Það eru auðvitað stórmerkileg pólitísk tíðindi að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafi í gær verið kjörinn formaður Framsóknarflokksins, elsta stjórnmálaflokks landsins. Maðurinn er enda nýgenginn í flokkinn og ekki gefið sig að stjórnmálum fram að þessu. Að auki voru flokkshestar á borð við Siv og Sæunni felld úr sætum sínum.
Af þessum sökum hafa margir sagt - eðlilega kannski - að flokkurinn hafi þar með kvatt fortíð sína. Ég er þó ekki viss um að svo sé; rök hníga að því að réttara sé að halda því fram að flokkurinn hafi horfið aftur til fortíðar. Segja má að tímabilið frá því að Halldór og Finnur yfirtóku flokkinn og þar til í gær hafi verið frávik í sögu hans.
Flokksþingsfulltrúar voru því öllu heldur að kveðja nýliðna sögu sína en að mínu mati felur kjör Sigmundar í sér ósk eftir því að byrjað verði upp á nýtt á grundvelli þess Framsóknarflokks sem var hér áður fyrr.
Sigmundur Davíð er nefnilega meiri Steingrímur en Halldór, frekar Hriflu-Jónas en Finnur. Nær Eysteini en Valgerði og öllu líkari Óla Jó en Jóni Sigurðssyni.
Svoleiðis heyrist mér framsóknarmenn í það minnsta tala, hvað svo sem verður.