sunnudagur, 7. júní 2009

Iceslave samkomulagið

Bretar eru glaðir með Icesave-samkomulagið, - eðlilega, enda unnu þeir fullnaðarsigur í málinu. Íslenska þjóðin verður skuldbundin þeim í breskum pundum áratugi inn í framtíðina. Íslensk stjórnvöld gera samkomulagið í þeirri veiku von að eignir Landsbankans dugi langleiðina upp í ógnarskuldina, heila 65o milljarða íslenskra króna. Hér er þó engan veginn á vísan að róa, enginn veit hvert virði eignanna eða gengi krónunnar verður í framtíðinni.

Athygli vekur að Íslendingar bera alla áhættuna en Bretar ganga frá samningaborðinu með bæði axlabönd og belti. Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi og víðar þá fengu íslensk stjórnvöld gullið tækifæri til að varpa ábyrgðum á Icesave-skuldunum yfir á bresk stjórnvöld um leið og þau beittu okkur hryðjuverkalögum og frystu eignir bankans í Bretlandi. Sem var auðvitað kolólögleg aðgerð, þverbrýtur til að mynda EES-samninginn og fleiri alþjóðalög.

Þetta er til að mynda í samræmi við niðurstöðu skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins þar sem fram kemur að ekki hafi verið tilefni til að beita Ísland hryðjuverkalögunum.

Því er óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að skuldbinda þjóðina á klafa skulda sem augljóslega eru á ábyrgð þeirra Alistair Darlings og Gordon Browns. Menn skyldu hafa í huga að þetta er ekki aðeins lagalegt álitamál, heldur pólitískt: Alþjóðastjórnmál lúta öðrum lögmálum heldur en innalandsstjórnmál og þjóðarréttur er mun loðnara fyrirbæri en landsréttur.

Á þessum grunni hef ég haldið því fram að þegar Bretar beittu Ísland hryðjuverkalögunum hafi orðið til tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld, - að koma með krók á móti bragði og færa fram þau rök, að þar með hefðu bresk stjórnvöld tekið yfir skuldbindingar þeirra fjármálafyrirtækja sem þau tóku traustataki með ólögmætum hætti.

En nú er semsé búið að reyra skuldaklafann pikkfastan á bak allra Íslendinga. Ég verð að viðurkenna að mér þykir svolítið erfitt að fagna slíkri niðurstöðu.