þriðjudagur, 30. júní 2009

Mögulegar Icesave-leiðir

Icesave samningurinn er sannarlega vondur, - satt að segja skelfilega vondur. Aðeins eitt væri þó verra en að samþykkja hann óbreyttan, það væri að samþykkja hann alls ekki og hætta á að einangra Ísland frá alþjóðasamstarfi og út af alþjóðlegum mörkuðum. Hins vegar eru nokkrar leiðir kannski enn færar til að laga stöðuna, þó ekki væri nema agnar ögn.

Leið 1

Í fyrsta lagi gæti verið lag fyrir íslensk stjórnvöld að fara nú aftur til bresku og hollensku samninganefndanna og segja sem svo, að ómögulegt sé að koma samningum í gegnum þingið án tiltekinna lagfæringa. Bretar og Hollendingar hafa sömu hagsmuni og við af því að ná samningum, svo þeir gætu verið viljugir til að veita svolitlar tilslakanir ef það gæti bjargað málinu frá glötun.

Til að mynda mætti hugsanlega setja inn í samninginn ákvæði um tiltekna hámarksgreiðslu á ári eins og einhverjir hafa þegar lagt til. Ríki greiða um eitt prósent af landframleiðsu í aðildargjald að ESB (og fá svo endurgreiðslur úr sameiginlegum sjóðum ESB til baka) og því mætti hugsanlega miða við slíka tölu sem hámarks greiðslubyrði. Annað viðmið væri að greiðslur vegna Icesave fari ekki yfir meðaltalsgreiðslur Evrópuríkja til varnarmála sem nú eru rétt undir tveimur próentum af landsframleiðslu að jafnaði.

Annað leiðréttingarákvæði sem brýnt er að koma inn í samninginn áður en þingið samþykkir hann er að einnig verði heimilt að nýta eignir Landsbankans til að greiða vaxtakostnað lánsins, ekki aðeins höfuðstólinn.

Leið 2

Gangi ekki að ná fram slíkum breytingum með samningum við Breta og Hollendinga getur Alþingi auðvitað sjálft sett einhliða einhverja slíka fyrirvara við samþykki sitt á ríkisábyrgð lánasamningsins. Þá verður það í höndum bresku og hollensku ríkisstjórnanna að gera athugasemdir við málsmeðferðina og meta hvort ríkin samþykki slíka meðhöndlun. Það verður þá þeirra að rifta samningum, ekki okkar.

Kannski er slíku tilfelli snjallara að hafa fyrirvarana óljósa, hnykkja á endurskoðunarákvæðum og lýsa því yfir að íslenska ríkið verði að hafa burði til að standa við samninginn síðar. Að nokkrum árum liðnum taka ný stjórnvöld á Ísland málið svo aftur upp við ný stjórnvöld í Bretlandi og í Hollandi á grundvelli þess fyrirvara.

Leið 3

Þriðja leiðin er náskyld leið 2 en er hins vegar nokkuð lævísari. Hún felst í þvi að samþykkja samninginn eins og hann kemur af skepnunni en með það fyrir augum að taka hann upp síðar meir innan ESB. Ísland yrði þá um leið að stefna inn í Evrópusambandið og ná að klófesta evruna áður en sjö ára griðartímanum líður. Þá verðum við nefnilega loks komin í jafna samningsstöðu gagnvart Bretum og Hollendum. Svo, þegar líður að fyrstu afborgun, bregðum við einfaldlega á það ráð að höfða mál fyrir Evrópudómstólnum – sem aðilarríki ESB - á þeim forsendum að samningurinn hafi verið ólöglegur nauðarsamningur sem við hefðum verið þvinguð til að samþykkja.

Ég veit það ekki. Kannski eru svona hundakúnstir allt of óheiðalegar fyrir heiðvirða þjóð en í öllu falli væru allar þessar þrjár leiðir skárri heldur en að hafna samningum og gefa dauðann og djöfulinn í umheiminn á sama tíma og Ísland gengur í gegnum mestu efnahagsörðuleika hins unga lýðveldis.