mánudagur, 26. janúar 2009

Stjórnlagakreppa ofan á stjórnarkreppu?

Almennt hefur verið talið að forsætisráðherra hafi þingrofsrétt og vilji hann rjúfa þing þurfi að boða til kosninga innan 45 daga.

Til eru þeir sem hafa efast um þessa túlkun á stjórnarskránni. Einn þeirra er núverandi forseti sem setti fram þá skoðun þegar hann var prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands að þingrofsvaldið sé alfarið í hendi forseta, - forsætisráðherra hafi aðeins tillögurétt um þingrof.

Því kemur ekki á óvart að Ólafur Ragnar sjái ástæðu til þess nú, að hnykkja á þessari skoðun sinni. Merkilegra er að svo virðist sem Geir hafi kosið að gera ekki ágreining við forsetann um þetta efni, lýsti yfir eftir fundinn að verkstjórnin sé nú í höndum Ólafs.

Spennandi verður að sjá hvort aðrir séu sammála túlkun forsetans sem hingað til hefur verið minnihlutaskoðun um stjórnskipan lýðveldisins; því ef svo er ekki, þá gæti stjórnlagakreppa hæglega skollið á ofan á stjórnarkreppu.