þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Pat "the Cope" Gallagher

Nokkurs misskinings hefur gætt um hlutverk Pat "the Cope" Gallagher í samningaviðræðum ESB við Ísland. Hann verður ekki aðalsamningamaður ESB gagnvart Íslandi heldur pólitískur fulltrúi Evrópuþingsins í samningaviðræðunum. Það verður svo í höndum framkvæmdastórnar ESB að sjá um sjálfa samninganna og ráðherraráðið sem hefur lokaorðið. Eigi að síður eru það í sjálfu sér merkilegar fréttir að Pat hafi verið valinn til verksins. Ég ræddi það við fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöldi.

mánudagur, 24. ágúst 2009

Hr. Stefán og Dr. Snævarr

Dr. Stefán Snævarr, heimspekiprófessor í Noregi, gerir mér mikinn heiður og helgar fræðistörfum mínum heilan sunnudagspistil. Í yfirferð sinni staldrar hann helst við frelsishugtakið og ásakar mig um að beita því svívirðilegum frjálshyggjuskilningi, sér í lagi þegar rætt er um frelsi einstaklinga.

Stefán hirðir því miður ekki um að nefna hvar ég á að hafa misbeitt frelsishugtakinu með þessum hætti en ég get mér þess til að hann líti einna helst til rannsóknar minnar á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda sem nýlega kom út í ritinu „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar“. Rétt er að nota tækifærið og útskýra ögn betur fyrir dr. Snævarr hvernig frelsið, þjóðin og fullveldi hennar tengist og vefst saman í Evrópuumræðunni. Meginniðurstaða rannsóknar minnar er sú að arfleið sjálfstæðisbaráttunnar hafi enn í dag mótandi áhrif á orðræðu íslenskra stjórnmálamanna í Evrópumálum. Skoðum þá þróun íslenskrar þjóðernisstefnu:

Frjáls og fullvalda íslensk þjóð var hið endanlega markmið sjálfstæðisbaráttunnar og Íslendingar litu á fullveldið sem einhvers konar endurreisn þjóðveldisins. Þrátt fyrir að sjálfstæðisbarátta Íslendinga stæði í nánu samspili við álíka hugmyndafræðilegar hræringar í Evrópu þá virtust Íslendingar líta svo á að sjálfstæðisbaráttan væri séríslenskt fyrirbæri. Sérstök áhersla á fullveldi þjóðarinnar hefur allt frá því á 19. öld verið einn helsti grundvöllur íslenskra stjórnmála, en í henni felst áhersla á vernd fullveldisins og raunar eilífa sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.

Baráttan fyrir stofnun íslensks þjóðríkis var hins vegr órofa hluti af þeirri þjóðfélagsþróun sem varð i kjölfar frjálslyndisstefnunnarí Evrópu á átjándu og nítjándu öld sem ruddi einveldinu úr vegi og skapaði hugmyndina um þjóðríkið sem flest ríki Evrópu byggjast nú á. Hugmyndin um uppsprettu fullveldisins hertist svo í eldi frönsku stjórnarbyltingarinnar á síðari hluta átjándu aldar. Í Evrópu köstuðu menn af sér höftum konunga sinna og um leið varð frelsi og ábyrgð einstaklingsins meginstef frjálslyndisstefnunnar.

Hugmyndin um sjálfstjórn þjóða er í grunninn frjálslynd hugmynd um sjálfstæði og frelsi. Þrátt fyrir að þjóðernishugmyndir Íslendinga og hugmyndir um fullveldi landsins hafi komið fram í beinu framhaldi af þjóðernisstefnunni í Evrópu hefur hugmyndin um hina íslensku þjóð að vissu leyti þróast með öðrum hætti en víðast hvar í Evrópu.

Samkvæmt evrópsku frjálslyndisstefnunni var fullveldishugtakið tvíþætt. Annars vegar var krafa um fullveldi þjóðarinnar sem heildar en á hinn bóginn, sem var ekki síður mikilvægt, var um leið krafa um frelsi einstaklingsins. Hugmyndir á borð við atvinnufrelsi og verslunarfrelsi manna innan ríkis og þvert á landamæri tóku við af höftum fortíðar út um alla Evrópu. Í sjálfstæðisbaráttu Íslands varð óumdeilt að fullveldi landsins væri endanlegt markmið og ekkert annað kom raunverulega til greina.

Sá hluti evrópsku þjóðernisstefnunnar sem sneri að hugmyndum um frelsi einstaklingsins og atvinnu- og verslunarfrelsi, náði þó ekki rótfestu á Íslandi með sama hætti og annars staðar í álfunni. Rótgrónar efasemdir um atvinnufrelsi manna voru til að mynda rígbundnar í vistabandi sem túlkaði þá viðteknu skoðun að lausamennska og húsmennska gerðu einstaklingnum aðeins illt.

Í sjálfstæðisbaráttunni var litið svo á að bændabýlin geymdu menningarlega sögu og arfleifð Íslands, bóndinn varð eins konar menningarleg hetja Íslandssögunnar og mikilvægt þótti að standa vörð um bændasamfélagið og koma í veg fyrir að þjóðin veslaðist upp í ómenningu í verslunarþorpum við sjávarsíðuna. Þjóðveldið var upphafið og litið svo á að upplausn bændasamfélagsins væri ógn við sjálfan grundvöll íslensku þjóðarinnar.

Það sama var uppi á teningnum hvað verslunarfrelsi áhrærir. Efasemdir um gildi frjálsra viðskipta kristölluðust til að mynda í hugakinu landprang, um smásölu í sveitum, sem undirstrikaði dyggðaleysi verslunarinnar. Baráttan fyrir frelsi í utanríkisversluninni stöðvaðist við landsteinana og fól aðeins í sér ósk um lægra vöruverð á erlendum vörum og að unnt væri að selja íslenskar vörur á hærra verði úr landi, en snerist ekki um viðskiptafrelsi innanlands. Það vafðist til að mynda ekki fyrir Íslendingum að krefjast aðskiljanlegustu hafta í innanlandsverslun á sama tíma og þeir fóru fram á verslunarfrelsi í utanríkisviðskiptum. Íslendingar börðust fyrst og fremst fyrir sjálfstæði þjóðarinnar en mun óljósara var hvers konar stjórn átti að koma í stað þeirrar dönsku að fengnu frelsi.

Sumir boðberar og hugmyndafræðingar íslenskrar þjóðernisstefnu í Kaupmannahöfn boðuðu þó einnig einstaklingsfrelsi í takt við evrópsku frjálslyndisstefnuna til viðbótar við áhersluna á þjóðfrelsið. Þeirra á meðal var Jón Sigurðsson. Í Nýjum félagsritum, strax árið 1843, hvatti hann til þess að Íslendingar myndu þiggja aukið verslunarfrelsi eins og Danir buðu. Jón hvatti jafnt til verslunarfrelsis innanlands og við aðrar þjóðir. Í Nýjum félagsritum er einnig víða hvatt til opinna tengsla við aðrar þjóðir, auk þess sem áhersla er lögð á menntun og vísindi. Dr. Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, heldur því hins vegar fram að Íslendingar hafi aðeins fylgt Jóni Sigurðssyni og félögum að málum út af þjóðernishyggju en alls ekki til að koma á verslunarfrelsi eða öðrum frjálslyndum þjóðfélagsháttum. Þetta er lykilatriði til að skylja muninn á hugmyndum Íslendinga um frelsi einstaklingsins og þann sem þróaðist annars staðar.

Á Íslandi varð því til heildstæðari afstaða til samfélagsins, sem gengur þvert á kennisetningar frjálslyndisstefnunnar. Það voru ekki síst fulltrúar Danastjórnar sem töluðu fyrir frjálslyndi en stór hluti Íslendinga lagði þvert á móti áherslu á að vernda hið hefðbundna bændasamfélag. Skilningur Íslendinga á lýðræði, sem fylgdi evrópsku frjálslyndisstefnunni, var einnig íhaldssamur. Meira máli skipti að ákvarðanataka færðist inn í landið en að ákvarðanir væru teknar með lýðræðislegum hætti. Þessi íhaldssama þjóðernishyggja varð að hugmyndafræði ráðandi stétta. Það voru svo andstæðingar ríkjandi ástands sem boðuðu frjálslyndari þjóðernisstefnu, lengi vel án mikils árangurs.

Á Íslandi tókust þarna á tvö nokkuð gagnstæð öfl, annars vegar íhaldssemi sem birtist í áherslu á að vernda hefðbundið bændasamfélag og hins vegar straumar frjálslyndisstefnunnar sem náðu til Íslands eins og annarra landa á þessum tíma. Þess má geta að dr. Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðiprófessor, heldur því fram að þessi togsteita, milli íhaldssemi og frjálslyndis, sé einmitt sjálfur lykilinn að því að skilja íslenska þjóðernisvitund.

Ég vona að bæði Hr. Stefán og Dr. Snævarr átti sig bú betur á tengslum hugmyndarinnar um frelsi einstaklingsins og þróun íslenskrar þjóðernisstefnu.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Færum til baka oftekið fé

Nú þegar gjaldþrotahrinan hefur skollið á af fullum þunga eftir þrautavetur og þrassumar er loksins hafin aftur umræðan um skuldavanda heimilanna. Í hruninu ruku skuldir heimilanna upp úr öllu valdi, gjaldeyrislánin tvöfölduðust vegna falls krónunnar og verðtryggðu lánin fóru úr böndunum þegar verðbólgan rauk af stað. Afleiðingarnar urðu gríðarleg tilfærsla fjár frá skuldurum til fjármagnseigenda, - semsé frá öreigum til kapítalista.

Vel má halda því fram að tilfærslan hafi ekki staðið í neinu samhengi við það sem eðlilegt má teljast og því kom fram sú krafa að færa svolítinn hluta hins oftekna fjár til baka, vinda ofan af vitleysunni. Gallinn var bara sá að tillögurnar komu fram vitlausu megin við hina pólitísku víglínu, þegar stjórnarandstaðan lagði til leiðréttingu fyrir liðnar kosningar varð stjórnarliðið sjálfkrafa á móti þeirri leið. Staða heimilanna er hins vegar svo svakaleg að hefðbundin átakapólitík af þessu tagi gengur ekki lengur, við þurfum að fylla upp í skotgrafirnar og taka höndum saman.

Engin ofrausn væri að færa niður um það bil tuttugu prósent af höfuðstól verðtryggðra lána sem tekin voru til íbúðakaupa og örlítið betur hvað varðar gjaldeyrislánin. Til að koma í veg fyrir óþarfa niðurgreiðslur til auðmanna má setja hámark á lánafjárhæðina sem miðað verður við, þannig að einungis þau lán sem teljist innan marka eðlilegra íbúðakaupa venjulegra fjölskyldna verði leiðrétt, til að mynda aðeins fyrstu tuttugu milljónirnar af hverju húsnæðisláni. Hægt er að hugsa sér margvíslegar álíka útfærslur sem stjórnvöld þurfa að íhuga.

Ég legg því til að Jóhanna, Steingrímur og Sigríður Ingibjörg bjóði þeim Benedikt Jóhannssyni og Guðmundi Steingrímssyni í kaffi og klári málið í sameiningu. Þá fyrst getum við kannski öðlast svolitla trú á stjórnmálin á nýjan leik.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Samningsmarkmið

Í komandi aðildarsamningum við Evrópusambandið skiptir sköpum að vanda undirbúning svo unnt verði að ná fram sem allra bestum samningi. Til að svo megi verða þurfum við í það minnsta að vita tvennt; í fyrsta lagi hverjir meginhagsmunir okkar eru og í öðru lagi hvernig má koma þeim í höfn. Þrjú svið eru hér mikilvægari en önnur: fyrst sjávarútvegur, svo landbúnaður og byggðaþróun og loks að tryggja stöðugleika í peningamálum.

Á þessum orðum hefst þriggja greina flokkur sem ég tók saman um samningsmarkmið í komandi aðildarviðræðum við ESB og birtist í Fréttablaðinu neðangreinda daga.

Nr. 1 - Sjávarútvegur (29. júlí)
Nr. 2 - Landbúnaður og byggðaþróun (31. júlí)
Nr. 3 - Peningamálasamstarf (7. ágúst)

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Fullveldi, - já fullveldi

Þeir á Vefritinu sem finna má hér á Eyjunni tóku við mig ítarlegt viðtal í tilefni af doktorsrannsókn minni sem kom út fyrr í sumar í bókinni Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar - áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Sýnishorn af bókinni er hér en viðtalið má finna hér. Bókin fæst svo keypt í Bóksölu stúdenta og Eymundsson í Austurstræti.