mánudagur, 28. apríl 2008

Ólgandi bólga

Það er verðbólga, seðlabankinn sem á gæta verðbólgumarkmiðs ráðalaus að því er sumir segja. Þetta er ekki náttúrulögmál.

Í stað þess að hækka stýrivexti út í það óendanlega, sem hvort eð er hafa engin áhrif í opnu hagkerfi sem þar að auki byggir á verðtrygginu vaxta, væri til að mynda hægt að aflétta tollum á innflutt matvæli, lækka vörugjöld, leggja af ýmiskonar tæknilegar viðskiptahindranir, lækka gjaldskrá hins opinbera á margvíslegri þjónustu, draga úr skattheimtu á brennivín og bensín og þess háttar.

Það þarf ekki doktorspróf í hagfræði til að skilja að það má margt gera til að snúa verðbólgudrauginn niður ef vilji er fyrir hendi.

Hvers vegna er það þá ekki gert?

fimmtudagur, 24. apríl 2008

Trukkana burt

Hvað trukkana varðar, þá væri nú nær að koma þeim af vegunum heldur en lækka á þá álögur eins og þessir frekjubílstjórar heimta nú af óhemju fyrirferð.

Sjá mína meiningu hér og hér.

Áhugaverðir tímar á blaðamarkaði

Kemur vissulega ekki á óvart, en er áhugavert eigi að síður, að Ólafur Stephensen hafi verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Rétt að óska honum til hamingju með starfið. Sem dyggur og sauðtryggur Morgunblaðslesandi hef ég undanfarin misseri haft dálítlar áhyggjur af Mogganum mínum, stundum hef ég ekki almennilega áttað mig á vegferð blaðsins. Til skamms tíma var Morgunblaðið veigamesti fjölmiðill landsins sem allir aðrir miðlar litu til. Það verður ærið verkefni fyrir Ólaf að ná þeirri stöðu á ný, ef það er þá yfir höfuð hægt.

Það verður líka spennandi að sjá hvaða tökum Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir tekur 24 stundir. Ég hóf að rita reglulega pistla í blaðið (þegar það hét Blaðið með stórum staf) fyrir um tveimur árum. Hún er fjórði ritstjórin blaðsins síðan þá. SME hafði nýtekið við af Ásgeiri Sveirrissyni og svo tók Trausti Hafliðason við stýrinu um hríð þar til Ólafur Stephensen tók við skútunni og breytti Blaðinu í 24 stundir.

Að vissu leyti eru meiri möguleikar fyrir fríblað eins og 24 stundir á blaðamarkaði í dag heldur en fyrir niðurnjörfað áskriftarblað eins og Morgunblaðið er.

Í það minnsta áhugaverðir tímar framundan.

sunnudagur, 20. apríl 2008

Stórhættuleg útlensk matvæli

Sit á kaffihúsi hér í Kaupmannhöfn og ráfa um netið. Kíkti aðeins á Silfur Egils á Rúv-vefnum og fékk að vita hjá Bjarna Harðarsyni og Ögmundi Jónasyni að matvæli í útlöndum væru stórhættuleg. Maður væri í bráðri hættu að sýkjast af salmonellu og allskonar óþverra ef maður léti útlenskt kjöt inn fyrir varir, - hvað þá háskavöru á borð við egg. Ég veit ekki hvort ég þori lengur að panta mér hádegisverðinn, örugglega einhver gegnumsýktur andskoti. Kannski ég verði bara að fá sviðakjamma sendan að heiman.

föstudagur, 18. apríl 2008

Lítill bjór

Enn eina ferðina er ég sestur upp í flugvél á leið til Danmerkur. Kollegar mínir í stjórnmálafræðideildinni við Kaupmannahafnarháskóla voru svo góðir að veita mér svolitla aðstöðu til að sinna rannsóknum við skólann sem er frábærlega staðsettur í miðborginni. Ég hef haft óskaplega gaman af því að vera í nánu samstarfi við mína góðu dönsku kollega og notið mín vel á kaffistofunni. Ég viðurkenni alveg að það hefur aukið á ánægjuna hvað íslensku útrásarvíkingarnir hafa verið óhemju fyrirferðarmiklir í dönsku viðskiptalífi. Ekki að ég hafi komið nálægt þessu á nokkurn einasta hátt.

En þegar forviða Danir spurðu allir í kór hvaðan þessar fjárfúlgur hafi eiginlega komið var vanur að láta sem mér þætti lítið til koma, þetta væru bara svo duglegir og útsjónarsamir strákar. Var meira að segja búinn að koma mér upp svona óræðum yfirlætissvip sem átti að merkja að við Íslendingar vissum nú ýmislegt í bísness sem Danir bara gætu ekki skilið. En nú er þetta semsé allt búið. Kauphöllin hrunin, gengið fallið, verðbólgan rokin af stað og bankarnir ramba á barmi gjaldþrots. Búið að selja Nyhedsavisen.

Það setur eiginlega að mér dulítinn beyg að mæta á kaffistofuna eftir þessa óhemju niðursveiflu sem hefur verið mögnuð upp í hverjum einasta fjölmiðilsræfli um gjörvalla Danmörku. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt fyrir Íslendinginn að vera í Danmörku. Lengi vel var þetta voðalega volað allt saman. Allir á sósíalnum og allt bara einhvern vegin í steik. Íslendingar voru nánast undirmálsfólk á götum Kaupmannahafnar. Svona upp til hópa. Ráfandi um í reiðileysi og alltaf á leiðinni heim í túnið sitt. Hugurinn var í fjöllunum heima en líkaminn flæktur fastur í dönsku láglendi. Svo fór þetta að braggast.

Einn góðan verðurdag fylltist Ísland af peningum og útrásarvíkingarnir fóru í einhvern svakalegasta innkaupatúr sem um getur til Kaupmannahafnar. Nú var ekki látið duga að versla vindjakka og nærföt í HM og kannski eina krús í Illum Bolighus. Nú keyptu menn heilu búðirnar, Magasin du Nord, Illum og allt það. Nú gistu menn ekki lengur á stúdentaheimilinu á Amager heldur keyptu barasta Hotel D‘Anglaterre og létu búa vel um sig. Íslendingurinn nennti ekki einu sinni að lesa Berlinginn lengur og stofnsetti bara sísona eigið Fréttablað. Minni spámenn keyptu sér knæpu og kannski litla sjoppu. Svona var þetta um stund. Og við vorum öll svo roggin og ánægð með okkur. En nú er þetta semsé allt í voða. Útrásin var keypt út á krít og komið að skuldadögum.

Líkast til verð ég að taka niður óræða yfirlætissvipinn þegar ég mæti á kaffistofuna í dag og þola þess í stað að horfa framan í Við vissum alltaf að þetta gæti ekki gengið til lengdar svip dönsku kollega minna sem munu samt þykjast voða skilningsríkir. En þetta er ekki bara einhver tilfinningalegur vandi. Þetta er líka fjárhagslegur vandi. Síðastliðið vor fékk ég úthlutað styrk til að vinna þessa rannsókn mína og hafði ráðgert að nota hluta af honum til að dveljast skamma hríð við rannsóknir í Danmörku. En frá síðustu vinnudvöl minni við Kaupmannahafnarskóla hefur danska krónan hækkað úr tæpum ellefu krónum í nálega sextán íslenskar krónur. Ég er hins vegar enn á sömu kjörum og áður í alíslenskum krónum. Styrkurinn góði dugir því ekki lengur til framfærslu í Kaupmannahöfn.

Svo ég setji þetta í samhengi við einingu sem margir íslenskir ferðmann í Danmörku skilja þá reiknast mér til að nú fáist aðeins lítill bjór fyrir jafn margar íslenskar krónur og heill bjór fekkst fyrir áður. Það verða þung skref að ganga inn á uppáhalds barinn minn á Norðurbrú í kvöld og biðja um einn lítinn bjór.

24 stundir 18. apríl 2008.

fimmtudagur, 17. apríl 2008

Herra Árni Snævarr

Annars er rétt, fyrst maður er kominn hingað á Eyjuna, að hefja leik á því að lýsa yfir fullum og einörðum stuðningi við forsetaframboð Árna Snævarr.

Fyrsta fórnarlambið

Guardian, sem er líklega eitt besta dagblað í heim, segir í dag að Ísland gæti orðið fyrsta raunverulega fórnarlamb þeirra hnattrænu kólnunar sem nú hefur snöggfryst efnahagskerfi Vesturlanda. Telja þetta greinilega stórhættulegt ástand. Sjá hér.

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Íslenskt þjóðerni og óttinn við innflytjendur

Haustið 2006 komust málefni innflytjenda í brennidepil íslenskra stjórnmála þegar Frjálslyndi flokkurinn lýsti yfir vilja til að hefta straum innflytjenda til landsins. Lengi vel fluttu mun færri útlendingar til Íslands en til nágrannaríkjanna. Því hefur umræðan um málefni innflytjenda verið töluvert seinna á ferðinni hér á landi en víðast annars staðar. Undanfarin ár hefur fjöldi innflytjenda hins vegar margfaldast og skýrir það tímasetningu umræðunnar. Í orðræðunni sem fylgdi í kjölfar útspils Frjálslynda flokksins mátti greina ótta við að innflytjendur væru á einhvern hátt ógn við íslenska þjóð og íslenska þjóðmenningu. Í þessari grein er staða innflytjenda í íslensku samfélagi tekin til skoðunar og spurt hvers vegna menn óttist innflytjendur á Íslandi? ...

Þetta er inngangur að ritrýndri fræðigrein eftir mig um íslenskt þjóðerni og þann ótta við innflytjendur sem merkja má í íslenskri þjóðmálaumræðus undanfarin misseri. Greinin í heild sinni er hér.