þráð rekur Auður af miklu öryggi um leið og ýmsu öðru, svo sem viðureign við erlenda glæpamenn, vinkonuraunum úr fortíð og vandræðagangi yfir fyrrum rekkjunaut er vefað inn í söguna.

Vetrarsól er sannnefni að því leyti að sagan lýsir skært í skammdeginu. Frásagnarmátinn er einnig afar heillandi og stíllinn; ja, tja, hvað skal segja - dásamlegur!

föstudagur, 12. desember 2008

Aftengt Alþingi

Við vissum að löggjafarþingið okkar litla við Austurvöll hefur látið undan síga gagnvart framkvæmdavaldinu.

Síðustu vikur hefur þó gjörsamlega keyrt um þverbak, þingið er steinhætt að reyna að hafa nokkur áhrif á þá lagasetningu sem það er viðstöðulaust látið stimpla fyrir ríkisstjórnina, - sem aftur er löngu hætt að ræða við þjóðina.

Í gærkvöldi var svo til án umræðu samþykkt að stórhækka skattheimtu af eldsneyti og áfengi. Sú gjörð dugar skammt til að lappa upp á laskaðan ríkissjóð en mun hins vegar virka sem olía á verðbólgueldinn, svo við fáum að greiða hækkunina aftur í gegnum verðbætur á húsnæðislánin okkar.

Kannski væri sparnaðarráð að senda þingið heim í launalaust leyfi, - fyrst það virðist óþarft í kreppu?

þriðjudagur, 9. desember 2008

Blessað stríðið

Ég lofaði nánari umfjöllun um bók Barkar Gunnarssonar. Neðanfylgjandi umsögn birtist í tímariti stjórnmála og stjórnsýslu sem Háskóli Íslands gefur út:

Í bókinni Hvernig ég hertók höll Saddams lýsir Börkur Gunnarsson dvöl sinni í sprengiregninu í Írak, eins og sagt er á bókarkápu. Í fyrra kom út bók Davíðs Loga Sigurðssonar, Velkomin til bagdat, þar sem hann segir frá heimsóknum sínum sem blaðamaður á átakasvæði. Þrátt fyrir að báðar bækurnar lýsi upplifun höfunda í Bagdat á svipuðum tíma eru þær gjörólíkar. Davíð lýsir því sem fyrir augu ber frá sjónarhóli hins nákvæma blaðamanns en Börkur notar hins vegar sögusviðið og eigin reynslu eins og skáldsagnahöfundur.

Sagan er sögð frá örþröngu sjónarhorni höfundarins og lýsir persónulegri upplifun hans á þeirri sérstæðu stöðu að vera orðinn fulltrúi herlausrar þjóðar í hinu umdeilda stríði í Írak. Margt kemur spánskt fyrir sjónir og ekki síður háðskt, kannski er þetta fyrst og fremst skemmtisaga, íslenski hermaðurinn í Bagdat beitir ekki byssu heldur notar hann í frásögn sinni það vopn sem bestu bítur á Íslandi, - semsé klassískri kaldhæðni. Hæðist óspart að öllu því sem fyrir augu ber og ekki síst að sjálfum sér og eigin aðstæðum.

Það er ekki ætlun höfundar að lýsa bakgrunni átakanna í Írak eða setja ástandið í nokkurt annað samhengi en við dvöl hans sjálfs í landinu þessa fimmtán mánuði. Eigi að síður saknaði þessi lesandi að brugðið væri örlítið víðara sjónarhorni á viðfangsefnið sem sannarlega er stórmerkilegt og hefði það getað lyft sögunni verulega. Höfundur notar ekki tækifærið til að ræða hlutverk fjölþjóðahersins sem hann er hluti af og virðist með öllu gagnrýnislaus á stríðið og ástandið í Írak. Til að mynda kallar hann andspyrnusveitir Íraka aldrei annað en terroristana en þeir Írakar sem starfa með Bandaríkjaher og NATO fá hins vegar sæmdarheitið föðurlandsvinir.

Í þessari stuttu bók rekur Börkur nokkra þræði, einn þeirra er ástarsaga en unnusta höfundar situr í festum heima á Íslandi á meðan sögumaður sinnir stríðinu. Ástarsagan er að mínum dómi áhugaverðasti hluti bókarinnar en þar má finna ljúfsáran trega og að því er virðist sjaldgæfa einlægni í riti af þessu tagi. Ritstíll Barkar kemur einnig best út í lýsingum hans á viðureigninni við ástina, berorður og blátt áfram. Að samanlögðu verður úr læsileg og skemmtileg bók sem ánægjulegt er að lesa.

Tímarit Stjórnmála og stjórnsýslu, 7. desember 2008.

mánudagur, 8. desember 2008

Skemmtileg bók Barkar

Lauk nýverið við nýja bók Barkar Gunnarsson, Hvernig ég hertók höll Saddams. Ég mun fjalla nánar um bókina á öðrum vettvangi en í hnotskurn má segja að þetta sé læsileg, skemmtileg og áhugaverð bók. Einn þráður sögunnar er samband hans við unnustuna sem situr í festum heima á Íslandi á meðan sögumaður stríðir í Írak. Ástarsagan er að mínum dómi áhugaverðasti hluti bókarinnar en þar má finna ljúfsáran trega og að því er virðist sjaldgæfa einlægni í riti af þessu tagi. Ritstíll Barkar kemur einnig best út í lýsingum hans á viðureigninni við ástina, - berorður og blátt áfram. Meira síðar.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Við borgum ekki, nei við borgum ekki

Í byrjun ágúst ritaði ég grein 24 stundir sálugu sem hét Við borgum, já við borgum. Greinin fjallaði um ógnargreiðslur sem þá þegar höfðu verið lagðar á almenning vegna eitraðrar tengingar verðbólgu og verðbóta. Eins og sjá má í greininni sá ég ekki fallið fyrir frekar en aðrir en nú sýnist mér að komin sé fram hreyfing almennings sem gæti heitið Við borgum ekki, nei við borgum ekki.

Ný grein í Guardian: Caught in Europe's net?

The Guardian bað mig um að fjalla um þá umræðu sem fram fer á Íslandi um hugsanlega Evrópusambandsaðild.

Í dag birtist eftir mig grein þar sem ég held því fram að sérstakur skilningur Íslendinga á fullveldi sínu geri það að verkum að leiðin inn í Evrópusambandið kunni að verða grýttari en menn gætu ef til vill haldið.

Eins og fyrr er hægt að rita athugasemdir undir greina.

Greinin er hér.

þriðjudagur, 2. desember 2008

Er Ísland fullvalda?

Háskólinn á Akureyri heldur jafnan fullveldisdaginn hátíðlegan. Í gær fór fram málstefna undir heitinu Fallvalt fullveldi? Auk mín veltu Sigurður Líndal, Silja Bára Ómarsdóttir og Ágúst Þór Árnason fullveldinu fyrir sér.

Erindi mitt á glærum má finna hér.