miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Eitruð

Ný bók Hallgríms Helgasonar, 10 leiðir til að hætta að drepa fólk og byrja að vaska upp, fjallar um króatíska leigumorðingjann Toxic sem þvælist til Íslands á svolítið ólíkindalegum flótta. Bókin er eitruð að því leyti að illviðráðanlegt er að leggja hana frá sér.

Sagan byrjar af miklum krafti en jafnvel þótt hún fari svolítið á flot um miðbikið nær hún að halda sjó og Hallgrími tekst að landa henni með ágætum í lokin. Það er ekki endilega sögusviðið eða atburðarrásins sem heldur manni við lestur, miklu frekar þessi óborganlegi karakter sem höfundur hefur greinilega nostrað við að skapa. Einhvern vegin tekst honum að fá mann til að finna til samúðar með samvisskulausum fjöldamorðinga.

Hallgrímur hefur í fyrri bókum átt það til að tapa sér í ævintýralegum orðaleikjum og ógnarlöngum útúrdúrum sem stundum hafa reynt á þolinmæði lesenda. Þessi höfundareinkenni eru enn til staðar en hér tekst honum mun betur að aga orðæðið. 10 ráð er því kannski einhver lesendavænasta bók Hallgríms. Ólgandi ritgleðin er eigi að síður slík að síðurnar sprikla af bráðskemmtilegu textafjöri.