föstudagur, 13. júní 2008

Fótboltastríð

Það er ekki komið hádegi á fimmtudegi en fiðringurinn er samt farinn að gera vart við sig. Uppgjörið hefst klukkan fjögur í dag þegar mínir menn, Króatar, mæta sjálfu Þýskalandi í leik sem getur ráðið úrslitum um hvort liðið kemst áfram. Ég þori ekki öðru en að skila þessum pistli inn vel fyrir leik, er nefnilega hræddur um að uppnámið geti orðið of mikið til skrifta ef reginskyttur Balkanskagans missa marks. Mínir menn eru vissulega snjallir á velli, boltaliprir og leikfimir með eindæmum en það verður að viðurkennast að þýska liðið er ekki árennilegt. Við munum hvernig Garry Lineker skilgreindi fótbolta: Tvö ellufu manna lið, einn bolti, - og svo sigra Þjóðverjar.

Óviðeigandi

Ég sá á bloggi félaga míns um daginn að hann kvartaði sáran undan stuðningi mínum við þá köflóttu og lagðist svo lágt að líkja leikmönnum Króatíu við tudda og dramadrottnignar, sagði þá spila með fautahætti og leikaraskap og dylgjaði svo að heiðri þjóðarinnar með því að blanda átökunum í Krajina inn í málið. Sem er auðvitað fullkomlega óviðeigandi. Sjálfur styður þessi ágæti vinur minn Hollendinga en virðist ekkert sjá athugavert við blóði drifna nýlendusögu Niðurlendinga sem aldrei hikuðu við að afhausa heiðvirða héraðshöfðingja út um allan heim ef það dugði þeim til frekara arðráns í þriðja heiminum.

Þrautsegja

Stuðningur minn við Króata á sér raunar dulitla sögu. Árið 1997 var ég á ferðalagi um landið ásamt félögum mínum í alþjóðlegum félagskap ungmenna (jú, ég var víst ungur þá) sem ætlaði að bjarga heiminum (ég er hættur því núna) og kynntist þá manni sem beinlínis bar átakasögu balkanskagans framan í sér, í hverri skoru í stórskornu andlitinu. Þetta var Stipe Mesic, síðasti forseti Júgóslavíu og núverandi forseti Króatíu.

Þegar fundum okkar bar saman gekk Stipe Mesic raunalega eyðimerkurgöngu í króatískum stjórnmálum en honum hafði sinnast við fornvin sinn Franjo Tudman sem honum fannst sýna full mikla einræðistilburði við stjórn landsins. Saman höfðu þeir stofnað Lýðræðisflokk Króataíu (HDZ) en þegar þarna var komið við sögu hafði Stipe klofið sig út úr flokknum og stofnað annan stjórnmálaflokk, Alþýðuflokkinn, sem mældist varla í fylgiskönnunum. Tudman hafði svo gott sem tekist að hlæja þennan gamla félaga sinn út úr stjórnmálum en allt kom fyrir ekki, Stipe Mesic reis upp úr öskustónni eins og fuglinn Fönix og eftir að hafa verið svo gott sem afskrifaður úr landsmálapólitíkinni var hann kjörinn forseti landsins í tvígang. Ég er að vona að einmitt þessi þrautsegja geti nú fleytt liðinu áfram á þeirri ögurstundu sem framundan er.

Grafalvarlegt

Í vikunni rifjaði Karl Blöndal í pistli í Morgunblaðinu upp þau fleygu ummæli að fótboltinn sé ekki leikur upp á líf og dauða, málið sé miklu alvarlegra en það. Og það er vissulega rétt. Lengst af logaði Evrópa í styrjaldarátökum en nú fer uppgjörið fram á knattspyrnuvellinum á fjögurra ára fresti. Vonandi geta stríðshaukar þessa heims lært eitthvað af því, til að mynda gætu leiðtogar Serbíu hér eftir látið duga að skora á Króata í fótboltaleik næst þegar grípur þá óbærileg löngun að ráðast inn i landið. En þetta er þó ekki alveg einhlítt, fótboltinn hefur nefnilega einnig reynst uppspretta átaka. Fótboltastríðið svokallaða braust til að mynda út milli Honduras og El Salvador eftir leik liðanna í undankeppni heimsmeistaramótsins í júlí árið 1969. Þetta er því ekki alveg áhættulaus iðja og ætti ekki að vera meðhöndluð af léttúð.

24 stundir, 13. júní 2008.