föstudagur, 19. desember 2008

Sannkölluð vetrarsól

Seint í gærkvöldi lauk ég við bók Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól. Held að ekki sé á nokkurn hallað þótt ég fullyrði nú morguninn eftir að saga Auðar er einhver sú besta sem ég hef lesið þetta haustið.

Í Vetrarsól er sagt frá Sunnu sem starfar hjá bókaforlagi í Reykjavík og þarf að halda utan um ansi marga þræði svo líf hennar hreinlega rakni ekki upp. Einn þeirra er tengslin við stjúpsoninn sem hún situr hálfpartinn uppi með. Þann þráð rekur Auður af miklu öryggi um leið og ýmsu öðru, svo sem viðureign við erlenda glæpamenn, vinkonuraunum úr fortíð og vandræðagangi yfir fyrrum rekkjunaut er vefað inn í söguna.

Vetrarsól er sannnefni að því leyti að sagan lýsir skært í skammdeginu. Frásagnarmátinn er einnig afar heillandi og stíllinn; ja, tja, hvað skal segja - dásamlegur!