sunnudagur, 26. apríl 2009

Leiðin í Evrópusambandið

Í bókinni Hvað með evruna? eftir sjálfan mig og dr. Jón Þór Sturluson er farið í gegnum ferilinn að Evrópusambandsaðild. Það er svona:

Ákveði ríkisstjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu sendir hún einfaldlega umsókn um það til ráðherraráðs ESB. Slík umsókn þarf alls ekki að vera ítarleg, raunar gæti textinn komist fyrir á einu blaði. Ef dæma má af fyrri stækkunarlotum yrði ferillinn innan ESB með þeim hætti að ráðherraráðið myndi eftir að umsóknin berst beina því til framkvæmdastjórnarinnar að meta hvort Ísland sé yfir höfuð hæft til að verða fullgildur aðili að ESB.

Aðildarskilyrðin
Evrópusambandið setti aðildarskilyrði sín niður á ríkjaráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 1993. Samkvæmt þeim geta lýðræðisríki í Evrópu sem búa við virkt markaðshagkerfi, stöðugt stjórnarfar og trygg mannréttindi auk þess að hafa getu til að taka yfir lagagerðir ESB, fengið aðild að ESB. Ísland uppfyllir öll þessi skilyrði. Í ljósi þess að bæði lagaumhvefi og efnahagslíf á Íslandi hefur nú þegar að mestu verið lagað að innri markaði ESB má gera ráð fyrir að framkvæmdastjórnin myndi umhugsunarlítið mæla með því við ráðherraráðið að hefja aðildarviðræður við Ísland.

Aðildarviðræður þeirra ríkja sem gengið hafa í Evrópusambandið hafa tekið mislangan tíma. Í ljósi þess að lagakerfið á Íslandi og efnahagslífið hefur nú þegar að mestu verið lagað að umhverfinu innan Evrópusambandsins í gegnum aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu má gera ráð fyrir að aðildarviðræður Íslands við ESB muni taka skamman tíma. Það yrði í höndum framkvæmdastjórnarinnar að taka út stöðuna í íslensku þjóðfélagi meðan á viðræðuferlinu stendur og meta í skýrslum fyrir ráðherraráðið, sem hefur lokaorðið um niðurstöðu samninga fyrir hönd ESB. Aðildarviðræður EFTA ríkjanna, Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar tóku innan við tvö ár.

Ef Ísland verður ekki í samfloti með öðrum ríkjum í aðildarviðræðum gætu samningar tekið enn skemmri tíma. Ferillinn frá því að Ísland sækir um aðild og þar til að samningar liggja fyrir þarf því ekki að vera langur, jafnvel innan við ár gangi allt að óskum. Næsta skref yrði að setja aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu, en pólitísk sátt er um það á Íslandi að ekki verður gengið í ESB án þess að þjóðin staðfesti aðildina í allsherjaratkvæðagreiðslu. Áður en til þess getur komið þarf hins vegar fyrst að breyta stjórnarskránni.

Fullveldisvandinn
Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma komst nefnd fjögurra lögfræðinga að þeirri niðurstöðu að samningurinn bryti ekki fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, en það var þó afar umdeilt meðal fræðimanna. Færa má rök fyrir því að þróunin á rekstri EES-samningsins hafi síðan hann var gerður verið með þeim hætti að hann takmarki fullveldi Íslands meira nú en í upphafi og brjóti orðið fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.

Full aðild að ESB felur þar að auki í sér að Ísland myndi með formlegum hætti deila ákvarðanatökuvaldi, og þar með fullveldi, með öðrum þjóðum. Því er það nokkuð samdóma álit meðal fræðimanna og stjórnmálamanna á Íslandi að breyta þurfi 21. grein stjórnarskrárinnar áður en Ísland getur gengið í ESB. Miðað við stjórnarskrár annarra ríkja er tiltölulega auðvelt að breyta íslensku stjórnarskránni þótt það geti tekið tíma. Einfaldur meirihluti þings þarf að samþykkja breytinguna, svo þarf nýtt þing að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna að kosningum loknum. Ef ekki væri búið að breyta stjórnarskránni þegar aðildarsamningur liggur fyrir gæti það frestað ferlinu nokkuð.

Að jafnaði ganga ríki í ESB næstu áramót eftir að samningar og niðurstöður úr þjóðaratkvæði liggja fyrir. Á þeirri reglu eru þó til undantekningar. Líklega munu því í það minnsta tvö ár líða frá því umsókn er lögð fram þar til Ísland gengur í ESB.

Leiðin að evrunni
Það er svo ekki fyrr en að inn í Evrópusambandið er komið að Ísland getur sótt um aðild að Myntbandalagi Evrópu og hafið þann feril sem nauðsynlegur er áður en hægt er að skipta út íslenskum krónum fyrir evru.

Fyrst þarf að sækja um aðild að ERM II og verja í það minnsta tveimur árum innan þess kerfis áður en hægt verður að taka upp evru, að uppfylltum skilyrðum fyrir því. Að lágmarki munu fjögur ár líða áður en Ísland getur gengið í myntbandalag Evrópu og innleitt evru í stað krónu, frá því ákvörðun um að sækja um aðild að ESB er tekin.

Líkast til mun taka tvö ár að ganga í ESB og svo rúmlega önnur tvö ár að aðlagast evrunni eftir að inn í ESB er komið. Lengur ef ekki tekst að koma böndum á verðbólguna, lækka vexti og ná jafnvægi í efnahagslífinu. Evran er því alltaf í fjögurra ára fjarlægð, að lágmarki, þar til að ákvörðun um aðildarumsókn liggur fyrir.