sunnudagur, 13. júlí 2008

Messufall hjá Iceland express

Nokkrar fréttir hafa verið af seinkunum og jafnvel niðufellingu á flugi hjá Iceland express undanfarið. Nú hef ég einnig orðið fyrir barðinu á þessum vanda félagsins.

Ég átti bókað far með Iceland express til London kl. 07:50 í morgun. Þegar ég vaknaði klukkan fimm í nótt beið mín í símanum skilaboð um að fluginu hafi verið frestað til 15.30 í dag. Ég er því enn hér heima en ætti með réttu að vera mættur á fund í London. Ég er raunar á leið til Berlínar en ætlaði að millilenda í London til að mæta á þennan fund sem var sérstaklega tímasettur með tilliti til minnar ferðaráætlunar. Aðrir koma inn frá Brussel en fara aftur í kvöld. Nú eru þau plön farin í vaskinn en samt stórefast ég um að þetta annars ágæta flugfélag sjái nokkra ástæðu til að bæta mér fjárhagstapið, líkast til um tvö hundruð þúsund krónur í heild, þar af um hundrað þúsund krónur hjá mér persónulega. Við skulum samt sjá til. Lengi er von á einum.

Þessi seinkun er að mér sýnist ekki tilkomin vegna óviðráðanlegra orsaka eins og það heitir heldur var morgunflugið einfaldlega sameinað síðdegisfluginu, líkast til vegna lélegrar bókunarstöðu. Þetta er semsé bara sparnaðaraðgerð hjá fyrirtækinu. En vonandi verður allavega ekki frekari seinkun á Londonfluginu. En við sjáum einnig til með það.