fimmtudagur, 24. apríl 2008

Áhugaverðir tímar á blaðamarkaði

Kemur vissulega ekki á óvart, en er áhugavert eigi að síður, að Ólafur Stephensen hafi verið ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Rétt að óska honum til hamingju með starfið. Sem dyggur og sauðtryggur Morgunblaðslesandi hef ég undanfarin misseri haft dálítlar áhyggjur af Mogganum mínum, stundum hef ég ekki almennilega áttað mig á vegferð blaðsins. Til skamms tíma var Morgunblaðið veigamesti fjölmiðill landsins sem allir aðrir miðlar litu til. Það verður ærið verkefni fyrir Ólaf að ná þeirri stöðu á ný, ef það er þá yfir höfuð hægt.

Það verður líka spennandi að sjá hvaða tökum Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir tekur 24 stundir. Ég hóf að rita reglulega pistla í blaðið (þegar það hét Blaðið með stórum staf) fyrir um tveimur árum. Hún er fjórði ritstjórin blaðsins síðan þá. SME hafði nýtekið við af Ásgeiri Sveirrissyni og svo tók Trausti Hafliðason við stýrinu um hríð þar til Ólafur Stephensen tók við skútunni og breytti Blaðinu í 24 stundir.

Að vissu leyti eru meiri möguleikar fyrir fríblað eins og 24 stundir á blaðamarkaði í dag heldur en fyrir niðurnjörfað áskriftarblað eins og Morgunblaðið er.

Í það minnsta áhugaverðir tímar framundan.