miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Eitruð

Ný bók Hallgríms Helgasonar, 10 leiðir til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, fjallar um króatíska leigumorðingjann Toxic sem þvælist til Íslands á svolítið ólíkindalegum flótta. Bókin er eitruð að því leyti að illviðráðanlegt er að leggja hana frá sér.

Sagan byrjar af miklum krafti en jafnvel þótt hún fari svolítið á flot um miðbikið nær hún að halda sjó og Hallgrími tekst að landa henni með ágætum í lokin. Það er ekki endilega sögusviðið eða atburðarrásins sem heldur manni við lestur, miklu frekar þessi óborganlegi karakter sem höfundur hefur greinilega nostrað við að skapa. Einhvern vegin tekst honum að fá mann til að finna til samúðar með samvisskulausum fjöldamorðinga.

Hallgrímur hefur í fyrri bókum átt það til að tapa sér í ævintýralegum orðaleikjum og ógnarlöngum útúrdúrum sem stundum hafa reynt á þolinmæði lesenda. Þessi höfundareinkenni eru enn til staðar en hér tekst honum mun betur að aga orðæðið. 10 ráð er því kannski einhver lesendavænasta bók Hallgríms. Ólgandi ritgleðin er eigi að síður slík að síðurnar sprikla af bráðskemmtilegu textafjöri.

sunnudagur, 23. nóvember 2008

Vandinn er heimatilbúinn

Íslensk stjórnvöld hafa látið í veðri vaka að hrun bankakerfisins eigi einna helst orsök í óviðráðanlegum ytri aðstæðum. Annars vegar vegna alþjóðlegu fjármálakreppunnar og hins vegar vegna kerfisvillu í evrópsku reglugerðaverki um innstæðutryggingar. Þetta er einkar heppileg skýring fyrir innlend stjórnvöld því þar með bera þau enga ábyrgð.

Hvítþvotturinn gengur jafnvel svo lagt að í máli sumra er látið sem skuldbindingar um tryggingar á reikningum í erlendum útibúum íslenskra banka hafi á einhvern hátt komið á óvart. Efast má um hæfni efnahagsyfirvalda sem halda slíku fram enda hefur þessi staða legið fyrir frá því Ísland undirritaði EES-samninginn.

Kerfisvandinn sem varð Íslandi að falli var heimatilbúinn. Við opnuðum fjármálamarkaðinn inn á 500 milljóna manna innri markað ESB en örgjaldmiðillinn okkar var áfram varinn af aðeins þrjú hundruð þúsund Íslendingum. Í slíka stöðu hafði ekkert ríkjanna á Evrópska efnahagssvæðinu komið sér og við þessu óráði var margvarað. Fjöldi fræðimanna hefur þráfaldlega varað við að blessuð krónan gæti ekki staðið undir starfi bankanna á galopnum evrópskum fjármálamarkaði.

Það er engin tilviljun að með Maastrict-sáttmálanum sem undirritaður var sama ár og EES, 1992, voru teknar tvær ákvarðanir samtímis. Annars vegar að fullklára opnun fjármálamarkaða og hins vegar að verja fjármálakerfið með sameiginlegri mynt, evrunni, og sameiginlegum seðlabanka sem yrði lánveitandi til þrautavara. Á þeim tíma óraði engan fyrir að tiltekin ríki myndu taka sig út úr því ráðslagi, eins og síðar varð raunin þegar Danir, Bretar og Svíar ákváðu að halda um sinn í eigin gjaldmiðil. Öll ríkin gerðu þó viðhlítandi ráðstafanir til að verja sína mynt.

Norðmenn eru varðir af olíusjóðnum og öll nýju aðildarríki ESB hafa tekið skref til varnar. Aðeins Ísland þverskallaðist við. Eins og glöggur maður nefndi var krónan of lítil fyrir bankana en evran of stór fyrir íslenska stjórnmálamenn. Því fór sem fór.

Fréttablaðið, 22. nóvember 2008.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Merkileg grein um Keynes

George Monbiot, dálkahöfundur á Guardian, ritar merkilega grein um erindi gamla John Maynard Keynes í viðbrögðum við yfirstandandi kreppuástandi. Sjá hér.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Þriðja persóna fleirtölu

Alltaf gaman þegar menn tala um sjálfan sig í þriðju persónu fleirtölu.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Horft í baksýnisspegilinn

Hörmungarástandið sem hefur skapast á Íslandi að undanförnu er af mannavöldum. Hin alþjóðlega fjármálakreppa er aðeins völd af litlum hluta. Ráðamenn keppast við að beina fólki frá því að horfa í baksýnisspegilinn, eins og þeir kalla það, nú á að einbeita sér að því að leysa bráðavandann. Samt sem áður hefur allur þorri almennings fengið á tilfinninguna að ráðmennirnir séu svo gott sem ráðalausir.

Í viðleitni til að koma í veg fyrir enn frekari misstök er því kannski ekki úr vegi að skoða nokkur þau mistök sem komu okkur í þá stöðu að vera bæði gjaldþrota og rúin trausti í alþjóðlegum samskitpum. Hér eru valin af handahófi nokkur mistök sem öll voru fyrirsegjanleg, hefðu stjórnvöld staðið vaktina sem þau voru kosin til:

1. Fjármálamarkaðurinn opnaður upp á gátt án þess að koma örgjaldmiðlinum okkar í skjól. Þá óráðsstöðu hafði ekkert annað land í EES komið sér í. Minni á að norska krónan er varin af olíusjóðnum. Annað hvort varð að þrengja að frelsi í fjármagnsflutningum og koma bönkunum úr landi eða taka upp lífvænlegri gjaldmiðil.

2. Af hugmyndafræðilegum ástæðum voru eftirlitsstofnanir hafðar veikburða þegar atvinnulífinu var gefinn laus taumurinn með einkavinavæðingu. Það mátti ekki trufla hinn frjálsa markað. Úlfakapítalisminn tók svo öll völd í samfélaginu þegar taumhaldið skorti.

3. Í kjölfar einkavæðingarinnar var bindiskylda bankanna lækkuð þegar hana átti auðvitað að hækka í viðleitni til að koma böndum á brjálæðið.

4. Gjaldeyrisvarasjóður hafður allt of lítill miðað við stærð fjármálakerfisins, sem skildi fjármálakerfið eftir berskjaldað og auðveldaði áhlaup skortsölumanna á krónuræfilinn.

5. Stjórn Seðlabankans skipuð stjórnmálamönnum sem höfðu pólitískan hag af því að verja tiltekna hugmyndafræði frekar en að stýra peningastefnunni af fagmennsku. Um leið skorti Seðlabankann trúverguleika sem er ein ástæða þess að nágrannaríkin hikuðu við að koma til aðstoðar.

6. Einkabönkum leyft að veðsetja þjóðina í útlöndum án hennar vitundar, samanber Icesave hneykslið

7. Stýrivextir hafðir í hæðstu hæðum þrátt fyrir að þeir bíti lítið á staðbundna verðbólgu í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Um leið sogaðist inn í landið eitrað áhættufjármagn sem felldi krónuna um leið og harnaði á dalnum. Hundruð milljarða fuku út úr þjóðarbúinu í hávaxtagreiðslur til útlendinga.

8. Þjóðnýting Glitnis var til þess fallin að loka endanlega fyrir allar lánalínur inn í landið og hratt af stað þeirri hroðahrinu sem enn stendur yfir og ekki sér fyrir endann á.

9. Ógætileg ummæli í Kastljósi þess efnis að erlendir kröfuhafar fái ekki greitt einangraði landið og rétti Bretum vopnin í hendurnar.

10. Gengið fest tímabundið með ótrúverðugum hætti svo Seðlabankinn varð að afnema hina nýju fastgengisstefnu innan tveggja sólarhringa.

11. Vextir lækkaðir og svo skyndilega hækkaðir langt upp yfir fyrri stöðu á einni viku.

12. Sagt frá fyrirhuguðum lánafyrirgreiðslum ólíklegustu landa án þess að nokkuð lægi fyrir annað en óskhyggjan ein.

13. Bretum leyft að setja á okkur hryðjuverkalög og traðka orðspor landsins í svaðið án þess að brugðist væri til varna í því PR-stríði sem brostið var á.

Viðskiptablaðið, 14. nóvember 2008

miðvikudagur, 12. nóvember 2008

Notaleg

Lauk nýverið við nýja skáldsögu Guðmundar Andra Thorssonar, Segðu mömmu að mér líði vel.

Ef ég mætti aðeins nota eitt orð til að lýsa bókinni myndi ég segja að hún væri notaleg. En sem betur fer hef ég efni á fleiri orðum því notalegheitin eru aðeins ein hlið bókarinnar. Hún er einnig skemmtileg í sínum látlausu og lágstemdu lýsingum á tilfinningalífi miðaldra manns í Reykjavík. Andri dregur upp umhugsunarverða mynd af samfélaginu en stundum var ég ekki alveg viss hvert hann vildi fara, hvert erindið væri. Á tíðum fannst mér bókin einnig full hæggeng, en það fyrirgefur maður Andra umfram aðra íslenska höfunda því bókin er auðvitað fantavel skrifuð eins og vænta mátti, - nostrað við hvert orð.

En þegar öllu er á botninn hvolft ber mig aftur að sama orði, þetta er notaleg saga. Sem er ekki svo lítil gjöf í því ástandi sem við nú lifum, að fá um stund að setjast til hliðar með notalega bók og dreypa kannski örlítinn kaffisopa með.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Don't isolate Iceland - ný grein í Guardian

Í framhaldi af skrifum mínum í Guardian um daginn hef ég verið beðinn að leggja þeim til greinar af og til. Í dag birtist eftir mig ný grein sem finna má hér.

Í greininni í dag held ég því fram að ólögleg beiting hryðjuverkalaganna hafi í raun orðið til þess að breska ríkisstjórnin hafi þar með tekið yfir skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi, - þeirra á meðal allar skuldbindingar varðandi Icesave reikningana alræmdu. Þá bendi ég á, að sé það rétt að breska ríkisstjórnin vinni að því að koma í veg fyrir lánveitingu IMF til Íslands, geti það þvingað íslensk stjórnvöld til að taka evru upp einhliða, semsé í andstöðu við vilja Evrópusabandsins.

Mig langar til að benda á að hægt er að rita athugsemdir við greinina á vef Guardian, hvet fólk raunar til að gera það.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Ég hef misst af því ...

... sagði forsætisráðherra Íslands í viðtali við fjölmiðla í hádeginu í dag, aðspurður um lán sem Pólverjar hyggjast veita Íslandi.

Eru þetta í alvörunni boðleg vinnubrögð?

Maður er farinn að fá á tilfinninguna að stjórnvöld hafi ekki hugmynd um hvað er gerast, að þau viti ekkert meira en við hin, hringlist bara í andateppu um ráðlausa og dáðlausa hirð sína í súrefnislausum skrifstofum.

Röð mistaka og klaufalegra ummæla valda því fólk er við það að missa trúna á hinum háu herrum, sem vanhæfnin einhvern vegin skín af í spegli fjölmiðlanna.

Hver er eiginlega við stýrið?

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Ekki borga

Nú ríður á að menn standi í lappirnar og láti ekki kúga sig til að greiða fyrir Icesave-hneykslið. Þegar breska ríkisstjórnin setti hryðjuverkalög á Landsbankann þá tók hún í raun yfir ábyrgðina á skuldbindingum bankans í Bretlandi.

Ísland má ekki láta kúga sig til að greiða fyrir þessa árans dellu, til þess eins að fá gott veður hjá IMF. Betra væri að búa við gjaldeyrisskort heldur en að skuldsetja næstu kynslóðir útaf sprikli einkafyrirtækis í útlöndum.

En um leið og við neitum að borga verður auðvitað að leysa stjórn og stjórnendur Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans frá störfum, þessar stofnanir bera ábyrgð á því að hafa ekki stoppað vitleysuna af á sínum tíma. Sem eru svo sannarlega afglöp í starfi.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Fyrirgefðu, en ert þú ekki frá Íslandi?

„Fyrirgefðu herra prófessor, en ert þú ekki frá Íslandi?“, spurði framhleypinn rauðhærður drengur með ítalskan hreim.

Ég var í háskólanum í Ljubljana í síðustu viku að kenna hnattvæðingu og rétt byrjaður að lýsa fínni blæbrigðum á kenningum um hattræna þróun.

„Jú, það er rétt,“ svaraði ég glaður í bragði enda gaman að ræða hugmyndir erlendra nemenda um Ísland.

Yfirleitt dettur þeim í hug eitthvað tengt náttúrunni, kannski jarðvarma, Geysi og fallvötn. Og svo auðvitað Björk, líka Sigur Rós og Eið Smára. Einstaka maður kann skil á bókmenntaarfinum og svo hefur viðskiptalífið komið sterkt inn allra síðustu ár. Þetta var gjörvilegur fjölþjóðlegur nemendahópur, alls staðar frá. Oft er gott að nota áhuga nemenda og tengja við námsefnið, svo ég opnaði fyrir spurningar.

„Ok, þetta er allt saman voðalega áhugavert hjá þér,“ sagði sá rauðhærði og hélt óþolinmóður áfram. „En gætirðu kannski sagt okkur hvað er eiginlega að gerast þarna hjá ykkur?“

Ég vissi að ég gæti átt von á þessari spurningu svo ég hóf að útskýra útrásina sem var grundvölluð á EES og benti á þá augljósu staðreynd að bankarnir höfðu vaxið krónunni yfir höfuð og því verið ansi valtir fyrir þegar fárviðrið á alþjóðlegum fjármálamörkuðum skall á.

„En máttu menn ekki sjá það fyrir?,“ spurði forviða stúlka á fremsta bekk með sterkum þýskum hreim. Enda vitað frá því að fjármagsflutningar voru endanlega gefnir frjálsir með Maastricht-sáttmálanum að illmögulegt væri fyrir flest ríkin á innri markaði Evrópu að halda úti óvörðum gjaldmiðli í svo opnu kerfi.

„Vissulega,“ svaraði ég. „Annað hvort varð að koma í veg fyrir vöxt fjármálakerfisins eða að taka upp evru,“ útskýrði ég samvisskusamlega.

„Af hverju var það þá ekki gert?,“ spurði síðhærður Slóveni sem hallaði sér aftur undir gluggavegginn í hnausþykkum sótsvörtum leðurfrakka.

„Jú, sjáðu til„ svaraði ég, „við vildum gjarnan nýta alþjóðavæðingu fjármálalífsins til að efnast en fullveldisins vegna gátum við ekki skipt krónunni út fyrir útlenska mynt.“ Ég fann að þau áttu erfitt með að skilja þessa skýringu.

Næst kvað sér hljóðs mjósleginn svarthærður drengur frá Suður-Ameríku. „Er það rétt sem ég hef heyrt að það sé fyrrverandi stjórnmálamaður seðlabankastjóri hjá ykkur?“

Ég svaraði að slíkt þætti alvanalegt á Íslandi. Sá suðurameríski hélt áfram: „Það er vissulega margt undarlegt á seyði í stjórnmálunum í Brasilíu, en meira að segja okkur myndi nú ekki detta í hug að láta pólitíkusa stýra seðlabankanum,“ sagði hann og hristi höfuðið.

Við mér blöstu hundrað undrandi andlit svo ég fór að ræða lausnir vandans, ræddi fyrirhuguð lán frá IMF, Rússlandi og Norðurlöndunum þar til snögghærð stúlka frá Hollandi tók til máls.

„Fyrirgefðu, en mér skilst að vandinn sé einna helst sá að þið eruð búin að taka svo rosalega mikið af lánum, fyrirtækin keyptu handónýtar eignir í útlöndum og almenningur virðist hafa staðið í biðröðum í bönkunum til að taka sem allra mest að láni. En svo segið þið núna að lausnin á þessari krísu, sem er semsé tilkomin vegna óhóflegra lántöku, sé að taka bara enn meiri lán í útlöndum. Hvernig getur það eiginlega gengið upp?“

Viðskiptablaðið 31. október 2008