föstudagur, 25. júlí 2008

Snertu nefið með fingri eða vasaklút

Menn hafa löngum haft löngun til að vita sitthvað um náungann, athuga hvað hann aðhefst. Sumir eru meira að segja haldnir svokallaðri gægjuhneigð. Í gegnum tíðina hafa ríki heims haft mismikinn áhuga á að hafa eftirlit með þegnum sínum. Þrátt fyrir einstaka símhleranir í kalda stríðinu hefur íslenska ríkið sem betur fer ekki verið jafn illa haldið og sum önnur af þeim skæða samfélagssjúkdómi sem eftirlitsáráttan er. Að minnsta kosti ekki hingað til.

Eins og önnur lýðræðisríki Vesturlanda hefur íslenska ríkið byggt á hugmyndinni um frelsi einstaklingsins, að ríkið eigi ekki að vera ofan í hvers manns koppi. Þetta hefur þó verið ögn að breytast. Eftir atburðina í Bandaríkjunum 11. september 2001 hafa stjórnvöld sumra Vesturlanda nefnilega fengið snaraukinn áhuga á hvers konar eftirliti. Allra handa njósnum. Svo virðist sem um fjölþjóðlegan faraldur sé að ræða, slík hefur útbreiðsla eftirlitsvírusins orðið síðustu ár. Sífellt er verið að auka við eftirlit með einstaklingum. Varla hægt að ferðast lengur.

Eftirlitssveitir

Undanfarnar tvær vikur hef ég verið á dulitlu ferðalagi. Frá Íslandi, til Englands, yfir til Berlínar og svo aftur í gegnum London til Slóveníu. Á þessu stutta ferðalagi hef ég í ekki færri en tuttugu skipti þurft að sanna með opinberum pappírum að ég sé ég, ellefu sinnum farið í gegnum vopnaeftirlit. Farið úr skónum, tekið af mér beltið og snúið mér í hring; allt til að þóknast fjölmönnum eftirlitssveitum Vestrænna lýðræðisríkja. Látið hirða af mér bæði raksápu og hársápu (sic!) Og hafi hafi nokkurt yfirvald virkilega áhuga, sem mér er raunar til efs, er líkast til hægt að kortleggja ferðir mínar, neyslu og lifnaðarhætti með upplýsingum úr farsíma, tölvu og greiðslukortum.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki farið varhluta af þessu nýtilkomna eftirlitsæði. Til að mynda er það nokkuð reglulegur viðburður að dómsmálaráðherra boði aukið eftirlit. Nýjasta áætlunin er að setja á fór einhvers konar öryggisgreiningardeild ríkisins, eitthvað þjóðaröryggisbatterí. Mér dettur ekki í hug að líkja því apparati við Öryggisþjónustu Austur-Þýska alþýðulýðveldisins, STASI, en hlutverkið er samt það sama. Að vernda öryggi þjóðarinnar/ríkisins með forvirkum rannsóknarúrræðum, eins og íslenski dómsmálaráðherran hefur þýtt það hugtak. Hins vegar, þegar ég var að skoða mig um í Berlín núna í vikunni , fór ég að velta fyrir mér hvernig svona eftirliti yrði háttað.

Strjúktu hár

Í höfuðstöðvum STASI við Normannenstrasse í Austur-Berín, sem nú hefur verið breytt í safn, er að finna leiðbeiningarblað sem STASI-liðar notuðu við eftirlisstörf á vettvangi, svo þeir gætu komið skilaboðum sín á milli. Ég vona svo sannarlega að neðanfylgjandi leiðbeiningar Austur-þýsku öryggisþjónustunnar komi þeirri íslensku ekki að nokkru einasta gagni. En þær voru svona:

1. Passaðu þig! Viðfangsefnið er að koma.
- Snertu nefið með fingri eða vasaklút.

2. Viðfangsefnið heldur áfram, fer lengra, eða fer frammúr.
- Strjúktu hár með hönd, eða lyftu hatti á höfði örlítið.

3. Viðfangsefnið stendur kyrrt.
- Legðu aðra hönd á bak eða maga.

4. Eftirlitsfulltrúi vill hætta eftirliti þar sem gervi hans er ógnað, hætta á að upp um hann komist.
- Beygðu þig niður og reimaðu skónna upp á nýtt.

5. Viðfangsefnið snýr við, kemur aftur.
- Settu báðar hendur á bak eða maga.

6. Eftirlisfulltrúi vill ræða við liðsforingja á vakt eða aðra eftirlitsfulltrúa sem taka þátt í eftirlitsverkefninu.
- Taktu fram skjalatösku eða álíka og skoðaðu innihald hennar.

24 stundir, 25. júlí 2008.