laugardagur, 4. apríl 2009

Bretar viðurkenna ábyrgð á Icesave

Fréttablaðið segir frá því í dag að rannsóknanefnd breska þingsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til að beita Ísland hryðjuverkalögunum, það hafi í það minnsta verið gagnrýniverð aðgerð.

Þessi niðurstaða styrkir þá skoðun sem ég hef áður sett fram, að með beitingu hryðuverkalaganna hafi bresk stjórnvöld yfirtekið skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi. Semsé; þegar Bretar beittu Ísland almennt og Landsbankann sérstaklega, ólöglegum hryðjuverkalögum, þá tóku þeir um leið yfir allar skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi, - þar á meðal Icesave-skuldirnar ógurlegu.

Þetta blasir eiginlega við. Því er óskiljanlegt með öllu að íslensk stjórnvöld hafa ekki enn látið á þetta reyna og hent Icesave-málinu í hausinn á breskum stjórnvöldum. Málið er augljóslega á þeirra ábyrgð og nú hafa þeir sjálfir viðurkennt það að hluta.

Í stað þess að beita þessum augljósu rökum í þjóðréttardeilunni við Breta þá völdu íslensk stjórnvöld framan af að þvæla málið í volausa deilu um samræmdar lagaskuldbindingar varðandi tryggingar innistæðueigenda. Ljóst var frá upphafi að það myndi aldrei ganga, alþjóðasamfélagið myndi aldrei standa með þjóð sem ætlaði að grafa undan trúverðugleika kerfisins.

Á endanum neyddust íslensk stjórnvöld til að undirgangast ábyrgð á Icesave, sem var ekki aðeins óþarfi heldur hreint og beint yfirgengilegt vanhæfi því við höfðum prýðileg rök - og höfum raunar enn. Einfaldara getur það varla verið: Með beitingu hryðjuverkalaganna tóku þeir sjálfir yfir ábyrgðirnar.

Mig skortir hugmyndaflug til að skilja hvers vegna íslensk stjórnvöld varpa málinu ekki yfir á herðar breskra stjórnvalda, - þar sem það á bersýnilega heima.