föstudagur, 27. júní 2008

Kreppa á verðbólgnum jeppa

Það er komin kreppa. Eitt skýrasta merki þess er að útrásarvíkingarnir okkar hugumstóru og margrómuðu eru víst margir hverjir á leiðinni heim, - einn á eftir öðrum í halarófu yfir hafið. Það er meira að segja farið að sjást til þeirra sumra í Leifstöð enda ekki margir sem hafa getað endurnýjað leigusamninginn á einkaþotunni undanfarið hálft ár eða svo.

Um bæinn gengur sú flökkusaga á meðal manna að eitt megingoð íslensks viðskiptalífs hafi meira að segja sést á almennu farrými á leiðinni heim frá London um daginn. Svoleiðis hefur ekki sést lengi. En ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Sem er raunar að mér skilst einn helsti vandinn: Íslensku fjármálafurstarnir fá nú ekkert selt á hærra verði en þeir keyptu á uppsprengdu verði í uppsveiflunni.

Skuldadans

Virði margra nýkeyptra fyrirtækja í útlöndum er orðið minna en ekki neitt. Í bókstaflegri merkingu, - útrásin var tekin út á krít og nú, þegar komið er að skuldadögum, fæst minna fyrir eignirnar heldur en nemur skuldsetningunni. Mér er sagt að nú sé svo komið að íslenska þjóðarbúið í heild sinni skuldi orðið meira í útlöndum heldur en við eigum utan landsteinanna. Útrásin er þar með komin á höfuðið. Úti er ævintýri, - eða allavega í biðstöðu.

Þeir eru margir hverjir ansi sárir, sem hafa barist í okkar nafni á blóðugum velli alþjóðaviðskiptanna undanfarin misseri. Fregir herma að sumir hafi nú þegar fallið í valinn, aðrir séu helsærðir en sem betur fer hafa einhverjir náð að verjast óvígum her hnattrænnar lausafjárskrísu. Og eru semsé nú á leiðinni heim að sleikja sárin og safna kröftum.

Fett og brett

En við blæðum öll fyrir. Líka þeir sem gerðu ekki neitt annað en að vinna sitt starf hér heima og sýna sömu fyrirhyggju og ráðdeild og alltaf. Verðbólgan étur upp launin eins og mölurinn forðum, vextirnir þurrka upp næfurþunn seðlaveskin og gengisfall krónunnar borar gat á alla vasa. Almenningur borgar fyrir óhóflegt samkvæmislíf nýju auðstéttarinnar, fyrir gleðskap sem þeim var ekki einu sinni boðið í. Og nú á mamma gamla í stjórnarráðinu og afi hennar í Seðlabankanum að koma glaumgosunum til bjargar.

Þeir segja að lækningin felist í að fá meiri pening frá útlöndum. Menn þurfa skammtinn sinn. En sú gamla veit ekki sitt rjúkandi ráð og fjasar bara um óviðjafnanlegan teygjanleika íslensku krónunnar. Sjáðu hvað hægt er að toga hana og teyja, sagði sú gamla hróðug á fundi London, sveigja hana og beygja, fetta og bretta. Út og suður. Og það þrátt fyrir ríflega þriðjungsfall á innan við hálfu ári.

Sólarsamba

Best haldna hálaunastétt landsins hefur enn og aftur hótað að loka landinu. Vonandi ná sem flestir heim fyrir verkfall flugumferðarstjóra. Voðalega vont að vera fastur í útlöndum með götótta krónu. Fríið er tekið heima í ár, en við komumst ekki einu sinni út á land því bensínið hækkar með hverjum keyrðum kílómetri. Akureyri er nú í tugþúsunda fjarlægð.

En okkur er svo sem sama, veðrið hefur nefnilega verið svo ósköp gott. Sólin er okkar Prosac og tilfinningarnar fá útrás fyrir framan skjáinn. Á EM og við að fylgjast með blessuðum ísbjörnunum sem hafa stytt okkur stundir í blíðunni. Og jarðsjálftinn maður, þá var stuð. En hvað svo? Hvað gerist þegar ísbirnir hætta að ganga á land, boltinn er búinn og sólin farin? Hvað ætla efnahagsmálayfirvöld þá að gera?

24 stundir, 27. júní 2008.

mánudagur, 23. júní 2008

Festum krónuna við ankeri

Sú tilraun sem gerð var í mars 2001 að setja krónuna á frjálst flot og stýra peningamálastefnunni eftir verðbólgumarkmiði hefur mistekist. Gjörsamlega. Langtímavandinn er ærinn og hann þarf vissulega að leysa en þangað til virðist mér eina ráðið í stöðunni að festa krónuna við ankeri, til að mynda að festa hana við evru á genginu 100. Þannig mætti rétta ástandið við til skamms tíma, á meðan yfirvöld greiða úr langtímastöðunni. Afleiðingarnar af virðishruni krónunnar eru einfaldlega of alvarlegar til þess að þeir sem véla um efnahagsmál í þessu landi geti áfram skellt skollaeyrum við.

föstudagur, 13. júní 2008

Fótboltastríð

Það er ekki komið hádegi á fimmtudegi en fiðringurinn er samt farinn að gera vart við sig. Uppgjörið hefst klukkan fjögur í dag þegar mínir menn, Króatar, mæta sjálfu Þýskalandi í leik sem getur ráðið úrslitum um hvort liðið kemst áfram. Ég þori ekki öðru en að skila þessum pistli inn vel fyrir leik, er nefnilega hræddur um að uppnámið geti orðið of mikið til skrifta ef reginskyttur Balkanskagans missa marks. Mínir menn eru vissulega snjallir á velli, boltaliprir og leikfimir með eindæmum en það verður að viðurkennast að þýska liðið er ekki árennilegt. Við munum hvernig Garry Lineker skilgreindi fótbolta: Tvö ellufu manna lið, einn bolti, - og svo sigra Þjóðverjar.

Óviðeigandi

Ég sá á bloggi félaga míns um daginn að hann kvartaði sáran undan stuðningi mínum við þá köflóttu og lagðist svo lágt að líkja leikmönnum Króatíu við tudda og dramadrottnignar, sagði þá spila með fautahætti og leikaraskap og dylgjaði svo að heiðri þjóðarinnar með því að blanda átökunum í Krajina inn í málið. Sem er auðvitað fullkomlega óviðeigandi. Sjálfur styður þessi ágæti vinur minn Hollendinga en virðist ekkert sjá athugavert við blóði drifna nýlendusögu Niðurlendinga sem aldrei hikuðu við að afhausa heiðvirða héraðshöfðingja út um allan heim ef það dugði þeim til frekara arðráns í þriðja heiminum.

Þrautsegja

Stuðningur minn við Króata á sér raunar dulitla sögu. Árið 1997 var ég á ferðalagi um landið ásamt félögum mínum í alþjóðlegum félagskap ungmenna (jú, ég var víst ungur þá) sem ætlaði að bjarga heiminum (ég er hættur því núna) og kynntist þá manni sem beinlínis bar átakasögu balkanskagans framan í sér, í hverri skoru í stórskornu andlitinu. Þetta var Stipe Mesic, síðasti forseti Júgóslavíu og núverandi forseti Króatíu.

Þegar fundum okkar bar saman gekk Stipe Mesic raunalega eyðimerkurgöngu í króatískum stjórnmálum en honum hafði sinnast við fornvin sinn Franjo Tudman sem honum fannst sýna full mikla einræðistilburði við stjórn landsins. Saman höfðu þeir stofnað Lýðræðisflokk Króataíu (HDZ) en þegar þarna var komið við sögu hafði Stipe klofið sig út úr flokknum og stofnað annan stjórnmálaflokk, Alþýðuflokkinn, sem mældist varla í fylgiskönnunum. Tudman hafði svo gott sem tekist að hlæja þennan gamla félaga sinn út úr stjórnmálum en allt kom fyrir ekki, Stipe Mesic reis upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix og eftir að hafa verið svo gott sem afskrifaður úr landsmálapólitíkinni var hann kjörinn forseti landsins í tvígang. Ég er að vona að einmitt þessi þrautsegja geti nú fleytt liðinu áfram á þeirri ögurstundu sem framundan er.

Grafalvarlegt

Í vikunni rifjaði Karl Blöndal í pistli í Morgunblaðinu upp þau fleygu ummæli að fótboltinn sé ekki leikur upp á líf og dauða, málið sé miklu alvarlegra en það. Og það er vissulega rétt. Lengst af logaði Evrópa í styrjaldarátökum en nú fer uppgjörið fram á knattspyrnuvellinum á fjögurra ára fresti. Vonandi geta stríðshaukar þessa heims lært eitthvað af því, til að mynda gætu leiðtogar Serbíu hér eftir látið duga að skora á Króata í fótboltaleik næst þegar grípur þá óbærileg löngun að ráðast inn i landið. En þetta er þó ekki alveg einhlítt, fótboltinn hefur nefnilega einnig reynst uppspretta átaka. Fótboltastríðið svokallaða braust til að mynda út milli Honduras og El Salvador eftir leik liðanna í undankeppni heimsmeistaramótsins í júlí árið 1969. Þetta er því ekki alveg áhættulaus iðja og ætti ekki að vera meðhöndluð af léttúð.

24 stundir, 13. júní 2008.

þriðjudagur, 10. júní 2008

Rétt trú og röng

Ég er ekki frá því að það sé farin að verða einhvers konar rétttrúnaður í þjóðmálaumræðunni að vera á móti pólitískum rétttrúnaði.

sunnudagur, 8. júní 2008

Ágætis byrjun

Króatarnir byrja ágætlega, unnu heimamenn í fyrsta leik og leikur liðsins nokkuð traustur, þótt úthaldið hafi kannski ekki verið alveg nógu gott.

Gaman að sjá hvað Ivica Olic kemur feiknafrískur til leiks.

Veit á gott.

laugardagur, 7. júní 2008

Áfram Króatía

Þá er veislan að hefjast. Mínir menn, Króatar, leika sinn fyrsta leik á morgun, gegn Austurríki, öðrum gestgjöfum keppninnar.

Ég hef haldið með Króötum síðan 1997 þegar ég var á ferðalagi um landið og féll fyrir landi og þjóð. Ekki skemmir fyrir að þá kynntist ég manni sem stóð í ströngu í stórnarandstöðu og naut lítils fylgis, gekk hálfgerða eyðimerkugöngu í króatískum stjórnmálum á þeim tíma. Sá heitir Stipe Mesic og varð síðar forseti Króatíu og er enn, áður hafði hann verið síðasti forseti gömlu Júgóslavíu. Ég kynntist Stipe í gegnum góðan vin minn, Vladimir Prawn, sem þá var aðstoðarmaður hans. Það er því ekki hægt annað en að halda með Króötum, sér í lagi þar sem Danir eru ekki með að þessu sinni.

Ég á von á að Króatar muni standa sig vel og hafa alla burði til að velgja stóru þjóðunum undir uggum.

fimmtudagur, 5. júní 2008

Dvergurinn og hafið

Willem Buiter, hinn frægi prófessor við LSE í London, segir að Bretland sé eins og Ísland, einn risastór vogunarsjóður og að breska pundið sé orðið of lítið fyrir hið risavaxna fjármálakerfi Bretlands, sem þó sé hlutfallslega minna en íslenska fjármálakerfið.

Buiter ritar áhugaverða grein í FT, þar sem staða Bretlands og Íslands er meðal annars borin saman við Ameríku og evrusvæðið.

miðvikudagur, 4. júní 2008

Ísbjarnarblús

Einar sonur minn er æfur af reiði yfir að ísbjörninn skuli hafa verið felldur í gær. Þótt hann sé aðeins átta ára er hann alveg klár á að ekki hafi þurft að drepa dýrið, segir að það hafi einfaldlega átt að svæfa björninn og fylgja honum svo heim til sín.

Því er er hér með komið á framfæri.