föstudagur, 30. janúar 2009

The lure of the euro in Iceland - grein í Guardian

Í forsíðufrétt í Guardian í dag er því haldið fram að Ísland geti fengið flýtimeðferð inn í Evrópusambandið. Blaðið gleymir þvi hins vegar að tilvonandi ríkisstjórn hefur ESB-aðild alls ekki á stefnuskrá sinni, eins og fram kemur í grein sem ég var beðinn um að rita fyrir blaðið og birtist á vef þess nú fyrir skömmu.

Sjá hér.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Endurreisn Alþingis

Framan af einkenndist stjórnskipan Íslands af þingræði en hefur síðan þróast yfir í ráðherraræði og í allra seinustu tíð yfir í hreinræktað leiðtogaræði. Áður en fjallað er um þessa þróun er rétt að gefa gaum hvernig táknfræðin sem blasir við okkur á löggjafarþinginu undirstrikar þessa þróun.

Hæstvirtur ráðherra

Stéttaskiptingin stjórnmálanna er skýr, ráðherrar eru settir skör hærra en almennir þingmenn sem virðast eiginlega einskonar undirmenn þeirra. Fyrsta táknið blasir einmitt við í titlunum, fulltrúi okkar á löggjafarþinginu er óbreyttur þingmaður en fulltrúi framkvæmdavaldsins er hvorki meira en minna en ráðherra, - herrann sem ræður.

Þessi munur er undirstrikaður í ávarpi þingmanna í ræðustól þingsins: Háttvirtur þingmaður er virðulegt ávarp en ráðherrann er hins vegar ekkert minna en hæstvirtur.

Táknin blasa allstaðar við: Á sjálfu löggjafarþinginu sitja ráðherrar í öndvegi og horfa úr hásæti sínu yfir þingheim. Á gangi einum í þinginu er röð ljósmynda af virðulegum mönnum, þetta eru ekki helstu skörungar þingsins heldur allir ráðherrar lýðveldisins með tölu. Metnaðargjarn þingmaður sem vill komast í hópinn verður því fyrst að fá ráðherrastól.

Fleira undirstrikar stéttarmuninn; óbreyttir koma til þings á eigin bíl sem þeir leggja í nálægt bílastæði og klöngrast svo yfir bílaplanið á meðan ráðherrum er ekið í glæsibifreið upp að dyrum.

Í matsalnum var um hríð dúklagt borð fyrir forsætisráðherra og hirð hans, óbreyttir þingmenn snæða við bert borð.

Verra er, að hendingu má kalla ef lagafrumvarp óbreyttra þingmanna nær fram að ganga á löggjafarsamkundunni, en frumvörp ráðherra renna hins vegar í gegn eins og bráðið smjör. Almennir þingmenn eru að mestu hættir að mæla fyrir frumvörpum, það er nú nánast alfarið í höndum ráðherra.

Leiðtogaræði

Þetta var ekki svona og þarf ekki að vera svona. Með endurreisn Alþingis árið 1844 varð löggjafarþingið þungamiðjan í stjórnmálakerfi landsins. Eftir að framkvæmdarvaldið kom fyrst inn í landið árið 1904 var það fyrst um sinn veikt en styrkti smám saman stöðu sína gagnvart þinginu. Eftir því sem líða tók á nýliðna öld sótti framkvæmdarvaldið í sig veðrið og seig loks fram úr þinginu. Hér varð það sem kalla má ráðherraræði, í þeim skilningi að hver ráðherra varð ráðandi um mestalla framþróun í eigin málaflokki.

Undir lok aldarinnar breyttist kerfið svo aftur þegar stjórnskipanin fór í síauknu mæli að einkennast af leiðtogaræði, þar sem formenn stjórnarflokkanna véla um sífellt fleiri mál sín á milli án mikils samráðs við félaga sína í ríkisstjórn eða þingmenn flokkanna, hvað þá að stjórnarandstaða komi nokkurn tímann að málum.

Formenn stjórnmálaflokkanna hafa nánast fengið ægivald innan flokka sinna, hafa örlög þingmanna sinna svo gott sem í höndum sér, sem leiðir til þess að almennir þingmenn og fagráðherrar þora ekki að hafa sig í frammi gegn formanni sínum af ótta við að lenda á köldum klaka. Þeir sem hlaupa útundan sér, eins og það er gjarnan kallað, eru um leið settir á pólitískan ís.

Hvað er til ráða?

Endanleg gelding þingsins blasti við alþjóð þann sjötta október síðastliðinn þegar þingmenn samþykktu neyðarlög sem gjörbreyttu íslensku þjóðfélagi án þess einu sinni að lesa lagabálkinn yfir. Síðan þá hefur þingið nánast verið óvirkt og mótbárulaust samþykkt hvað svo sem framkvæmdarvaldið hefur lagt til. Þessu þarf að snúa við. Mikilvægt er að endurreisa Alþingi. En hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi þarf að losa ráðherra af þingi, setja má þá reglu að þegar þingmaður setjist í ráðherrastól segi hann um leið af sér þingmennsku. Ráðherrar hafa þá ekki annað erindi í þingið en að standa löggjafanum skil á verkum sínum. Eins og vera ber.

Í öðru lagi má búa svo um hnútana að það verði í höndum formanna viðkomandi þingnefnda að mæla fyrir þingmálum, frekar heldur en ráðherrans eins og nú er. Þannig gæti þingið náð aftur til sín frumkvæði í lagasetningu eins og stjórnarskráin kveður á um.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að takmarka þann tíma sem menn geta setið við völd, bæði til að tryggja endurnýjun og ekki síður til að takmarka völd leiðtoganna. Auðvelt er að setja þá reglu að ráðherrar sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil samfellt við völd. Sem er auðvitað feikinóg. Með því móti ætti ásjóna valdsins að verða önnur og hyggilegri en nú er.

Stjórnmálaflokkarnir gætu líka sjálfir tekið upp slíkt fyrirkomulag, til að mynda að setja þá einföldu reglu að formaður geti lengst setið í átta ár. Lengri valdaseta er hvort eð er óþörf.

Í fjórða lagi er kannski kominn tími til að hreinsa út það fólk sem hefur leyft þessari óheillaþróun að verða á sinni vakt.

Fréttablaðið, 28. janúar 2008

mánudagur, 26. janúar 2009

Stjórnlagakreppa ofan á stjórnarkreppu?

Almennt hefur verið talið að forsætisráðherra hafi þingrofsrétt og vilji hann rjúfa þing þurfi að boða til kosninga innan 45 daga.

Til eru þeir sem hafa efast um þessa túlkun á stjórnarskránni. Einn þeirra er núverandi forseti sem setti fram þá skoðun þegar hann var prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands að þingrofsvaldið sé alfarið í hendi forseta, - forsætisráðherra hafi aðeins tillögurétt um þingrof.

Því kemur ekki á óvart að Ólafur Ragnar sjái ástæðu til þess nú, að hnykkja á þessari skoðun sinni. Merkilegra er að svo virðist sem Geir hafi kosið að gera ekki ágreining við forsetann um þetta efni, lýsti yfir eftir fundinn að verkstjórnin sé nú í höndum Ólafs.

Spennandi verður að sjá hvort aðrir séu sammála túlkun forsetans sem hingað til hefur verið minnihlutaskoðun um stjórnskipan lýðveldisins; því ef svo er ekki, þá gæti stjórnlagakreppa hæglega skollið á ofan á stjórnarkreppu.

sunnudagur, 25. janúar 2009

Vandlifað

Þau mótmæli sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði hafa haft afgerandi áhrif í íslenskum stjórnmálum. Valdhafarnir fengu aldeilis að finna til tevatnsins þegar þing kom saman á ný á þriðjudaginn síðastliðinn. Með taktföstu andófi sýndi þjóðin og sannaði að valdið er hennar en ekki fulltúanna sem fóru svona gáleysilega með umboðið.

Semsé allt gott og blessað, en um leið þurfum við að passa að þjóðin slitni ekki í sundur í átökunum, að við sjáum ekki lengur manneskjuna á bak við skyldina. Lögreglumenn hafa fengið að reyna margt ófagurt undanfarna daga og margir gæslumenn laga hafa lika farið offari gegn sárasaklausum mótmælendum, tilefnislítið að því er virðist.

Andófið í garð stjórnvalda má heldur ekki verða til þess að við sjáum ekki lengur fólkið á bak við embættin. Þegar Geir H. Haarde sagði frá alvarlegaum veikindum, lýsti yfir afsögn sinni og boðaði í reynd til kosninga þá taldi einn helsti talsmaður mótmælenda það aðeins pólítískt kænskubragð.

Svoleiðis viðbrögð lýsa ekki mikilli mannvirðingu. Því miður hafa sumir sjálfskipaðir talsmenn mótmælenda brugðist á svipaðan hátt við afsögn viðskiptaráðherra í morgun. Fyrst var hann skammaður fyrir að sitja sem fastast eftir bankahrunið en þegar hann loksins hreinsar til í Fjármálaeftirlitinu og segir sjálfur af sér embætti er hann húðskammaður fyrir það líka.

Við megum ekki gleyma því að er hér er allt í kalda koli í efnahagslífinu og eldar leika enn um önnur svið þjóðfélagsins. Einhverjir þurfa að sigla illa laskaðri þjóðarskútunni. Það þarf vissulega að hreinsa til, það sjá allir, en ef baráttan á dekkinu verður of hörð þá sökkvum við öll.

föstudagur, 23. janúar 2009

Dulin skilaboð?

Ekki veit hvort lesa megi einhver sértök skilaboð út úr því að Sjálfstæðisflokkurinn leggi nú til að þingkosningar verði haldnar á hátíðisdegi Evrópusamrunans, þann 9. maí næstkomandi.

Mótmælum verði frestð

Hvað svo sem menn vilja meina að öðru leyti hefur Geri H. Haarde reynt að vinna þjóð sinni gagn. Nú á hann við alvarleg veikindi að stríða og hefur lýst yfir afsögn sinni. Og þrátt fyrir alla þá atburði sem hafa dunið á þjóðinni undanfarið skuldum við honum þá sjálfsögðu kurteisi að veita honum frið til að hnýta lausa enda. Kosningar verða að öllum líkindum 9. maí og þar með hefur meginkrafa mótmælanna verið uppfyllt. - Því er mótmælum sjálfhætt nú, allvega í bili.

Það væri nú meiri skepnan sem ætlaði sér að níðast á veikum manni sem þegar hefur sagt af sér og að auki boðað til kosninga eins og óskað var eftir.

Uppfært 15:45:

Það eru svona ummæli sem gera mann sorgmætan. Þessi maður ætti nú frekar að fara heim og skammast sín.

Fiskurinn er fullveldismál

Einkum tvennt hefur verið talið standa í vegi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, annars vegar glötun fullveldis og hins vegar afsal á yfirráðum yfir fiskimiðunum, - sjávarútvegur og sjálfstæðið. Málið er þó öllu flóknara.

Sjálfstæðið
Í fyrsta lagi er Ísland nú þegar komið á bólakaf í Evróusamrunann í gegnum EES og Schengen og er í reynd einskonar aukaaðili að sambandinu án þess þó að hafa aðkomu stofnunum þess og ákvarðanatöku, sem á flestum sviðum snertir Íslendinga með jafn beinum og afgerandi hætti og íbúa aðildarríkjanna.

Evrópusambandið er einstakt í flóru alþjóðastofnana að því leyti að aðildarríkin hafa með skuldbindandi hætti sameinast um lausn tiltekinna viðfangsefna. Samt sem áður er ESB lítið meira en vettvangur fyrir samstarf ríkja, þjóðréttarleg staða breytist ekki og aðildarríkin ákveða sjálf til hvaða sviða samstarfið nær og hvernig því skuli hagað.

Allt frá því að fullveldið færðist inn í landið 1918 hefur vernd þess verið grundvallarmál íslenskum stjórnmálum, þó er eins og skilningur manna á inntaki þess hafi ekki fylgt þeirri þjóðfélagsþróun sem orðið hefur undanfarin ár, áratugi og aldir.

Lengst af fól fullveldið einvörðungu í sér réttinn til yfirstjórnar innanlands, innri hlið, en samfara snaraukinni hnattvæðingu efnahagslífs, stjórnmála og menningar hefur ytri hlið fullveldisins, rétturinn til að taka þátt í samstarfi ríkja á alþjóðavettvangi, vaxið að mikilvægi. Viðfangsefni nútímasamfélaga ná langt út yfir landamæri ríkjanna og því hafa aðildarríki ESB kosið að deila fullveldi sínu til að ná betur utan um sameiginleg mál, svo sem á sviði umhverfisverndar og skipulagi fjármálamarkaða.

Sjávarútvegurinn
Í öðru lagi hefur andstaða við sjávarútvegsstefnu ESB verið fyrirferðarmikil, sem er í sjálfu sér merkilegt, því fyrir um áratug kom þáverandi sendiherra ESB gagnvart Íslandi fram með stórmerkilegar hugmyndir um hvernig unnt væri að gera fiskimið Íslands að sérstöku stjórnsýslusvæði innan ESB, þannig að yfirráðin yfir auðlindinni yrðu með sama hætti og áður í höndum íslenskra stjórnvalda. Fordæmi fyrir álíka sérlausn má finna í aðildarsamningum flestra ESB-ríkja.

Sú staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað láta reyna á slíka lausn í aðildarviðræðum bendir til þess að eitthvað annað en efnhagshagsmunir í sjávarútvegi hafi staðið í vegi fyrir ESB-aðild.

Rökin fyrir vernd sjávarútvegsins snúa því einnig að vernd fullveldisins. Í sjálfstæðisbaráttunni var bóndinn tákn fyrir sjálfstæði þjóðarinnar en smám saman tók sjómaðurinn við af bóndanum. Íslendingar háðu landhelgisstríð um yfirráðaréttinn yfir hafinu, þar sem barist var um sjálfan grundvöll efnahagslegs sjálfstæðis Íslands.

Helgimyndir þjóðarinnar og sjómannsins tvinnast svo saman í sjómannasöngva sem um leið urðu eins konar ættjarðarsöngvar. Fiskurinn í sjónum er því einhvers konar táknmynd fyrir sjálfstæða íslenska þjóð.

Hugsanleg aðild að Evrópusambandinu er því ekki aðeins hreint efnahagsmál sem hægt er að reikna út í exel-skjali heldur snýr hún einnig að tilfinningalífi þjóðarinnar og skilningi hennar á fullveldi landsins.

Fréttablaðið 22. janúar 2009

fimmtudagur, 22. janúar 2009

Fellur Bretland næst?

Ef marka má það sem margir Bretar rita í athugsemdum við greinina mína í Guardian í gær óttast þeir að samskonar hrun og hér hefur orðið geti brátt orðið þar í landi. Sjá hér.

MichaelZ segir: "...the same thing is very likely to happen over here, given the eerie similarities between the two countries' situations: a burst housing- and credit bubble, a heavily deregulated economy, a government that gives headless chicken a bad name, you name it. [...]. Sounds awfully familiar. Britain should brace itself."

Fizzel segir: "Its not only Iceland that has been stolen, the whole world is stolen. The only thing is that Iceland is doing something about, as things got so bad."

Kathryn Hopkins spyr annarri grein í Guardian hvort Bretland sé að verða nýja Ísland?

Lesa má fleiri athugsemdir undir greininni og bæta við frá eigin brjósti.

miðvikudagur, 21. janúar 2009

The heat is on - ný grein í Guardian

Erlendir hafa áhuga á atburðunum hér á Íslandi. Á Guardian-vefnum er nú grein eftir mig þar sem fjallað er um mótmælin í Reykjavík og kröfu almennings um kosningar. Sagt er að mótmælin séu þau mestu í sögu lýðveldisins og jaðri við byltingu. Lýst er þeirri tilfinningu fólks að ríkisstjórnin ráði engan vegin við verkefnið og að fólki finnist eins og útrásarvíkingar hafi stolið landinu. Nú sé almenningur kominn út á göturnar til að endurheimta sitt eigið Ísland.

Sjá hér.

mánudagur, 19. janúar 2009

Framsókn boðar breytta tíð

Kjör Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í embætti formanns Framsóknarflokksins er ekki aðeins fyrirboði um breytta tíma í Framsóknarflokknum, á grundvelli gamalla gilda sem gleymdust um hríð, heldur lýsir það enn fremur kröfu fólks um að borð stjórnmálanna verði hreinsað.

Svo virðist sem stjórnmálastéttin átti sig ekki á hvað undiraldan er þung, eftir slíkt kerfishrun sem orðið hefur á Íslandi er komin fram sívaxandi krafa um að þeir sem véluðu um stjórnmál með þessum afleiðingum eigi að að víkja, hvar svo sem í flokki þeir standa, þótt ábyrgðin sé vissulega mismikil.

Framsókn hefur hreinsað sitt borð. Ef ég skynja ástandið rétt þá mun þrýstingurinn aukast á forystu annarra flokka í kjölfarið.

Framsókn aftur til fortíðar

Það eru auðvitað stórmerkileg pólitísk tíðindi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi í gær verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins, elsta stjórnmálaflokks landsins. Maðurinn er enda nýgenginn í flokkinn og ekki gefið sig að stjórnmálum fram að þessu. Að auki voru flokkshestar á borð við Siv og Sæunni felld úr sætum sínum.

Af þessum sökum hafa margir sagt - eðlilega kannski - að flokkurinn hafi þar með kvatt fortíð sína. Ég er þó ekki viss um að svo sé; rök hníga að því að réttara sé að halda því fram að flokkurinn hafi horfið aftur til fortíðar. Segja má að tímabilið frá því að Halldór og Finnur yfirtóku flokkinn og þar til í gær hafi verið frávik í sögu hans.

Flokksþingsfulltrúar voru því öllu heldur að kveðja nýliðna sögu sína en að mínu mati felur kjör Sigmundar í sér ósk eftir því að byrjað verði upp á nýtt á grundvelli þess Framsóknarflokks sem var hér áður fyrr.

Sigmundur Davíð er nefnilega meiri Steingrímur en Halldór, frekar Hriflu-Jónas en Finnur. Nær Eysteini en Valgerði og öllu líkari Óla Jó en Jóni Sigurðssyni.

Svoleiðis heyrist mér framsóknarmenn í það minnsta tala, hvað svo sem verður.