fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Furðulegt fargjald

Nokkuð hefur verið rætt um ferðakostnað fyrirmenna þjóðarinnar á Ólympíuleikana í Peking. Sérstaka athygli vekur hvað dýr farakostur hefur verið valinn. Í tilfelli menntamálaráðherra kostaði fyrri ferðin nokkuð á fimmta hundrað þúsund og síðari nokkuð á sjö hundruð þúsund króna. Í báðum tilfellum var um að ræða farmiða báðar leiðir í gegnum Kaupmannahöfn.

Mér datt í hug að skoða þetta og sá á www.sas.is að hægt er fá miða fram og til baka frá Reykjavík til Pekíng á kr. 141.920 ef pantað er nokkuð fram í tímann, til að mynda dagana 22. til 29. september. Þurfi maður hins vegar að fara með skömmum fyrirvara, til að mynda næsta mánudag og vera fram á miðvikudag kostar miðinn kr. 244.330. Líka báðar leiðir með millilendingu í Kaupmannahöfn.

Það þarf ekki mikla snilli til að sjá að þarna munar ansi miklu. Raunar er fargjaldið sem ráðuneytið valdi margfallt dýrara heldur en þyrfti að vera. Ég vona að fyrirfólkið okkar hafi notið mismunarins í góðu yfirlæti á þessum ferðum sínum.