föstudagur, 11. júlí 2008

Múrinn

Múrar eru af ýmsu tagi, sumir hverjir ágætlega gagnlegir, til að mynda múrveggir í híbýlum manna sem vernda fólk fyrir óþæginlegu veðurlagi, en svo eru þeir sem eru reistir til að skilja fólk að. Til að slíta í sundur. Slíkir múrar hafa aldrei dugað til langframa og oftar en ekki gert það ástand verra sem átti að bæta. Berlínarmúrinn er líkast til sá frægasti, hugsanlega að Kínamúrnum undanskildum.

Enn í dag eru menn að reisa aðskilnaðarmúra. Í Ísrael er til að mynda verið að reisa múr sem heldur Palestínumönnum frá Gyðingjum. Múrinn sá arna slítur landsvæði Palestínumanna í sundur, þvert á eðlilegar skiptilínur samfélaga og bútar það niður í aðskilin gettó. Þar mega hinir óæðri húka í allri sinni ömurð. Þrátt fyrir auglósan blæbrigðarmun er samt ekki alveg fráleitt að líkja þessum gettóum við þau sem nasistar smöluðu Gyðingum í víðsvegar í Þýskalandi á fjórða áratugnum.

Evrópvirkið

Áhugi á múrverki er enn að finna víða í nútímasamfélögum. Forseti Bandaríkjanna er til að mynda sérlegur áhugamaður um himinháan múrvegg sem á að skilja Suður-Ameríku frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, þvert eftir landamærunum að Mexíkó, allt frá Mexíkóflóa í austri og út í Kalíforníuflóa í vestri.

En múrar eru ekki aðeins hlaðnir úr áþreifanlegum steini, stáli eða steypu. Stundum eru þeir fólgnir í ókleifu regluverki sem skilur fólk í sundur. Evrópuvirkið svokallaða (e. Fortress Europa) er dæmi um slíkan múr sem leiðtogar Evrópuríkja hafa sammælast um að reisa utan um vestræn ríki velferðar. Yfir þennan múr komast fáir aðrir en sérlega vel fleygir fuglar, allra síst fátækt verkafólk frá Afríku. Evrópuvirkið var enda í upphafi reist því að halda Afríkubúum sem lengst frá velferðinni í norðri.

Lengst af var Miðjarðarhafið nánast eitt atvinnu- og verslunarsvæði. Illfær Sahara eyðimörkin skildi Norður-Afríku frá ríkjunum í suðri en hins vegar var auðvelt að sigla norður yfir Miðjarðarhafið, austur undir botn þess eða út í gegnum sundið í vestri. Sjófarendur voru hvergi beðnir um vegabréf en nú er bátum sem koma að sunnan umhugsunarlítið snúið til baka við virkisvegginn í Norðri.

Innflutt innflytjendastefna

Ein varðstöð Evrópuvirkisins er í Cannes í Frakklandi, en nú fyrr í vikunni komu leiðtogar Evrópusambandsins saman í þeim annars ágæta strand- og kvikmyndabæ og samþykktu að þráfluttri tillögu Frakklandsforseta að hækka Evrópumúrinn enn frekar. Evrópuvirkið verður semsé enn rammgerðara verði innflytjendapakki Frakklandsforseta endanlega staðfestur á ríkjaráðstefnu ESB í október, en frá því að Nicolas Sarkozy var kjörinn forseti hefur hann sífellt verið að puða og juða við að koma á samræmdum reglum um meðferð innlytjenda og hælisleitenda í Evrópu. Nú hefur það semsé tekist, í það minnsta að hluta. Að vísu taka Evrópusambandsríki í heild enn við fleiri innflytjendum en Bandaríkin en sífellt þrengist um.

Fyrsti liðurinn í áætlun Frakklandsforseta er þegar í höfn en ný tilskipun mælir svo fyrir að nú má hafa innflytjendur í haldi í allt að átján mánuði, áður en þeim er snúið til baka til síns heima. Þá er ráðgert að nýta landamærasamstarfið í Schengen og Frontex-stofnunina til að samræma og herða eftirlit með innflytjendum en leiðtogar Evrópusambandsríkja eiga eftir að útfæra stefnuna endanlega.

Björn Bjarnason eða aðrir fulltrúar íslenskra stjórnvalda taka ekki þátt í þeirri vinnu en við fyrstu sýn fæst ekki annað séð en að flestar tillögurnar séu á sviðum sem einnig ná til Íslands. Í október eigum við því von á glænýrri innflytjendastefnu, innfluttri beint frá Brussel.

24 stundir, 11. júlí 2008.