fimmtudagur, 31. júlí 2008

Iceland express bætir ekki skaðann

Um daginn sagði ég hér á síðunni frá vandræðum mínum vegna seinkunnar á flugi Iceland express til London. Nálega tíu tíma seinkunn varð til þess að ekkert varð af fundi sem ég hafði skipulagt með kollegum sem komu sérstaklega frá meginlandi Evrópu. Þeir voru farnir þegar ég loks kom. Því fór ég fram á að Iceland express myndi koma mér á nýjan leik til London án frekri útgjalda, svo hægt yrði að halda fundinn.

Skemmst er frá því að segja að flugfélagið sá enga ástæðu til þess. Ég þarf því að bera tapið af seinkunn Iceland express alfarið sjálfur. Þeir vita væntanlega sem er að ég þarf hvort eða að kaupa annan miða og það er aðeins um tvo kosti að velja.

föstudagur, 25. júlí 2008

Snertu nefið með fingri eða vasaklút

Menn hafa löngum haft löngun til að vita sitthvað um náungann, athuga hvað hann aðhefst. Sumir eru meira að segja haldnir svokallaðri gægjuhneigð. Í gegnum tíðina hafa ríki heims haft mismikinn áhuga á að hafa eftirlit með þegnum sínum. Þrátt fyrir einstaka símhleranir í kalda stríðinu hefur íslenska ríkið sem betur fer ekki verið jafn illa haldið og sum önnur af þeim skæða samfélagssjúkdómi sem eftirlitsáráttan er. Að minnsta kosti ekki hingað til.

Eins og önnur lýðræðisríki Vesturlanda hefur íslenska ríkið byggt á hugmyndinni um frelsi einstaklingsins, að ríkið eigi ekki að vera ofan í hvers manns koppi. Þetta hefur þó verið ögn að breytast. Eftir atburðina í Bandaríkjunum 11. september 2001 hafa stjórnvöld sumra Vesturlanda nefnilega fengið snaraukinn áhuga á hvers konar eftirliti. Allra handa njósnum. Svo virðist sem um fjölþjóðlegan faraldur sé að ræða, slík hefur útbreiðsla eftirlitsvírusins orðið síðustu ár. Sífellt er verið að auka við eftirlit með einstaklingum. Varla hægt að ferðast lengur.

Eftirlitssveitir

Undanfarnar tvær vikur hef ég verið á dulitlu ferðalagi. Frá Íslandi, til Englands, yfir til Berlínar og svo aftur í gegnum London til Slóveníu. Á þessu stutta ferðalagi hef ég í ekki færri en tuttugu skipti þurft að sanna með opinberum pappírum að ég sé ég, ellefu sinnum farið í gegnum vopnaeftirlit. Farið úr skónum, tekið af mér beltið og snúið mér í hring; allt til að þóknast fjölmönnum eftirlitssveitum Vestrænna lýðræðisríkja. Látið hirða af mér bæði raksápu og hársápu (sic!) Og hafi hafi nokkurt yfirvald virkilega áhuga, sem mér er raunar til efs, er líkast til hægt að kortleggja ferðir mínar, neyslu og lifnaðarhætti með upplýsingum úr farsíma, tölvu og greiðslukortum.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki farið varhluta af þessu nýtilkomna eftirlitsæði. Til að mynda er það nokkuð reglulegur viðburður að dómsmálaráðherra boði aukið eftirlit. Nýjasta áætlunin er að setja á fór einhvers konar öryggisgreiningardeild ríkisins, eitthvað þjóðaröryggisbatterí. Mér dettur ekki í hug að líkja því apparati við Öryggisþjónustu Austur-Þýska alþýðulýðveldisins, STASI, en hlutverkið er samt það sama. Að vernda öryggi þjóðarinnar/ríkisins með forvirkum rannsóknarúrræðum, eins og íslenski dómsmálaráðherran hefur þýtt það hugtak. Hins vegar, þegar ég var að skoða mig um í Berlín núna í vikunni , fór ég að velta fyrir mér hvernig svona eftirliti yrði háttað.

Strjúktu hár

Í höfuðstöðvum STASI við Normannenstrasse í Austur-Berín, sem nú hefur verið breytt í safn, er að finna leiðbeiningarblað sem STASI-liðar notuðu við eftirlisstörf á vettvangi, svo þeir gætu komið skilaboðum sín á milli. Ég vona svo sannarlega að neðanfylgjandi leiðbeiningar Austur-þýsku öryggisþjónustunnar komi þeirri íslensku ekki að nokkru einasta gagni. En þær voru svona:

1. Passaðu þig! Viðfangsefnið er að koma.
- Snertu nefið með fingri eða vasaklút.

2. Viðfangsefnið heldur áfram, fer lengra, eða fer frammúr.
- Strjúktu hár með hönd, eða lyftu hatti á höfði örlítið.

3. Viðfangsefnið stendur kyrrt.
- Legðu aðra hönd á bak eða maga.

4. Eftirlitsfulltrúi vill hætta eftirliti þar sem gervi hans er ógnað, hætta á að upp um hann komist.
- Beygðu þig niður og reimaðu skónna upp á nýtt.

5. Viðfangsefnið snýr við, kemur aftur.
- Settu báðar hendur á bak eða maga.

6. Eftirlisfulltrúi vill ræða við liðsforingja á vakt eða aðra eftirlitsfulltrúa sem taka þátt í eftirlitsverkefninu.
- Taktu fram skjalatösku eða álíka og skoðaðu innihald hennar.

24 stundir, 25. júlí 2008.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Evrópa, hnötturinn og alíslensk þjóð

Ég er semsé kominn til Lubljana, á fræðiráðstefnu um hnattvæðingu- og alþjóðastjórnmál. Í fyrramáið mun ég flytja fyrirlestur um áhrif þjóðernisstefnu á stöðu Norðurlandanna í Evrópusamstarfi, sér í lagi út frá Íslandi. Fyrirlesturinn byggir á grein sem birt er í tengslum við ráðstefnuna. Ég finn nú þegar að það er töluverður áhugi á efninu en hér eru samankomnir margir helstu fræðimenn á sviði hnattvæðingar- og alþjóðastjórnmála. Greinin er hér, en úttdráturinn fylgir að neðan:

The Nordic countries have continued to be amongst those who have shown the greatest wariness of the European integration process, but at the same time all of them have shown a keen interest in an ongoing close relationship with Europe, albeit in varying forms. This paper studies why Iceland has chosen not to be part of the EU institutions, and looks at the different paths of the Nordics in the European project. Iceland is the only one of the Nordic five that has never applied for EU membership. Iceland's entrance into the European Economic Area (EEA) in 1994, however, resulted in its becoming an associated member of the EU.

Despite the fact that Iceland is officially outside the European Union, it nonetheless continues, through the EEA, and later also the Schengen agreement, to participate actively in the European project. In fact, it can be argued that in some aspects Iceland is more deeply involved in the European integration process than some of its official members.

The question then remains: why does Iceland accept real transfer of decision-making to Brussels through the EEA but not full membership of the EU? In this paper a post-structuralist examination of the construction and constellation of Icelandic nationality and importance of sovereignty is used to tackle the above question.

Lesa áfram hér.

mánudagur, 21. júlí 2008

Berlín-Lubljana

Veðrið hér í Berlín hefur ekki verið neitt sérstakt undanfarið. Hvorki heitt né kalt. Lítið sést til sólar en ekki heldur nein úrkoma að ráði. Raunar fullkomið veður fyrir mann sem hvort eð er situr sem fastast við skriftir.

Á morgun fer ég svo áfram til Ljubljana. Verð á þessari ráðstefnu, ef einhver hefur áhuga á að kynna sér efni hennar.

Þrátt fyrir augljóst landfræðilegt óhagræði þarf ég að millilenda á Standsted flugvelli, sem ég hlakka nú ekkert sérlega til. En svona er það víst, þegar maður á hvorki einkaflugvél né almennilega þyrlu.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Lundúnir og evrumál

Iceland express skilaði mér hingað til London, rétt eftir að fundi þeim sem ég ætlaði á lauk og kollegar mínir héldu heim á leið. Við tók ágætis rölt í borginni, fann til að mynda margar áhugaverðar bækur sem ég þarf að drösla með mér það sem eftir er af ferðalaginu. Síðar í dag fer ég til Berlínar og svo áfram til Lubljana þar sem ég er með grein og erindi á ráðstefnu um rannsóknir í alþjóðafræðum. Þetta er raunar viðamesta fræðiráðstefna heims á sínu sviði, þar að segja alþjóðafræðum og hnattvæðingu. Ég á að fjalla um norræna þjóðernishyggju.

Björn Bjarnason er heldur óljós í málflutningi sínum um upptöku evru á grundvelli EES. Það hefur lengi verið vitað að ómögulegt er að fá tvíhliða samning við ESB um upptöku evru, hvað þá ef með á að fylgja aðild að Efanhags- og myntbandalagi ESB eins og Valgerður Sverrisdóttir lagði eitt sinn til. EMU verður ekki skilið frá ESB.

Hins vegar gæti verið tæknilegur möguleiki á því að fá einhvers konar aðild að undirbúningsferlinu í ERM II. Sem er samskonar staða og Danmörk er í gagnvart evrunni. ERM II er kerfi sem tengir gjaldmikil viðkomandi ríkis við evru á tilteknu gengi en leyfir því að sveiflast um afar þröngt miðgildi. Danska krónan er því einskonar skuggaevra, - hreinlega ekkert annað en ávísun á evru.

Vandi okkar er þó sá sami og áður. Ísland er ekki í Evrópusambandinu og því ansi fjarlægur möguleiki að ESB fallist á að hleypa okkur inn í ERM II. Svo væri þetta nú ansi furðuleg staða fyrir fullvalda þjóð sem ekki vill vera í ESB. Eigi að síður mætti svo sem láta á þetta reyna ef menn hafa virkilega áhuga á svoleiðis æfingum.

sunnudagur, 13. júlí 2008

Messufall hjá Iceland express

Nokkrar fréttir hafa verið af seinkunum og jafnvel niðufellingu á flugi hjá Iceland express undanfarið. Nú hef ég einnig orðið fyrir barðinu á þessum vanda félagsins.

Ég átti bókað far með Iceland express til London kl. 07:50 í morgun. Þegar ég vaknaði klukkan fimm í nótt beið mín í símanum skilaboð um að fluginu hafi verið frestað til 15.30 í dag. Ég er því enn hér heima en ætti með réttu að vera mættur á fund í London. Ég er raunar á leið til Berlínar en ætlaði að millilenda í London til að mæta á þennan fund sem var sérstaklega tímasettur með tilliti til minnar ferðaráætlunar. Aðrir koma inn frá Brussel en fara aftur í kvöld. Nú eru þau plön farin í vaskinn en samt stórefast ég um að þetta annars ágæta flugfélag sjái nokkra ástæðu til að bæta mér fjárhagstapið, líkast til um tvö hundruð þúsund krónur í heild, þar af um hundrað þúsund krónur hjá mér persónulega. Við skulum samt sjá til. Lengi er von á einum.

Þessi seinkun er að mér sýnist ekki tilkomin vegna óviðráðanlegra orsaka eins og það heitir heldur var morgunflugið einfaldlega sameinað síðdegisfluginu, líkast til vegna lélegrar bókunarstöðu. Þetta er semsé bara sparnaðaraðgerð hjá fyrirtækinu. En vonandi verður allavega ekki frekari seinkun á Londonfluginu. En við sjáum einnig til með það.

föstudagur, 11. júlí 2008

Múrinn

Múrar eru af ýmsu tagi, sumir hverjir ágætlega gagnlegir, til að mynda múrveggir í híbýlum manna sem vernda fólk fyrir óþæginlegu veðurlagi, en svo eru þeir sem eru reistir til að skilja fólk að. Til að slíta í sundur. Slíkir múrar hafa aldrei dugað til langframa og oftar en ekki gert það ástand verra sem átti að bæta. Berlínarmúrinn er líkast til sá frægasti, hugsanlega að Kínamúrnum undanskildum.

Enn í dag eru menn að reisa aðskilnaðarmúra. Í Ísrael er til að mynda verið að reisa múr sem heldur Palestínumönnum frá Gyðingjum. Múrinn sá arna slítur landsvæði Palestínumanna í sundur, þvert á eðlilegar skiptilínur samfélaga og bútar það niður í aðskilin gettó. Þar mega hinir óæðri húka í allri sinni ömurð. Þrátt fyrir auglósan blæbrigðarmun er samt ekki alveg fráleitt að líkja þessum gettóum við þau sem nasistar smöluðu Gyðingum í víðsvegar í Þýskalandi á fjórða áratugnum.

Evrópvirkið

Áhugi á múrverki er enn að finna víða í nútímasamfélögum. Forseti Bandaríkjanna er til að mynda sérlegur áhugamaður um himinháan múrvegg sem á að skilja Suður-Ameríku frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þvert eftir landamærunum að Mexíkó, allt frá Mexíkóflóa í austri og út í Kalíforníuflóa í vestri.

En múrar eru ekki aðeins hlaðnir úr áþreifanlegum steini, stáli eða steypu. Stundum eru þeir fólgnir í ókleifu regluverki sem skilur fólk í sundur. Evrópuvirkið svokallaða (e. Fortress Europa) er dæmi um slíkan múr sem leiðtogar Evrópuríkja hafa sammælast um að reisa utan um vestræn ríki velferðar. Yfir þennan múr komast fáir aðrir en sérlega vel fleygir fuglar, allra síst fátækt verkafólk frá Afríku. Evrópuvirkið var enda í upphafi reist því að halda Afríkubúum sem lengst frá velferðinni í norðri.

Lengst af var Miðjarðarhafið nánast eitt atvinnu- og verslunarsvæði. Illfær Sahara eyðimörkin skildi Norður-Afríku frá ríkjunum í suðri en hins vegar var auðvelt að sigla norður yfir Miðjarðarhafið, austur undir botn þess eða út í gegnum sundið í vestri. Sjófarendur voru hvergi beðnir um vegabréf en nú er bátum sem koma að sunnan umhugsunarlítið snúið til baka við virkisvegginn í Norðri.

Innflutt innflytjendastefna

Ein varðstöð Evrópuvirkisins er í Cannes í Frakklandi, en nú fyrr í vikunni komu leiðtogar Evrópusambandsins saman í þeim annars ágæta strand- og kvikmyndabæ og samþykktu að þráfluttri tillögu Frakklandsforseta að hækka Evrópumúrinn enn frekar. Evrópuvirkið verður semsé enn rammgerðara verði innflytjendapakki Frakklandsforseta endanlega staðfestur á ríkjaráðstefnu ESB í október, en frá því að Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti hefur hann sífellt verið að puða og juða við að koma á samræmdum reglum um meðferð innlytjenda og hælisleitenda í Evrópu. Nú hefur það semsé tekist, í það minnsta að hluta. Að vísu taka Evrópusambandsríki í heild enn við fleiri innflytjendum en Bandaríkin en sífellt þrengist um.

Fyrsti liðurinn í áætlun Frakklandsforseta er þegar í höfn en ný tilskipun mælir svo fyrir að nú má hafa innflytjendur í haldi í allt að átján mánuði, áður en þeim er snúið til baka til síns heima. Þá er ráðgert að nýta landamærasamstarfið í Schengen og Frontex-stofnunina til að samræma og herða eftirlit með innflytjendum en leiðtogar Evrópusambandsríkja eiga eftir að útfæra stefnuna endanlega.

Björn Bjarnason eða aðrir fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka ekki þátt í þeirri vinnu en við fyrstu sýn fæst ekki annað séð en að flestar tillögurnar séu á sviðum sem einnig ná til Íslands. Í október eigum við því von á glænýrri innflytjendastefnu, innfluttri beint frá Brussel.

24 stundir, 11. júlí 2008.

þriðjudagur, 8. júlí 2008

Misskilin reglugerð frá Dublin

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, og Útlendingastofnun, sem heyrir undir ráðuneytið, halda áfram að misskilja Dyflinar-reglugerðina um meðhöndlun flóttamanna. Reglan er nú hluti af Schengen-samningnum.

Þegar innra eftirlit var afnumið með Schengen-sáttmálanaum innan Evrópusambandsins árið 1997 (Ísland varð fullgildur aðili 2001) þurfti um leið að tryggja að málefni flóttamanna yrðu einhvers staðar meðhöndluð og brýnt þótti að koma í veg fyrir að ríki gætu sent flóttamenn fram og til baka eða áfram til annarra ríkja án þess að mál þeirra yrðu tekin til afgreiðslu og fría sig þannig ábyrð á flóttamannavandanum. Því var sett sú skylda á hendur þess ríkis sem flóttamaðurinn kemur fyrst til inn á svæðið að það verði að taka mál hans til skoðunar.

Þar með var komin sú heimild sem íslensk stjórnvöld vísa nú til, að unnt er að senda flóttamann til baka til þess ríkis í Schengen sem hann kom fyrst til.

Þessi skylda sem sett á herðar fyrsta ríkis til meðhöndlunar máls kemur hins vegar alls ekki í veg fyrir að annað ríki, til að mynda þar sem flóttamaðurinn er staddur, meðhöndli mál hans þótt hann hafi millilent annars staðar áður. Hér er einungis verið að tryggja að mál hans sé einhvers staðar meðhöndlað.

Á ensku er markmiðið orðað svona; "to avoid situations where refugees were shuttled from one Member State to another, with none accepting responsibility."

Nánar um Dyflinar-reglugerðina hér.

sunnudagur, 6. júlí 2008

Hælisleit í vikulok

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, gerir á bloggsíðu sinni athugasemd við greiningu mína á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda, sem fram hafði komið í fréttum Sjónvarps. Ég var spurður út í aðfinnsluefni Björns í Vikulokum Hallgríms Thorsteinssonar á Rúv í gær. Áhugasamir geta nálgast þáttinn og svar mitt við gagnýrni ráðherrans hér.

Með mér í þættinum voru Árni Helgason, framkvæmdastjóri þingflokks sjálfstæðismanna og Birgir Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri.

föstudagur, 4. júlí 2008

Flóttamönnum sjálfkrafa vísað úr landi

Ég ræddi við fréttastofu sjónvarps í tíufréttum í gærkvöld. Fréttastofan óskaði eftir áliti á stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum hælisleitenda, í tilefni af því að Keníamanninum sem sótt hafði um pólitískt hæli á Íslandi var vísað úr landi án þess að mál hans hafði fengið efnislega meðferð hérlendis. Viðtalið er hér.

Sjá nánar um stefnu íslenskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda og flóttamanna hér.

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Herðubreið: Hvað breytist raunverulega við aðild að ESB?

Nýverið birtist grein eftir mig í tímaritinu Herðubreið þar sem gerð er tilraun til að greina þann mun sem er annars vegar á EES og hins vegar á fullri aðild að ESB.

Inngangurinn er svona:

Stundum fylgir því dulítill vandi að ræða um Evrópumál á Íslandi. Ekki aðeins vegna þess að þekking á málaflokknum er almennt það lítil að auðvelt er fyrir slóttuga stjórnmálamenn að afvegaleiða umræðuna með röngum fullyrðingum og raunar hreinum og klárum blekkingum eins og stundum er gert heldur einnig vegna þess að Evrópuumræðan hér á landi fylgir göngulagi íslensku hagsveiflunnar nokkuð náið.

Þegar vel gengur í efnahagslífinu hafa fáir áhuga á Evrópumálum en þegar illa árar fara menn fyrst að velta fyrir sér kostum Evrópusamstarfs. Sú umræða sem nú stendur yfir gaus upp í kjölfarið á gengishruni íslensku krónunnar í febrúar 2006. Síðan þá hafa Evrópumál á Íslandi verið rædd á forsendum evrunnar, sameiginlegri mynt fimmtán Evrópusambandsríkja.

Eftir því sem erfiðleikarnir hafa aukist í efnahagslífnu hefur skertpst á Evrópuumræðunni og er nú svo komið að þrýstingurinn á upptöku evru í stað krónu er að verða óbærilegur að sumra mati. Vofa verðbólgu gengur nú ljósum logum um samfélagið og þurrkar upp peningaveski landsmanna á meðan ógnarháir vextir stigmagna skuldastöðu heimilanna á degi hverjum. Því er kannski ekki nema von að Evrópuumræðan sækir nú í sig veðrið sem aldrei fyrr.

Greinin í heild sinni er hér.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Eyjan og tíðarandinn

Vissulega tíðindi að Pétur Gunnarsson sé horfinn úr stýrisbrúnni á Eyjunni. Í raun er dálítð magnað hvað tekist hefur að gera þennan vef að öflugum fjölmiðli. Eiginlega upp úr engu. Veit að Eyjan er fyrsti viðkomustaður margra á daglegum vefrúnti.

En það er ekki síður merkilegt að Hallgrímur Thorsteinsson, margreindur fjölmiðlamaður, taki nú við ritstjórninni. Kannski er það til merkis um að vefmiðlar eru loksins orðnir alvöru fjölmiðlar, á pari við prent- og ljósvakamiðla.

Strikið.is var um liðin aldamót stórmerkileg tilraun til að búa til alvöru fjölmiðil á netinu, en var líkast til of snemma á ferðinni. Hvorki tæknin né tíðarandinn var tilbúinn. En Eyjan hefur hins vegar alla burði til að festa sig í sessi.

Við fylgjumst allavega spennt með.