mánudagur, 6. apríl 2009

Málþófsmenn og föstudagurinn langi

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð með stuðningi Framsóknarflokksins, var kjósendum lofað tvennu til að mæta kröfunni um aukið lýðræði, - annars vegar persónukjöri í kosningunum í vor og hins vegar að komið yrði á stjórnlagaþingi.

Eins og sjá mátti úr mílu fjarlægð, og nú er komið í ljós, var loforðið um persónukjör alla tíð innantómt, gulrót sem var dillað framan í kjósendur, en það var aldrei meiningin að leyfa fólki í alvörunni að raða frambjóðendum í kjörklefanum. Samtryggingarkerfi þingmanna kemur í veg fyrir slíkt.

Við héldum hins vegar að loforðið um stjórnlagaþing væri raunverulegt. En nú virðist það líka í uppnámi. Málþóf Sjálfstæðismanna kemur svosem ekki á óvart. En ef Samfylking, Vinstri grænir og Framsókn meina eitthvað með loforði sínu, ef þeir vilja í alvörunni standa við orð sín, þá á auðvitað að láta Alþingi funda daga og nætur yfir alla paskana, þar til málið er afgreitt.

Það fer ágætlega á því að málþófsmenn noti föstudaginn langa til að mæla gegn aðkomu almennings að stjórnskipan landsins.