þriðjudagur, 9. desember 2008

Blessað stríðið

Ég lofaði nánari umfjöllun um bók Barkar Gunnarssonar. Neðanfylgjandi umsögn birtist í tímariti stjórnmála og stjórnsýslu sem Háskóli Íslands gefur út:

Í bókinni Hvernig ég hertók höll Saddams lýsir Börkur Gunnarsson dvöl sinni í sprengiregninu í Írak, eins og sagt er á bókarkápu. Í fyrra kom út bók Davíðs Loga Sigurðssonar, Velkomin til bagdat, þar sem hann segir frá heimsóknum sínum sem blaðamaður á átakasvæði. Þrátt fyrir að báðar bækurnar lýsi upplifun höfunda í Bagdat á svipuðum tíma eru þær gjörólíkar. Davíð lýsir því sem fyrir augu ber frá sjónarhóli hins nákvæma blaðamanns en Börkur notar hins vegar sögusviðið og eigin reynslu eins og skáldsagnahöfundur.

Sagan er sögð frá örþröngu sjónarhorni höfundarins og lýsir persónulegri upplifun hans á þeirri sérstæðu stöðu að vera orðinn fulltrúi herlausrar þjóðar í hinu umdeilda stríði í Írak. Margt kemur spánskt fyrir sjónir og ekki síður háðskt, kannski er þetta fyrst og fremst skemmtisaga, íslenski hermaðurinn í Bagdat beitir ekki byssu heldur notar hann í frásögn sinni það vopn sem bestu bítur á Íslandi, - semsé klassískri kaldhæðni. Hæðist óspart að öllu því sem fyrir augu ber og ekki síst að sjálfum sér og eigin aðstæðum.

Það er ekki ætlun höfundar að lýsa bakgrunni átakanna í Írak eða setja ástandið í nokkurt annað samhengi en við dvöl hans sjálfs í landinu þessa fimmtán mánuði. Eigi að síður saknaði þessi lesandi að brugðið væri örlítið víðara sjónarhorni á viðfangsefnið sem sannarlega er stórmerkilegt og hefði það getað lyft sögunni verulega. Höfundur notar ekki tækifærið til að ræða hlutverk fjölþjóðahersins sem hann er hluti af og virðist með öllu gagnrýnislaus á stríðið og ástandið í Írak. Til að mynda kallar hann andspyrnusveitir Íraka aldrei annað en terroristana en þeir Írakar sem starfa með Bandaríkjaher og NATO fá hins vegar sæmdarheitið föðurlandsvinir.

Í þessari stuttu bók rekur Börkur nokkra þræði, einn þeirra er ástarsaga en unnusta höfundar situr í festum heima á Íslandi á meðan sögumaður sinnir stríðinu. Ástarsagan er að mínum dómi áhugaverðasti hluti bókarinnar en þar má finna ljúfsáran trega og að því er virðist sjaldgæfa einlægni í riti af þessu tagi. Ritstíll Barkar kemur einnig best út í lýsingum hans á viðureigninni við ástina, berorður og blátt áfram. Að samanlögðu verður úr læsileg og skemmtileg bók sem ánægjulegt er að lesa.

Tímarit Stjórnmála og stjórnsýslu, 7. desember 2008.