miðvikudagur, 24. september 2008

Krónan, glærur og hærur

Grey krónan heldur áfram að leka niður á við í dag, farin að vera æði lasleg blessunin. Ég var ekki eini frummælandinn á ráðstefnu viðskiptaráðuneytisins í gær sem lýsti áhyggjum af stöðu hennar.

Þrátt fyrir að fyrirlesarar kæmu úr fjórum fræðigreinum, lögfræði, hagfræði, stjórnmálafræði og viðskiptafræði var sterkur samhljómur í erindum allra, - sér í lagi hvað viðvíkur því að atvinnulífið virðist vera farið að taka upp í evru í stað krónu í þónokkru mæli, þvert á stefnu stjórnvalda. Þessi þróun er varhugaverð og stjórnvöld ættu að reyna að bregðast við henni með einhverjum hætti.

Á ráðstefnunni lagði ég fram vinnudrög að grein sem verður fullkláruð á næstu vikum og svo gefin á bók á vegum viðskiptaráðuneytisins á næstunni. Greinardrögin eru hér. Allar ábendingar eru vel þegnar.

Glærurnar sem ég byggði erindi mitt á eru hér. Og nánari upplýsingar um ráðstefnuna og erindi kollega minna hér.