miðvikudagur, 28. janúar 2009

Endurreisn Alþingis

Framan af einkenndist stjórnskipan Íslands af þingræði en hefur síðan þróast yfir í ráðherraræði og í allra seinustu tíð yfir í hreinræktað leiðtogaræði. Áður en fjallað er um þessa þróun er rétt að gefa gaum hvernig táknfræðin sem blasir við okkur á löggjafarþinginu undirstrikar þessa þróun.

Hæstvirtur ráðherra

Stéttaskiptingin stjórnmálanna er skýr, ráðherrar eru settir skör hærra en almennir þingmenn sem virðast eiginlega einskonar undirmenn þeirra. Fyrsta táknið blasir einmitt við í titlunum, fulltrúi okkar á löggjafarþinginu er óbreyttur þingmaður en fulltrúi framkvæmdavaldsins er hvorki meira en minna en ráðherra, - herrann sem ræður.

Þessi munur er undirstrikaður í ávarpi þingmanna í ræðustól þingsins: Háttvirtur þingmaður er virðulegt ávarp en ráðherrann er hins vegar ekkert minna en hæstvirtur.

Táknin blasa allstaðar við: Á sjálfu löggjafarþinginu sitja ráðherrar í öndvegi og horfa úr hásæti sínu yfir þingheim. Á gangi einum í þinginu er röð ljósmynda af virðulegum mönnum, þetta eru ekki helstu skörungar þingsins heldur allir ráðherrar lýðveldisins með tölu. Metnaðargjarn þingmaður sem vill komast í hópinn verður því fyrst að fá ráðherrastól.

Fleira undirstrikar stéttarmuninn; óbreyttir koma til þings á eigin bíl sem þeir leggja í nálægt bílastæði og klöngrast svo yfir bílaplanið á meðan ráðherrum er ekið í glæsibifreið upp að dyrum.

Í matsalnum var um hríð dúklagt borð fyrir forsætisráðherra og hirð hans, óbreyttir þingmenn snæða við bert borð.

Verra er, að hendingu má kalla ef lagafrumvarp óbreyttra þingmanna nær fram að ganga á löggjafarsamkundunni, en frumvörp ráðherra renna hins vegar í gegn eins og bráðið smjör. Almennir þingmenn eru að mestu hættir að mæla fyrir frumvörpum, það er nú nánast alfarið í höndum ráðherra.

Leiðtogaræði

Þetta var ekki svona og þarf ekki að vera svona. Með endurreisn Alþingis árið 1844 varð löggjafarþingið þungamiðjan í stjórnmálakerfi landsins. Eftir að framkvæmdarvaldið kom fyrst inn í landið árið 1904 var það fyrst um sinn veikt en styrkti smám saman stöðu sína gagnvart þinginu. Eftir því sem líða tók á nýliðna öld sótti framkvæmdarvaldið í sig veðrið og seig loks fram úr þinginu. Hér varð það sem kalla má ráðherraræði, í þeim skilningi að hver ráðherra varð ráðandi um mestalla framþróun í eigin málaflokki.

Undir lok aldarinnar breyttist kerfið svo aftur þegar stjórnskipanin fór í síauknu mæli að einkennast af leiðtogaræði, þar sem formenn stjórnarflokkanna véla um sífellt fleiri mál sín á milli án mikils samráðs við félaga sína í ríkisstjórn eða þingmenn flokkanna, hvað þá að stjórnarandstaða komi nokkurn tímann að málum.

Formenn stjórnmálaflokkanna hafa nánast fengið ægivald innan flokka sinna, hafa örlög þingmanna sinna svo gott sem í höndum sér, sem leiðir til þess að almennir þingmenn og fagráðherrar þora ekki að hafa sig í frammi gegn formanni sínum af ótta við að lenda á köldum klaka. Þeir sem hlaupa útundan sér, eins og það er gjarnan kallað, eru um leið settir á pólitískan ís.

Hvað er til ráða?

Endanleg gelding þingsins blasti við alþjóð þann sjötta október síðastliðinn þegar þingmenn samþykktu neyðarlög sem gjörbreyttu íslensku þjóðfélagi án þess einu sinni að lesa lagabálkinn yfir. Síðan þá hefur þingið nánast verið óvirkt og mótbárulaust samþykkt hvað svo sem framkvæmdarvaldið hefur lagt til. Þessu þarf að snúa við. Mikilvægt er að endurreisa Alþingi. En hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi þarf að losa ráðherra af þingi, setja má þá reglu að þegar þingmaður setjist í ráðherrastól segi hann um leið af sér þingmennsku. Ráðherrar hafa þá ekki annað erindi í þingið en að standa löggjafanum skil á verkum sínum. Eins og vera ber.

Í öðru lagi má búa svo um hnútana að það verði í höndum formanna viðkomandi þingnefnda að mæla fyrir þingmálum, frekar heldur en ráðherrans eins og nú er. Þannig gæti þingið náð aftur til sín frumkvæði í lagasetningu eins og stjórnarskráin kveður á um.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að takmarka þann tíma sem menn geta setið við völd, bæði til að tryggja endurnýjun og ekki síður til að takmarka völd leiðtoganna. Auðvelt er að setja þá reglu að ráðherrar sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil samfellt við völd. Sem er auðvitað feikinóg. Með því móti ætti ásjóna valdsins að verða önnur og hyggilegri en nú er.

Stjórnmálaflokkarnir gætu líka sjálfir tekið upp slíkt fyrirkomulag, til að mynda að setja þá einföldu reglu að formaður geti lengst setið í átta ár. Lengri valdaseta er hvort eð er óþörf.

Í fjórða lagi er kannski kominn tími til að hreinsa út það fólk sem hefur leyft þessari óheillaþróun að verða á sinni vakt.

Fréttablaðið, 28. janúar 2008