sunnudagur, 28. desember 2008

Litla stúlkan og sígarettan

Lauk rétt í þessu við bókina Litla stúlkan og sígarettan eftir franska höfundinn Benoit Duteurtre. Bókin kom út í þýðingu Friðriks Rafnssonar nú fyrir jólin.

Því miður er þetta hroðalega viðeigandi lesning í því samfélagi pólitísks rétttrúnaðar sem við höfum þróað á Vesturlöndum undanfarin ár. Söguhetjan hefur illan bifur á börnum en nautn af reykingum sem verður til þess að steypa honum í glötun og útskúfun úr samfélagi manna.

Þessi hrollvekjandi saga gerist í nálægri framtið sem er vægast sagt nokkuð ógnvekjandi. Duteurtre vefur sögu sína af miklu öryggi svo úr verður ægileg lesning, - sér í lagi fyrir miðaldra karlmenn. Enda nánast orðinn glæpur í sjálfu sér að vera karlkyns og kominn á miðjan aldur. Svoleiðis skepnur eru ekki í miklum metum í þjóðfélagi kvenlægrar æskudýrkunar.

sunnudagur, 21. desember 2008

Glatast fullveldi við aðild að Evrópusambandinu?

Í þeirri umræðu sem undanfarið hefur blossað upp um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa margir haft áhyggjur af fullveldinu, sjálfu fjöreggi þjóðarinnar.

Allt frá því í sjálfstæðisbaráttunni hefur vernd fullveldisins verið grundvallarmál í íslenskum stjórnmálum og því ekki að undra að spurt sé hvort fullveldið glatist við aðild að ESB?

Til að svara þeirri spurningu þarf annars vegar að skoða raunverulega merkingu fullveldisins og hins vegar núverandi stöðu Íslands í Evrópusavinnunni.

Svona hefst svolítið löng grein eftir mig í Fréttablaðinu í gær. Greinin er hér.

föstudagur, 19. desember 2008

Sannkölluð vetrarsól

Seint í gærkvöldi lauk ég við bók Auðar Jónsdóttur, Vetrarsól. Held að ekki sé á nokkurn hallað þótt ég fullyrði nú morguninn eftir að saga Auðar er einhver sú besta sem ég hef lesið þetta haustið.

Í Vetrarsól er sagt frá Sunnu sem starfar hjá bókaforlagi í Reykjavík og þarf að halda utan um ansi marga þræði svo líf hennar hreinlega rakni ekki upp. Einn þeirra er tengslin við stjúpsoninn sem hún situr hálfpartinn uppi með. Þann þráð rekur Auður af miklu öryggi um leið og ýmsu öðru, svo sem viðureign við erlenda glæpamenn, vinkonuraunum úr fortíð og vandræðagangi yfir fyrrum rekkjunaut er vefað inn í söguna.

Vetrarsól er sannnefni að því leyti að sagan lýsir skært í skammdeginu. Frásagnarmátinn er einnig afar heillandi og stíllinn; ja, tja, hvað skal segja - dásamlegur!

föstudagur, 12. desember 2008

Aftengt Alþingi

Við vissum að löggjafarþingið okkar litla við Austurvöll hefur látið undan síga gagnvart framkvæmdavaldinu.

Síðustu vikur hefur þó gjörsamlega keyrt um þverbak, þingið er steinhætt að reyna að hafa nokkur áhrif á þá lagasetningu sem það er viðstöðulaust látið stimpla fyrir ríkisstjórnina, - sem aftur er löngu hætt að ræða við þjóðina.

Í gærkvöldi var svo til án umræðu samþykkt að stórhækka skattheimtu af eldsneyti og áfengi. Sú gjörð dugar skammt til að lappa upp á laskaðan ríkissjóð en mun hins vegar virka sem olía á verðbólgueldinn, svo við fáum að greiða hækkunina aftur í gegnum verðbætur á húsnæðislánin okkar.

Kannski væri sparnaðarráð að senda þingið heim í launalaust leyfi, - fyrst það virðist óþarft í kreppu?

þriðjudagur, 9. desember 2008

Blessað stríðið

Ég lofaði nánari umfjöllun um bók Barkar Gunnarssonar. Neðanfylgjandi umsögn birtist í tímariti stjórnmála og stjórnsýslu sem Háskóli Íslands gefur út:

Í bókinni Hvernig ég hertók höll Saddams lýsir Börkur Gunnarsson dvöl sinni í sprengiregninu í Írak, eins og sagt er á bókarkápu. Í fyrra kom út bók Davíðs Loga Sigurðssonar, Velkomin til bagdat, þar sem hann segir frá heimsóknum sínum sem blaðamaður á átakasvæði. Þrátt fyrir að báðar bækurnar lýsi upplifun höfunda í Bagdat á svipuðum tíma eru þær gjörólíkar. Davíð lýsir því sem fyrir augu ber frá sjónarhóli hins nákvæma blaðamanns en Börkur notar hins vegar sögusviðið og eigin reynslu eins og skáldsagnahöfundur.

Sagan er sögð frá örþröngu sjónarhorni höfundarins og lýsir persónulegri upplifun hans á þeirri sérstæðu stöðu að vera orðinn fulltrúi herlausrar þjóðar í hinu umdeilda stríði í Írak. Margt kemur spánskt fyrir sjónir og ekki síður háðskt, kannski er þetta fyrst og fremst skemmtisaga, íslenski hermaðurinn í Bagdat beitir ekki byssu heldur notar hann í frásögn sinni það vopn sem bestu bítur á Íslandi, - semsé klassískri kaldhæðni. Hæðist óspart að öllu því sem fyrir augu ber og ekki síst að sjálfum sér og eigin aðstæðum.

Það er ekki ætlun höfundar að lýsa bakgrunni átakanna í Írak eða setja ástandið í nokkurt annað samhengi en við dvöl hans sjálfs í landinu þessa fimmtán mánuði. Eigi að síður saknaði þessi lesandi að brugðið væri örlítið víðara sjónarhorni á viðfangsefnið sem sannarlega er stórmerkilegt og hefði það getað lyft sögunni verulega. Höfundur notar ekki tækifærið til að ræða hlutverk fjölþjóðahersins sem hann er hluti af og virðist með öllu gagnrýnislaus á stríðið og ástandið í Írak. Til að mynda kallar hann andspyrnusveitir Íraka aldrei annað en terroristana en þeir Írakar sem starfa með Bandaríkjaher og NATO fá hins vegar sæmdarheitið föðurlandsvinir.

Í þessari stuttu bók rekur Börkur nokkra þræði, einn þeirra er ástarsaga en unnusta höfundar situr í festum heima á Íslandi á meðan sögumaður sinnir stríðinu. Ástarsagan er að mínum dómi áhugaverðasti hluti bókarinnar en þar má finna ljúfsáran trega og að því er virðist sjaldgæfa einlægni í riti af þessu tagi. Ritstíll Barkar kemur einnig best út í lýsingum hans á viðureigninni við ástina, berorður og blátt áfram. Að samanlögðu verður úr læsileg og skemmtileg bók sem ánægjulegt er að lesa.

Tímarit Stjórnmála og stjórnsýslu, 7. desember 2008.

mánudagur, 8. desember 2008

Skemmtileg bók Barkar

Lauk nýverið við nýja bók Barkar Gunnarsson, Hvernig ég hertók höll Saddams. Ég mun fjalla nánar um bókina á öðrum vettvangi en í hnotskurn má segja að þetta sé læsileg, skemmtileg og áhugaverð bók. Einn þráður sögunnar er samband hans við unnustuna sem situr í festum heima á Íslandi á meðan sögumaður stríðir í Írak. Ástarsagan er að mínum dómi áhugaverðasti hluti bókarinnar en þar má finna ljúfsáran trega og að því er virðist sjaldgæfa einlægni í riti af þessu tagi. Ritstíll Barkar kemur einnig best út í lýsingum hans á viðureigninni við ástina, - berorður og blátt áfram. Meira síðar.

miðvikudagur, 3. desember 2008

Við borgum ekki, nei við borgum ekki

Í byrjun ágúst ritaði ég grein 24 stundir sálugu sem hét Við borgum, já við borgum. Greinin fjallaði um ógnargreiðslur sem þá þegar höfðu verið lagðar á almenning vegna eitraðrar tengingar verðbólgu og verðbóta. Eins og sjá má í greininni sá ég ekki fallið fyrir frekar en aðrir en nú sýnist mér að komin sé fram hreyfing almennings sem gæti heitið Við borgum ekki, nei við borgum ekki.

Ný grein í Guardian: Caught in Europe's net?

The Guardian bað mig um að fjalla um þá umræðu sem fram fer á Íslandi um hugsanlega Evrópusambandsaðild.

Í dag birtist eftir mig grein þar sem ég held því fram að sérstakur skilningur Íslendinga á fullveldi sínu geri það að verkum að leiðin inn í Evrópusambandið kunni að verða grýttari en menn gætu ef til vill haldið.

Eins og fyrr er hægt að rita athugasemdir undir greina.

Greinin er hér.

þriðjudagur, 2. desember 2008

Er Ísland fullvalda?

Háskólinn á Akureyri heldur jafnan fullveldisdaginn hátíðlegan. Í gær fór fram málstefna undir heitinu Fallvalt fullveldi? Auk mín veltu Sigurður Líndal, Silja Bára Ómarsdóttir og Ágúst Þór Árnason fullveldinu fyrir sér.

Erindi mitt á glærum má finna hér.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Eitruð

Ný bók Hallgríms Helgasonar, 10 leiðir til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, fjallar um króatíska leigumorðingjann Toxic sem þvælist til Íslands á svolítið ólíkindalegum flótta. Bókin er eitruð að því leyti að illviðráðanlegt er að leggja hana frá sér.

Sagan byrjar af miklum krafti en jafnvel þótt hún fari svolítið á flot um miðbikið nær hún að halda sjó og Hallgrími tekst að landa henni með ágætum í lokin. Það er ekki endilega sögusviðið eða atburðarrásins sem heldur manni við lestur, miklu frekar þessi óborganlegi karakter sem höfundur hefur greinilega nostrað við að skapa. Einhvern vegin tekst honum að fá mann til að finna til samúðar með samvisskulausum fjöldamorðinga.

Hallgrímur hefur í fyrri bókum átt það til að tapa sér í ævintýralegum orðaleikjum og ógnarlöngum útúrdúrum sem stundum hafa reynt á þolinmæði lesenda. Þessi höfundareinkenni eru enn til staðar en hér tekst honum mun betur að aga orðæðið. 10 ráð er því kannski einhver lesendavænasta bók Hallgríms. Ólgandi ritgleðin er eigi að síður slík að síðurnar sprikla af bráðskemmtilegu textafjöri.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Vandinn er heimatilbúinn

Íslensk stjórnvöld hafa látið í veðri vaka að hrun bankakerfisins eigi einna helst orsök í óviðráðanlegum ytri aðstæðum. Annars vegar vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hins vegar vegna kerfisvillu í evrópsku reglugerðaverki um innstæðutryggingar. Þetta er einkar heppileg skýring fyrir innlend stjórnvöld því þar með bera þau enga ábyrgð.

Hvítþvotturinn gengur jafnvel svo lagt að í máli sumra er látið sem skuldbindingar um tryggingar á reikningum í erlendum útibúum íslenskra banka hafi á einhvern hátt komið á óvart. Efast má um hæfni efnahagsyfirvalda sem halda slíku fram enda hefur þessi staða legið fyrir frá því Ísland undirritaði EES-samninginn.

Kerfisvandinn sem varð Íslandi að falli var heimatilbúinn. Við opnuðum fjármálamarkaðinn inn á 500 milljóna manna innri markað ESB en örgjaldmiðillinn okkar var áfram varinn af aðeins þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Í slíka stöðu hafði ekkert ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu komið sér og við þessu óráði var margvarað. Fjöldi fræðimanna hefur þráfaldlega varað við að blessuð krónan gæti ekki staðið undir starfi bankanna á galopnum evrópskum fjármálamarkaði.

Það er engin tilviljun að með Maastrict-sáttmálanum sem undirritaður var sama ár og EES, 1992, voru teknar tvær ákvarðanir samtímis. Annars vegar að fullklára opnun fjármálamarkaða og hins vegar að verja fjármálakerfið með sameiginlegri mynt, evrunni, og sameiginlegum seðlabanka sem yrði lánveitandi til þrautavara. Á þeim tíma óraði engan fyrir að tiltekin ríki myndu taka sig út úr því ráðslagi, eins og síðar varð raunin þegar Danir, Bretar og Svíar ákváðu að halda um sinn í eigin gjaldmiðil. Öll ríkin gerðu þó viðhlítandi ráðstafanir til að verja sína mynt.

Norðmenn eru varðir af olíusjóðnum og öll nýju aðildarríki ESB hafa tekið skref til varnar. Aðeins Ísland þverskallaðist við. Eins og glöggur maður nefndi var krónan of lítil fyrir bankana en evran of stór fyrir íslenska stjórnmálamenn. Því fór sem fór.

Fréttablaðið, 22. nóvember 2008.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Merkileg grein um Keynes

George Monbiot, dálkahöfundur á Guardian, ritar merkilega grein um erindi gamla John Maynard Keynes í viðbrögðum við yfirstandandi kreppuástandi. Sjá hér.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Þriðja persóna fleirtölu

Alltaf gaman þegar menn tala um sjálfan sig í þriðju persónu fleirtölu.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Horft í baksýnisspegilinn

Hörmungarástandið sem hefur skapast á Íslandi að undanförnu er af mannavöldum. Hin alþjóðlega fjármálakreppa er aðeins völd af litlum hluta. Ráðamenn keppast við að beina fólki frá því að horfa í baksýnisspegilinn, eins og þeir kalla það, nú á að einbeita sér að því að leysa bráðavandann. Samt sem áður hefur allur þorri almennings fengið á tilfinninguna að ráðmennirnir séu svo gott sem ráðalausir.

Í viðleitni til að koma í veg fyrir enn frekari misstök er því kannski ekki úr vegi að skoða nokkur þau mistök sem komu okkur í þá stöðu að vera bæði gjaldþrota og rúin trausti í alþjóðlegum samskitpum. Hér eru valin af handahófi nokkur mistök sem öll voru fyrirsegjanleg, hefðu stjórnvöld staðið vaktina sem þau voru kosin til:

1. Fjármálamarkaðurinn opnaður upp á gátt án þess að koma örgjaldmiðlinum okkar í skjól. Þá óráðsstöðu hafði ekkert annað land í EES komið sér í. Minni á að norska krónan er varin af olíusjóðnum. Annað hvort varð að þrengja að frelsi í fjármagnsflutningum og koma bönkunum úr landi eða taka upp lífvænlegri gjaldmiðil.

2. Af hugmyndafræðilegum ástæðum voru eftirlitsstofnanir hafðar veikburða þegar atvinnulífinu var gefinn laus taumurinn með einkavinavæðingu. Það mátti ekki trufla hinn frjálsa markað. Úlfakapítalisminn tók svo öll völd í samfélaginu þegar taumhaldið skorti.

3. Í kjölfar einkavæðingarinnar var bindiskylda bankanna lækkuð þegar hana átti auðvitað að hækka í viðleitni til að koma böndum á brjálæðið.

4. Gjaldeyrisvarasjóður hafður allt of lítill miðað við stærð fjármálakerfisins, sem skildi fjármálakerfið eftir berskjaldað og auðveldaði áhlaup skortsölumanna á krónuræfilinn.

5. Stjórn Seðlabankans skipuð stjórnmálamönnum sem höfðu pólitískan hag af því að verja tiltekna hugmyndafræði frekar en að stýra peningastefnunni af fagmennsku. Um leið skorti Seðlabankann trúverguleika sem er ein ástæða þess að nágrannaríkin hikuðu við að koma til aðstoðar.

6. Einkabönkum leyft að veðsetja þjóðina í útlöndum án hennar vitundar, samanber Icesave hneykslið

7. Stýrivextir hafðir í hæðstu hæðum þrátt fyrir að þeir bíti lítið á staðbundna verðbólgu í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Um leið sogaðist inn í landið eitrað áhættufjármagn sem felldi krónuna um leið og harnaði á dalnum. Hundruð milljarða fuku út úr þjóðarbúinu í hávaxtagreiðslur til útlendinga.

8. Þjóðnýting Glitnis var til þess fallin að loka endanlega fyrir allar lánalínur inn í landið og hratt af stað þeirri hroðahrinu sem enn stendur yfir og ekki sér fyrir endann á.

9. Ógætileg ummæli í Kastljósi þess efnis að erlendir kröfuhafar fái ekki greitt einangraði landið og rétti Bretum vopnin í hendurnar.

10. Gengið fest tímabundið með ótrúverðugum hætti svo Seðlabankinn varð að afnema hina nýju fastgengisstefnu innan tveggja sólarhringa.

11. Vextir lækkaðir og svo skyndilega hækkaðir langt upp yfir fyrri stöðu á einni viku.

12. Sagt frá fyrirhuguðum lánafyrirgreiðslum ólíklegustu landa án þess að nokkuð lægi fyrir annað en óskhyggjan ein.

13. Bretum leyft að setja á okkur hryðjuverkalög og traðka orðspor landsins í svaðið án þess að brugðist væri til varna í því PR-stríði sem brostið var á.

Viðskiptablaðið, 14. nóvember 2008

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Notaleg

Lauk nýverið við nýja skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, Segðu mömmu að mér líði vel.

Ef ég mætti aðeins nota eitt orð til að lýsa bókinni myndi ég segja að hún væri notaleg. En sem betur fer hef ég efni á fleiri orðum því notalegheitin eru aðeins ein hlið bókarinnar. Hún er einnig skemmtileg í sínum látlausu og lágstemdu lýsingum á tilfinningalífi miðaldra manns í Reykjavík. Andri dregur upp umhugsunarverða mynd af samfélaginu en stundum var ég ekki alveg viss hvert hann vildi fara, hvert erindið væri. Á tíðum fannst mér bókin einnig full hæggeng, en það fyrirgefur maður Andra umfram aðra íslenska höfunda því bókin er auðvitað fantavel skrifuð eins og vænta mátti, - nostrað við hvert orð.

En þegar öllu er á botninn hvolft ber mig aftur að sama orði, þetta er notaleg saga. Sem er ekki svo lítil gjöf í því ástandi sem við nú lifum, að fá um stund að setjast til hliðar með notalega bók og dreypa kannski örlítinn kaffisopa með.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Don't isolate Iceland - ný grein í Guardian

Í framhaldi af skrifum mínum í Guardian um daginn hef ég verið beðinn að leggja þeim til greinar af og til. Í dag birtist eftir mig ný grein sem finna má hér.

Í greininni í dag held ég því fram að ólögleg beiting hryðjuverkalaganna hafi í raun orðið til þess að breska ríkisstjórnin hafi þar með tekið yfir skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi, - þeirra á meðal allar skuldbindingar varðandi Icesave reikningana alræmdu. Þá bendi ég á, að sé það rétt að breska ríkisstjórnin vinni að því að koma í veg fyrir lánveitingu IMF til Íslands, geti það þvingað íslensk stjórnvöld til að taka evru upp einhliða, semsé í andstöðu við vilja Evrópusabandsins.

Mig langar til að benda á að hægt er að rita athugsemdir við greinina á vef Guardian, hvet fólk raunar til að gera það.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Ég hef misst af því ...

... sagði forsætisráðherra Íslands í viðtali við fjölmiðla í hádeginu í dag, aðspurður um lán sem Pólverjar hyggjast veita Íslandi.

Eru þetta í alvörunni boðleg vinnubrögð?

Maður er farinn að fá á tilfinninguna að stjórnvöld hafi ekki hugmynd um hvað er gerast, að þau viti ekkert meira en við hin, hringlist bara í andateppu um ráðlausa og dáðlausa hirð sína í súrefnislausum skrifstofum.

Röð mistaka og klaufalegra ummæla valda því fólk er við það að missa trúna á hinum háu herrum, sem vanhæfnin einhvern vegin skín af í spegli fjölmiðlanna.

Hver er eiginlega við stýrið?

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Ekki borga

Nú ríður á að menn standi í lappirnar og láti ekki kúga sig til að greiða fyrir Icesave-hneykslið. Þegar breska ríkisstjórnin setti hryðjuverkalög á Landsbankann þá tók hún í raun yfir ábyrgðina á skuldbindingum bankans í Bretlandi.

Ísland má ekki láta kúga sig til að greiða fyrir þessa árans dellu, til þess eins að fá gott veður hjá IMF. Betra væri að búa við gjaldeyrisskort heldur en að skuldsetja næstu kynslóðir útaf sprikli einkafyrirtækis í útlöndum.

En um leið og við neitum að borga verður auðvitað að leysa stjórn og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans frá störfum, þessar stofnanir bera ábyrgð á því að hafa ekki stoppað vitleysuna af á sínum tíma. Sem eru svo sannarlega afglöp í starfi.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Fyrirgefðu, en ert þú ekki frá Íslandi?

„Fyrirgefðu herra prófessor, en ert þú ekki frá Íslandi?“, spurði framhleypinn rauðhærður drengur með ítalskan hreim.

Ég var í háskólanum í Ljubljana í síðustu viku að kenna hnattvæðingu og rétt byrjaður að lýsa fínni blæbrigðum á kenningum um hattræna þróun.

„Jú, það er rétt,“ svaraði ég glaður í bragði enda gaman að ræða hugmyndir erlendra nemenda um Ísland.

Yfirleitt dettur þeim í hug eitthvað tengt náttúrunni, kannski jarðvarma, Geysi og fallvötn. Og svo auðvitað Björk, líka Sigur Rós og Eið Smára. Einstaka maður kann skil á bókmenntaarfinum og svo hefur viðskiptalífið komið sterkt inn allra síðustu ár. Þetta var gjörvilegur fjölþjóðlegur nemendahópur, alls staðar frá. Oft er gott að nota áhuga nemenda og tengja við námsefnið, svo ég opnaði fyrir spurningar.

„Ok, þetta er allt saman voðalega áhugavert hjá þér,“ sagði sá rauðhærði og hélt óþolinmóður áfram. „En gætirðu kannski sagt okkur hvað er eiginlega að gerast þarna hjá ykkur?“

Ég vissi að ég gæti átt von á þessari spurningu svo ég hóf að útskýra útrásina sem var grundvölluð á EES og benti á þá augljósu staðreynd að bankarnir höfðu vaxið krónunni yfir höfuð og því verið ansi valtir fyrir þegar fárviðrið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum skall á.

„En máttu menn ekki sjá það fyrir?,“ spurði forviða stúlka á fremsta bekk með sterkum þýskum hreim. Enda vitað frá því að fjármagsflutningar voru endanlega gefnir frjálsir með Maastricht-sáttmálanum að illmögulegt væri fyrir flest ríkin á innri markaði Evrópu að halda úti óvörðum gjaldmiðli í svo opnu kerfi.

„Vissulega,“ svaraði ég. „Annað hvort varð að koma í veg fyrir vöxt fjármálakerfisins eða að taka upp evru,“ útskýrði ég samvisskusamlega.

„Af hverju var það þá ekki gert?,“ spurði síðhærður Slóveni sem hallaði sér aftur undir gluggavegginn í hnausþykkum sótsvörtum leðurfrakka.

„Jú, sjáðu til„ svaraði ég, „við vildum gjarnan nýta alþjóðavæðingu fjármálalífsins til að efnast en fullveldisins vegna gátum við ekki skipt krónunni út fyrir útlenska mynt.“ Ég fann að þau áttu erfitt með að skilja þessa skýringu.

Næst kvað sér hljóðs mjósleginn svarthærður drengur frá Suður-Ameríku. „Er það rétt sem ég hef heyrt að það sé fyrrverandi stjórnmálamaður seðlabankastjóri hjá ykkur?“

Ég svaraði að slíkt þætti alvanalegt á Íslandi. Sá suðurameríski hélt áfram: „Það er vissulega margt undarlegt á seyði í stjórnmálunum í Brasilíu, en meira að segja okkur myndi nú ekki detta í hug að láta pólitíkusa stýra seðlabankanum,“ sagði hann og hristi höfuðið.

Við mér blöstu hundrað undrandi andlit svo ég fór að ræða lausnir vandans, ræddi fyrirhuguð lán frá IMF, Rússlandi og Norðurlöndunum þar til snögghærð stúlka frá Hollandi tók til máls.

„Fyrirgefðu, en mér skilst að vandinn sé einna helst sá að þið eruð búin að taka svo rosalega mikið af lánum, fyrirtækin keyptu handónýtar eignir í útlöndum og almenningur virðist hafa staðið í biðröðum í bönkunum til að taka sem allra mest að láni. En svo segið þið núna að lausnin á þessari krísu, sem er semsé tilkomin vegna óhóflegra lántöku, sé að taka bara enn meiri lán í útlöndum. Hvernig getur það eiginlega gengið upp?“

Viðskiptablaðið 31. október 2008

föstudagur, 31. október 2008

Hraðleið í skjól evru

Í gær og í dag hef ég flutt fyrirlestra um hvernig unnt væri að koma krónunni í skjól evrunnar á mun skemmri tíma en áður hefur verið talið - þar að segja inn í ERM II gengiskerfið sem nýtur bakstuðnings Seðlabanka Evrópu í Frankfurt. Ég tek fram að íslensk stjórnvöld hafa ekki lýst áhuga á þessum möguleika svo hér er einvörðungu um fræðilegar vangaveltur að ræða.

Í gær flutti ég um þetta erindi á málþingi sem HÍ, HR og Bifröst héldu saman í Norræna húsinu undir heitinu Framtíð Ísland í samfélagi þjóðanna. Glærur hér.

Í morgun ræddi ég svo nokkuð ítarlegar um evrumálin á fundi Eflingar-stéttarfélags á Hótel Hamri. Glærur hér.

Ríkisútvarpið sagði frétt af þessum hugmyndum í hádeginu í gær, fréttin í texta er hér, í hljóði hér.

miðvikudagur, 29. október 2008

Velkomin á fætur

Utanríkisráðherra fór í viðamikla heilaskurðaðgerð í New York skömmu áður en allt fór til fjandans í efnahagslífi landsins. Kannski fékk hún fréttirnar af ástandinu svona þegar hún vaknaði úr svæfingunni:

"Kæra frú, aðgerðin gekk vel en það eru hins vegar svolitlar fréttir af landinu þínu. Fjármálakerfið er í rúst, allir bankarnir gjaldþrota, þjóðin raunar öll á barmi gjaldþrots ef út í það er farið. Svo er víst búið að veðsetja hverja fjölskyldu um marga tugi milljóna samkvæmt nýjustu fréttum. Þessu til viðbótar hafa Bretar sett á ykkur hryðjuverkalög og æra þjóðarinnar fótum troðin og horfin um langan aldur. Að öðru leyti hefur þetta bara gengið vel. Vertu velkomin á fætur."

þriðjudagur, 21. október 2008

Samúðarfullir slóvenar

Kominn til Slóveníu, er í gestakennslu við Ljubljana háskóla þessa vikuna. Flestir sem ég hitti hafa boðið mér einhvers konar fátæktaraðstoð, - með einlæga samúð í augum.

Í morgun bauð ungur nemandi minn mér upp á kaffi. Sem ég þáði auðvitað með þökkum.

Ég á að kenna hnattvæðingu, en einu spurningarnar sem ég fæ eru um Ísland.

Annars er þetta svolítið merkilegt, vinir og kollegar víðsvegar um lönd hafa haft samband við mig út af Íslandskrísunni til að grenslast fyrir um hagi mína, hvort við þurfum á einhverri aðstoð að halda. Á undanförnum árum hef ég haft ýmislegt saman að sælda við kollega mína í Danmörku og ávallt verið í sambandi við gamla skólafélaga í Kaupmannahöfn. Þaðan hefur hins vegar hvorki heyrst hósti né stuna frá því að vandræðin byrjuðu.

laugardagur, 18. október 2008

Norska krónan

Allt fram að hruni fjármálakerfisins hér innanlands hafði mér þótt hugmynd Þórólfs Matthíassonar að taka upp norsku krónuna heldur langsótt. Nú er hins vegar endanlega komið á daginn að íslenska krónan er ekki lengur trúverðugur kostur til langframa, smæðar sinnar vegna.

Því væri kannski ekki svo fráleitt að hefja umleitanir við norsk stjórnvöld um einhvers konar myntbandalg, undir forystu Noregsbanka. Í því fellst ekki neitt framsal fullveldis, ég minni á að fyrir tilkomu evrunnuar var Lúxembúrg í þess háttar myntsamstarfi við Belgíu.

Í slíku samstarfi væri vel hægt að gefa út seðla og mynt fyrir hvort land fyrir sig.

BBC Scotland

Í morgun var viðtal við mig á BBC Scotland, í þættinum NewsWeek, sem er þáttur um fréttir vikunnar og er sendur út kl. 8 á laugardagsmorgnum. Þátturinn er hér.

Á morgun verð ég svo í viðtali við ríkisútvarpið á Isle of man, í þætti sem heitir Sunday opinion og er í hádeginu.

föstudagur, 17. október 2008

Fleiri bréf frá Bretlandi

Bréfin frá Bretlandi hafa flest verið afar jákvæð þar sem hlýhug er lýst í garð Íslendinga. Hér er til að mynda eitt:

Dear Professor Bergmann Einarsson

I read your letter printed in the UK daily Mail recently.

The political handling of these matters has been very inept here and I agree with you that our wretched Chancellor, Alastair Darling, must have known what the effects of his words would be on the fate of your Kaupthing Bank. Even worse, to use anti -terrorism laws against a friendly country in the way that the even more wretched Gordon Brown did, was totally unnecessary and indeed shameful. I can only conclude that in a desperate attempt to assist his sinking reputation, he thought that this may distinguish him as a decisive man of action, in fact it showed him to be desperate , intemperate, and stupidly oblivious to the consequences.

There is no doubt that greedy gamblers, I will not dignify their activities by referring to banking, have wreaked huge damage worldwide. Although Iceland has a small number of these individuals, undoubtedly we in the UK have many more.

I have never been to Iceland but those of my friends and relations who have tell me that it is a fine country with a very welcoming populace. I am sure that this is the case and I want you to know that nobody that I know has the least feeling of ill will towards you and your countrymen and women. For myself I am deeply ashamed by the use of anti terrorist laws against you and for what it is worth, I offer my apologies.

May I send you warm greetings from the UK and the wish that all of us can return to normal financial life very soon ?

Yours Sincerely

Michael F.Grasham
London

fimmtudagur, 16. október 2008

Boo

Í kjölfar greina minna í Bretlandi fyrr í vikunni hef ég fengið fjölmörg skeyti frá lesendum sem hafa lýst hlýhug í garð Íslendinga. Nú rétt áðan kom fyrsta SMS-skeytið, tónninn í því er eilítið öðru vísi. Stutt og laggott, svona:

„Boo"

Sendandinn gaf ekki upp nafn en skeytið kom úr númerinu: + 447861213620. Kannski sá sé einn af þeim sem hafa ritað í athuagasemdakerfið við greinarnar í Guardian.

Svipmynd af gjaldeyrisskorti

Gjaldeyrisskorturinn tekur á sig ýmsar myndir. Ég er að fara til útlanda á mánudag, þar að segja ef mér tekst að finna gjaldeyri.

Peningayfirvöld hafa nú sett ýmis skilyrði fyrir afgreiðslu gjaldeyris, ekki má kaupa fyrir meira en ISK 50þ og svo þarf að hafa farseðil meðferðis.

Með þessar upplýsingar og rétt gögn skokkaði ég út í útibú Landsbankans við Hagatorg og rétt slapp inn fyrir lokun, ætlaði að taka út skammtinn minn í evrum. En viti menn, þegar ég dró upp debitkortið mitt frá Glitni harðneitaði gjaldkerinn að afgreiða mig um gjaldeyri. Hann væri aðeins ætlaður þeim sem eru í stöðugum viðskiptum við Landsbankann.

Getur þetta verið löglegt?

Umræður í Guardian

Ég botna orðið voðalega lítið í þessu, en svo virðist sem greinarnar mínar í Guardian séu að verða vettvangur umræðna milli Íslendinga og Breta, - allavega sumra.

Báðar eru nú á topp tíu viðhorfsgreina í vefútgáfu blaðsins, sú fyrri er enn í fyrsta sæti en sú síðari í sjöunda sæti.

Það er enn hægt að skrifa athugasemdir við þær báðar.

miðvikudagur, 15. október 2008

Iceland: Britain's unlikely new enemy - segir BBC

Ingibjörg Þórðardóttir, íslenskur blaðamaður sem hefur starfað hjá BBC í London um langt árabil að mér skilst, ritar áhugaverða grein BBC News Magazine þar sem hún vitnar meðal annars í grein mína í Guardian í fyrradag og fleiri ummæli Íslendinga.

Grein hennar nefnist:

Iceland: Britain's unlikely new enemy

Bréf vegna greinar í Daily mail

Ég hef fengið nokkur viðbrögð vegna greina minna í bresku blöðunum undanfarið. Hægt er að skrifa athugasemdir við greinarnar í Guardian á netinu. Fyrri greinin, sem hefur verið á forsíðu vefútgáfu Guardian nú í tvo daga, er enn sú mest lesna og með flestum athugasemdum, 557 talsins. Greinin í Daily mail í gær birtist einungis í prentaðri útgáfu blaðsins en eigi að síður hef ég fengið töluverð viðbrögð frá breskum lesendum í tölvupósti, sem þeir hafa einhvers staðar grafið upp. Skemmtilegt að segja frá því að þau eru öll afar vinsamleg í garð okkar Íslendinga. Læt hér fylgja þrjú bréf úr safninu:

--------------------------

Sir, re your letter to Daily Mail 14/10/08. :

I just want to say to you that I hope that the people of Iceland and Great Britain can continue to be good friends.

I certainly don't have bad feelings towards them. Mr. Brown, (A dreadful PM) using terrorist laws against Iceland is, I feel, a great insult and an abuse of that Terrorism Act. We all need calm and friendship and some understanding. Not knee jerk reactions designed to save a poorly performing PM's career.

The acts of some greedy business people in each country should not be allowed to bring any animosities between 'ordinary' folk. I want you to convey my feelings to your fellow countrymen and women. It is a truism that there's good and bad in every land. May I extend a hand of friendship to the good people of Iceland.

Cordially,

Geoff Hill, Manchester, UK

---------------------------

Dear Eirikur

I saw your letter in today's "Daily Mail", and making a web search I seeyou have been energetic in putting forward a view.

A few years ago I was able to spend 3 months at University of Iceland onan academic research project, and as a consequence of having spent sometime in Iceland know a little more about Iceland than most Brits (thoughI'm sure still just a little). I brought my own car to Iceland via Shetland and Faroes, and the freedom of movement this gave me helped mesee both Iceland and Icelanders. As a result I'm reacting with horror tothe problems which have flared up between Britain and Iceland, and withshock at the economic difficulties now facing Iceland.

The political climate in Britain at the moment seems as much aroller-coaster as the financial markets, and I don't think that mostBrits have come to a view on what they think about the present issueswith Iceland. Presumably British savers will get their money, so thisissue is likely to be a short-lived news story. The issues facingcouncils will be sorted and forgotten. That anti-terrorist legislationwas used to seize Icelandic assets would usually be front page news, butwith the volume of news of recent weeks I doubt if many on the streetsare even aware of it - in no time it too will be forgotten. Thechallenge now I suggest is to build a positive way forward for bothBritain and Iceland.

Best wishes, Graeme


----------------------

Hi

today i have read the Daily Mail and noticed your letter, can i assure you that the 'ordinary' UK citizen does not view the Icelandic people or state as terrorists, we are all unfortunately caught up in the current global economic turmoil and our government has a tendency to use its many powers indiscriminately wishing all the best to yourself and your nation

with regards

Paul Haley

þriðjudagur, 14. október 2008

Forced into Russia's arms - ný grein í Guardian

Augu Breta eru enn á Íslandi. Ritstjóri viðhorfsgreina hjá Guardian var svo ánægður með viðbrögðin við greininni sem birtist í gær að hann bað um aðra. Ég ákvað að taka örlítið annan pól í hæðina í dag. Minni á að það er hægt að rita athugasemdir undir greinina.

Nýja greinin er hér.

My Darling Brown - grein mín í Daily mail í dag

Í dag birstist eftir mig aðsend grein í breska blaðinu The Daily mail, bls. 58. Ég kann ekki að finna hana á netinu, er líkast til aðeins í blaðinu sjálfu, en hún fer hér á eftir.

(Bendi einnig á grein mína í Guardian í gær, Frozen out, en hún er nú mest lesna greinin á viðhorfssíðu blaðsins, við hana hafa verið skrifaðar flestar athugsemdir, 276 talsins. Enn er hægt að kommenta á greinina.)


My Darling Brown
,
As most Icelanders I am a great fan of Britain, travel to London few times a year to visit our friends, watch English football regularly and follow English media every day from my home in Reykjavik. Here in the cold country up north we have been facing a financial crisis, so gigantic that every household in fact faced bankruptcy had nothing be done about it.
,
Now, it is clear to any one with open eyes, that a handful of reckless businessmen have risked the whole nation in their quest for personal wealth abroad, as is it clear that the Icelandic financial regulatory authority has failed to regulate the huge Icelandic banks and our government responded shamefully late to the problem. Then the global financial crisis hit Iceland’s shores.
,
The three main private banks in Iceland accounted for half of the economy. The first to default was Glitnir, then Landsbanki. Kaupthing, the by far the largest of the three, however still stood tall and it seemed, for a while, that the bank would stand the storm. Kaupthing was Iceland’s only hope.
,
Then, in the midst of the current financial crisis, this Darling, the UK finance minister, dared to start a run on Iceland‘s only bank still standing, with his dangerous comment, that Iceland would not pay. Mr. Alistair Darling is the finance minister of the United Kingdom; nobody can convince me he did not know what effect his words would have. Instantly, of course, Kaupthing collapsed, with devastating consequences, not only for the whole Icelandic economy but also hundreds of thousands of UK citizens that have trusted these banks with their savings.
,
Let me say this again, the run on Kaupthing, that finally put the Icelandic economy to the grave, perhaps for a decade to come, was caused by Mr. Darling. Now, as this would not be enough, the Prime Minister, Mr. Gordon Brown, used newly issued terrorist laws to deepfreeze the rest of Icelandic business in the UK. In the eyes of Brown Icelanders are terrorists!
,
This did not only come as a shock to me and all my fellow countrymen, but also to most of my friends in the UK that have been trying to convince me that his cruel rhetoric is only meant for internal use, that his government is so weak that he has felt it necessary to turn on someone weaker to regain his strength in UK politics. That is in fact the same as the bully in my school used to do every time he felt threatened.
,
On top of everything, after driving the last Icelandic bank in to the ground, Brown the bully, now threatens to take legal actions against Iceland for not honoring its obligations. I would assume a few Icelanders might also like to look in to the legal option as it is clearly criminal to start a run on a financial institution in crisis.
,
Anyhow, I sincerely hope that Mr. Brown’s feelings towards the people of Iceland are not shared with all the UK population.
,
The Daily mail, October 14, 2008.

mánudagur, 13. október 2008

Frozen out - grein mín í Guardian

Breska blaðið Guardian bað mig um að rita grein um ástandið á Íslandi og afstöðu okkar í deilunni við Breta.

Greinin hefur nú birst í vefútgáfu Guardian og er hér.

Vek athygli á að það er hægt að skrifa komment við greinina.

sunnudagur, 12. október 2008

Skaðræðisklúður

Nú um helgina hafa vinir mínir víða um lönd hringt hver á eftir öðrum áhyggjufullir og spurt hvort ég og fjölskylda mín hafi enn nóg að bíta og brenna, samkvæmt fréttum sé hér allt á vonarvöl, upplausn í samfélaginu, fjöldaatvinnuleysi, jafnvel hungur. - Semsé algjört og endanlegt hrun!

Það er með hreinum ólíkindum, hvað íslensk stjórnvöld hafa verið slöpp við að bregðast við þeim ógurlega ímyndarskaða sem Ísland hefur þurft að þola liðina viku, skaða sem ekki verður bættur næstu árin, fyrst ekki var brugðist við af öllum mætti. Því er það ábyrgðarhluti hvað lítið hefur verið gert til að mæta skaðræðisvél bresku götupressunnar sem hefur áhrif út um allan heim.

Hrikalegt PR-klúður.

Rétt í þessu hafði vinur minn í Ljubljana samband, hafði verið að lesa Daily mail og fékk af lestrinum áhyggjur af því að ég ætti enn í matinn, bauðst til að aðstoða eins og hann gæti.

Ég reyndi að róa hann, sagði að við værum sosum alveg í lagi. En það er allavega gott að eiga vini einhvers staðar.

föstudagur, 10. október 2008

Förum í hart

Breska ríkisstjórnin er komin út yfir allt velsæmi í aðgerðum og ummælum sínum gegn Íslandi.

Þrátt fyrir allt og hvað sem klaufagangi íslenskra peningamálayfirvalda líður þá var það nú samt fjármálaráðherra Breta, Alistair Darling, sem setti af stað áhlaup á Kaupþing svo bankinn fór að lokum í þrot. Hann mátti vita hvaða áhrif ummæli hans myndu hafa í því tvísýna ástandi sem uppi var. Svo bætti forsætisráðherrann um betur og setti á okkur hryðjuverkalög! Og nú hóta þeir málsókn ofan á allt saman.

Held að það sé kominn tími til að fara í hart í málinu, enda er sókn yfirleitt besta vörnin í svona ríkjadeilum eins og sannaðist í þoskastríðunum. Nú er þetta orðið PR-stríð. Það erum við sem eigum að hóta málsókn á þeirra hendur og nýta alþjóðapressuna sem hér er til að svara fullum hálsi.

fimmtudagur, 9. október 2008

Hver fimm manna fjölskylda skuldar hundrað milljónir

Breska blaðið Daily mail segir að hver Íslendingur, hver karl, kona og barn, skuldi 116,000 pund í útlöndum. Það gera 22 milljónir og 300 þúsund krónum betur miðað við að pundið kosti 200 krónur, sem er kaupverð Landsbankans núna.

Við litla fjölskyldan á Nesveginum skuldum semsé góðar 100 milljónir króna í útlöndum vegna ævintýra útrásarvíkinganna. Samt hef ég aldrei nokkurn tíman tekið lán í útlöndum.

Og þá erum við nota bene aðeins að tala um erlendar skuldir, ekki allt draslið sem fólk skuldar hér innanlands.

Svo mikið er víst, að ég er ekki borgunarmaður fyrir þessu.

þriðjudagur, 7. október 2008

Soldið merkilegt

Kommúnisminn dó fyrir tæpum tuttugu árum, nánar tiltekið þegar Berlínarmúrinn hrundi í beinni útsendingu að kveldi 9. nóvember 1989.

Frjálshyggjan dó svo í gær, þegar vestrænar Kauphallir hrundu með brauki og bramli, líka í beinni útsendingu. Hin ósýnilega hönd markaðarins var lömuð.

Og nú eru Rússarnir komnir til bjargar, með fúlgur fjár í eldgömlum kaupfélagspoka.

mánudagur, 6. október 2008

Verðbætur verði snöggfrystar

Búast má við óðaverðbólgu í kjölfarið falli krónunnar og hruni íslenska fjármálakerfisins á næstunni. Gera má ráð fyrir að verðtryggðar skuldir vaxi fram úr greiðslugetu ansi margra heimila.

Því hefur mig undrað, að í allri þeirri umræðu sem fram hefur farið undanfarnar klukkustundir, hefur ekkert verið minnst á hvort ríkisstjórnin ætli að tryggja að verðbætur verðtryggða skulda hér á landi verði frystar, til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot innanlands samfara snarhækkandi lánum.

Þetta er afar brýnt að gera og verður vonandi gert í tengslum við heimild Íbúðalánasjóðs að taka húsnæðislán bankanna yfir. Því væri gott ef einhver áræðinn fréttamaður myndi taka að sér að spyrja ríkissjórnina um þetta atriði.

Botninn suður í Borgarfirði

Málsmetandi menn hafa undanfarið misseri þrástagast á að botninum sé náð, í hvert sinn sem krónan og hlutabréfin falla í verði.

Þó veit enginn hvort svo sé.

Annars er þessi blessaði botn svolítið eins og hjá Bakkabræðrum forðum, - kannski hann sé enn suður í Borgarfirði.

föstudagur, 3. október 2008

Sísona

Jú, það er virkilega gaman að koma hingað til Gdansk, þessarar sögufrægu borgar sem enn er kennd við Samstöðu, borgarinnar sem hóf lokaandófið gegn Sovétskipulaginu árið 1980, borg rafvirkjans Lech Walesa sem ásamt félögum sínum í Lenín-skipasmíðastöðinni í slipnum hér úti við Eystrasalt bauð kommúnismanum birginn löngu áður en það mátti.

Já, það er sannarlega stóráhugavert að koma hingað. Eini vandinn er sá að íslenska krónan er hrunin. Ríkisstjórnin hvatti krónuræfilinn upp á hæsta pall í óráðsþenslu, þar sem hún dúaði í stutta stund áður en hún stakk sér í glæsilega dýfu fram af stökkpallinum. Seðlabankinn klappað krónugreyinu á koll eins og stolt foreldri en áttaði sig ekki á að það er ekkert vatn í sundlauginni, ekkert til að taka fallið af flotkrónunni þegar hún brotlendir á botninum. En semsé, að öðru leyti er reglulega gaman að vera komin til Póllands.

Farinn til Póllands

Einhvern tíman var staðan sú að Pólverjar hópuðust til Íslands til að vinna sér inn dýrmætar íslenskar krónur, sem um tíma glóðu eins og skíragull, krónur sem duglegt verkafólk gat sent heim til snauðra fjölskyldna sem húktu í mígleku skjóli zlotýsins heima í Póllandi.

En nú er þetta ögn breytt, nú gengur Íslendingurinn um götur gömlu Samstöðu með vitagagnslausar íslenskar krónur í vasanum, krónu sem hefur fallið um helming gagnvart pólska zlotýinu á innan við ári, krónu sem hefur brennt slík skaðræðisgöt á alla íslenska vasa að maður hefur tæpast efni á sæmilegu kartöflugúllasi á miðlugs matsölustað. Sannast sagna svíður manni í nárann undan glóðum krónunnar í hverju einasta skrefi hér ytra.

Verzlunarstríð

Ætli ég hafi ekki verið fjórtán ára, eða þar um bil, þegar ég opnaði fyrst reikning í Verzlunarbankanum niðri á BSÍ og lagði stoltur inn sumarhýruna til ávöxtunar. Svo varð Verzlunarbankinn að Íslandsbanka, seinna bættist FBA við og loks varð allt klabbið að Glitni.

Fyrir helgi átti ég í viðskiptum við Jón Ásgeir og félaga en nú er það víst Davíð Oddson sem á að gæta peninganna minna. Honum hefur þó að vísu ekki farist það neitt sérstaklega vel úr hendi undanfarið í Seðlabankanum. Þúsund kallinn sem ég átti í fyrra er nú aðeins fimm hundruð króna virði í útlöndum.

Lén í stríði stórvelda

Og nú erum við öll svolítið eins og lén í langdregnu stríði tveggja lénsherra. Forsagan er einhvern vegin svona: Frjálshyggjukenningin hans Hannesar sagði að það ætti að einkavæða bankana ásamt öllu hinu og gamla góða heildsalaveldið átti að fá þá. En allt í einu og hreint alveg óforvarindis spratt upp úr kjallara við Skútuvoginn síðhærður drengur sem yfirbauð heildsalaklíkuna og keypti til sín Fjárfestingabanka atvinnulífsins (FBA) öllum að óvörum.

Valhöll þótti nú ekki gott að ótýndur götustrákur, eins og forsætisráðherrann kallaði hann, kæmist yfir banka. Og síðan spruttu upp deilur. Ógnardeilur. Munið þið þrjú hundruð milljónirnar? Og dómsmálin endalausu?

En drengur þessi fór víst fullgeyst í áhættufjárfestingum í útlöndum. Svo kom alþjóðleg fjármálakrísa og bankinn rauði lenti í vandræðum, vantaði skyndilega fleiri evrur en nokkur maður hefur hefur nokkurn tíman séð, til að borga skuldunautum í útlöndum. Þá steig Davíð einfaldlega níður úr svörtuloftum og hirti bankann fyrir slikk. Og þar með var búið að þjóðnýta FBA á nýjan leik. Bara sísona. Og allt í einu, eins og hendi væri veifað, er 1980 aftur komið til Íslands. Pólland er hins vegar enn á fleygiferð inn í nýja öld.

24 stundir, 3. október 2008

þriðjudagur, 30. september 2008

Ái

Er á leið til útlanda í fyrramálið. Evran er komin 150 og sú danska slær í tuttugu kallinn. Algengt verð á pylsu í miðborg Köben er DKK 25, sem gerir þá heilar 500 íslenskar krónur!

Einu sinni var ódýrt að vera í útlöndum en nú er Ísland komið á brunútsölu. En það eina sem íslenskum stjórnvöldum dettur í hug er að halda áfram að pönkast á Baugsmönnum og vinna að framboði til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

En hvernig væri nú, segjum, að einbeita sér að blessaðri krónunni! Sem er allt lifandi að drepa í íslenskum efnahag dagsins í dag.

mánudagur, 29. september 2008

Svolítið sérstakt

Óneitanlega svolítið sérstakt að sami maður og stóð að einkavæðingu bankakerfisins þegar hann var forsætisráðherra skuli nú standa að þjóðnýtingu þeirra sem seðlabankastjóri.

miðvikudagur, 24. september 2008

Krónan, glærur og hærur

Grey krónan heldur áfram að leka niður á við í dag, farin að vera æði lasleg blessunin. Ég var ekki eini frummælandinn á ráðstefnu viðskiptaráðuneytisins í gær sem lýsti áhyggjum af stöðu hennar.

Þrátt fyrir að fyrirlesarar kæmu úr fjórum fræðigreinum, lögfræði, hagfræði, stjórnmálafræði og viðskiptafræði var sterkur samhljómur í erindum allra, - sér í lagi hvað viðvíkur því að atvinnulífið virðist vera farið að taka upp í evru í stað krónu í þónokkru mæli, þvert á stefnu stjórnvalda. Þessi þróun er varhugaverð og stjórnvöld ættu að reyna að bregðast við henni með einhverjum hætti.

Á ráðstefnunni lagði ég fram vinnudrög að grein sem verður fullkláruð á næstu vikum og svo gefin á bók á vegum viðskiptaráðuneytisins á næstunni. Greinardrögin eru hér. Allar ábendingar eru vel þegnar.

Glærurnar sem ég byggði erindi mitt á eru hér. Og nánari upplýsingar um ráðstefnuna og erindi kollega minna hér.

þriðjudagur, 23. september 2008

Er sjálfkrafa evruvæðing hafin?

Viðskiptaráðuneytið stendur fyrir ráðstefnu í hádeginu í dag um evrumál. Yfirskriftin er: Evra á Íslandi. Hvort, hvernig, hvenær?

Mitt erindi fjallar um hvort sjálfkrafa evruvæðing sé hugsanlega hafin. Erindið byggist á úttekt sem ég hef verið að vinna fyrir Viðskiptaráðuneytið og kemur út á næstu vikum.

Ágripið er svona:

Ýmislegt bendir til að evran sé nú þegar farin að vætla inn í íslenskt efnahagslíf, þvert á stefnu stjórnvalda. Fyrirtæki eru í auknu mæli farin að gera upp bækur sínar í evrum og undirbúa jafnframt skráningu hlutafjár í Evrópumyntinni. Þá hafa lántökur og launagreiðslur aukist í evrum auk þess sem bæði vöru- og þjónustuviðskipti eru síoftar gerð í evrum. Þrýstingurinn á upptöku evru á rætur að rekja í þátttöku Íslands á innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn frá árinu 1994. Um er að ræða kerfisbundinn þrýsting sem þræðir sig eftir víxlerkunaráhrifum ný-virknihyggjunnar. Óvíst er að innlend stjórnvöld hafi nauðsynleg tæki til að verjast sjálfvirkri evruvæðingu sem að takmörkuðu leyti er nú þegar er farin af stað. En sjálfkrafa innleiðing evru er versta tegund evruvæðingar sem völ er á.

Sjá dagskrá ráðstefnunnar hér.

mánudagur, 22. september 2008

Singing bee

Er nú svo komið að ég er farin að kvarta undan málfari í íslensku sjónvarpi. Ég veit að það er voðalega miðaldra af mér en semsé, á Skjá einum er sjónvarpsþáttur sem stjórnendur stöðvarinnar hafa ákveðið að kalla Singing bee, eflaust vegna þess að fyrirmyndin heitir það á ensku.

Þetta er ugglaust fyrirtaks skemmtun, handviss um að þátturinn muni falla sjónvarpsáhorfendum vel í geð, sem syngi með heima í stofu.

En óttalegt metnaðarleysi er það nú samt að þýða ekki heiti þáttarins. Það ætti ekki að vera mjög flókið. Til að mynda eitthvað í þessum dúr:
  • Söngfuglinn
  • Dægurflugan
  • Syngdu betur!
  • Söngvaseiður
  • Syngdu með
  • Eiginlega hvað sem er, annað en ........ ...

föstudagur, 19. september 2008

Hagstjórn umvöndunar

Hver ætli viðbrögðin yrðu ef vinnuveitandinn kæmi til okkar einn daginn, segjum á meðan við værum á kafi í bráðmikilvægu verkefni sem miklu skipti fyrir reksturinn, og segði okkur, bara sísona yfir morgunkaffinu, að vegna ógnarmistaka stjórnenda fyrirtækisins yrði að lækka launin okkar um nálega helming? Að vísu ætli stjórnendurnir ekki að lækka ofurlaunin sín, en myndu þó af einskærum rausnarskap afsala sér öllum bónusum um stundarsakir.

Hvernig ætli við myndum bregðast við? Ætli við myndum láta duga að ypta öxlum og segja kannski, sei, sei, það verður þá bara svo að vera. Ætli það? Eða myndum við kannski fara að skima um eftir nýju starfi? Jú, ætli það verði ekki teljast líklegt.

Ekki benda á mig

Nú er það svo að íslenska þjóðarbúið er eiginlega í þessari stöðu. Krónan, blessunin, hefur fallið um nálega helming á innan við ári með tilheyrandi kjaraskerðingu. En það er erfitt að segja upp sem Íslendingur. Að vísu er hægt að flytja úr landi, eins og Pólverjarnir sem nú eru víst í löngum röðum í Leifstöð með farmiða aðra leið í uppsveifluna í Varsjá, Krakow og Gdansk. En fyrir okkur flest er það meiriháttar mál að yfirgefa ættjörðina á efnahagslegum forsendum.

Seðlabankinn og forsætisráðherrann segja að vísu að ástandið sé ekkert skárra í útlöndum, að fall krónunnar sé tilkomið vegna alþjóðlegu lausafjárkrísunnar sem eigi upptök í Bandaríkjunum, en ekki vegna mistaka í hagstjórninni innanlands, því sé ekki við þá að sakast. Í Fréttablaðinu í gær sagði forsætisráðherrann að fjármálakrísan hafi „víða haft meiri afleiðingar en hér á landi.“

Innanmein

En bíðum nú rétt aðeins við. Hvernig stendur þá á því að íslenska krónan fellur langt umfram aðrar myntir? Gengið, sem hefur verið í frjálsu falli, mælir hlutfallslega stöðu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Ef efnahagsvandin er bandarískur, hvernig stendur þá á því að íslenska krónan hefur hríðfallið gagnvart Bandaríkjadal undanfarið misseri?

Getur kannski verið að skýringa á illri stöðu krónunnar sé að leita í tilteknu innanmeini í hagstjórn undanfarinna ára? Og að til viðbótar bætist kerfisvandi við að halda úti minnsta gjaldmiðli í heimi sem hafður er á frjálsu floti í brotsjó hins alþjóðlega fjármálakerfis? Já, það skildi þó aldrei vera, að vandinn sé að mestu heimatilbúinn.

Fall ársfjórðungslega

Hvort tveggja er hægt að takast á við með stjórnmálalegum aðgerðum innanlands. Ekki aðeins hagstjórnina með almennilegu aðhaldi, heldur einnig peningastefnuna. Til að mynda mætti byrja á að skipa alvöru fagmenn í vel skilgreinda peningastefnunefnd, í stað þess að láta fyrrum stjórnmálamenn véla um peningamálin í rammpólitískum seðlabanka. En því miður hafa yfirvöld efnahagsmála frekar treyst á hagstjórn umvöndunar.

Fyrst voru erlendar greiningardeildir húðskammaðar fyrir að gera fáeinar athugsemdir við íslenskt efnahagslíf í ársbyrjun 2006. Næst var það Danske bank sem var sagður illa innrættur, og svo fengu alþjóðlegir vogunarsjóðir óbótaskammir fyrir að skjóta krónuna í kaf á fyrri hluta þessa árs. En nú er einna helst vandað um við viðskiptabankana sem virðast ekki kunna annað ráð til að bæta stöðu sína en að senda krónuna í góða dýfu í hvert sinn sem kominn er tíma á nýtt ársfjórðungsuppgjör. Svona, hættiði þessu vondu strákar, segja landsfeðurnir og búast til að slá á útrétta putta.

En því miður fyrir íslenskt launafólk, þá hlusta hnattvæddir fjármálafurstar voðalega lítið á skammir íslenskra stjórnmálamanna. Líkast til of uppteknir við að skoða netreikninginn sinn á Cayman-eyju.

24 stundir, 19. september 2008

laugardagur, 13. september 2008

Á höfuðið

Í þau fáu skipti sem maður fær að dvelja svolítið í útlöndum nennir maður ekki alltaf að fylgjast náið með fréttum á Íslandi, - jafnvel þótt aðgangur sé góður í gegnum net og farsíma.

Þegar ég kom heim í gær og opnaði fyrir fréttir útvarps var sagt frá innrás lögreglu inn á heimili hælisleitenda í Reykjanesbæ.

Ég get ekki sagt að það hafi komið mér sérlega á óvart en svo virðist sem löggæsluyfirvöld líti enn á hælisleitendur sem einskonar glæpamenn, allt þar til sakleysi þeirra er sannað.

Lögreglan segist hafa grunað fáeina hælisleitendur um græsku og ákvað af þeim sökum, að eigin sögn, að ráðast einnig inn hjá öllum hinum, - sem þó lágu ekki undir neinum rökstuddum grun. Hér er einni mikilvægust réttarreglu lýðræðisríkja, að menn skuli álitnir saklausir þar til sekt þeirra er sönnuð, snúið á höfuðið. Eða hvernig er annars hægt að skýra þá ákvörðun að gera húsleit hjá heilum hópi manna vegna gruns um mögulegt brot óviðkomandi fólks?

Hvað myndu menn til að mynda segja ef lögreglan myndi ráðast inn heimili allra Reyðfirðinga, svo dæmi sé tekið, vegna þess eins að tilteknir einstaklinir í bænum lægju undir grun um ótilgreind afbrot?

fimmtudagur, 11. september 2008

Kannski ég fari að koma mér heim

Ég hef að vísu ekki gert á því nákvæma vísindalega rannsókn en einhvern vegin finnst mér eins og að krónan falli í hvert sinn sem ég fer til útlanda.

Veit þó ekki hvers vegna.

Nú er ég í Brussel og krónan búin að taka enn eina dýfuna. Kannski ég fari að koma mér heim.

föstudagur, 5. september 2008

Miriam Weber

Það var gamlárskvöld og 1969 um það bil að ganga í garð. Hún var í lestinni á leiðinni heim til sín í Leipzig þegar hún tók eftir hvað landamærin voru óvanalega útbúin á þessum stað. Skipuleggjendur í gamla Austur-Þýskalandi pössuðu sig yfirleitt á að láta lestarlínur ekki liggja nálægt landamærunum við Vestur-Þýskaland og alls ekki upp að Berlínarmúrnum sem þeir kölluðu raunar aldrei annað andfasíska friðarskilrúmið.

Undantekningin var hérna við Bornholmer brú í útjaðri Berlínar þar sem landamærin láu formlega á milli lestarlínanna. Það var dimmt en í geislum skoteldanna á vesturhimni sá hún að handan grænmetisgarðana sem útvaldir fengu að rækta tók við vírahrúga og steypuklumpar og svo sjálfur múrinn. Vanalega var heilmikill vírveggur austanmegin, svo kom dauðasvæðið með öllum sínum banvænu hindrunum og svo loks steinsteyptur múr sem var ysta lagið mót vestri. Þann múr gat hún semsé séð í gegnum lestargluggann.

Hún steig út úr lestinni, fikraði sig niður að grænmetisgörðunum, klifraði yfir grindverkin sem skildu grænmetisgarðana að og fikraði sig nær múrnum sem var í um það bil hundrað og fimmtíu metra fjarlægð. Í raun var hún heppin að vera ekki handtekin þá þegar því landamæraverðirnir voru allt um kring, gráir fyrir járnum. En það var fyrst núna sem hún tók eftir þeim gangandi eftir dauðasvæðinu með hundana sína.

Fyrir utan landamæraverðina og hungraða hunda stóð í vegi hennar himinhátt limgerði, ljóskastarar sem færðust óreglulega til eftir svæðinu, upprúllaður gaddavír á trjádrumbum og loks djúpa sendna svæðið sem lá upp að vesturmúrnum. Einhvernvegin tókst henni að troða sér yfir þéttriðið limgerðið og fikra sig svo út á sandinn. Hún fór sér hægt svo verðirnir yrðu hennar ekki varir og skreið yfir hverja hindrunina á fætur annarri og var komin alla leið upp að múrnum þegar þeir sáu hana. Hún sá ljósin og heyrði glasaglauminn vestan megin áður en hún var send rakleiðis aftur í fangelsið.

Óvinur ríkisins

Miriam var aðeins sextán ára gömul og þá þegar orðin að óvini ríkisins, eins og Anna Funder segir svo vel frá í bók sinni Stasiland. Af ótta við samskonar upplausn og varð í Prag vorið 1968 hófu austurþýsk stjórnvöld að herða tökin, ekki síst í Leipzig þar sem Miriam bjó. Öryggislögreglan réðist meðal annars til atlögu við gömlu háskólakirkjuna í miðborginni sem einn daginn var jöfnuð við jörðu, andófsmenn voru handteknir og eftirlit hert til muna.

Miriam og Ursula, vinkona hennar, voru engir sérstakir andkommúnistar en þær vildu gjarnan mótmæla aðför stjórnvalda að tjáningarfrelsinu og öðrum mannréttindum og útbjuggu í þeim tilgangi lítinn bækling sem þær hengdu upp á ljósastaura í hverfinu sínu og dreifðu í hús eina nóttina. Í bréfinu hvöttu þær íbúa Leipzig að láta í sér heyra og gera athugasemdir við framferði stjórnvalda.

Þetta var auðvitað kolólöglegt athæfi og brátt bárust böndin að þeim stöllum. Skömmu síðar voru þær handteknar og færðar í fangelsi þar sem þær máttu dúsa í einangrun mánuðum saman þar sem þær voru beittar grimmilegu harðræði. Enginn fékk að heimsækja þær, fengu ekkert að lesa og ekkert að sjá annað en miksunarlitla fulltrúa ríkisins. Og aldrei að hringja. Því var kannski ekki nema von að Miriam skildi hafa freistast til að klífa múrinn þegar hún sá tækifæri til þess skömmu eftir að hún losnaði úr fangelsinu.

Eftir uppákomuna átti hin sextán ára Miriam fáa möguleika á að finna hæfileikum sínum viðnám, meinað að stunda háskólanám með félögum sínum og fékk hvergi vinnu nema í ömurlegustu skítastörfum og lifði svo það sem eftir var undir stöðugu eftirliti öryggisþjónustu austurþýska alþýðulýðveldisins, - allt þar til að múrinn var rifinn niður að kveldi dags 9. nóvember 1989.

24 stundir, 5. september 2008.

þriðjudagur, 2. september 2008

Óvéfengjanleg sérstaða þjóðarinnar

Það voru semsé tvær greinar sem birtust eftir mig í Tímariti um félagsvísindi / Bifröst Journal of Social Science fyrir helgi. Sú fyrri var um þjóðernishugmyndir Íslendinga og afstöðuna til Evrópu (sjá fyrri færslu) en sú síðari er undir titlinum Óvéfengjanleg sérstaða þjóðarinnar: greining á þingræðum í aðdraganda EFTA-aðildarinnar 1970.

Útdrátturinn er svona:

Deilan um tengsl Íslands við Evrópusamrunann hefur verið meðal helstu álitaefna í íslenskum stjórnmálum. Hér er umræðan í aðdraganda EFTA-aðildarinnar, sem varð árið 1970, tekin til skoðunar. Þrátt fyrir að þingmenn hafi gjarnan leitast við að beita fyrir sig efnahagslegum rökum þá var einnig stutt í röksemdir sem öllu heldur tengdust hugmyndum um fullveldi þjóðarinnar og sérstöðu landsins. Röksemdir sem vísuðu til sjálfstæðisbaráttunnar og íhaldssamra hugmynda um þjóðinna urðu þannig eins konar undirlag undir efnahagsrökin. Þetta átti jafnt við um þá sem töluðu fyrir og gegn EFTA-aðild.

Greinin í heild er hér.

mánudagur, 1. september 2008

Þjóðernishugmyndir Íslendinga og ...

Nýverið birtust eftir mig tvær greinar í fræðiritinu Tímarit um félagsvísindi / Bifröst Journal of Social Science. Sú fyrir heitir Þjóðernishugmyndir Íslendinga og afstaðan til Evrópu.

Útdrátturinn er svona:

Íslenska þjóðernisstefnan sem varð til á nítjándu öld og fyrri hluta tuttugustu aldar var sumpart frábrugðin þeirri sem þróaðist víðast hvar annars staðar í Evrópu í kjölfar upplýsingarinnar. Íslenska þjóðríkið var að vissu leyti frekar grundvallað á sjálfstæði þjóðarinnar og einkar sterkri þjóðerniskennd heldur en á rétti einstaklinga. Eigi að síður var sjálfstæðisbarátta Íslendinga órofa hluti af alþjóðlegri þróun. Óttinn við að glata fullveldinu hefur allar götur frá því að fullveldið fékkst litað íslenska stjórnmálaumræðu og þjóðernisstefnan hefur gegnt lykilhlutverki í íslenskum stjórnmálum. Ekki síst sökum þessarar sérstöku þjóðernisstefnu getur verið erfitt fyrir íslenska stjórnmálamenn að tala fyrir aðild að Evrópusambandinu.

Greinin í heild er hér.

fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Furðulegt fargjald

Nokkuð hefur verið rætt um ferðakostnað fyrirmenna þjóðarinnar á Ólympíuleikana í Peking. Sérstaka athygli vekur hvað dýr farakostur hefur verið valinn. Í tilfelli menntamálaráðherra kostaði fyrri ferðin nokkuð á fimmta hundrað þúsund og síðari nokkuð á sjö hundruð þúsund króna. Í báðum tilfellum var um að ræða farmiða báðar leiðir í gegnum Kaupmannahöfn.

Mér datt í hug að skoða þetta og sá á www.sas.is að hægt er fá miða fram og til baka frá Reykjavík til Pekíng á kr. 141.920 ef pantað er nokkuð fram í tímann, til að mynda dagana 22. til 29. september. Þurfi maður hins vegar að fara með skömmum fyrirvara, til að mynda næsta mánudag og vera fram á miðvikudag kostar miðinn kr. 244.330. Líka báðar leiðir með millilendingu í Kaupmannahöfn.

Það þarf ekki mikla snilli til að sjá að þarna munar ansi miklu. Raunar er fargjaldið sem ráðuneytið valdi margfallt dýrara heldur en þyrfti að vera. Ég vona að fyrirfólkið okkar hafi notið mismunarins í góðu yfirlæti á þessum ferðum sínum.

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Aðili

Það virðist ágerast að stjórnmálamenn vísi til fólks, jafnt einstaklinga og hópa, sem aðila.

En hvenær verður maður aðila?

Þar er efinn!

föstudagur, 22. ágúst 2008

Sex hundruð ár

Ég er ekki viss um að Ísland verði starfhæft í dag, í það minnsta ekki í hádeginu þegar karlalandssliðið í handbolta mætir Spánverjum í undanúrslitum. Fólk er í óða önn að fresta fundum og melda sig veikt í vinnu, þar að segja ef vinnuveitandinn hefur ekki verið svo forsjáll að koma upp boðlegum flatskjá á vinnustaðnum.

Og forsjánni sé lof fyrir handboltabrjálæðið sem gripið hefur þjóðina því annars er næsta víst að þessi pistill færi í að ræða málefni borgarstjórnar Reykjavíkur, sjálfum mér og lesendum til sárra og óblandinna leiðinda. Rétt að þakka fyrir það.

Erfitt samband

Mér skilst að skólasetning grunnskóla sé víða í uppnámi vegna leiksins. Börnin láta ekki teyma sig í skólann þegar Óli og félagar láta fallbyssurnar falla úti í Peking. Annars hafa tengsl handboltalandsliðsins við þjóðina alltaf verið dálítið erfið. Þegar vel gengur eru þeir strákarnir okkar, bestu synir þjóðarinnar, hvers manns hugljúfi og nöfn þeirra á allra vörum. Bláókunnugt fólk ræðir um Snorra Stein, Ólaf og þennan ótrúlega markvörð eins og um nána fjölskyldumeðlimi sé að ræða. Eins og þeir séu heimagangar á hverju einasta heimili á Íslandi.

En þegar illa árar hefur enginn áhuga á liðinu. Þá látum við okkur fátt um finnast og teljum okkur trú um að þetta sé nú ekki svo ýkja merkileg íþrótt. En nú eru þeir semsé aftur orðnir strákarnir okkar og sjálfur forsetinn mærir þá í beinni í sjónvarpinu á daginn og strýkur þeim svo um kviðinn áður en þeir fara að sofa á kvöldin. Segir sögur af heljarmennum og syngur þá í svefn með gömlum ættjarðarsöngvum.

Næturlífið

Sjálfur get ég ekkert í handbolta, náði aldrei almennilegu valdi þessari íþrótt í leikfimitímum í Breiðholtinu í gamla daga. Samt hefur blóðþrýstingurinn sjaldan verið jafn hár og yfir sjónvarpinu undanfarna dag. Ríf mig upp á undarlegustu tímum sólarhringsins og læt öllum illum látum í klukkutíma eða svo. Heimilið hefur eiginlega verið undirlagt. Börnin hafa auðvitað heimtað að fá að vaka yfir leikjunum.

Níu ára sonur minn sefur yfirleitt svo fast að hann gæti misst af heilu heimstyrjöldunum yrðu þær um nætur, jafnvel þótt þær væru háðar í herberginu hans. Eigi að síður spratt hann á fætur þegar ég vakti hann um miðja nótt til að horfa á Ísland eiga við Egypta, - sem hann kallar raunar aldrei annað en múmíurnar en það er önnur saga. Og heimasætan sem vanalega getur ekki fyrir sitt litla líf vaknað á morgnanna lét sig ekki vanta í morgunmatinn skömmu fyrir sex á miðvikudagsmorgun til að hita upp fyrir lætin á móti Pólverjum.

Ólöglegt

En allra verst leið mér á móti Dönum. Spennan var ekki aðeins óbærileg eins og stundum er sagt, um tíma hélt ég að hjartað ætlaði hreinlega að hrökkva upp úr kokinu og æðarnar að slitna úr höfðinu. Konan var eitthvað benda mér á að þetta væri nú bara íþróttaleikur en ekki barátta upp á líf og dauða, ég ætti því bara að slaka á og njóta leiksins. Kannski fá mér te og osta.

En í því efni hafði hún auðvitað kolrangt fyrir sér. Auðvitað var þetta upp á líf og daða. „Þetta er sko ekki bara einhver íþróttaleikur,“ öskraði ég á hana. „Hér er sex hundruð ára nýlendukúgun undir,“ æpti ég í frávita æsingi. „SEX HUNDRUÐ ÁR,“ hélt ég áfram að hrópa og steytti hnefann í átt að sjónvarpinu. Já þetta er ekkert grín. Réttast væri að setja í lög að það sé bannað að tapa fyrir Dönum.

24 stundir, 22. ágúst 2008.

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Hrein torg, fögur borg

Ég er ekki frá því að það eina sem fráfarandi borgarstjóri gerði af almennilegu viti var að ráða Jakob Frímann Magnússon sem Miðborgarstjóra. Allavega er miðborgin mun betur hirt en áður, veggjakrot á undanhaldi og færri hús í niðurníðslu. Ég myndi ráðleggja Sjálfstæðismönnum að halda í Jakob og Græna herinn hans.

Mannval

Hefur engum dottið í hug að vandræðagangurinn í borginni sé hreint og beint vegna þess að borgarstjórnin sé óvanalega illa mönnuð þetta kjörtímabilið?

föstudagur, 8. ágúst 2008

Við borgum, já við borgum

Það var ekki laust við að nokkurrar undrunar hafi gætt í skrifum breska stórblaðsins, The Financial Times, á dögunum þegar blaðið ræddi uppgjör íslensku viðskiptabankanna. Þrátt fyrir efnahagsdýfu á alþjóðavísu skiluðu allir þrír viðskiptabankarnir góðum hagnaði. Að vísu ekki sama fítonshagnaði og áður, en eigi að síður nokkuð traustri afkomu. Og það kom sérfræðingum Financial Times semsé svona mjög á óvart. En áður hafði farið fram á síðum blaðsins nokkuð óvægin umræða um íslenskt efnahagslíf, á sumum þeirra skrifa mátti jafnvel skilja að íslensku bankarnir væru á þráðbeinni leið á höfuðið.

Einlæg undrun

Fréttin í blaðinu um daginn var ekki aðeins einhvers konar feginleikaandvarp, þegar uppgjör bankanna sýndu svart á hvítu fram á að staðan væri mun betri en menn óttuðust, heldur mátti einnig greina í skrifunum einlæga undrun. Hvernig gat það staðist, spurði blaðið, að þrátt fyrir fjölmargar arfaslakar og rándýrar fjárfestingar haldi bankarnir enn sjó? Það var illt að skilja. Blaðamennirnir áttu greinilega von á að æðibunugangur íslensku útrásarbankanna myndi koma þeim illilega í koll nú þegar alþjóðlega lánsfjárkrísan var farin að bíta fastar í grunnstoðir fjármálafyrirtækja út um allan heim. Sér í lagi þar sem svo margir voru hættir að geta greitt af ofgnóttarlánum þeim sem bankarnir otuðu að fólki og fyrirtækjum í uppsveiflunni. Og svo, þegar hrun krónunnar bættist ofan í kaupið áttu blaðamenn Financial Times semsé ekki von á góðu. Ekki frekar en greiningadeildir matsfyrirtækja um víða veröld. Já, hvernig gat þetta staðist?

Óskiljanlegt

Það getur vel verið að sprenglærðir fjármálaspekúlantar úti í hinum stóra heimi eigi erfitt með að skilja þetta. Maður sér þá fyrir sér í teinóttum fötum, í glerjaðri hornskrifstofu með útsýni yfir Thames eða Hudson, lagandi á sér hnausþykkan bindishnútinn og klóra sér í kollinum yfir útkomunni. Hér eru öll efnahagslögmál á haus. En við, almennir íslenskir skuldarar, sem fátt höfum lært í fínni fræðum fjármálanna, við skiljum þetta hins vegar mætavel. Það erum nefnilega við sem borgum. Það erum við sem höldum bönkunum á floti. Við erum hinar traustu stoðir íslenska fjármálakerfisins. Og alveg sama hvað þeir sukka og svína, hvað þeir fjárfesta vitlaust og fljúga margar ferðir á einkaþotunum sínum, á meðan við borgum er þeim borgið.

Ólán

Ég skal taka dæmi. Fyrir tæpum þremur árum keyptum við hús. Bara svona ósköp venjulegt hús sem meðalfjölskylda á meðalaunum í Reykjavík þarf að hafa yfir höfuðið. Og til þess þurfti lán. Töldum okkur þó ansi góð eiga fyrir sirka helmingnum. En restin var tekin að láni. Þeir sögðu að þetta væri alveg voðalega gott lán. Lágir vextir og svakaþæginlegar afborganir. Fengum útprentaða áætlun um greiðslur næstu þrjátíu árin, upp á krónu alla 360 mánuðina. Við létum því slag standa, skrifuðu undir með bros á vör og fluttum inn. Og á hverjum mánuði fær bankinn sitt. Fyrstu mánuðina gekk áætlunin nokkurn vegin eftir en smám saman fóru afborganirnar að hækka, fyrst örlitið í hverjum mánuði en svo fóru þær að taka tugþúsunda stökk. Og ekki nóg með það, nú skuldum við bankanum fjórum milljónum meira heldur en þegar lánið var tekið fyrir tæpum þremur árum. Bölvað ólánið lækkar ekki með hverri afborgun eins og í öllum venjulegum löndum heldur hækkar það í hverjum einasta mánuði.

Kannski ekki nema von að fínir fjármálamenn í útlöndum eigi erfitt með að skilja velgengni íslensku ólánabankanna. Það skiljum við hins vegar mæta vel og höldum svo bara áfram að borga.

24 stundir, 8. ágúst 2008.

fimmtudagur, 31. júlí 2008

Iceland express bætir ekki skaðann

Um daginn sagði ég hér á síðunni frá vandræðum mínum vegna seinkunnar á flugi Iceland express til London. Nálega tíu tíma seinkunn varð til þess að ekkert varð af fundi sem ég hafði skipulagt með kollegum sem komu sérstaklega frá meginlandi Evrópu. Þeir voru farnir þegar ég loks kom. Því fór ég fram á að Iceland express myndi koma mér á nýjan leik til London án frekri útgjalda, svo hægt yrði að halda fundinn.

Skemmst er frá því að segja að flugfélagið sá enga ástæðu til þess. Ég þarf því að bera tapið af seinkunn Iceland express alfarið sjálfur. Þeir vita væntanlega sem er að ég þarf hvort eða að kaupa annan miða og það er aðeins um tvo kosti að velja.

föstudagur, 25. júlí 2008

Snertu nefið með fingri eða vasaklút

Menn hafa löngum haft löngun til að vita sitthvað um náungann, athuga hvað hann aðhefst. Sumir eru meira að segja haldnir svokallaðri gægjuhneigð. Í gegnum tíðina hafa ríki heims haft mismikinn áhuga á að hafa eftirlit með þegnum sínum. Þrátt fyrir einstaka símhleranir í kalda stríðinu hefur íslenska ríkið sem betur fer ekki verið jafn illa haldið og sum önnur af þeim skæða samfélagssjúkdómi sem eftirlitsáráttan er. Að minnsta kosti ekki hingað til.

Eins og önnur lýðræðisríki Vesturlanda hefur íslenska ríkið byggt á hugmyndinni um frelsi einstaklingsins, að ríkið eigi ekki að vera ofan í hvers manns koppi. Þetta hefur þó verið ögn að breytast. Eftir atburðina í Bandaríkjunum 11. september 2001 hafa stjórnvöld sumra Vesturlanda nefnilega fengið snaraukinn áhuga á hvers konar eftirliti. Allra handa njósnum. Svo virðist sem um fjölþjóðlegan faraldur sé að ræða, slík hefur útbreiðsla eftirlitsvírusins orðið síðustu ár. Sífellt er verið að auka við eftirlit með einstaklingum. Varla hægt að ferðast lengur.

Eftirlitssveitir

Undanfarnar tvær vikur hef ég verið á dulitlu ferðalagi. Frá Íslandi, til Englands, yfir til Berlínar og svo aftur í gegnum London til Slóveníu. Á þessu stutta ferðalagi hef ég í ekki færri en tuttugu skipti þurft að sanna með opinberum pappírum að ég sé ég, ellefu sinnum farið í gegnum vopnaeftirlit. Farið úr skónum, tekið af mér beltið og snúið mér í hring; allt til að þóknast fjölmönnum eftirlitssveitum Vestrænna lýðræðisríkja. Látið hirða af mér bæði raksápu og hársápu (sic!) Og hafi hafi nokkurt yfirvald virkilega áhuga, sem mér er raunar til efs, er líkast til hægt að kortleggja ferðir mínar, neyslu og lifnaðarhætti með upplýsingum úr farsíma, tölvu og greiðslukortum.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki farið varhluta af þessu nýtilkomna eftirlitsæði. Til að mynda er það nokkuð reglulegur viðburður að dómsmálaráðherra boði aukið eftirlit. Nýjasta áætlunin er að setja á fór einhvers konar öryggisgreiningardeild ríkisins, eitthvað þjóðaröryggisbatterí. Mér dettur ekki í hug að líkja því apparati við Öryggisþjónustu Austur-Þýska alþýðulýðveldisins, STASI, en hlutverkið er samt það sama. Að vernda öryggi þjóðarinnar/ríkisins með forvirkum rannsóknarúrræðum, eins og íslenski dómsmálaráðherran hefur þýtt það hugtak. Hins vegar, þegar ég var að skoða mig um í Berlín núna í vikunni , fór ég að velta fyrir mér hvernig svona eftirliti yrði háttað.

Strjúktu hár

Í höfuðstöðvum STASI við Normannenstrasse í Austur-Berín, sem nú hefur verið breytt í safn, er að finna leiðbeiningarblað sem STASI-liðar notuðu við eftirlisstörf á vettvangi, svo þeir gætu komið skilaboðum sín á milli. Ég vona svo sannarlega að neðanfylgjandi leiðbeiningar Austur-þýsku öryggisþjónustunnar komi þeirri íslensku ekki að nokkru einasta gagni. En þær voru svona:

1. Passaðu þig! Viðfangsefnið er að koma.
- Snertu nefið með fingri eða vasaklút.

2. Viðfangsefnið heldur áfram, fer lengra, eða fer frammúr.
- Strjúktu hár með hönd, eða lyftu hatti á höfði örlítið.

3. Viðfangsefnið stendur kyrrt.
- Legðu aðra hönd á bak eða maga.

4. Eftirlitsfulltrúi vill hætta eftirliti þar sem gervi hans er ógnað, hætta á að upp um hann komist.
- Beygðu þig niður og reimaðu skónna upp á nýtt.

5. Viðfangsefnið snýr við, kemur aftur.
- Settu báðar hendur á bak eða maga.

6. Eftirlisfulltrúi vill ræða við liðsforingja á vakt eða aðra eftirlitsfulltrúa sem taka þátt í eftirlitsverkefninu.
- Taktu fram skjalatösku eða álíka og skoðaðu innihald hennar.

24 stundir, 25. júlí 2008.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Evrópa, hnötturinn og alíslensk þjóð

Ég er semsé kominn til Lubljana, á fræðiráðstefnu um hnattvæðingu- og alþjóðastjórnmál. Í fyrramáið mun ég flytja fyrirlestur um áhrif þjóðernisstefnu á stöðu Norðurlandanna í Evrópusamstarfi, sér í lagi út frá Íslandi. Fyrirlesturinn byggir á grein sem birt er í tengslum við ráðstefnuna. Ég finn nú þegar að það er töluverður áhugi á efninu en hér eru samankomnir margir helstu fræðimenn á sviði hnattvæðingar- og alþjóðastjórnmála. Greinin er hér, en úttdráturinn fylgir að neðan:

The Nordic countries have continued to be amongst those who have shown the greatest wariness of the European integration process, but at the same time all of them have shown a keen interest in an ongoing close relationship with Europe, albeit in varying forms. This paper studies why Iceland has chosen not to be part of the EU institutions, and looks at the different paths of the Nordics in the European project. Iceland is the only one of the Nordic five that has never applied for EU membership. Iceland's entrance into the European Economic Area (EEA) in 1994, however, resulted in its becoming an associated member of the EU.

Despite the fact that Iceland is officially outside the European Union, it nonetheless continues, through the EEA, and later also the Schengen agreement, to participate actively in the European project. In fact, it can be argued that in some aspects Iceland is more deeply involved in the European integration process than some of its official members.

The question then remains: why does Iceland accept real transfer of decision-making to Brussels through the EEA but not full membership of the EU? In this paper a post-structuralist examination of the construction and constellation of Icelandic nationality and importance of sovereignty is used to tackle the above question.

Lesa áfram hér.

mánudagur, 21. júlí 2008

Berlín-Lubljana

Veðrið hér í Berlín hefur ekki verið neitt sérstakt undanfarið. Hvorki heitt né kalt. Lítið sést til sólar en ekki heldur nein úrkoma að ráði. Raunar fullkomið veður fyrir mann sem hvort eð er situr sem fastast við skriftir.

Á morgun fer ég svo áfram til Ljubljana. Verð á þessari ráðstefnu, ef einhver hefur áhuga á að kynna sér efni hennar.

Þrátt fyrir augljóst landfræðilegt óhagræði þarf ég að millilenda á Standsted flugvelli, sem ég hlakka nú ekkert sérlega til. En svona er það víst, þegar maður á hvorki einkaflugvél né almennilega þyrlu.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Lundúnir og evrumál

Iceland express skilaði mér hingað til London, rétt eftir að fundi þeim sem ég ætlaði á lauk og kollegar mínir héldu heim á leið. Við tók ágætis rölt í borginni, fann til að mynda margar áhugaverðar bækur sem ég þarf að drösla með mér það sem eftir er af ferðalaginu. Síðar í dag fer ég til Berlínar og svo áfram til Lubljana þar sem ég er með grein og erindi á ráðstefnu um rannsóknir í alþjóðafræðum. Þetta er raunar viðamesta fræðiráðstefna heims á sínu sviði, þar að segja alþjóðafræðum og hnattvæðingu. Ég á að fjalla um norræna þjóðernishyggju.

Björn Bjarnason er heldur óljós í málflutningi sínum um upptöku evru á grundvelli EES. Það hefur lengi verið vitað að ómögulegt er að fá tvíhliða samning við ESB um upptöku evru, hvað þá ef með á að fylgja aðild að Efanhags- og myntbandalagi ESB eins og Valgerður Sverrisdóttir lagði eitt sinn til. EMU verður ekki skilið frá ESB.

Hins vegar gæti verið tæknilegur möguleiki á því að fá einhvers konar aðild að undirbúningsferlinu í ERM II. Sem er samskonar staða og Danmörk er í gagnvart evrunni. ERM II er kerfi sem tengir gjaldmikil viðkomandi ríkis við evru á tilteknu gengi en leyfir því að sveiflast um afar þröngt miðgildi. Danska krónan er því einskonar skuggaevra, - hreinlega ekkert annað en ávísun á evru.

Vandi okkar er þó sá sami og áður. Ísland er ekki í Evrópusambandinu og því ansi fjarlægur möguleiki að ESB fallist á að hleypa okkur inn í ERM II. Svo væri þetta nú ansi furðuleg staða fyrir fullvalda þjóð sem ekki vill vera í ESB. Eigi að síður mætti svo sem láta á þetta reyna ef menn hafa virkilega áhuga á svoleiðis æfingum.

sunnudagur, 13. júlí 2008

Messufall hjá Iceland express

Nokkrar fréttir hafa verið af seinkunum og jafnvel niðufellingu á flugi hjá Iceland express undanfarið. Nú hef ég einnig orðið fyrir barðinu á þessum vanda félagsins.

Ég átti bókað far með Iceland express til London kl. 07:50 í morgun. Þegar ég vaknaði klukkan fimm í nótt beið mín í símanum skilaboð um að fluginu hafi verið frestað til 15.30 í dag. Ég er því enn hér heima en ætti með réttu að vera mættur á fund í London. Ég er raunar á leið til Berlínar en ætlaði að millilenda í London til að mæta á þennan fund sem var sérstaklega tímasettur með tilliti til minnar ferðaráætlunar. Aðrir koma inn frá Brussel en fara aftur í kvöld. Nú eru þau plön farin í vaskinn en samt stórefast ég um að þetta annars ágæta flugfélag sjái nokkra ástæðu til að bæta mér fjárhagstapið, líkast til um tvö hundruð þúsund krónur í heild, þar af um hundrað þúsund krónur hjá mér persónulega. Við skulum samt sjá til. Lengi er von á einum.

Þessi seinkun er að mér sýnist ekki tilkomin vegna óviðráðanlegra orsaka eins og það heitir heldur var morgunflugið einfaldlega sameinað síðdegisfluginu, líkast til vegna lélegrar bókunarstöðu. Þetta er semsé bara sparnaðaraðgerð hjá fyrirtækinu. En vonandi verður allavega ekki frekari seinkun á Londonfluginu. En við sjáum einnig til með það.

föstudagur, 11. júlí 2008

Múrinn

Múrar eru af ýmsu tagi, sumir hverjir ágætlega gagnlegir, til að mynda múrveggir í híbýlum manna sem vernda fólk fyrir óþæginlegu veðurlagi, en svo eru þeir sem eru reistir til að skilja fólk að. Til að slíta í sundur. Slíkir múrar hafa aldrei dugað til langframa og oftar en ekki gert það ástand verra sem átti að bæta. Berlínarmúrinn er líkast til sá frægasti, hugsanlega að Kínamúrnum undanskildum.

Enn í dag eru menn að reisa aðskilnaðarmúra. Í Ísrael er til að mynda verið að reisa múr sem heldur Palestínumönnum frá Gyðingjum. Múrinn sá arna slítur landsvæði Palestínumanna í sundur, þvert á eðlilegar skiptilínur samfélaga og bútar það niður í aðskilin gettó. Þar mega hinir óæðri húka í allri sinni ömurð. Þrátt fyrir auglósan blæbrigðarmun er samt ekki alveg fráleitt að líkja þessum gettóum við þau sem nasistar smöluðu Gyðingum í víðsvegar í Þýskalandi á fjórða áratugnum.

Evrópvirkið

Áhugi á múrverki er enn að finna víða í nútímasamfélögum. Forseti Bandaríkjanna er til að mynda sérlegur áhugamaður um himinháan múrvegg sem á að skilja Suður-Ameríku frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þvert eftir landamærunum að Mexíkó, allt frá Mexíkóflóa í austri og út í Kalíforníuflóa í vestri.

En múrar eru ekki aðeins hlaðnir úr áþreifanlegum steini, stáli eða steypu. Stundum eru þeir fólgnir í ókleifu regluverki sem skilur fólk í sundur. Evrópuvirkið svokallaða (e. Fortress Europa) er dæmi um slíkan múr sem leiðtogar Evrópuríkja hafa sammælast um að reisa utan um vestræn ríki velferðar. Yfir þennan múr komast fáir aðrir en sérlega vel fleygir fuglar, allra síst fátækt verkafólk frá Afríku. Evrópuvirkið var enda í upphafi reist því að halda Afríkubúum sem lengst frá velferðinni í norðri.

Lengst af var Miðjarðarhafið nánast eitt atvinnu- og verslunarsvæði. Illfær Sahara eyðimörkin skildi Norður-Afríku frá ríkjunum í suðri en hins vegar var auðvelt að sigla norður yfir Miðjarðarhafið, austur undir botn þess eða út í gegnum sundið í vestri. Sjófarendur voru hvergi beðnir um vegabréf en nú er bátum sem koma að sunnan umhugsunarlítið snúið til baka við virkisvegginn í Norðri.

Innflutt innflytjendastefna

Ein varðstöð Evrópuvirkisins er í Cannes í Frakklandi, en nú fyrr í vikunni komu leiðtogar Evrópusambandsins saman í þeim annars ágæta strand- og kvikmyndabæ og samþykktu að þráfluttri tillögu Frakklandsforseta að hækka Evrópumúrinn enn frekar. Evrópuvirkið verður semsé enn rammgerðara verði innflytjendapakki Frakklandsforseta endanlega staðfestur á ríkjaráðstefnu ESB í október, en frá því að Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti hefur hann sífellt verið að puða og juða við að koma á samræmdum reglum um meðferð innlytjenda og hælisleitenda í Evrópu. Nú hefur það semsé tekist, í það minnsta að hluta. Að vísu taka Evrópusambandsríki í heild enn við fleiri innflytjendum en Bandaríkin en sífellt þrengist um.

Fyrsti liðurinn í áætlun Frakklandsforseta er þegar í höfn en ný tilskipun mælir svo fyrir að nú má hafa innflytjendur í haldi í allt að átján mánuði, áður en þeim er snúið til baka til síns heima. Þá er ráðgert að nýta landamærasamstarfið í Schengen og Frontex-stofnunina til að samræma og herða eftirlit með innflytjendum en leiðtogar Evrópusambandsríkja eiga eftir að útfæra stefnuna endanlega.

Björn Bjarnason eða aðrir fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka ekki þátt í þeirri vinnu en við fyrstu sýn fæst ekki annað séð en að flestar tillögurnar séu á sviðum sem einnig ná til Íslands. Í október eigum við því von á glænýrri innflytjendastefnu, innfluttri beint frá Brussel.

24 stundir, 11. júlí 2008.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Misskilin reglugerð frá Dublin

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Útlendingastofnun, sem heyrir undir ráðuneytið, halda áfram að misskilja Dyflinar-reglugerðina um meðhöndlun flóttamanna. Reglan er nú hluti af Schengen-samningnum.

Þegar innra eftirlit var afnumið með Schengen-sáttmálanaum innan Evrópusambandsins árið 1997 (Ísland varð fullgildur aðili 2001) þurfti um leið að tryggja að málefni flóttamanna yrðu einhvers staðar meðhöndluð og brýnt þótti að koma í veg fyrir að ríki gætu sent flóttamenn fram og til baka eða áfram til annarra ríkja án þess að mál þeirra yrðu tekin til afgreiðslu og fría sig þannig ábyrð á flóttamannavandanum. Því var sett sú skylda á hendur þess ríkis sem flóttamaðurinn kemur fyrst til inn á svæðið að það verði að taka mál hans til skoðunar.

Þar með var komin sú heimild sem íslensk stjórnvöld vísa nú til, að unnt er að senda flóttamann til baka til þess ríkis í Schengen sem hann kom fyrst til.

Þessi skylda sem sett á herðar fyrsta ríkis til meðhöndlunar máls kemur hins vegar alls ekki í veg fyrir að annað ríki, til að mynda þar sem flóttamaðurinn er staddur, meðhöndli mál hans þótt hann hafi millilent annars staðar áður. Hér er einungis verið að tryggja að mál hans sé einhvers staðar meðhöndlað.

Á ensku er markmiðið orðað svona; "to avoid situations where refugees were shuttled from one Member State to another, with none accepting responsibility."

Nánar um Dyflinar-reglugerðina hér.

sunnudagur, 6. júlí 2008

Hælisleit í vikulok

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, gerir á bloggsíðu sinni athugasemd við greiningu mína á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda, sem fram hafði komið í fréttum Sjónvarps. Ég var spurður út í aðfinnsluefni Björns í Vikulokum Hallgríms Thorsteinssonar á Rúv í gær. Áhugasamir geta nálgast þáttinn og svar mitt við gagnýrni ráðherrans hér.

Með mér í þættinum voru Árni Helgason, framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og Birgir Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri.

föstudagur, 4. júlí 2008

Flóttamönnum sjálfkrafa vísað úr landi

Ég ræddi við fréttastofu sjónvarps í tíufréttum í gærkvöld. Fréttastofan óskaði eftir áliti á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda, í tilefni af því að Keníamanninum sem sótt hafði um pólitískt hæli á Íslandi var vísað úr landi án þess að mál hans hafði fengið efnislega meðferð hérlendis. Viðtalið er hér.

Sjá nánar um stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttamanna hér.

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Herðubreið: Hvað breytist raunverulega við aðild að ESB?

Nýverið birtist grein eftir mig í tímaritinu Herðubreið þar sem gerð er tilraun til að greina þann mun sem er annars vegar á EES og hins vegar á fullri aðild að ESB.

Inngangurinn er svona:

Stundum fylgir því dulítill vandi að ræða um Evrópumál á Íslandi. Ekki aðeins vegna þess að þekking á málaflokknum er almennt það lítil að auðvelt er fyrir slóttuga stjórnmálamenn að afvegaleiða umræðuna með röngum fullyrðingum og raunar hreinum og klárum blekkingum eins og stundum er gert heldur einnig vegna þess að Evrópuumræðan hér á landi fylgir göngulagi íslensku hagsveiflunnar nokkuð náið.

Þegar vel gengur í efnahagslífinu hafa fáir áhuga á Evrópumálum en þegar illa árar fara menn fyrst að velta fyrir sér kostum Evrópusamstarfs. Sú umræða sem nú stendur yfir gaus upp í kjölfarið á gengishruni íslensku krónunnar í febrúar 2006. Síðan þá hafa Evrópumál á Íslandi verið rædd á forsendum evrunnar, sameiginlegri mynt fimmtán Evrópusambandsríkja.

Eftir því sem erfiðleikarnir hafa aukist í efnahagslífnu hefur skertpst á Evrópuumræðunni og er nú svo komið að þrýstingurinn á upptöku evru í stað krónu er að verða óbærilegur að sumra mati. Vofa verðbólgu gengur nú ljósum logum um samfélagið og þurrkar upp peningaveski landsmanna á meðan ógnarháir vextir stigmagna skuldastöðu heimilanna á degi hverjum. Því er kannski ekki nema von að Evrópuumræðan sækir nú í sig veðrið sem aldrei fyrr.

Greinin í heild sinni er hér.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Eyjan og tíðarandinn

Vissulega tíðindi að Pétur Gunnarsson sé horfinn úr stýrisbrúnni á Eyjunni. Í raun er dálítð magnað hvað tekist hefur að gera þennan vef að öflugum fjölmiðli. Eiginlega upp úr engu. Veit að Eyjan er fyrsti viðkomustaður margra á daglegum vefrúnti.

En það er ekki síður merkilegt að Hallgrímur Thorsteinsson, margreindur fjölmiðlamaður, taki nú við ritstjórninni. Kannski er það til merkis um að vefmiðlar eru loksins orðnir alvöru fjölmiðlar, á pari við prent- og ljósvakamiðla.

Strikið.is var um liðin aldamót stórmerkileg tilraun til að búa til alvöru fjölmiðil á netinu, en var líkast til of snemma á ferðinni. Hvorki tæknin né tíðarandinn var tilbúinn. En Eyjan hefur hins vegar alla burði til að festa sig í sessi.

Við fylgjumst allavega spennt með.

föstudagur, 27. júní 2008

Kreppa á verðbólgnum jeppa

Það er komin kreppa. Eitt skýrasta merki þess er að útrásarvíkingarnir okkar hugumstóru og margrómuðu eru víst margir hverjir á leiðinni heim, - einn á eftir öðrum í halarófu yfir hafið. Það er meira að segja farið að sjást til þeirra sumra í Leifstöð enda ekki margir sem hafa getað endurnýjað leigusamninginn á einkaþotunni undanfarið hálft ár eða svo.

Um bæinn gengur sú flökkusaga á meðal manna að eitt megingoð íslensks viðskiptalífs hafi meira að segja sést á almennu farrými á leiðinni heim frá London um daginn. Svoleiðis hefur ekki sést lengi. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sem er raunar að mér skilst einn helsti vandinn: Íslensku fjármálafurstarnir fá nú ekkert selt á hærra verði en þeir keyptu á uppsprengdu verði í uppsveiflunni.

Skuldadans

Virði margra nýkeyptra fyrirtækja í útlöndum er orðið minna en ekki neitt. Í bókstaflegri merkingu, - útrásin var tekin út á krít og nú, þegar komið er að skuldadögum, fæst minna fyrir eignirnar heldur en nemur skuldsetningunni. Mér er sagt að nú sé svo komið að íslenska þjóðarbúið í heild sinni skuldi orðið meira í útlöndum heldur en við eigum utan landsteinanna. Útrásin er þar með komin á höfuðið. Úti er ævintýri, - eða allavega í biðstöðu.

Þeir eru margir hverjir ansi sárir, sem hafa barist í okkar nafni á blóðugum velli alþjóðaviðskiptanna undanfarin misseri. Fregir herma að sumir hafi nú þegar fallið í valinn, aðrir séu helsærðir en sem betur fer hafa einhverjir náð að verjast óvígum her hnattrænnar lausafjárskrísu. Og eru semsé nú á leiðinni heim að sleikja sárin og safna kröftum.

Fett og brett

En við blæðum öll fyrir. Líka þeir sem gerðu ekki neitt annað en að vinna sitt starf hér heima og sýna sömu fyrirhyggju og ráðdeild og alltaf. Verðbólgan étur upp launin eins og mölurinn forðum, vextirnir þurrka upp næfurþunn seðlaveskin og gengisfall krónunnar borar gat á alla vasa. Almenningur borgar fyrir óhóflegt samkvæmislíf nýju auðstéttarinnar, fyrir gleðskap sem þeim var ekki einu sinni boðið í. Og nú á mamma gamla í stjórnarráðinu og afi hennar í Seðlabankanum að koma glaumgosunum til bjargar.

Þeir segja að lækningin felist í að fá meiri pening frá útlöndum. Menn þurfa skammtinn sinn. En sú gamla veit ekki sitt rjúkandi ráð og fjasar bara um óviðjafnanlegan teygjanleika íslensku krónunnar. Sjáðu hvað hægt er að toga hana og teyja, sagði sú gamla hróðug á fundi London, sveigja hana og beygja, fetta og bretta. Út og suður. Og það þrátt fyrir ríflega þriðjungsfall á innan við hálfu ári.

Sólarsamba

Best haldna hálaunastétt landsins hefur enn og aftur hótað að loka landinu. Vonandi ná sem flestir heim fyrir verkfall flugumferðarstjóra. Voðalega vont að vera fastur í útlöndum með götótta krónu. Fríið er tekið heima í ár, en við komumst ekki einu sinni út á land því bensínið hækkar með hverjum keyrðum kílómetri. Akureyri er nú í tugþúsunda fjarlægð.

En okkur er svo sem sama, veðrið hefur nefnilega verið svo ósköp gott. Sólin er okkar Prosac og tilfinningarnar fá útrás fyrir framan skjáinn. Á EM og við að fylgjast með blessuðum ísbjörnunum sem hafa stytt okkur stundir í blíðunni. Og jarðsjálftinn maður, þá var stuð. En hvað svo? Hvað gerist þegar ísbirnir hætta að ganga á land, boltinn er búinn og sólin farin? Hvað ætla efnahagsmálayfirvöld þá að gera?

24 stundir, 27. júní 2008.

mánudagur, 23. júní 2008

Festum krónuna við ankeri

Sú tilraun sem gerð var í mars 2001 að setja krónuna á frjálst flot og stýra peningamálastefnunni eftir verðbólgumarkmiði hefur mistekist. Gjörsamlega. Langtímavandinn er ærinn og hann þarf vissulega að leysa en þangað til virðist mér eina ráðið í stöðunni að festa krónuna við ankeri, til að mynda að festa hana við evru á genginu 100. Þannig mætti rétta ástandið við til skamms tíma, á meðan yfirvöld greiða úr langtímastöðunni. Afleiðingarnar af virðishruni krónunnar eru einfaldlega of alvarlegar til þess að þeir sem véla um efnahagsmál í þessu landi geti áfram skellt skollaeyrum við.

föstudagur, 13. júní 2008

Fótboltastríð

Það er ekki komið hádegi á fimmtudegi en fiðringurinn er samt farinn að gera vart við sig. Uppgjörið hefst klukkan fjögur í dag þegar mínir menn, Króatar, mæta sjálfu Þýskalandi í leik sem getur ráðið úrslitum um hvort liðið kemst áfram. Ég þori ekki öðru en að skila þessum pistli inn vel fyrir leik, er nefnilega hræddur um að uppnámið geti orðið of mikið til skrifta ef reginskyttur Balkanskagans missa marks. Mínir menn eru vissulega snjallir á velli, boltaliprir og leikfimir með eindæmum en það verður að viðurkennast að þýska liðið er ekki árennilegt. Við munum hvernig Garry Lineker skilgreindi fótbolta: Tvö ellufu manna lið, einn bolti, - og svo sigra Þjóðverjar.

Óviðeigandi

Ég sá á bloggi félaga míns um daginn að hann kvartaði sáran undan stuðningi mínum við þá köflóttu og lagðist svo lágt að líkja leikmönnum Króatíu við tudda og dramadrottnignar, sagði þá spila með fautahætti og leikaraskap og dylgjaði svo að heiðri þjóðarinnar með því að blanda átökunum í Krajina inn í málið. Sem er auðvitað fullkomlega óviðeigandi. Sjálfur styður þessi ágæti vinur minn Hollendinga en virðist ekkert sjá athugavert við blóði drifna nýlendusögu Niðurlendinga sem aldrei hikuðu við að afhausa heiðvirða héraðshöfðingja út um allan heim ef það dugði þeim til frekara arðráns í þriðja heiminum.

Þrautsegja

Stuðningur minn við Króata á sér raunar dulitla sögu. Árið 1997 var ég á ferðalagi um landið ásamt félögum mínum í alþjóðlegum félagskap ungmenna (jú, ég var víst ungur þá) sem ætlaði að bjarga heiminum (ég er hættur því núna) og kynntist þá manni sem beinlínis bar átakasögu balkanskagans framan í sér, í hverri skoru í stórskornu andlitinu. Þetta var Stipe Mesic, síðasti forseti Júgóslavíu og núverandi forseti Króatíu.

Þegar fundum okkar bar saman gekk Stipe Mesic raunalega eyðimerkurgöngu í króatískum stjórnmálum en honum hafði sinnast við fornvin sinn Franjo Tudman sem honum fannst sýna full mikla einræðistilburði við stjórn landsins. Saman höfðu þeir stofnað Lýðræðisflokk Króataíu (HDZ) en þegar þarna var komið við sögu hafði Stipe klofið sig út úr flokknum og stofnað annan stjórnmálaflokk, Alþýðuflokkinn, sem mældist varla í fylgiskönnunum. Tudman hafði svo gott sem tekist að hlæja þennan gamla félaga sinn út úr stjórnmálum en allt kom fyrir ekki, Stipe Mesic reis upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix og eftir að hafa verið svo gott sem afskrifaður úr landsmálapólitíkinni var hann kjörinn forseti landsins í tvígang. Ég er að vona að einmitt þessi þrautsegja geti nú fleytt liðinu áfram á þeirri ögurstundu sem framundan er.

Grafalvarlegt

Í vikunni rifjaði Karl Blöndal í pistli í Morgunblaðinu upp þau fleygu ummæli að fótboltinn sé ekki leikur upp á líf og dauða, málið sé miklu alvarlegra en það. Og það er vissulega rétt. Lengst af logaði Evrópa í styrjaldarátökum en nú fer uppgjörið fram á knattspyrnuvellinum á fjögurra ára fresti. Vonandi geta stríðshaukar þessa heims lært eitthvað af því, til að mynda gætu leiðtogar Serbíu hér eftir látið duga að skora á Króata í fótboltaleik næst þegar grípur þá óbærileg löngun að ráðast inn i landið. En þetta er þó ekki alveg einhlítt, fótboltinn hefur nefnilega einnig reynst uppspretta átaka. Fótboltastríðið svokallaða braust til að mynda út milli Honduras og El Salvador eftir leik liðanna í undankeppni heimsmeistaramótsins í júlí árið 1969. Þetta er því ekki alveg áhættulaus iðja og ætti ekki að vera meðhöndluð af léttúð.

24 stundir, 13. júní 2008.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Rétt trú og röng

Ég er ekki frá því að það sé farin að verða einhvers konar rétttrúnaður í þjóðmálaumræðunni að vera á móti pólitískum rétttrúnaði.

sunnudagur, 8. júní 2008

Ágætis byrjun

Króatarnir byrja ágætlega, unnu heimamenn í fyrsta leik og leikur liðsins nokkuð traustur, þótt úthaldið hafi kannski ekki verið alveg nógu gott.

Gaman að sjá hvað Ivica Olic kemur feiknafrískur til leiks.

Veit á gott.

laugardagur, 7. júní 2008

Áfram Króatía

Þá er veislan að hefjast. Mínir menn, Króatar, leika sinn fyrsta leik á morgun, gegn Austurríki, öðrum gestgjöfum keppninnar.

Ég hef haldið með Króötum síðan 1997 þegar ég var á ferðalagi um landið og féll fyrir landi og þjóð. Ekki skemmir fyrir að þá kynntist ég manni sem stóð í ströngu í stórnarandstöðu og naut lítils fylgis, gekk hálfgerða eyðimerkugöngu í króatískum stjórnmálum á þeim tíma. Sá heitir Stipe Mesic og varð síðar forseti Króatíu og er enn, áður hafði hann verið síðasti forseti gömlu Júgóslavíu. Ég kynntist Stipe í gegnum góðan vin minn, Vladimir Prawn, sem þá var aðstoðarmaður hans. Það er því ekki hægt annað en að halda með Króötum, sér í lagi þar sem Danir eru ekki með að þessu sinni.

Ég á von á að Króatar muni standa sig vel og hafa alla burði til að velgja stóru þjóðunum undir uggum.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Dvergurinn og hafið

Willem Buiter, hinn frægi prófessor við LSE í London, segir að Bretland sé eins og Ísland, einn risastór vogunarsjóður og að breska pundið sé orðið of lítið fyrir hið risavaxna fjármálakerfi Bretlands, sem þó sé hlutfallslega minna en íslenska fjármálakerfið.

Buiter ritar áhugaverða grein í FT, þar sem staða Bretlands og Íslands er meðal annars borin saman við Ameríku og evrusvæðið.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Ísbjarnarblús

Einar sonur minn er æfur af reiði yfir að ísbjörninn skuli hafa verið felldur í gær. Þótt hann sé aðeins átta ára er hann alveg klár á að ekki hafi þurft að drepa dýrið, segir að það hafi einfaldlega átt að svæfa björninn og fylgja honum svo heim til sín.

Því er er hér með komið á framfæri.

föstudagur, 30. maí 2008

Eftirlaunaósóminn

Þingmenn fóru í frí í gær, (það stóð í það minnsta til þegar þetta er skrifað um hádegisbil á fimmtudag). Langþráð frí eftir þrautavetur þegar efnahagslífið fór í steik og kreppan sprakk framan í andlitið á almenningi. En nú er sumarið semsé framundan og bara að ákveða hvert skuli halda, enginn lengur til að kvabba undan sérdeilis fínum eftirlaunaréttindum sem áfram tókst að verja. Þetta hafði verið nokkuð strembin varnarbarátta.

Fyrst um sinn dugði að halda málinu í skefjum með lagaþrætum - hefðbundinni þrætubókarlist - einfaldlega staðhæft að ósóminn væri stjórnarskrárvarinn og því engu hægt að breyta. Það er annars merkilegt hvað einfaldir hlutir geta flækst fyrir þingmönnum þegar kemur að þeirra eigin kjörum. En bölvuð konan, hún Valgerður Bjarnadóttir, varaþingmaður gaf sig ekki og flutti frumvarp sem var svo ósvífið að eftirlaunaréttindi þingmanna hefðu nálgast ískyggilega það litla sem almenningur þarf að sætta sig við.

Varnar-Birgir

Þvílíkum hörmungum þurfti auðvitað að verjast og varnaráætlunin sett í hendurnar á Birgi Ármannssyni formanni allsherjarnefndar. Varnar-Birgir tók varðhlutverk sitt grafalvarlega, stakk málinu umsvifalaust ofan í skúffu og læsti með lyklinum sem Davíð gaf honum á sínum tíma. Birgir varðist síðan fimlega öllum atlögum Valgerðar, fjölmiðla og almennings við að veiða frumvarpið upp úr skúffunni. Lét sko ekki plata sig til að ræða það í nefndinni.

Á endanum kom nefndarformaður allsherjarnefndar Alþingis í sjónvarpsviðtal og útskýrði fyrir þjóðinni að almennir þingmenn hefðu auðvitað ekkert með það að gera að leggja fram lagafrumvörp, því myndi frumvarp Valgerðar áfram sitja á botni skúffunar og safna ryki eins og til stóð. Það væri nefnilega í höndum framkvæmdavaldsins að ákveða þau lög sem löggjafinn samþykkir. Mörgum þótti þetta óvenju hressandi hreinskilni af þingmanni að vera.

Samtryggingarkerfi

En auðvitað er aðeins ein ástæða fyrir því að eftirlaunalögunum var ekki breytt fyrir þinglok í gær, - einfaldlega vegna þess að þingmenn vildu það ekki. Ráðherrar, sem alemnnt koma úr röðum þingmanna, stórgræða jú á eftirlaunaósómanum. Svo einfallt er það.

Lögin fela til að mynda í sér að almennur ráðherra getur vænst um hundrað þúsund króna aukningu ofan á þann lífeyrisrétt sem fyrir var, - sem þó var ærinn. Forsætisráðherra fær um fjögur hundruð þúsund til viðbótar á mánuði. Mér er sagt að almennur ríkisstarfsmaður á sömu heildarlaunum væri 30 ár að vinna sér inn sama lífeyri og forsætisráðherrann gerir á aðeins einu ári. Svo geta menn meira að segja valið að fara á eftirlaun strax við 55 ára aldur eða þá halda áfram á vinnumarkaði og þiggja launin sín ofan á rífleg eftirlaunin.

Dúsa stjórnarandstöðunnar

Kannski er því ekki nema von að þingmenn hafi pakkað í vörn. Að vísu fæst enginn til að mæla ósómanum bót opinberlega, nema þá helst Pétur Blöndal. En aðrir þingmenn, allir nema Valgerður Bjarnadóttir semsé, en hún er jú aðeins varaþingmaður, beita sér lítt til að leiðrétta óhófið, nema ef vera skyldi Ögmundur Jónason.

Formenn stjórnaranstöðuflokkanna geta ekki heldur flúið í skjól ábyrðarleysisins. Þeir stóðu jú allir að þessum ósköpum með Davíð haustið 2003 upp á þau býtti að fá dulítinn bónus ofan á launin sín sem leiðtogar á þingi. Það var ekki fyrr en almenningur mótmælti ósómanum að þeir fóru að bakka í málinu. Fyrst náðist raunar ekki í þá, Steingrímur fór til fjalla og kom svo af fjöllum, Guðjón Arnar flúði til útlanda og Össur, sem þá var stjórnarandstöðuleiðtogi, sat á endanum hjá.

24. stundir, 30. maí 2008.