miðvikudagur, 8. apríl 2009

Leiðrétting - ekki afsláttur

Margir hafa orðið til að gagnrýna niðurfærsluleið Framsóknarflokksins, og sumir sjálfskipaðir hagspekingar jafnvel reynt að hlæja hana út af borðinu. Mér virðist hins vegar, að þetta sé ekki aðeins skynsamleg aðgerð, heldur hreint og beint bráðnauðsynleg.

Frá hruninu í haust hefur orðið gífurleg tilfærsla fjár frá skuldurum til fjármagnseigenda. - Óverðskulduð tilfærsla gæti maður sagt því verðtryggingunni var aldrei ætlað að mæta viðlíka ástandi og nú hefur orðið. Vísitalan er mannanna verk en ekki náttúrulögmál.

Því er rétt að leiðrétta ofgreiðslur til fjármagnseigenda sem fall krónunnar hefur valdið og færa höfðustól húsnæðislána nær þeim skuldbindingum sem lántakendur samþykktu að taka á sig í upphafi, - mér sýnist tuttugu prósent niðurfærsla vera hófleg.

Og þjóðfélagið mun ekki fara neitt frekar á höfuðið við þetta en nú þegar er orðið, hér er aðeins um að ræða endurgreiðslu á ofteknu fé.