fimmtudagur, 30. apríl 2009

Já, sei, sei

Áhugaverðar umræður um stöðu Íslands í samanburði við hin Norðurlöndin og Bretland hafa spunnist í athugasemdum við grein mína í Guardian um daginn.

Sá sem nefnir sig Marat segir að Bretar ættu að læra íslensku og losa sig við eigin ríkisstjórn.

Einhver sem kallar sig physiocrat segir að varla geti verið flókið að reka ríki sem er aðeins á stærð við hverfi í London.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Aðalsteinn leiðréttur

Aðalsteinn Leifsson heldur því fram í Morgunblaðinu í dag að ég hafi rangt fyrir mér í bloggi þegar ég benti á að Evrópusambandið geti trauðla hafið aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðunni til Evrópusambandsaðildar. Hann tekur dæmi af Svíþjóð máli sínu til stuðnings, þar hafi einstakir ráðherrar verið andvígir aðild. En hann misskilur.

Auðvitað er ekkert því til fyirstöðu að semja við ríki þar sem einstaka ráðherrar og hinir og þessir þingmenn eru á móti ESB-aðild. Það er alvanalegt. Hins vegar er ómögulegt að semja um ESB-aðild við samsteypustjórn tveggja flokka þar sem annar stjórnarflokkurin berst eins og ljón gegn aðild. Það segir sig eiginlega sjálft. Slíkur viðsemjandi er ekki trúverðugur.

Í slíku tilfelli er illmögulegt fyir framkvæmdastjórn ESB að mæla með því við ráðherraráðið að hefja samninga. Ríkisstjórn Íslands kemst einfaldlega ekki framhjá því að leysa málin innan eigin raða áður en hún sendir umsókn til Brussel. Svo einfalt er það nú. Kapp er best með forsjá.

þriðjudagur, 28. apríl 2009

Guardian: Iceland puts paid to Viking capitalism

Guardian birtir í dag nýja grein eftir mig um niðurstöður kosninganna hér á landi: Iceland puts paid to Viking capitalism.

Í greininni er sagt að í kosningaúrslitunum komi fram einskonar uppkjör við Víkinga-kapítalismann sem rekinn hafi verið hér á landi. Greint er frá vanda ríkisstjónarflokkanna við að hnoða saman samkomulagi í Evrópumálunum og bent á að fyrri ríkisstjórn á Íslandi hafi verið sú fyrsta sem kjósendur höfnuðu í kjölfar alþjóðlega fjármálahrunsins.

Spurt er hvort sitjandi ríkisstjórnir í öðrum ríkjum, til að mynda stjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi, geti hlotið sömu örlög.

Minni á að hægt er að rita athugasemdir undir greinina.

mánudagur, 27. apríl 2009

Engin hjáleið í ESB

Liðsmenn Samfylkingar og Vinstri-grænna leita nú leiða til að ná sáttum í Evrópusambandsmálinu. Ýmsar útfærslur hafa verið viðraðar í dag. Ein er sú að þingið verði látið útkljá málið án atbeina ríkisstjórnarinnar. Þannig gæti VG verið áfram á móti aðild en Samfylkingin komið málinu í gegnum þingið með liðsinni Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar.

Auðvitað er skiljanlegt að þessum möguleika sé velt upp, enda snjall leikur til að leysa hnútinn innanlands. En vandinn við þessa leið kemur utan frá. Evrópusambandið getur ómögulega hafið aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðunni til aðildar. Ríkisstjórnin verður einfaldlega að standa heilshugar að umsókninni til þess að hún verði tekin alvarlega í Brussel.

Það væri vissulega þæginlegt fyrir stjórnálaflokkanna að gefa þingmönnum sínum lausan tauminn í málinu til að koma í veg fyrir alvarleg innanflokksátök. Veruleikinn er samt sem áður sá, að þeir munu ekki komast hjá því að leysa ágreining sinn innanlands áður en farið er af stað.

sunnudagur, 26. apríl 2009

Leiðin í Evrópusambandið

Í bókinni Hvað með evruna? eftir sjálfan mig og dr. Jón Þór Sturluson er farið í gegnum ferilinn að Evrópusambandsaðild. Það er svona:

Ákveði ríkisstjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu sendir hún einfaldlega umsókn um það til ráðherraráðs ESB. Slík umsókn þarf alls ekki að vera ítarleg, raunar gæti textinn komist fyrir á einu blaði. Ef dæma má af fyrri stækkunarlotum yrði ferillinn innan ESB með þeim hætti að ráðherraráðið myndi eftir að umsóknin berst beina því til framkvæmdastjórnarinnar að meta hvort Ísland sé yfir höfuð hæft til að verða fullgildur aðili að ESB.

Aðildarskilyrðin
Evrópusambandið setti aðildarskilyrði sín niður á ríkjaráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 1993. Samkvæmt þeim geta lýðræðisríki í Evrópu sem búa við virkt markaðshagkerfi, stöðugt stjórnarfar og trygg mannréttindi auk þess að hafa getu til að taka yfir lagagerðir ESB, fengið aðild að ESB. Ísland uppfyllir öll þessi skilyrði. Í ljósi þess að bæði lagaumhvefi og efnahagslíf á Íslandi hefur nú þegar að mestu verið lagað að innri markaði ESB má gera ráð fyrir að framkvæmdastjórnin myndi umhugsunarlítið mæla með því við ráðherraráðið að hefja aðildarviðræður við Ísland.

Aðildarviðræður þeirra ríkja sem gengið hafa í Evrópusambandið hafa tekið mislangan tíma. Í ljósi þess að lagakerfið á Íslandi og efnahagslífið hefur nú þegar að mestu verið lagað að umhverfinu innan Evrópusambandsins í gegnum aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu má gera ráð fyrir að aðildarviðræður Íslands við ESB muni taka skamman tíma. Það yrði í höndum framkvæmdastjórnarinnar að taka út stöðuna í íslensku þjóðfélagi meðan á viðræðuferlinu stendur og meta í skýrslum fyrir ráðherraráðið, sem hefur lokaorðið um niðurstöðu samninga fyrir hönd ESB. Aðildarviðræður EFTA ríkjanna, Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar tóku innan við tvö ár.

Ef Ísland verður ekki í samfloti með öðrum ríkjum í aðildarviðræðum gætu samningar tekið enn skemmri tíma. Ferillinn frá því að Ísland sækir um aðild og þar til að samningar liggja fyrir þarf því ekki að vera langur, jafnvel innan við ár gangi allt að óskum. Næsta skref yrði að setja aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu, en pólitísk sátt er um það á Íslandi að ekki verður gengið í ESB án þess að þjóðin staðfesti aðildina í allsherjaratkvæðagreiðslu. Áður en til þess getur komið þarf hins vegar fyrst að breyta stjórnarskránni.

Fullveldisvandinn
Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma komst nefnd fjögurra lögfræðinga að þeirri niðurstöðu að samningurinn bryti ekki fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, en það var þó afar umdeilt meðal fræðimanna. Færa má rök fyrir því að þróunin á rekstri EES-samningsins hafi síðan hann var gerður verið með þeim hætti að hann takmarki fullveldi Íslands meira nú en í upphafi og brjóti orðið fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.

Full aðild að ESB felur þar að auki í sér að Ísland myndi með formlegum hætti deila ákvarðanatökuvaldi, og þar með fullveldi, með öðrum þjóðum. Því er það nokkuð samdóma álit meðal fræðimanna og stjórnmálamanna á Íslandi að breyta þurfi 21. grein stjórnarskrárinnar áður en Ísland getur gengið í ESB. Miðað við stjórnarskrár annarra ríkja er tiltölulega auðvelt að breyta íslensku stjórnarskránni þótt það geti tekið tíma. Einfaldur meirihluti þings þarf að samþykkja breytinguna, svo þarf nýtt þing að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna að kosningum loknum. Ef ekki væri búið að breyta stjórnarskránni þegar aðildarsamningur liggur fyrir gæti það frestað ferlinu nokkuð.

Að jafnaði ganga ríki í ESB næstu áramót eftir að samningar og niðurstöður úr þjóðaratkvæði liggja fyrir. Á þeirri reglu eru þó til undantekningar. Líklega munu því í það minnsta tvö ár líða frá því umsókn er lögð fram þar til Ísland gengur í ESB.

Leiðin að evrunni
Það er svo ekki fyrr en að inn í Evrópusambandið er komið að Ísland getur sótt um aðild að Myntbandalagi Evrópu og hafið þann feril sem nauðsynlegur er áður en hægt er að skipta út íslenskum krónum fyrir evru.

Fyrst þarf að sækja um aðild að ERM II og verja í það minnsta tveimur árum innan þess kerfis áður en hægt verður að taka upp evru, að uppfylltum skilyrðum fyrir því. Að lágmarki munu fjögur ár líða áður en Ísland getur gengið í myntbandalag Evrópu og innleitt evru í stað krónu, frá því ákvörðun um að sækja um aðild að ESB er tekin.

Líkast til mun taka tvö ár að ganga í ESB og svo rúmlega önnur tvö ár að aðlagast evrunni eftir að inn í ESB er komið. Lengur ef ekki tekst að koma böndum á verðbólguna, lækka vexti og ná jafnvægi í efnahagslífinu. Evran er því alltaf í fjögurra ára fjarlægð, að lágmarki, þar til að ákvörðun um aðildarumsókn liggur fyrir.

laugardagur, 25. apríl 2009

Augu heimsins

Fjölmiðlar út um allan heim fylgjast grannt með kosningunum hér á Íslandi, mun nánar en nokkru sinni áður. Dagens Nyheder í Svíþjóð hafði samband við mig í gær og birtir frétt um stjórnmálaástandið hér á landi í blaðinu í dag.

mánudagur, 20. apríl 2009

Verður Ísland rekið úr EES?

Mikið fjör hefur færst í Evrópuumræðuna nú í aðdraganda þingkosninga. Línur eru nokkuð að skýrast en það er þó einn flötur á málinu sem ekki hefur verið ræddur annars staðar en í pukurherbergjum stjórnarráðsins. Það er sú staðreynd, að eftir að neyðarlögin voru sett í sl. haust, uppfyllir Ísland ekki lengur skuldbindingar sínar á evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Gjaldeyrishöftin eru þráðbeint brot á EES-samningnum og aðeins tímaspursmál hvenær Evrópusambandið fer að gera athugasemdir við þessa tilhögun. Fulltrúar ESB fylgjast grannt með þróun mála hér á landi en vegna neyðarástandsins hafa menn séð í gegnum fingur sér með þetta brot á samningnum.

En hins vegar, sjái menn ekki fram á að höftunum verði aflétt í bráð, er hætt við að Evrópusambandið neyðist til að segja EES-samningnum upp, einfaldlega vegna þess að við uppfyllum ekki lengur kröfur hans. Ef ekkert yrði að gert myndi gamli fríverslunarsamningurinn frá 1972 einfaldlega taka gildi á ný.

Sem myndi auðvitað hafa margvíslegar afleiðingar, til að mynda yrðu tollar væntanlega lagðir á ný á íslenskar sjávarafurðir inn á markaði ESB, vörur frá Íslandi fá þá ekki lengur sjálfkrafa vottun inn á Evrópumarkað með ómældu óhagræði, fjárfestingaréttur hyrfi og réttur Íslendinga til að starfa í Evrópu yrði afturkallaður. Enn fremur yrði lokað fyrir þátttöku Íslendinga í samstarfsáætlunum ESB á svið vísinda-, mennta- og menningarmála sem hafa fært gríðarlega þekkingu og fjármagn inn í íslenskt samfélag.

Þetta er vitaskuld óhugsandi niðurstaða og því þyrfti að semja um einhvers konar tvíhliða lausn ef Ísland neyðist til að hverfa út af innri markaðinum, kannski álíka og Sviss hefur gert. Vandinn við tvíhliða leiðina er þó sá, að fulltrúar ESB hafa hingað til ekki viljað ljá máls á slíku. - En mögulega breytir fjármálahrunið einhverju um það.

Við stöndum allavega frammi fyrir þessum tveimur kostum; að halda í krónuna og höftin og fara út af Evrópska efnahagssvæðinu eða þá að sækja um aðild að ESB og EMU og taka upp evru í fyllingu tímans. Aðrir kostir eru ekki boði.

Núverandi staða, að vera með annan fótinn á innri markaði ESB en hinn fyrir utan, er í það minnsta vonlaus. Það er að mínu viti fullreynt.

Nú neyðast menn til að velja. Tími frekari biðleikja er liðinn.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Hvorki stjórnlagaþing né persónukjör

Ekki kemur á óvart að stjórnlagaþingið hafi dagað uppi á þingi, alveg eins og loforðið um persónukjör. Eina spennan var hvernig gefin fyrirheit yrðu höfð af þjóðinni. Það varð semsé með hefbundnu málfþófi og almennri pólitískri eftirgjöf. Nú segjast þeir ætla að koma á ákvæði um stjórnlagaþing eftir kosningar. Við trúum því rétt mátulega. Þingmenn munu að líkindum finna leið til að láta málið koðna niður.

sunnudagur, 12. apríl 2009

Fréttaskýring Lóu

Lóa Pind Aldísardóttir setti saman upplýsandi fréttaskýringu um Evrópumálin í Íslandi í dag núna fyrir páska. Ég var meðal viðmælenda. Fréttaskýringuna má sjá hér.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Leiðrétting - ekki afsláttur

Margir hafa orðið til að gagnrýna niðurfærsluleið Framsóknarflokksins, og sumir sjálfskipaðir hagspekingar jafnvel reynt að hlæja hana út af borðinu. Mér virðist hins vegar, að þetta sé ekki aðeins skynsamleg aðgerð, heldur hreint og beint bráðnauðsynleg.

Frá hruninu í haust hefur orðið gífurleg tilfærsla fjár frá skuldurum til fjármagnseigenda. - Óverðskulduð tilfærsla gæti maður sagt því verðtryggingunni var aldrei ætlað að mæta viðlíka ástandi og nú hefur orðið. Vísitalan er mannanna verk en ekki náttúrulögmál.

Því er rétt að leiðrétta ofgreiðslur til fjármagnseigenda sem fall krónunnar hefur valdið og færa höfðustól húsnæðislána nær þeim skuldbindingum sem lántakendur samþykktu að taka á sig í upphafi, - mér sýnist tuttugu prósent niðurfærsla vera hófleg.

Og þjóðfélagið mun ekki fara neitt frekar á höfuðið við þetta en nú þegar er orðið, hér er aðeins um að ræða endurgreiðslu á ofteknu fé.

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Eldhúsþras

Í eldhúsdagsumræðum nú áðan benti nýkjörinn fomaður Sjálfstæðisflokksins á að krónan hafi fallið um tíu prósent frá því að minnihlutastjórnin tók við völdum, og taldi það til vitnis um lélega efnahagsstjórn. Hann lét þó vera að segja frá því, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda árið 1991 kostaði dönsk króna tíkall, þegar flokkurinn fór frá völdum nú í febrúar var hún komin yfir tuttugu krónur, semé orðin hundrað prósent dýrari. Er þetta í alvörunni boðlegur málflutningur?

mánudagur, 6. apríl 2009

Málþófsmenn og föstudagurinn langi

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð með stuðningi Framsóknarflokksins, var kjósendum lofað tvennu til að mæta kröfunni um aukið lýðræði, - annars vegar persónukjöri í kosningunum í vor og hins vegar að komið yrði á stjórnlagaþingi.

Eins og sjá mátti úr mílu fjarlægð, og nú er komið í ljós, var loforðið um persónukjör alla tíð innantómt, gulrót sem var dillað framan í kjósendur, en það var aldrei meiningin að leyfa fólki í alvörunni að raða frambjóðendum í kjörklefanum. Samtryggingarkerfi þingmanna kemur í veg fyrir slíkt.

Við héldum hins vegar að loforðið um stjórnlagaþing væri raunverulegt. En nú virðist það líka í uppnámi. Málþóf Sjálfstæðismanna kemur svosem ekki á óvart. En ef Samfylking, Vinstri grænir og Framsókn meina eitthvað með loforði sínu, ef þeir vilja í alvörunni standa við orð sín, þá á auðvitað að láta Alþingi funda daga og nætur yfir alla paskana, þar til málið er afgreitt.

Það fer ágætlega á því að málþófsmenn noti föstudaginn langa til að mæla gegn aðkomu almennings að stjórnskipan landsins.

laugardagur, 4. apríl 2009

Meira um Icesave og ábyrgð Breta

Spurningin um hryðjuverkalögin og Icesave er ekki aðeins júrísk, heldur ekki síður pólitísk.

Ég hef haldið því fram, að þegar Bretar beittu Ísland hryðjuverkalögunum hafi orðið til tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld, - að koma með krók á móti bragði og færa fram þau rök, að þar með hefðu bresk stjórnvöld tekið yfir skuldbindingar þeirra fjármálafyrirtækja sem þau tóku traustataki með ólögmætum hætti.

Þessi rök eru semsé ekki aðeins júrísk, þau eru einnig pólitísk. Alþjóðastjórnmál lúta öðrum lögmálum heldur en innalandsstjórnmál og þjóðarréttur er mun loðnara og teygjanlegra fyrirbæri en landsréttur.

Með þessu móti hefðu íslensk stjórnvöld getað búið sér til samningsstöðu til að semja út frá. Út á það gengur þessi leikur. - En það virðst sumir eiga bágt með að skilja.

Og nú höfum við fengið annað tækifæri, í skýrslunni kemur fram að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið óheppileg. Í skýrslunni er aðgerðin réttlætt þannig, að öðrum lögum hafi ekki verið til að dreifa í lagasafni Breta. Eigi að síður getum við haldið því fram að þeim hafi - að þjóðarrétti sem samstarfsþjóð í EES og NATO - verið óheimilt að beita viðlíka aðgerðum og þeir viðurkenna nú sjálfir að hafi gengið of langt.

Bretar viðurkenna ábyrgð á Icesave

Fréttablaðið segir frá því í dag að rannsóknanefnd breska þingsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til að beita Ísland hryðjuverkalögunum, það hafi í það minnsta verið gagnrýniverð aðgerð.

Þessi niðurstaða styrkir þá skoðun sem ég hef áður sett fram, að með beitingu hryðuverkalaganna hafi bresk stjórnvöld yfirtekið skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi. Semsé; þegar Bretar beittu Ísland almennt og Landsbankann sérstaklega, ólöglegum hryðjuverkalögum, þá tóku þeir um leið yfir allar skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi, - þar á meðal Icesave-skuldirnar ógurlegu.

Þetta blasir eiginlega við. Því er óskiljanlegt með öllu að íslensk stjórnvöld hafa ekki enn látið á þetta reyna og hent Icesave-málinu í hausinn á breskum stjórnvöldum. Málið er augljóslega á þeirra ábyrgð og nú hafa þeir sjálfir viðurkennt það að hluta.

Í stað þess að beita þessum augljósu rökum í þjóðréttardeilunni við Breta þá völdu íslensk stjórnvöld framan af að þvæla málið í volausa deilu um samræmdar lagaskuldbindingar varðandi tryggingar innistæðueigenda. Ljóst var frá upphafi að það myndi aldrei ganga, alþjóðasamfélagið myndi aldrei standa með þjóð sem ætlaði að grafa undan trúverðugleika kerfisins.

Á endanum neyddust íslensk stjórnvöld til að undirgangast ábyrgð á Icesave, sem var ekki aðeins óþarfi heldur hreint og beint yfirgengilegt vanhæfi því við höfðum prýðileg rök - og höfum raunar enn. Einfaldara getur það varla verið: Með beitingu hryðjuverkalaganna tóku þeir sjálfir yfir ábyrgðirnar.

Mig skortir hugmyndaflug til að skilja hvers vegna íslensk stjórnvöld varpa málinu ekki yfir á herðar breskra stjórnvalda, - þar sem það á bersýnilega heima.

föstudagur, 3. apríl 2009

Sumarnám á Bifröst

Nokkur umræða hefur spunnist um þá kröfu nemenda að háskólarnir í landinu bjóði upp á sumarnám til að mæta alvarlegu ástandi í atvinnumálum þjóðarinnar. En einn er sá háskóli í landinu sem hefur um árabil boðið upp slíkt nám, - það er Háskólinn á Bifröst. Minnsti háskóli landsins býður mest framboð sumarnáms.

Þessu hafa fjölmiðlar af einhverjum völdum gleymt.

Til að mynda geta nemendu skellt sér í Meistaranám í Evrópufræðum sem hefst í júlí, með sex vikna sumarönn. Svo tekur við fjarnám í haust og vor, sem stutt er vinnuhelgum á Bifröst, svo önnur staðnámstörn næsta sumar.