föstudagur, 23. janúar 2009

Fiskurinn er fullveldismál

Einkum tvennt hefur verið talið standa í vegi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, annars vegar glötun fullveldis og hins vegar afsal á yfirráðum yfir fiskimiðunum, - sjávarútvegur og sjálfstæðið. Málið er þó öllu flóknara.

Sjálfstæðið
Í fyrsta lagi er Ísland nú þegar komið á bólakaf í Evróusamrunann í gegnum EES og Schengen og er í reynd einskonar aukaaðili að sambandinu án þess þó að hafa aðkomu stofnunum þess og ákvarðanatöku, sem á flestum sviðum snertir Íslendinga með jafn beinum og afgerandi hætti og íbúa aðildarríkjanna.

Evrópusambandið er einstakt í flóru alþjóðastofnana að því leyti að aðildarríkin hafa með skuldbindandi hætti sameinast um lausn tiltekinna viðfangsefna. Samt sem áður er ESB lítið meira en vettvangur fyrir samstarf ríkja, þjóðréttarleg staða breytist ekki og aðildarríkin ákveða sjálf til hvaða sviða samstarfið nær og hvernig því skuli hagað.

Allt frá því að fullveldið færðist inn í landið 1918 hefur vernd þess verið grundvallarmál íslenskum stjórnmálum, þó er eins og skilningur manna á inntaki þess hafi ekki fylgt þeirri þjóðfélagsþróun sem orðið hefur undanfarin ár, áratugi og aldir.

Lengst af fól fullveldið einvörðungu í sér réttinn til yfirstjórnar innanlands, innri hlið, en samfara snaraukinni hnattvæðingu efnahagslífs, stjórnmála og menningar hefur ytri hlið fullveldisins, rétturinn til að taka þátt í samstarfi ríkja á alþjóðavettvangi, vaxið að mikilvægi. Viðfangsefni nútímasamfélaga ná langt út yfir landamæri ríkjanna og því hafa aðildarríki ESB kosið að deila fullveldi sínu til að ná betur utan um sameiginleg mál, svo sem á sviði umhverfisverndar og skipulagi fjármálamarkaða.

Sjávarútvegurinn
Í öðru lagi hefur andstaða við sjávarútvegsstefnu ESB verið fyrirferðarmikil, sem er í sjálfu sér merkilegt, því fyrir um áratug kom þáverandi sendiherra ESB gagnvart Íslandi fram með stórmerkilegar hugmyndir um hvernig unnt væri að gera fiskimið Íslands að sérstöku stjórnsýslusvæði innan ESB, þannig að yfirráðin yfir auðlindinni yrðu með sama hætti og áður í höndum íslenskra stjórnvalda. Fordæmi fyrir álíka sérlausn má finna í aðildarsamningum flestra ESB-ríkja.

Sú staðreynd að íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað láta reyna á slíka lausn í aðildarviðræðum bendir til þess að eitthvað annað en efnhagshagsmunir í sjávarútvegi hafi staðið í vegi fyrir ESB-aðild.

Rökin fyrir vernd sjávarútvegsins snúa því einnig að vernd fullveldisins. Í sjálfstæðisbaráttunni var bóndinn tákn fyrir sjálfstæði þjóðarinnar en smám saman tók sjómaðurinn við af bóndanum. Íslendingar háðu landhelgisstríð um yfirráðaréttinn yfir hafinu, þar sem barist var um sjálfan grundvöll efnahagslegs sjálfstæðis Íslands.

Helgimyndir þjóðarinnar og sjómannsins tvinnast svo saman í sjómannasöngva sem um leið urðu eins konar ættjarðarsöngvar. Fiskurinn í sjónum er því einhvers konar táknmynd fyrir sjálfstæða íslenska þjóð.

Hugsanleg aðild að Evrópusambandinu er því ekki aðeins hreint efnahagsmál sem hægt er að reikna út í exel-skjali heldur snýr hún einnig að tilfinningalífi þjóðarinnar og skilningi hennar á fullveldi landsins.

Fréttablaðið 22. janúar 2009