föstudagur, 19. september 2008

Hagstjórn umvöndunar

Hver ætli viðbrögðin yrðu ef vinnuveitandinn kæmi til okkar einn daginn, segjum á meðan við værum á kafi í bráðmikilvægu verkefni sem miklu skipti fyrir reksturinn, og segði okkur, bara sísona yfir morgunkaffinu, að vegna ógnarmistaka stjórnenda fyrirtækisins yrði að lækka launin okkar um nálega helming? Að vísu ætli stjórnendurnir ekki að lækka ofurlaunin sín, en myndu þó af einskærum rausnarskap afsala sér öllum bónusum um stundarsakir.

Hvernig ætli við myndum bregðast við? Ætli við myndum láta duga að ypta öxlum og segja kannski, sei, sei, það verður þá bara svo að vera. Ætli það? Eða myndum við kannski fara að skima um eftir nýju starfi? Jú, ætli það verði ekki teljast líklegt.

Ekki benda á mig

Nú er það svo að íslenska þjóðarbúið er eiginlega í þessari stöðu. Krónan, blessunin, hefur fallið um nálega helming á innan við ári með tilheyrandi kjaraskerðingu. En það er erfitt að segja upp sem Íslendingur. Að vísu er hægt að flytja úr landi, eins og Pólverjarnir sem nú eru víst í löngum röðum í Leifstöð með farmiða aðra leið í uppsveifluna í Varsjá, Krakow og Gdansk. En fyrir okkur flest er það meiriháttar mál að yfirgefa ættjörðina á efnahagslegum forsendum.

Seðlabankinn og forsætisráðherrann segja að vísu að ástandið sé ekkert skárra í útlöndum, að fall krónunnar sé tilkomið vegna alþjóðlegu lausafjárkrísunnar sem eigi upptök í Bandaríkjunum, en ekki vegna mistaka í hagstjórninni innanlands, því sé ekki við þá að sakast. Í Fréttablaðinu í gær sagði forsætisráðherrann að fjármálakrísan hafi „víða haft meiri afleiðingar en hér á landi.“

Innanmein

En bíðum nú rétt aðeins við. Hvernig stendur þá á því að íslenska krónan fellur langt umfram aðrar myntir? Gengið, sem hefur verið í frjálsu falli, mælir hlutfallslega stöðu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum. Ef efnahagsvandin er bandarískur, hvernig stendur þá á því að íslenska krónan hefur hríðfallið gagnvart Bandaríkjadal undanfarið misseri?

Getur kannski verið að skýringa á illri stöðu krónunnar sé að leita í tilteknu innanmeini í hagstjórn undanfarinna ára? Og að til viðbótar bætist kerfisvandi við að halda úti minnsta gjaldmiðli í heimi sem hafður er á frjálsu floti í brotsjó hins alþjóðlega fjármálakerfis? Já, það skildi þó aldrei vera, að vandinn sé að mestu heimatilbúinn.

Fall ársfjórðungslega

Hvort tveggja er hægt að takast á við með stjórnmálalegum aðgerðum innanlands. Ekki aðeins hagstjórnina með almennilegu aðhaldi, heldur einnig peningastefnuna. Til að mynda mætti byrja á að skipa alvöru fagmenn í vel skilgreinda peningastefnunefnd, í stað þess að láta fyrrum stjórnmálamenn véla um peningamálin í rammpólitískum seðlabanka. En því miður hafa yfirvöld efnahagsmála frekar treyst á hagstjórn umvöndunar.

Fyrst voru erlendar greiningardeildir húðskammaðar fyrir að gera fáeinar athugsemdir við íslenskt efnahagslíf í ársbyrjun 2006. Næst var það Danske bank sem var sagður illa innrættur, og svo fengu alþjóðlegir vogunarsjóðir óbótaskammir fyrir að skjóta krónuna í kaf á fyrri hluta þessa árs. En nú er einna helst vandað um við viðskiptabankana sem virðast ekki kunna annað ráð til að bæta stöðu sína en að senda krónuna í góða dýfu í hvert sinn sem kominn er tíma á nýtt ársfjórðungsuppgjör. Svona, hættiði þessu vondu strákar, segja landsfeðurnir og búast til að slá á útrétta putta.

En því miður fyrir íslenskt launafólk, þá hlusta hnattvæddir fjármálafurstar voðalega lítið á skammir íslenskra stjórnmálamanna. Líkast til of uppteknir við að skoða netreikninginn sinn á Cayman-eyju.

24 stundir, 19. september 2008