fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Furðulegt fargjald

Nokkuð hefur verið rætt um ferðakostnað fyrirmenna þjóðarinnar á Ólympíuleikana í Peking. Sérstaka athygli vekur hvað dýr farakostur hefur verið valinn. Í tilfelli menntamálaráðherra kostaði fyrri ferðin nokkuð á fimmta hundrað þúsund og síðari nokkuð á sjö hundruð þúsund króna. Í báðum tilfellum var um að ræða farmiða báðar leiðir í gegnum Kaupmannahöfn.

Mér datt í hug að skoða þetta og sá á www.sas.is að hægt er fá miða fram og til baka frá Reykjavík til Pekíng á kr. 141.920 ef pantað er nokkuð fram í tímann, til að mynda dagana 22. til 29. september. Þurfi maður hins vegar að fara með skömmum fyrirvara, til að mynda næsta mánudag og vera fram á miðvikudag kostar miðinn kr. 244.330. Líka báðar leiðir með millilendingu í Kaupmannahöfn.

Það þarf ekki mikla snilli til að sjá að þarna munar ansi miklu. Raunar er fargjaldið sem ráðuneytið valdi margfallt dýrara heldur en þyrfti að vera. Ég vona að fyrirfólkið okkar hafi notið mismunarins í góðu yfirlæti á þessum ferðum sínum.

þriðjudagur, 26. ágúst 2008

Aðili

Það virðist ágerast að stjórnmálamenn vísi til fólks, jafnt einstaklinga og hópa, sem aðila.

En hvenær verður maður aðila?

Þar er efinn!

föstudagur, 22. ágúst 2008

Sex hundruð ár

Ég er ekki viss um að Ísland verði starfhæft í dag, í það minnsta ekki í hádeginu þegar karlalandssliðið í handbolta mætir Spánverjum í undanúrslitum. Fólk er í óða önn að fresta fundum og melda sig veikt í vinnu, þar að segja ef vinnuveitandinn hefur ekki verið svo forsjáll að koma upp boðlegum flatskjá á vinnustaðnum.

Og forsjánni sé lof fyrir handboltabrjálæðið sem gripið hefur þjóðina því annars er næsta víst að þessi pistill færi í að ræða málefni borgarstjórnar Reykjavíkur, sjálfum mér og lesendum til sárra og óblandinna leiðinda. Rétt að þakka fyrir það.

Erfitt samband

Mér skilst að skólasetning grunnskóla sé víða í uppnámi vegna leiksins. Börnin láta ekki teyma sig í skólann þegar Óli og félagar láta fallbyssurnar falla úti í Peking. Annars hafa tengsl handboltalandsliðsins við þjóðina alltaf verið dálítið erfið. Þegar vel gengur eru þeir strákarnir okkar, bestu synir þjóðarinnar, hvers manns hugljúfi og nöfn þeirra á allra vörum. Bláókunnugt fólk ræðir um Snorra Stein, Ólaf og þennan ótrúlega markvörð eins og um nána fjölskyldumeðlimi sé að ræða. Eins og þeir séu heimagangar á hverju einasta heimili á Íslandi.

En þegar illa árar hefur enginn áhuga á liðinu. Þá látum við okkur fátt um finnast og teljum okkur trú um að þetta sé nú ekki svo ýkja merkileg íþrótt. En nú eru þeir semsé aftur orðnir strákarnir okkar og sjálfur forsetinn mærir þá í beinni í sjónvarpinu á daginn og strýkur þeim svo um kviðinn áður en þeir fara að sofa á kvöldin. Segir sögur af heljarmennum og syngur þá í svefn með gömlum ættjarðarsöngvum.

Næturlífið

Sjálfur get ég ekkert í handbolta, náði aldrei almennilegu valdi þessari íþrótt í leikfimitímum í Breiðholtinu í gamla daga. Samt hefur blóðþrýstingurinn sjaldan verið jafn hár og yfir sjónvarpinu undanfarna dag. Ríf mig upp á undarlegustu tímum sólarhringsins og læt öllum illum látum í klukkutíma eða svo. Heimilið hefur eiginlega verið undirlagt. Börnin hafa auðvitað heimtað að fá að vaka yfir leikjunum.

Níu ára sonur minn sefur yfirleitt svo fast að hann gæti misst af heilu heimstyrjöldunum yrðu þær um nætur, jafnvel þótt þær væru háðar í herberginu hans. Eigi að síður spratt hann á fætur þegar ég vakti hann um miðja nótt til að horfa á Ísland eiga við Egypta, - sem hann kallar raunar aldrei annað en múmíurnar en það er önnur saga. Og heimasætan sem vanalega getur ekki fyrir sitt litla líf vaknað á morgnanna lét sig ekki vanta í morgunmatinn skömmu fyrir sex á miðvikudagsmorgun til að hita upp fyrir lætin á móti Pólverjum.

Ólöglegt

En allra verst leið mér á móti Dönum. Spennan var ekki aðeins óbærileg eins og stundum er sagt, um tíma hélt ég að hjartað ætlaði hreinlega að hrökkva upp úr kokinu og æðarnar að slitna úr höfðinu. Konan var eitthvað benda mér á að þetta væri nú bara íþróttaleikur en ekki barátta upp á líf og dauða, ég ætti því bara að slaka á og njóta leiksins. Kannski fá mér te og osta.

En í því efni hafði hún auðvitað kolrangt fyrir sér. Auðvitað var þetta upp á líf og daða. „Þetta er sko ekki bara einhver íþróttaleikur,“ öskraði ég á hana. „Hér er sex hundruð ára nýlendukúgun undir,“ æpti ég í frávita æsingi. „SEX HUNDRUÐ ÁR,“ hélt ég áfram að hrópa og steytti hnefann í átt að sjónvarpinu. Já þetta er ekkert grín. Réttast væri að setja í lög að það sé bannað að tapa fyrir Dönum.

24 stundir, 22. ágúst 2008.

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Hrein torg, fögur borg

Ég er ekki frá því að það eina sem fráfarandi borgarstjóri gerði af almennilegu viti var að ráða Jakob Frímann Magnússon sem Miðborgarstjóra. Allavega er miðborgin mun betur hirt en áður, veggjakrot á undanhaldi og færri hús í niðurníðslu. Ég myndi ráðleggja Sjálfstæðismönnum að halda í Jakob og Græna herinn hans.

Mannval

Hefur engum dottið í hug að vandræðagangurinn í borginni sé hreint og beint vegna þess að borgarstjórnin sé óvanalega illa mönnuð þetta kjörtímabilið?

föstudagur, 8. ágúst 2008

Við borgum, já við borgum

Það var ekki laust við að nokkurrar undrunar hafi gætt í skrifum breska stórblaðsins, The Financial Times, á dögunum þegar blaðið ræddi uppgjör íslensku viðskiptabankanna. Þrátt fyrir efnahagsdýfu á alþjóðavísu skiluðu allir þrír viðskiptabankarnir góðum hagnaði. Að vísu ekki sama fítonshagnaði og áður, en eigi að síður nokkuð traustri afkomu. Og það kom sérfræðingum Financial Times semsé svona mjög á óvart. En áður hafði farið fram á síðum blaðsins nokkuð óvægin umræða um íslenskt efnahagslíf, á sumum þeirra skrifa mátti jafnvel skilja að íslensku bankarnir væru á þráðbeinni leið á höfuðið.

Einlæg undrun

Fréttin í blaðinu um daginn var ekki aðeins einhvers konar feginleikaandvarp, þegar uppgjör bankanna sýndu svart á hvítu fram á að staðan væri mun betri en menn óttuðust, heldur mátti einnig greina í skrifunum einlæga undrun. Hvernig gat það staðist, spurði blaðið, að þrátt fyrir fjölmargar arfaslakar og rándýrar fjárfestingar haldi bankarnir enn sjó? Það var illt að skilja. Blaðamennirnir áttu greinilega von á að æðibunugangur íslensku útrásarbankanna myndi koma þeim illilega í koll nú þegar alþjóðlega lánsfjárkrísan var farin að bíta fastar í grunnstoðir fjármálafyrirtækja út um allan heim. Sér í lagi þar sem svo margir voru hættir að geta greitt af ofgnóttarlánum þeim sem bankarnir otuðu að fólki og fyrirtækjum í uppsveiflunni. Og svo, þegar hrun krónunnar bættist ofan í kaupið áttu blaðamenn Financial Times semsé ekki von á góðu. Ekki frekar en greiningadeildir matsfyrirtækja um víða veröld. Já, hvernig gat þetta staðist?

Óskiljanlegt

Það getur vel verið að sprenglærðir fjármálaspekúlantar úti í hinum stóra heimi eigi erfitt með að skilja þetta. Maður sér þá fyrir sér í teinóttum fötum, í glerjaðri hornskrifstofu með útsýni yfir Thames eða Hudson, lagandi á sér hnausþykkan bindishnútinn og klóra sér í kollinum yfir útkomunni. Hér eru öll efnahagslögmál á haus. En við, almennir íslenskir skuldarar, sem fátt höfum lært í fínni fræðum fjármálanna, við skiljum þetta hins vegar mætavel. Það erum nefnilega við sem borgum. Það erum við sem höldum bönkunum á floti. Við erum hinar traustu stoðir íslenska fjármálakerfisins. Og alveg sama hvað þeir sukka og svína, hvað þeir fjárfesta vitlaust og fljúga margar ferðir á einkaþotunum sínum, á meðan við borgum er þeim borgið.

Ólán

Ég skal taka dæmi. Fyrir tæpum þremur árum keyptum við hús. Bara svona ósköp venjulegt hús sem meðalfjölskylda á meðalaunum í Reykjavík þarf að hafa yfir höfuðið. Og til þess þurfti lán. Töldum okkur þó ansi góð eiga fyrir sirka helmingnum. En restin var tekin að láni. Þeir sögðu að þetta væri alveg voðalega gott lán. Lágir vextir og svakaþæginlegar afborganir. Fengum útprentaða áætlun um greiðslur næstu þrjátíu árin, upp á krónu alla 360 mánuðina. Við létum því slag standa, skrifuðu undir með bros á vör og fluttum inn. Og á hverjum mánuði fær bankinn sitt. Fyrstu mánuðina gekk áætlunin nokkurn vegin eftir en smám saman fóru afborganirnar að hækka, fyrst örlitið í hverjum mánuði en svo fóru þær að taka tugþúsunda stökk. Og ekki nóg með það, nú skuldum við bankanum fjórum milljónum meira heldur en þegar lánið var tekið fyrir tæpum þremur árum. Bölvað ólánið lækkar ekki með hverri afborgun eins og í öllum venjulegum löndum heldur hækkar það í hverjum einasta mánuði.

Kannski ekki nema von að fínir fjármálamenn í útlöndum eigi erfitt með að skilja velgengni íslensku ólánabankanna. Það skiljum við hins vegar mæta vel og höldum svo bara áfram að borga.

24 stundir, 8. ágúst 2008.