þriðjudagur, 23. júní 2009

„Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar"

Ég varði doktorsrannsókn mína við Háskóla Íslands í gær: „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" - áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Bókin fæst í Bóksölu stúdenta.

Ágrip

Í rannsókninni er spurt hvers vegna Íslendingar kusu að tengjast Evrópusamrunanum í gegnum Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-landamærasamstarfið en ekki með fullri aðild að Evrópusambandinu. Rannsóknin nær fram til maí 2009. Tekið er til skoðunar hvort skýri betur þessa afstöðu íslenskra stjórnmálamanna, efnahagslegir hagsmunir eða hugmyndir um fullveldi þjóðarinnar.

Ritgerðinni er skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um þá kenningarlegu umræðu sem fram hefur farið um tengsl ríkja við Evrópusamrunann, í öðrum hluta eru tengsl Íslands við Evrópusamrunann til skoðunar og í þeim þriðja er orðræða íslenskra stjórnmálamanna um þátttöku í evrópsku samstarfi greind í þremur afmörkuðum umræðulotum: Fyrst í aðdraganga EFTA-aðildar (1970), síðan í aðdraganda EES-aðildar (1994) og að lokum afmarkað tímabil þegar rætt var um hugsanlega inngöngu í ESB (2000 til 2003).

Innan vébanda frjálslyndrar milliríkjahyggju er því haldið fram að hagsmunir leiðandi atvinnugreina séu ráðandi um tengsl Norðurlandaríkjanna við Evrópusamrunann. Samkvæmt kenningunni eru það hagsmunir í sjávarútvegi sem móta tengsl Íslands við ESB. Sú staðreynd að ekki hafði verið látið reyna á sjávarútvegsmálið í aðildarviðræðum bendir þó til að fleiri breytur geti skipt máli. Í rannsókninni er aðferðum síðformgerðarhyggju og mótunarhyggju beitt til að greina hvort hugmyndir Íslendinga um fullveldið og þjóðina móti afstöðu íslenskra stjórnmálamanna til Evrópusamstarfsins og þá hvernig.

Í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld varð til einörð og að nokkur leyti sérstök þjóðernisstefna þar sem megináhersla var lögð á fullveldi þjóðarinnar sem heildar – fremur en á frelsi einstaklingsins sem hafði verið einn meginþráður evrópskrar frjálslyndisstefnu. Í efnahagslegu tilliti hafa íslensk stjórnvöld engu að síður álíka þörf og stjórnvöld annars staðar í Evrópu til að taka þátt í samrunaþróuninni, og kann þetta að skýra veru Íslands í EES. Samningurinn veitir Íslendingum aðild að innri markaði ESB en um leið samþykktu íslensk stjórnvöld að lúta reglum ESB í samstarfinu – og þar með afmarkað framsal ákvarðanatöku og ríkisvalds.

Þessi togstreita, á milli efnahagslegra hagsmuna og hugmynda um fullveldi íslensku þjóðarinnar, hefur síðan framkallað eins konar rof á milli orðræðunnar um hina frjálsu og fullvalda íslensku þjóð og þess raunveruleika sem blasir við í samstarfinu.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að arfleið sjálfstæðisbaráttunnar hafi haft mótandi áhrif á orðræðu íslenskra stjórnmálamanna í Evrópumálum. Sérstök áhersla á fullveldi þjóðarinnar hefur frá því á 19. öld verið einn helsti grundvöllur íslenskra stjórnmála. Af þeim sökum fellur þátttaka í yfirþjóðlegum stofnunum Evrópusambandsins illa að ríkjandi orðræðu þar sem megináhersla er lögð á vernd fullveldisins og eilífa sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.

Hér er svo sýnishorn þar sem sjá má ágrip á ensku og íslensu, formála, efnisyfirlit og inngang.