Hér í Bretlandi eru stjórnmál öll í uppnámi, ekki ólíkt því sem var í upphafi árs á Íslandi. Ég hef dvalið hér nokkuð reglulega undanfarin ár en aldrei fundið fyrir annari eins vantrú á stjórnmálastéttinni, - en sú tilfinning virðist ná þvert yfir allar helstu pólitísku markalínur. Ekki aðeins hefur Brown-stjórninni mistekist að takast á við fjármálakreppuna, heldur voru þingmenn landsins á sama tíma gómaðir með visna hönd sína á kafi ofan í sælgætiskrúsinni, hafa til að mynda látið skattgreiðendur greiða fyrir andatjörn í garðinn sinn, afborganir af lánum sem ekki eru til og ýmislegt fleira smálegt í leiðinni.
Breskur almenningur er þó í mun betri stöðu en íslenskur að einu leyti. Eins og á Íslandi hefur húsnæðisverð lækkað töluvert en þar sem vextir eru nú komnir niður í nánast ekki neitt hafa afborganir af lánum einnig lækkað stórlega sem gerir líf flestra svolítið bærilegra. Heima á Íslandi hins vegar, þar sem húsnæðislán fylgja verðlagsvísitölu, hafa lánin hins vegar vaxið flestu fólki um höfuð. En einhverra hluta vegna virðast stjórnvöld á Íslandi ekki mikið ætla að gera til að skera heimilin niður úr þeirri snöru.
Í kosningabaráttunni lögðu ýmsir fram hugmyndir um að leiðrétta þá ógnarhækkun lána sem fylgdi verðbólguskotinu, - sem nota bene varð vegna falls krónunnar en ekki vegna þenslu í hagkerfinu. En þá færðust skuggalegar fjárhæðir frá skuldurum til fjármagnseigenda. Því miður fyrir skuldsett heimili landsins var núverandi stjórnarandstöðuflokkur meðal þeirra sem lögðu slíkt til. En stjórnmál á Íslandi eru að því leyti vanþroskuð að þegar andstæðingurinn leggur fram góða hugmynd er hún nánast samkvæmt skilgreiningu samstundis dæmd úr leik, skotin í kaf á tuttugu metra færi.
Þegar Framsóknarflokkurinn lagði til tuttugu prósenta niðurfellingu lána snérust vinstri flokkarnir svo gott sem ósjálfrátt gegn hugmyndinni án þess að einu sinni að hugleiða hana. Sem er svoítið merkilegt því hingað til hefði mátt ætla að það gæti vel fallið að hefðbundinni vinstri stefnu, að lagfæra óeðlilega tilfærslu fjármuna frá skuldurum til fjármagnseigenda, - semsé frá öreigum til kapitalistanna.
Og því svamlar þjóðin nú áfram í baneitraðri skuldasúpunni.