föstudagur, 22. maí 2009

Skuldasúpa og skilyrt stjórnmál

Hér í Bretlandi eru stjórnmál öll í uppnámi, ekki ólíkt því sem var í upphafi árs á Íslandi. Ég hef dvalið hér nokkuð reglulega undanfarin ár en aldrei fundið fyrir annari eins vantrú á stjórnmálastéttinni, - en sú tilfinning virðist ná þvert yfir allar helstu pólitísku markalínur. Ekki aðeins hefur Brown-stjórninni mistekist að takast á við fjármálakreppuna, heldur voru þingmenn landsins á sama tíma gómaðir með visna hönd sína á kafi ofan í sælgætiskrúsinni, hafa til að mynda látið skattgreiðendur greiða fyrir andatjörn í garðinn sinn, afborganir af lánum sem ekki eru til og ýmislegt fleira smálegt í leiðinni.

Breskur almenningur er þó í mun betri stöðu en íslenskur að einu leyti. Eins og á Íslandi hefur húsnæðisverð lækkað töluvert en þar sem vextir eru nú komnir niður í nánast ekki neitt hafa afborganir af lánum einnig lækkað stórlega sem gerir líf flestra svolítið bærilegra. Heima á Íslandi hins vegar, þar sem húsnæðislán fylgja verðlagsvísitölu, hafa lánin hins vegar vaxið flestu fólki um höfuð. En einhverra hluta vegna virðast stjórnvöld á Íslandi ekki mikið ætla að gera til að skera heimilin niður úr þeirri snöru.

Í kosningabaráttunni lögðu ýmsir fram hugmyndir um að leiðrétta þá ógnarhækkun lána sem fylgdi verðbólguskotinu, - sem nota bene varð vegna falls krónunnar en ekki vegna þenslu í hagkerfinu. En þá færðust skuggalegar fjárhæðir frá skuldurum til fjármagnseigenda. Því miður fyrir skuldsett heimili landsins var núverandi stjórnarandstöðuflokkur meðal þeirra sem lögðu slíkt til. En stjórnmál á Íslandi eru að því leyti vanþroskuð að þegar andstæðingurinn leggur fram góða hugmynd er hún nánast samkvæmt skilgreiningu samstundis dæmd úr leik, skotin í kaf á tuttugu metra færi.

Þegar Framsóknarflokkurinn lagði til tuttugu prósenta niðurfellingu lána snérust vinstri flokkarnir svo gott sem ósjálfrátt gegn hugmyndinni án þess að einu sinni að hugleiða hana. Sem er svoítið merkilegt því hingað til hefði mátt ætla að það gæti vel fallið að hefðbundinni vinstri stefnu, að lagfæra óeðlilega tilfærslu fjármuna frá skuldurum til fjármagnseigenda, - semsé frá öreigum til kapitalistanna.

Og því svamlar þjóðin nú áfram í baneitraðri skuldasúpunni.

mánudagur, 18. maí 2009

Piran-deilan

Einhverjir hafa haldið því fram að mikilvægt sé fyrir Ísland að vera í samfloti með Króötum þegar - og ef - að því kemur að staðfesta aðildarsamning við Evrópusambandið. Ég hef áður nefnt ýmsar hindranir sem geta mætt ríkjum í flóknu staðfestingarferli ESB-aðildar en 27 ríki þurfa að staðfesta slíka samninga eftir öllum sínum innri kenjum. Áður en farið er af stað í slíka vegferð er því ágætt að kortleggja helstu pytti á leiðinni. Framkvæmdastjórn ESB hefur vissulega fróm áform um að veita Króatíu aðild annað hvort árið 2011 eða 2012, en óvíst er að henni verði að ósk sinni. Slóvenía hefur nefnilega hingað til staðið í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka aðildasamningi við Króatíu. Ástæðan er eftirfarandi:

Frá því að gamla Júgóslavía liðaðist í sundur árið 1991 hafa Slóvenar og Króatar deilt um yfirráðin yfir Piran-flóanum. Um er að ræða tuttugu ferkílómetra svæði sem nær frá slóvensku strandborginni Piran og út flóann við Adríahaf. Samkvæmt Badinter-samkomulaginu sem ákvarðaði núverandi landamæri milli fyrrum ríkja Júgóslavíu fengu Slóvenar norðaustur ströndina en Króatar suðurströndina. Í norðvestri er opið alþjóðlegt hafsvæði. Slóvenar hafa alla tíð verið afar óánægðir með þá ákvörðun, enda eru margir Slóvenar búsettir á svæðinu, svo sem í þorpum við árósa Dragonja-árinnar sem féll Króatíumegin eftir stríð. Slóvensk yfirvöld hafa allt frá því ríkið hlaut sjálfstæði í byrjun tíunda áratugarins vaktað alla spilduna þrátt fyrir úrskurð Badinter-nefndarinnar. Króatar hafa sætt sig við tvískiptingu flóans og dalsins upp af honum en Slóvenar gera tilkall til alls svæðisins. Áhugi þeirra á svæðinu er ekki síst tilkominn vegna þess að yfirráð yfir því veitir þeim beinan aðgang að alþjóðlegu hafsvæði en hafsvæði Slóveníu er nú klemmt á milli króatísks og ítalsks yfirráðasvæðis.

Þegar Króatía sótti um aðild að ESB fékk Slóvenía ansi beitt vopn í hendurnar: hefur nú þegar dregið samningagerðina úr hófi fram og jafnframt hótað að standa í vegi fyrir ESB-aðild Króatíu þar til Króatar láti dalinn af hendi.

(Uppfært kl. 21:30 samkvæmt ábendingu)

fimmtudagur, 14. maí 2009

Brown's Icelandic blame game

Af einhverjum undarlegum ástæðum grípur Gordon Brown gjarnan til þess að ráðast á Ísland þegar hann lendir í pólitískum vanda heima fyrir. Í síðustu viku laug hann því til að mynda að breska þinginu að íslensk stjórnvöld bæru ábyrgð á fjárhagsvanda krabbameinssjóðs Christies-sjúkrahússins í Manchester.

Í nýrri grein í Guardian bendi ég á að setning hryðjuverkalaganna hafi átt hlut í falli Kaupþing Singer&Friedlander og því sé vandi Christies ekki síst honum sjálfum að kenna. Þetta sé því smánarleg tilraun til að þvo hendur sínar af eigin ábyrgð.

Í greininni minni ég einnig á að með setningu hryðjuverkalaganna hafi bresk stjórnvöld ekki aðeins fryst eignir Landsbankans, heldur einnig tekið yfir skuldbindingar hans í Bretlandi, - þar með taldar Icesave-skuldbindingarnar.

mánudagur, 11. maí 2009

Alveg eins og í EFTA-málinu

Vitaskuld er merkilegt að ný ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar ætli að leggja til við Alþingi að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Látið hefur verið í veðri vaka að það sé sértök nýlunda að ríkisstjórn leggji slíka aðild fyrir þingið, jafnvel óvenjulega lýðræðislegt.

Svo er þó ekki. Nákvæmlega sama aðferð var notuð þegar Ísland sótti um aðild að EFTA árið 1968. Þá lagði ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks fram þingsályktunartillögu þess efnis, til að komast að raun um hvaða kjör byðust. Í athugasemdum við tillöguna kom fram að ríkisstjórnin teldi tímabært „að fá úr því skorið með hvaða kjörum Ísland gæti gengið í EFTA“. (Kannast menn við orðalagið?). En sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu efasemdir um málið.

Fleiri líkindi eru við fortíðina. Fréttablaðið segir frá því að fimm þingmenn VG ætli að greiða atkvæði gegn tillögunni. Í EES-málinu árið 1993 greiddu þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks atkvæði gegn samningnum á þingi en fimm þingmenn Framsóknarflokks, sem voru í stjórnarandstöðu, sátu hins vegar hjá og veittu málinu þannig brautargengi.

Fyrir umsóknina nú skiptir mestu, að ríkisstjórnin sem slík mun standa að henni, verði hún samþykkt á þingi. En varðandi málsmeðferðina koma eigi að síður nokkrar spurningar upp í hugann. Til að mynda þessi: Gera má ráð fyrir að einhverjir stjórnarandstöðuþingmenn muni leggja fram breytingatillögu, til að mynda þess efnis að farið verði í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað munu fimmmenningarnir og hinir félagar þeirra í VG þá gera?

miðvikudagur, 6. maí 2009

Í klandri í Flandri?

Mikið hefur verið fjallað um hugsanlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu en minna hefur verið rætt um það ferli sem nauðsynlegt er að fara í gegnum áður en Ísland getur orðið aðili að bandalaginu. ...

Svona hefst grein eftir mig í Fréttablaðinu í dag: Hvernig fá ríki aðild að Evrópusambandinu?

mánudagur, 4. maí 2009

Ekki hægt að lauma umsókn framhjá VG

Það er ekki rétt sem fréttavefur Rúv segir, að umæli Olli Rehn í fréttum í kvöld séu andstæð því sem ég hélt fram í bloggi fyrir fáeinum dögum, þegar ég benti á - hér og hér - að ekki gangi fyrir Samfylkinguna að lauma aðildarumsókn framhjá samstarfsflokknum á þinginu og samþykkja aðildarumsókn að ESB með fulltingi Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar. En slíkt var lagt til í umræðunni fyrir viku.

Stækkunarmálastjórinn tók það skýrt fram í fréttinni að ríkisstjórnin sem slík yrði auðvitað að standa að umsókninni. Öðru máli gegni hins vegar um það að einstaka ráðherrar séu á öndverðu meiði. Orðrétt sagði Rehn: "If the government decides to apply and the parliament endorses then of course we will negotiate."

Þetta er afar skýrt, við komumst auðvitað ekki framhjá því að ríksstjórnin sem sem slík ákveði að sækja um aðild. Ein leið til þess væri að VG myndi samþykkja að láta þingið afgreiða málið. Og kjósi meirihluti þingheims að sótt verði um aðild, setji flokkurinn sig ekki upp á móti því að ríkisstjórnin sendi inn umsókn. Þá væri kominn fram nægjanlegur trúverðugleiki.

Hins vegar, ef menn ætla sér að reyna það sem rætt var fyrir viku, að senda inn umsókn gegn vilja VG, þá er ekki aðeins umsóknin fyrir bí heldur stjórnarsamstarfið væntanlega líka.