Spurningin um hryðjuverkalögin og Icesave er ekki aðeins júrísk, heldur ekki síður pólitísk.
Ég hef haldið því fram, að þegar Bretar beittu Ísland hryðjuverkalögunum hafi orðið til tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld, - að koma með krók á móti bragði og færa fram þau rök, að þar með hefðu bresk stjórnvöld tekið yfir skuldbindingar þeirra fjármálafyrirtækja sem þau tóku traustataki með ólögmætum hætti.
Þessi rök eru semsé ekki aðeins júrísk, þau eru einnig pólitísk. Alþjóðastjórnmál lúta öðrum lögmálum heldur en innalandsstjórnmál og þjóðarréttur er mun loðnara og teygjanlegra fyrirbæri en landsréttur.
Með þessu móti hefðu íslensk stjórnvöld getað búið sér til samningsstöðu til að semja út frá. Út á það gengur þessi leikur. - En það virðst sumir eiga bágt með að skilja.
Og nú höfum við fengið annað tækifæri, í skýrslunni kemur fram að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið óheppileg. Í skýrslunni er aðgerðin réttlætt þannig, að öðrum lögum hafi ekki verið til að dreifa í lagasafni Breta. Eigi að síður getum við haldið því fram að þeim hafi - að þjóðarrétti sem samstarfsþjóð í EES og NATO - verið óheimilt að beita viðlíka aðgerðum og þeir viðurkenna nú sjálfir að hafi gengið of langt.