miðvikudagur, 30. desember 2009

Týndi áratugurinn

Útreikningar talnaglöggra hagfræðinga sýna að eftir bankahrunið hafi efnahagur Íslands færst aftur um áratug eða svo. Í efnahagslegu tilliti höfum við semsé glatað heilum áratug. Og meiru til raunar því nú skuldum við svo miklu meira en áður.

Við lok fyrsta áratugar nýrrar þúsaldar, eftir kerfishrunið sem varð í fyrrahaust, getur því verið sársaukafullt að horfa í baksýnisspegilinn. Fyrir vegferðina fram á við er það hins vegar nauðsynlegt.

Í upphafi aldarinnar virtust okkur Íslendingum allir vegir færir. Við fórum létt með að hrista af okkur eftirhreytur netbólunnar sem sprakk eins og hver önnur sápukúla og hófum að klífa upp á efstu tinda í alþjóðavæddum fyrirtækjarekstri.

Með aðstoð nánast ókeypis lánsfjár gleyptu nýeinkavæddir bankarnir hvert alþjóðlega stórfyrirtækið á fætur öðru og kornungir útrásardrengir vopnaðir nýslegnu viðskiptafræðiprófi og gloppóttri barnaskólaensku settust í stjórnir rótgróinna erlendra félaga. Talað var um nýtt hagkerfi þar sem lögmál þess gamla giltu ekki lengur.

Hver skuldsetta yfirtakan á fætur annarri var klöppuð upp sem viðskipti ársins: Magasin du Nord, Illum, Nyhedsavisen, Debenhams, House of Fraiser, Heritable bank, FIH-Erhverfsbank, Singer&Friedlander. Flest okkar hrifust með. Að beiðni djarfhuga viðskiptamanna nútímans afnámu stjórnvöld svo gamaldags reglur og glansblöðin bjuggu til stjörnur úr skuldakóngunum.

Árið 2006 lagði Viðskiptaráð til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin „enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum“. Í ímyndarskýrslu forsætisráðuneytisins frá því í mars 2008 var fjallað um sérstaka eðliseiginleika „sem aðgreinir Íslendinga frá öðrum þjóðum“ og geri þeim kleift að skara frammúr á alþjóðavettvangi: „Mikilvægt er að tryggja að Ísland verði áfram „best í heimi“,“ sögðu skýrsluhöfundar í feitletraðri samantekt.

Náttúruval á sögueyjunni
Máttastólpar samfélagsins klöppuðu flestallir sama stein. Í ræðu í London árið 2005 leitaðist sjálfur forsetinn við að skýra út fyrir útlendingum eðlislæg sérkenni íslensku útrásarvíkinganna sem vegna einstaks náttúruvals á sögueyjunni myndu nánast óhjákvæmilega sigra heiminn.

Við blasir kenning um að á Íslandi hafi orðið til algjörlega sérstök þjóð með einstaka eðlislæga hæfileika sem hafi alla burði til forystu í heiminum. En að hún hafi lengst af verið takmörkuð af einangrun sinni og fámenni. Svo þegar hömlurnar hurfu með aukinni hnattvæðingu og opnun fjármálamarkaða hafi þjóðin sprungið út og blómstrað.

Hér var semsé komin fram einhvers konar eðlislæg skýring á risi íslenska efnahagsundursins og því haldið fram í fúlustu alvöru að sökum náttúruvals verði Íslendingar í forystu í alþjóðlegum fyrirtækjarekstri. Í ræðu í Los Angelis árið 2000 gekk forsetinn jafnvel svo langt að bjóða Bandaríkjamönnum að taka þátt í þessari nánast óumflýjanlegu vegferð Íslendinga, annars myndu þeir sitja eftir með sárt ennið við upphaf nýrrar þúsaldar.

Mér er að vísu til efs að allur almenningur hafi endilega gengið með þessar grillur í kollinum en rannsókinir sína að þegar kemur að umræðu um tengslin við önnur lönd hafa íslenskir stjórnmálamenn einhverra hluta vegna hamrað á hugmyndinni um óvéfengjanlega sérstöðu íslensku þjóðarinnar.

Sitt hvor hliðin á sama pening
Þegar skýjaborg útrásarhagkerfisins hrundi svo yfir okkur í fyrrahaust kom smám saman fram önnur hugmynd meðal sumra afla í samfélaginu. Nú vorum við ekki lengur að sigra heiminn heldur allt í einu orðin fórnarlamb vondra útlendinga sem áttu að hafa setið á svikráðum um þessa saklausu smáþjóð í norðri.

Þegar að er gáð hefur þó kannski ekki orðið jafn mikill viðsnúningur og ætla mætti. Hugmyndin um umsátrið er nefnilega af nokkurn vegin sama meiði og hugmyndin um yfirburðaþjóðina. Sitt hvor hliðin á sama pening. Myndin hafði einfaldlega snúist við

En nú er áratugur öfganna vonandi á enda runninn. Við erum hvorki nein sérstök yfirburðaþjóð né saklaust fórnarlamb utanaðkomandi umsáturs. Á Íslandi býr hins vegar vel menntuð þjóð i gjöfulu landi sem hefur alla burði til að búa þegnum sínum góð lífskjör.

Verkefnið framundan hlýtur því að vera að vinsa úr hvað í þessum hugmyndum og allri þeirri umræðu sem fram hefur farið um sérstöðu íslensku þjóðarinnar er nýtilegt til uppbyggingar í samfélaginu og hvað er bókstarflega stórhættulegt.

Fréttablaðið 30. janúar 2009

mánudagur, 21. desember 2009

Íslensk leikkona slær í gegn í Danmörku

Fréttablaðið segir í dag frá umfjöllun í Berlingske Tidende um tvo íslenska rithöfunda, þau Hallgrím Helgason og Yrsu Sigurðardóttur. Umfjöllunin sem er á síðu tólf í menningarkálfi blaðsins síðastliðinn föstudag er lofleg og vissulega frásagnarverð.

Forsíða blaðsins í heild sinni sem og síða tvö eru hins vegar lögð undir umfjöllun um nýjustu leikhússtjörnu Danmerkur. Blaðið heldur hreinlega ekki vatni yfir óvenju hæfileikaríkri 33 ára leikkonu sem nýlega hafi komið fram á sjónarsviðið og meðal annars hlotið afar eftirsótt verðlaun; Reumert Talentprisen 2009. Í umfjöllun sinni er bent á að danskir gangrýnendur hafi beðið í röðum við að bera lof á frammistöðu leikkonunnar í sýningunni Seest. Leikkonan hæfileikaríka heitir Stefanía Ómarsdóttir og er alveg jafn íslensk og rithöfundarnir góðu sem fjallað er um inni í blaðinu.

Mikið væri nú gaman ef íslenskir fjölmiðlar gætu einnig sagt frá afrekum leikkonunnar hæfileikaríku úr Garðabæ.

fimmtudagur, 10. desember 2009

Fræðigrein: Sense of Sovereignty

Í dag kemur út tímaritið Stjórnmál og stjórnsýsla sem Háskóli Íslands gefur úr. Af því tilefni mun ég nú á eftir halda erindi um ritrýnda grein í tímaritinu. Greinin heitir Sense of Sovereignty: How national sentiments have influenced Iceland's European policy.

Útdrátturinn er svona:

This paper asks why Iceland had until July 2009 chosen to participate in the European project through the EEA and Schengen agreements but not with full membership in the EU. It analyses if and how ideas on the Icelandic nation and its sovereignty affects the stance Icelandic politicians have taken towards the European project. Icelanders’ struggle for independence in the 19th century created a special kind of nationalism which gives prominence to the sovereignty of the nation as a whole.

Economically, however, Iceland feels the same need as other European states to participate in European co-operation, which can explain its membership in the EEA. The agreement brings Iceland into the European single market, but at a cost: Iceland has de-facto agreed to adopt the EU’s legislation within the boundaries of the agreement, and thus a transfer of decision making and domestic governmental power to the EU. This dilemma, between economic interests on the one hand and ideas on the sovereignty of the Icelandic nation on the other, has created a kind of a rift between the emphasis on the free and sovereign nation and the reality Iceland is faced with in the co-operation.

The inheritance of the independent struggle still directs the discourse Icelandic politicians use in the debate on Europe. A strong emphasis on sovereignty has become the foundation on which Icelandic politics rests. Participation in EU’s supra-national institutions falls, in a way, outside the framework of Icelandic political discourse, which highlights Iceland’s sovereignty and stresses an everlasting independence struggle.

Greinin í heild er hér.

laugardagur, 28. nóvember 2009

Er Dubai nýja Ísland? - ný grein í The Guardian

Dubai er á fallanda fæti. Breskir fjölmiðlar eru ansi uppteknir af samanburðinum við Ísland. Ritstjóri minn á The Guardian bað mig því um að setja saman svolitla grein um hvað þeir í Dubai gætu lært af reynslu Íslands. Greinin er hér.

þriðjudagur, 3. nóvember 2009

Erindi: Will Iceland make it to the EU?

Vel fer á því að Stefán Haukur Jóhannesson leiði aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið fyrir okkar hönd. Hann er enda einn okkar reyndasti og öflugasti embættismaður. Er nú sendiherra okkar í Brussel og gjörþekkir hina flóknu þræði í embættismannaveldi ESB.

En mun Ísland ná inn í ESB? Það er hins vegar með öllu óvíst, sér í lagi vegna andstöðu hér innanlands sem grundvallast ekki síst á afstöðu okkar til fullveldisins, eins og ég ræddi í erindi við Tækni og vísindaháskólann í Þrándheimi (NTNU) í síðustu viku, sjá glærur hér: Will Iceland make it to the EU?

mánudagur, 2. nóvember 2009

Fræðigrein: Er Ísland fullvalda?

Íslensk stjórnmálahefð mótaðist að miklu leyti í sjálfstæðisbaráttunni og sú orðræða sem þá varð til lifir enn góðu lífi í íslenskri stjórnmálaumræðu. Grundvallarhugmynd þjóðernisstefnunnar var að íslensk þjóð ætti að vera frjáls og fullvalda í eigin landi. Sjálfstæðið varð hið endanlega markmið frelsisbaráttunnar og Íslendingar litu á fullveldið sem einhvers konar endurreisn þjóðveldisins. Þrátt fyrir að sjálfstæðisbarátta Íslendinga stæði í nánu samspili við álíka hugmyndafræðilegar hræringar í Evrópu virtust Íslendingar líta svo á að sjálfstæðisbaráttan væri að vissu leyti séríslenskt fyrirbæri. Fullveldið og þjóðin urðu að grundvallarhugtökum í íslenskum stjórnmálum.

Svona hefst fræðigrein eftir mig sem finna má í ritinu Rannsóknir í félagsvísindum X, sjá hér: Er Ísland fullvalda?

Afar einfölduð niðurstaða er sú að Ísland sé í raun alveg jafn fullvalda og önnur lýðfrjáls ríki Vesturlanda en að hugmyndir Íslendinga um fullveldið sem þróuðust í sjálfstæðisbaráttunni séu sumpart íhaldssamari heldur en gerist og gengur víða annars staðar.

Ég flutti svo samhljóða erindi á Þjóðaspeglinum í Háskóla Íslands síðastliðinn föstudag, sjá glærur hér.

þriðjudagur, 13. október 2009

Frystir úti - ári seinna

Fjölmiðlar hafa verið duglegir að rifja upp helstu atburði síðastliðinn árs, því er ekki úr vegi að rifja hér upp fyrstu grein mína í The Guardian þennan dag fyrir ári síðan, en ástandið í samskiptum Íslendinga og Breta var slíkt á þessum dögum að athugasemdakerfi Guardian-vefsins sprakk vegna álagsins, greinin er hér: Frozen out.

Þegar ég rann yfir greinina sló mig fyrst hvað fátt hefur breyst á því ári sem nú er liðið.

mánudagur, 12. október 2009

Efnahagsvandi Austur Evrópu

Má til með að benda á góða grein eftir Thomas Mirow í The Guardian í dag um vandræði margra nýfrjálsra ríkja Austur-Evrópu í kreppunni.

Eftir gríðarlegan vöxt er fallið sömuleiðis hátt.

fimmtudagur, 8. október 2009

70 óspjallaðar meyjar og annar óhróður

Í morgun hlaust mér sú upphefð að fá yfir mig skæðadrífu staksteina Morgunblaðsins. Grjótkastarinn í Hádegismóum er þó ekki hittinn þennan morguninn. Efnislega er ég sakaður um að hafa hótað þjóðinni uppsögn á EES-samningnum samþykki hún ekki Icesave, sem ég á víst að vera alveg hreint sérstakur áhugamaður um að Íslendingar samþykki, að því er virðist af þeirri ástæðu að ég ku vera svo sólginn í embættismannastarf í stofnunum ESB.

Allt er þetta kolrangt. Í fyrsta lagi hef ég engum hótað. Í gær var ég inntur eftir því í fjölmiðlum hvað myndi gerast með EES-samninginn ef Íslendingar myndu hafna Icesave og segja sig úr efnhagsáætlun AGS. Ég svaraði sem rétt er, að þá myndi líkast til vera úti um ESB-umsóknina og að erfitt yrði að aflétta gjaldeyrishöftunum í bráð, það gæti svo aftur leitt til þess að EES-samningurinn myndi á endanum rakna upp. Þetta er samdóma álit flestra fræðimanna og útskýrt hér.

Ýmsir staksteinadritarar þessa þjóðfélags hófu auðvitað um leið að teygja, toga og rangtúlka ummæli mín og gera mér upp annarlegar hvatir. Ég var hins vegar einvörðungu að miðla þeirri þekkingu sem ég hef á evrópsku samstarfi eftir áratugs rannsóknir á þessu appírati, en samkvæmt staksteinum má það má víst ekki á Ísland i dag. Sannleikurinn er víst ekki af öllum álitinn sagna verður.

Í öðru lagi hef ég frá upphafi varað við þessum árans Icesave-samningi, hroðaleg hrákasmíð þessi nauðungarsamningur, sjá hér, hér og hér. Eins og hér má sjá lagði ég strax í upphafi til að settir yrðu afgerandi fyrirvarar við þennan ólánssamning, að vísu var svo gengið allt of langt í þeim efnum og málið eyðilagt í þinginu.

Í þriðja lagi hryllir mig hreinlega við þeirri tilhugsun að verða bjúrókrati í Brussel, það langar mig alls ekki. Á meðan ég má vera fræðimaður á Ísland þá vil ég það, ef ég má. Um skeið starfaði ég sem upplýsingafulltrúi í sendiráði ESB í Osló, mér leiddist og vissi um leið að ég hef engan áhuga á svoleiðis störfum, sagði þvi starfi mínu lausu og flutti heim. Síðan ég ég unnið að fræðistörfum og vil halda þeim áfram, ef ég má.

Í skæðadrífu staksteina fljúga fleiri og enn furðulegri hlutir. Á einhvern undarlegan hátt tekst grjótkastaranum í Hádegismóum að þvæla 70 óspjölluðum meyjum inn í spilið, sem ég er sagður hafa einhverja löngun til. Hvernig svarar maður eiginlega svona ummælum? Hvað er hér eiginlega á ferðinni?

Þetta er ekki eina sendingin sem ég hef fengið frá Morgunblaðinu eftir að blaðamenn óskuðu eftir áliti mínu á afdrifum EES-samningsins. Seinni partinn í gær barst mér nafnlaus póstur úr netfanginu frsend@mbl.is. Bréfritari fer fram á að ég þagni og endar reiðilestur sinn á eftirfarandi hvatningu til mín. „Geturðu ekki bara flutt og látið okkur í friði?“

Er þetta hótun? Hver ber ábyrgð á svona póstsendingum?

miðvikudagur, 7. október 2009

Drullukaka Icesave, AGS og EES

Umræður um Evrópumál geta verið flókin, myndin sem Íslendingar standa frammi fyrir í utanríkismálum er hvorki einsleit né einföld. Tengslin við Breta og Hollendinga vegna Icesave er partur af margþættri mósaíkmynd þar sem ESB-umsóknin, samskiptin við Norðurlöndin og EES-samninginn er einnig að finna. Þræðirnir þarna á milli eru ekki alltaf augljósir og stundum erfitt að feta sig eftir þeim.

Í dag hafa fjölmiðlar velt fyrir sér hvað myndi gerast varðandi ESB-umsóknina og EES-samninginn ef við myndum gefa Bretum og Hollendingum fingurinn og hafna Icesave einhliða. Ég var spurður um þetta í Fréttablaðinu og í Útvarpsfréttum Rúv. Ég sé að ýmsir hafa lagt út af ummælum mínum og aðrir rangtúlkað svo mest þeir mega. Það er eftir öðru í umræðu dagsins, lítið við því að segja.

En svarið við þessari spurningu er auðvitað ekki með öllu einhlítt, hins vegar er ljóst að eftir að gjaldeyrishöftin voru sett síðastliðið haust uppfyllum við ekki veigamikinn þátt EES-samningsins, þá hlið fjórfrelsisins sem snýr að frjálsu flæði fjármagns. Það er hárrétt hjá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, að höftin voru sett í fullu samráði við AGS og ESB.

En, það er nefnilega svolítið en í þessu máli eins og mörgum öðrum. Hvað gerist ef við hendum AGS út í hafsauga og höfnum Icesave einhliða? Þetta var það sem Fréttablaðið og Fréttastofa Rúv vildu vita. Um þetta var ég spurður. Þá er nefnilega komin upp önnur staða, þá erum við ekki lengur að vinna í samráði við viðsemjendur okkar.

Við slíkar aðstæður yrði ESB-umsóknin sett í einhverja frystikistuna í Brussel, það er held ég nokkuð augljóst. Og þar með verður einnig orðið ljóst að við munum ekki geta aflétt gjaldeyrishöftunum og uppfyllt EES-samninginn eins og okkur ber. Um leið hverfur sú réttlæting sem ESB hefur nú við að horfa í gegnum fingur sér með einmitt það, að við uppfyllum alls ekki EES-samninginn.

Þá verður það hlutverk framkvæmdastjórnar ESB að segja upp þeim hluta EES-samningsins sem nær til fjármálafrelsisins og þar með verður ekki lengur sú einsleitni sem krafist er í samningnum og hann gæti því hæglega raknað upp. Keðjuverkun fer af stað sem ómögulegt er að sjá fyrir endann á. Hættan er því raunveruleg, þetta er ekki bara eitthvað tuð út í loftið.

Öfugt við það sem þvælumeistarar þjóðmálaumræðunnar eflaust vilja láta í veðri vaka eru auðvitað miklu fleiri vafamál heldur en hér eru rakin, tengsl Íslands við umheimin eru hvorki alhvít né kolsvört. Stjórnmál eru list hins mögulega og því er alltaf til einhver lausn ef vilji er fyrir hendi. Áhyggjur mínar vakna ekki síst af því að mér sýnist einmitt að sjálfan viljann sé að þverra, - bæði hér heima og einnig erlendis.

Og þá stendur nú heldur betur upp á ýmsa pótintátana hér heima að svara þeirri spurningu, hvað þá?

Ný bók: Frá Evróvisjón til evru - allt um Evrópusambandið

Á heimasíðu útgefanda míns, Veraldar segir: "Í dag kemur út hjá Veröld bókin Frá Evróvisjón til Evru - Allt um ESB eftir Eirík Bergmann dósent við Háskólann á Bifröst og forstöðumann Evrópufræðaseturs.

Aðild Íslands að Evrópusambandinu er eitthvert umdeildasta mál síðari tíma. En hvað er þetta ESB? Hver er saga þess? Hvernig er það byggt upp? Hvert er eðli Evrópusamvinnunar? Hvaða áhrif hefur Evrópusambandið á líf, störf og viðskipti Íslendinga nú þegar – og hvað breytist ef ákveðið verður að ganga í sambandið?

Um hvað snýst samvinna þessara 27 aðildarríkja þar sem býr hálfur milljarður manna og talar 89 tungumál?

Íslendingar verða á næstunni að gera upp hug sig sinn til ESB. Bókin Frá Evróvisjón til evru eftir Eirík Bergmann hefur að geyma allt sem þú vildir vita um Evrópusambandið en þorðir ekki að spyrja um; bók sem á erindi inn á hvert heimili í landinu.

Á bókarkápu er vitnað til umsagna tveggja lesenda bókarinnar.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir: "„Liprasti texti sem Íslendingur hefur skrifað um ESB og fjandi skemmtilegur aflestrar. Á köflum einsog leiftrandi spennusaga."

Svanhildur Hólm Valsdóttir lögfræðingur segir: "Lipurlega ritað yfirlit um ESB, aðgengilegt g yfirgripsmikið, eftir höfund sem er ástríðufullur hugamaður um alþjóðasamvinnu.""

Ég er í viðtölum við nokkra fjölmiðla í dag, meðal annars í tengslum við efni bókarinnar.

"Skammaður af ESB-sinnum", segir Mbl.is

"Íslendingar í klandri í Flandri", segir Morgunblaðið

"EES-samningurinn í hættu falli Icesave", segir Fréttablaðið og Vísir.is

"EES-samningur kann að vera í hættu", segja fréttir Útvarps.


föstudagur, 2. október 2009

Í dag ráða Írar framtíð ESB

Í dag ganga Írar í annað sinn til kosninga um nýjan Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Niðurstaða kosninganna mun ráða úrslitum um hvort takist að greiða úr þeim stjórnlagavanda sem varð til í Evrópusambandinu þegar kjósendur í Frakklandi og Hollandi afþökkuðu stjórnarskrársáttmála ESB sumarið 2005 - sáttmála sem leiðtogar aðildarríkjanna höfðu þá þegar unnið að í nokkur ár.

Segja má að Lissabon-sáttmálin sé eins konar útvötnuð útgáfa af stjórnarskrársáttmálanum sáluga. Búið er að taka út allar tilvísanir í sameiginleg tákn og annað það sem einkennir stjórnarskrár almennt, en breytingar á stofnunum og ákvarðanatökukerfi halda sér hins vegar nokkurn vegin í samræmi við það sem menn ætluðu sér í stjórnarskrársáttmálanum.

Írland er eina ríki ESB þar sem stjórnarskrá kveður beinlínis á um að setja verið alla aþjóðasáttmála sem ríkið gerir í dóm kjósenda, því er framtíð Evrópusambandsins nú enn og aftur í höndum Íra en ekki borgara annarra ESB-ríkja.

Kjörstaðir loka klukkan tíu í kvöld og talning hefst í fyrramálið, Ráðgert er að úrslit liggi fyrir annað kvöld. Sjá frétt Irish times um atkvæðagreiðsluna hér.fimmtudagur, 1. október 2009

Vandmeðfarin lánamál

Útspil framsóknarmanna á Íslandi og í Noregi um ofurlán til Íslands, óháð afgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er svolítð óljóst og að sumu leyti eilítið undarlegt. Tilboðið kemur ekki frá norsku ríkisstjórninni heldur frá óbreyttum þingmanni í minnsta stjórnarflokknum, Per Olaf Lundteigen, talsmanni Miðflokksins í fjármálum. (Miðflokkurinn sækir nú á um aukin áhrif í nýrri ríkisstjórn sem enn hefur ekki verið mynduð eftir nýliðnar kosningar, sömu flokkar ætla sér að vinna saman áfram).

En allavega, öfugt við fréttafluttnig hérlendis hefur Lundteigen, samt sem áður hvergi sagt - svo ég hafi heyrt - að Noregur sé tilbúinn til að afgreiða slíkt lán óski íslenska ríkisstjórnin eftir því. Þvert á móti segir hann í viðtali ABC fréttaveituna í Noregi að tilboðið sé einvörðungu sett fram fyrir hönd Miðflokksins, ekki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Á norsku svarar hann svona: "På vegne av Senterpartiet sa jeg til Thórallsson at vi er villige til å gi et betydelig lån opp til 100 milliarder norske kroner, til 4 prosent rente og fem års avdragsfrihet."

Leiðtogar norsku ríkisstjórnarinnar, þau Jens Stoltenberg, forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins, og Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra og formaður Vinstri flokksins, hafa ekki tekið undir orð Lundteigen. Þvert á móti hafa þau bæði sagt að norska ríkisstjórnin muni einvörðungu veita Íslandi lán að undangenginni afgreiðslu AGS, sjá til að mynda hér.

Eigi að síður er vitað að þreifingar hafa undanfarið farið fram milli íslenskra og norskra stjórnvalda um einhliða aðstoð ef allt um þrýtur, - þótt upphæðin í þeim viðræðum hafi raunar ekki verið í nálægð við það sem Lundteigen nefnir.

En semsé, það sem mestu máli skiptir nú, er að skemma ekki málið áður en það er fullþroskað. Lánafyrirgreiðsla til Íslands er pólitískt afar viðkvæmt mál fyrir norsk stjórnvöld, sem eru eins og á milli steins og sleggju: Á alþjóðavettvangi vilja þau sýna að þau standi með alþjóðlegum leikreglum sem skuldbinda íslensk stjórnvöld til að ganga frá Icesave málinu (utan Íslands eru svotil allir sammála um það) en heima fyrir hefur almenningur í Noregi gjarnan viljað veita Íslendingum, frændum í neyð, hjálparhönd.

Stjórnmál eru list hins mögulega og um þetta mál alveg sérstaklega er afar vandratað. Persónulegur vinskapur er á milli leiðtoga VG á Ísland og SV í Noregi, Steingrímur J Sigfússon og Kristin Halvorsen eru í reglulegum samskiptum. Samt sem áður hefur ekki tekist að afgreiða málið.Vonandi fara samskiptin við norsk stjórnvöld ekki í hnút þótt málinu hafi nú verið þjófstartað í fjölmiðlum.Við sjáum til.

Uppfært kl. 13:55:

Og nú hefur það gerst sem ég óttaðist, raunverulegir fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar hafa neyðst til að bera fréttina um loforð Lundteigen til baka og allt komið í hnút á nýjan leik.

miðvikudagur, 23. september 2009

Örríkjabandalag Evrópu - örlög Noregs

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur áhuga á að víkka út EES-samstarfið með því að fá örríki Evrópu inn í EFTA-stoð samningsins, svo sem ríki á borð við Andorra, San Marínó, Mónakó og jafnvel bresku aflandseyjarnar Gurnsey og Mön. Færeyjar hafa meira að segja verið nefndar í þessu sambandi. Ég ræddi þetta við fréttastofu Sjónvarps í gærkvöldi.

Ríkisstjórn Andorra hefur nú þegar farið fram á að framkvæmdastjórn ESB athugi þennan möguleika og fulltrúar Evrópusambandsins hafa rætt útvíkkun EFTA/EES samstarfsins við ríkisstjórn Noregs.

Norðmenn eru í svolítið erfiðri stöðu í þessu máli. Gangi Ísland í Evrópusambandið er ljóst að Noregur og Liectenstein geta ekki ein haldið EFTA-stoð EES-samningsins úti með trúverðugum hætti, í það minnsta ekki eftirlitskerfinu. Því myndi innganga Andorra, San Marínó og fleiri örríkja styrkja EFTA-stoðina gangi Ísland úr skaptinu. Mörg þessara örríkja eru skattaparadísir sem hafa farið illa út úr fjármálakreppunni.Evrópusambandið sér EES-leiðina sem möguleika til að koma þeim til hjálpar og að hafa á þeim taumhald um leið. Reynsla Liectenstein innan EFTA og EES bendir til að slík lausn geti vel hentað fleiri örríkjum Evrópu.

Norðmenn eiga þó í svolitlum erfiðleikum með að sjá sjálfa sig fyrir sér í örríkjabandalagi Evrópu. Þótt Noregur sé vissulega smátt ríki miðað við mörg önnur hafa margir Norðmenn eigi að síður litið svo á að Noregur hafi sérstöku hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi. Af þeim sökum eiga sumir þeirra bágt með að horfa framan í þá stöðu að verða hluti af þeim örríkjaklúbbi sem yrði til gangi hugmyndir framkvæmdastjórnar ESB eftir. Á móti kemur að þá yrði Noregur loksins það stórveldi sem suma Norðmenn hefur lengi dreymt um, - að vísu aðeins stórveldi meðal örríkja Evrópu, en stórveldi eigi að síður.

Þeir Norðmenn sem ég ræddi við í nýlegri Brussel-ferð, bæði innan EFTA-skrifstofunnar og fastanefndar Noregs, eru margir hverjir uggandi um framþróun þessa máls, vita satt að segja ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og kvarta sáran undan því að Ísland beiti sér lítt í málefnum EFTA og EES eftir að ESB-umsóknin var afhennt í júlí síðastliðnum.

Á fimmtuagsmorgun mun einn helsti sérfræðingur Noregs í Evrópumálum, dr. Fredrik Sejersted, formaður Evrópuréttarstofnunar Oslóarháskóla, ræða stöðu Noregs í Evrópusamstarfi undir heitinu Framtíð Noregs innan eða utan ESB – reynslan af 15 ára sambúð með EES. Það verður fróðlegt að heyra hvað hann hefur þetta mál að segja.

fimmtudagur, 3. september 2009

Hið huglæga sjálfstæði - önnur prentun komin

Svo óheppilega vildi til að doktorsrannsókn mín, sem kom út í bókinni Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar í júní sl., seldist upp fyrir skömmu og hef ég af nokkrum verið húðskammaður fyrir þann vesaldóm að láta undir höfuð leggjast að fylla á búðirnar. Á því biðst ég velvirðingar. En nú er önnur prentun bókarinnar loksins komin glóðvolg í Bóksölu stúdenta og Eymundsson í Austurstræti svo vonandi geta áhugasamir nælt sér í eintak.

þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Pat "the Cope" Gallagher

Nokkurs misskinings hefur gætt um hlutverk Pat "the Cope" Gallagher í samningaviðræðum ESB við Ísland. Hann verður ekki aðalsamningamaður ESB gagnvart Íslandi heldur pólitískur fulltrúi Evrópuþingsins í samningaviðræðunum. Það verður svo í höndum framkvæmdastórnar ESB að sjá um sjálfa samninganna og ráðherraráðið sem hefur lokaorðið. Eigi að síður eru það í sjálfu sér merkilegar fréttir að Pat hafi verið valinn til verksins. Ég ræddi það við fréttastofu Stöðvar 2 í gærkvöldi.

mánudagur, 24. ágúst 2009

Hr. Stefán og Dr. Snævarr

Dr. Stefán Snævarr, heimspekiprófessor í Noregi, gerir mér mikinn heiður og helgar fræðistörfum mínum heilan sunnudagspistil. Í yfirferð sinni staldrar hann helst við frelsishugtakið og ásakar mig um að beita því svívirðilegum frjálshyggjuskilningi, sér í lagi þegar rætt er um frelsi einstaklinga.

Stefán hirðir því miður ekki um að nefna hvar ég á að hafa misbeitt frelsishugtakinu með þessum hætti en ég get mér þess til að hann líti einna helst til rannsóknar minnar á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda sem nýlega kom út í ritinu „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar“. Rétt er að nota tækifærið og útskýra ögn betur fyrir dr. Snævarr hvernig frelsið, þjóðin og fullveldi hennar tengist og vefst saman í Evrópuumræðunni. Meginniðurstaða rannsóknar minnar er sú að arfleið sjálfstæðisbaráttunnar hafi enn í dag mótandi áhrif á orðræðu íslenskra stjórnmálamanna í Evrópumálum. Skoðum þá þróun íslenskrar þjóðernisstefnu:

Frjáls og fullvalda íslensk þjóð var hið endanlega markmið sjálfstæðisbaráttunnar og Íslendingar litu á fullveldið sem einhvers konar endurreisn þjóðveldisins. Þrátt fyrir að sjálfstæðisbarátta Íslendinga stæði í nánu samspili við álíka hugmyndafræðilegar hræringar í Evrópu þá virtust Íslendingar líta svo á að sjálfstæðisbaráttan væri séríslenskt fyrirbæri. Sérstök áhersla á fullveldi þjóðarinnar hefur allt frá því á 19. öld verið einn helsti grundvöllur íslenskra stjórnmála, en í henni felst áhersla á vernd fullveldisins og raunar eilífa sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.

Baráttan fyrir stofnun íslensks þjóðríkis var hins vegr órofa hluti af þeirri þjóðfélagsþróun sem varð i kjölfar frjálslyndisstefnunnarí Evrópu á átjándu og nítjándu öld sem ruddi einveldinu úr vegi og skapaði hugmyndina um þjóðríkið sem flest ríki Evrópu byggjast nú á. Hugmyndin um uppsprettu fullveldisins hertist svo í eldi frönsku stjórnarbyltingarinnar á síðari hluta átjándu aldar. Í Evrópu köstuðu menn af sér höftum konunga sinna og um leið varð frelsi og ábyrgð einstaklingsins meginstef frjálslyndisstefnunnar.

Hugmyndin um sjálfstjórn þjóða er í grunninn frjálslynd hugmynd um sjálfstæði og frelsi. Þrátt fyrir að þjóðernishugmyndir Íslendinga og hugmyndir um fullveldi landsins hafi komið fram í beinu framhaldi af þjóðernisstefnunni í Evrópu hefur hugmyndin um hina íslensku þjóð að vissu leyti þróast með öðrum hætti en víðast hvar í Evrópu.

Samkvæmt evrópsku frjálslyndisstefnunni var fullveldishugtakið tvíþætt. Annars vegar var krafa um fullveldi þjóðarinnar sem heildar en á hinn bóginn, sem var ekki síður mikilvægt, var um leið krafa um frelsi einstaklingsins. Hugmyndir á borð við atvinnufrelsi og verslunarfrelsi manna innan ríkis og þvert á landamæri tóku við af höftum fortíðar út um alla Evrópu. Í sjálfstæðisbaráttu Íslands varð óumdeilt að fullveldi landsins væri endanlegt markmið og ekkert annað kom raunverulega til greina.

Sá hluti evrópsku þjóðernisstefnunnar sem sneri að hugmyndum um frelsi einstaklingsins og atvinnu- og verslunarfrelsi, náði þó ekki rótfestu á Íslandi með sama hætti og annars staðar í álfunni. Rótgrónar efasemdir um atvinnufrelsi manna voru til að mynda rígbundnar í vistabandi sem túlkaði þá viðteknu skoðun að lausamennska og húsmennska gerðu einstaklingnum aðeins illt.

Í sjálfstæðisbaráttunni var litið svo á að bændabýlin geymdu menningarlega sögu og arfleifð Íslands, bóndinn varð eins konar menningarleg hetja Íslandssögunnar og mikilvægt þótti að standa vörð um bændasamfélagið og koma í veg fyrir að þjóðin veslaðist upp í ómenningu í verslunarþorpum við sjávarsíðuna. Þjóðveldið var upphafið og litið svo á að upplausn bændasamfélagsins væri ógn við sjálfan grundvöll íslensku þjóðarinnar.

Það sama var uppi á teningnum hvað verslunarfrelsi áhrærir. Efasemdir um gildi frjálsra viðskipta kristölluðust til að mynda í hugakinu landprang, um smásölu í sveitum, sem undirstrikaði dyggðaleysi verslunarinnar. Baráttan fyrir frelsi í utanríkisversluninni stöðvaðist við landsteinana og fól aðeins í sér ósk um lægra vöruverð á erlendum vörum og að unnt væri að selja íslenskar vörur á hærra verði úr landi, en snerist ekki um viðskiptafrelsi innanlands. Það vafðist til að mynda ekki fyrir Íslendingum að krefjast aðskiljanlegustu hafta í innanlandsverslun á sama tíma og þeir fóru fram á verslunarfrelsi í utanríkisviðskiptum. Íslendingar börðust fyrst og fremst fyrir sjálfstæði þjóðarinnar en mun óljósara var hvers konar stjórn átti að koma í stað þeirrar dönsku að fengnu frelsi.

Sumir boðberar og hugmyndafræðingar íslenskrar þjóðernisstefnu í Kaupmannahöfn boðuðu þó einnig einstaklingsfrelsi í takt við evrópsku frjálslyndisstefnuna til viðbótar við áhersluna á þjóðfrelsið. Þeirra á meðal var Jón Sigurðsson. Í Nýjum félagsritum, strax árið 1843, hvatti hann til þess að Íslendingar myndu þiggja aukið verslunarfrelsi eins og Danir buðu. Jón hvatti jafnt til verslunarfrelsis innanlands og við aðrar þjóðir. Í Nýjum félagsritum er einnig víða hvatt til opinna tengsla við aðrar þjóðir, auk þess sem áhersla er lögð á menntun og vísindi. Dr. Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, heldur því hins vegar fram að Íslendingar hafi aðeins fylgt Jóni Sigurðssyni og félögum að málum út af þjóðernishyggju en alls ekki til að koma á verslunarfrelsi eða öðrum frjálslyndum þjóðfélagsháttum. Þetta er lykilatriði til að skylja muninn á hugmyndum Íslendinga um frelsi einstaklingsins og þann sem þróaðist annars staðar.

Á Íslandi varð því til heildstæðari afstaða til samfélagsins, sem gengur þvert á kennisetningar frjálslyndisstefnunnar. Það voru ekki síst fulltrúar Danastjórnar sem töluðu fyrir frjálslyndi en stór hluti Íslendinga lagði þvert á móti áherslu á að vernda hið hefðbundna bændasamfélag. Skilningur Íslendinga á lýðræði, sem fylgdi evrópsku frjálslyndisstefnunni, var einnig íhaldssamur. Meira máli skipti að ákvarðanataka færðist inn í landið en að ákvarðanir væru teknar með lýðræðislegum hætti. Þessi íhaldssama þjóðernishyggja varð að hugmyndafræði ráðandi stétta. Það voru svo andstæðingar ríkjandi ástands sem boðuðu frjálslyndari þjóðernisstefnu, lengi vel án mikils árangurs.

Á Íslandi tókust þarna á tvö nokkuð gagnstæð öfl, annars vegar íhaldssemi sem birtist í áherslu á að vernda hefðbundið bændasamfélag og hins vegar straumar frjálslyndisstefnunnar sem náðu til Íslands eins og annarra landa á þessum tíma. Þess má geta að dr. Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðiprófessor, heldur því fram að þessi togsteita, milli íhaldssemi og frjálslyndis, sé einmitt sjálfur lykilinn að því að skilja íslenska þjóðernisvitund.

Ég vona að bæði Hr. Stefán og Dr. Snævarr átti sig bú betur á tengslum hugmyndarinnar um frelsi einstaklingsins og þróun íslenskrar þjóðernisstefnu.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Færum til baka oftekið fé

Nú þegar gjaldþrotahrinan hefur skollið á af fullum þunga eftir þrautavetur og þrassumar er loksins hafin aftur umræðan um skuldavanda heimilanna. Í hruninu ruku skuldir heimilanna upp úr öllu valdi, gjaldeyrislánin tvöfölduðust vegna falls krónunnar og verðtryggðu lánin fóru úr böndunum þegar verðbólgan rauk af stað. Afleiðingarnar urðu gríðarleg tilfærsla fjár frá skuldurum til fjármagnseigenda, - semsé frá öreigum til kapítalista.

Vel má halda því fram að tilfærslan hafi ekki staðið í neinu samhengi við það sem eðlilegt má teljast og því kom fram sú krafa að færa svolítinn hluta hins oftekna fjár til baka, vinda ofan af vitleysunni. Gallinn var bara sá að tillögurnar komu fram vitlausu megin við hina pólitísku víglínu, þegar stjórnarandstaðan lagði til leiðréttingu fyrir liðnar kosningar varð stjórnarliðið sjálfkrafa á móti þeirri leið. Staða heimilanna er hins vegar svo svakaleg að hefðbundin átakapólitík af þessu tagi gengur ekki lengur, við þurfum að fylla upp í skotgrafirnar og taka höndum saman.

Engin ofrausn væri að færa niður um það bil tuttugu prósent af höfuðstól verðtryggðra lána sem tekin voru til íbúðakaupa og örlítið betur hvað varðar gjaldeyrislánin. Til að koma í veg fyrir óþarfa niðurgreiðslur til auðmanna má setja hámark á lánafjárhæðina sem miðað verður við, þannig að einungis þau lán sem teljist innan marka eðlilegra íbúðakaupa venjulegra fjölskyldna verði leiðrétt, til að mynda aðeins fyrstu tuttugu milljónirnar af hverju húsnæðisláni. Hægt er að hugsa sér margvíslegar álíka útfærslur sem stjórnvöld þurfa að íhuga.

Ég legg því til að Jóhanna, Steingrímur og Sigríður Ingibjörg bjóði þeim Benedikt Jóhannssyni og Guðmundi Steingrímssyni í kaffi og klári málið í sameiningu. Þá fyrst getum við kannski öðlast svolitla trú á stjórnmálin á nýjan leik.

mánudagur, 10. ágúst 2009

Samningsmarkmið

Í komandi aðildarsamningum við Evrópusambandið skiptir sköpum að vanda undirbúning svo unnt verði að ná fram sem allra bestum samningi. Til að svo megi verða þurfum við í það minnsta að vita tvennt; í fyrsta lagi hverjir meginhagsmunir okkar eru og í öðru lagi hvernig má koma þeim í höfn. Þrjú svið eru hér mikilvægari en önnur: fyrst sjávarútvegur, svo landbúnaður og byggðaþróun og loks að tryggja stöðugleika í peningamálum.

Á þessum orðum hefst þriggja greina flokkur sem ég tók saman um samningsmarkmið í komandi aðildarviðræðum við ESB og birtist í Fréttablaðinu neðangreinda daga.

Nr. 1 - Sjávarútvegur (29. júlí)
Nr. 2 - Landbúnaður og byggðaþróun (31. júlí)
Nr. 3 - Peningamálasamstarf (7. ágúst)

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Fullveldi, - já fullveldi

Þeir á Vefritinu sem finna má hér á Eyjunni tóku við mig ítarlegt viðtal í tilefni af doktorsrannsókn minni sem kom út fyrr í sumar í bókinni Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar - áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Sýnishorn af bókinni er hér en viðtalið má finna hér. Bókin fæst svo keypt í Bóksölu stúdenta og Eymundsson í Austurstræti.

miðvikudagur, 22. júlí 2009

Fyrirvaraleiðin - krókur á móti bragði

Eftir því sem lengra líður frá undirritun Icesave-samkomulagsins kemur sífellt betur í ljós hversu arfaslakur samningurinn er. Bretar og Hollendingar hafa öll tromp á hendi á meðan við sökkvum enn dýpra í skuldafenið.

Af þessum sökum vilja margir nú að Alþingi hafni ríkisábyrgð á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Þrátt fyrir margvíslegt klúður af okkar hendi - sem nú er smám saman að koma betur í ljós - er ég þó enn á því að fyrirvaraleiðin sé betri kostur heldur en einhliða höfnun. (Sjá grein í Fréttablaðinu þess efnis 8. júlí sl: Fyrirvara verður að setja, og grein hér á blogginu 30. júní sl: Mögulegar Icesave-leiðir.)

Með fyrirvaraleiðinni getum við nefnilega komið með krók á móti bragði, lagað einhliða til þá vankanta sem eru á samkomulaginu en um leið komið Svarta Pétri yfir á Breta og Hollendinga.

Ef Bretar og Hollendinga sætta sig ekki við fyrirvarana sem við setjum, þá verður það í þeirra höndum að hafa frumkvæði að því að taka málið upp á nýjan leik. Í það minnsta væri slík aðkoma að samningaborðinu á ný mun betri heldur en að Alþingi hafni einfaldlega gerðu samkomulagi.

Héðan í frá snýst málið einkum um að endurheimta einhvers konar samningsstöðu gagnvart viðsemjendunum.

fimmtudagur, 16. júlí 2009

Guardian grein um afgreiðslu Alþingis

Var að birta grein í Guardian, sem blaðið pantaði vegna atkvæðagreiðslunnar í dag. Sjá hér: http://www.guardian.co.uk/commentisfree/2009/jul/16/iceland-eu-icesave

Umsóknarferlið, - ljónin á veginum

Alþingi hefur í dag ákveðið að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Fyrir nokkru birti ég hér grein um umsóknarferlið sem ástæða er að rifja upp í ljósi tíðinda dagsins. Formlegi ferillinn er einfaldur: Ríkisstjórn Íslands sendir einfaldlega aðildarumsókn til ráðherraráðs ESB. Slík umsókn þarf alls ekki að vera ítarleg, raunar gæti textinn komist fyrir á einu blaði. Sendiherrann í Brussel gæti þess vegna skottast með hana yfir í byggingu ráðherraráðsins sem er bókstaflega steinsnar frá sendiráðinu.

Viðhafnarútgáfan væri að forsætisráðherra færi með umsóknina til leiðtoga þess ríkis sem fer með formennsku í ráðherraráðinu og afhendi í viðurvist fjölmiðla og fyrirmenna. Miðað við dagskrár helstu fyrirmanna nú er líklegast að forsætisráðherra eða utanríkisráðherra Íslands muni afhenda utanríkisráðherra eða forsætisráðherra Svía umsóknina á leiðtogafundi ESB síðar í mánuðinum, þann 27. júlí nk. En Svíar fara nú með formennsku í ráðherraráði ESB.

Þetta er semsé sáraeinfallt. En viðræður um aðild að Evrópusambandinu eru hins vegar afar umfangsmikið og flókið ferli þar sem hverjum steini í samskiptum viðkomandi ríkis og ESB er velt upp. Innan ESB er ferlið með þeim hætti að ráðherraráðið myndi eftir að umsóknin berst beina því til framkvæmdastjórnarinnar að meta hvort Ísland sé yfir höfuð hæft til að verða fullgildur aðili að ESB.

Öll aðildarríki ESB eiga formlega aðild að aðildarviðræðum en þau tala þó einum rómi gagnvart viðsemjandanum. Ríkið sem fer með forsæti í ráðherraráðinu hverju sinni kemur fram fyrir hönd aðildarríkjanna og stýrir vinnufundum ráðherra og aðstoðarmanna þeirra. Framkvæmdastjórnin annast undirbúninginn og metur stöðu þeirra ríkja sækja um aðild, gerir til að mynda ítarlegar skýrslur um ástandið í öllum þeim málaflokkum sem aðildarviðræðurnar og samstarfið innan ESB taka til.

Fyrsta hindrunin á veginum blasir nú þegar við okkur. Alþingi hefur ekki enn lagt blessun sína yfir Icesave-samkomulagið og þar til það mál hefur verið afgreitt má gera ráð fyrir að Bretar og Hollndingar muni hafa alla fyrirvara á aðild Íslands en öll ríki Evrópusambandsins þurfa að samþykkja nýtt aðildarríki. Slóvenía hefur til að mynda staðið í vegi fyrir aðildarsamningi Króatíu vegna deilna landanna um Piran-flóann. Samningsstaða okkar Íslendinga gagnvart Bretum og Hollendingum er því ansi flókin. Formlega uppfyllir Ísland hins vegar öll skilyrði aðildar.

Evrópusambandið setti aðildarskilyrði sín niður á ríkjaráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 1993. Samkvæmt þeim geta lýðræðisríki í Evrópu sem búa við virkt markaðshagkerfi, stöðugt stjórnarfar og trygg mannréttindi auk þess að hafa getu til að taka yfir lagagerðir ESB, fengið aðild að ESB. Ísland uppfyllir öll þessi skilyrði. Í ljósi þess að bæði lagaumhvefi og efnahagslíf á Íslandi hefur nú þegar að mestu verið lagað að innri markaði ESB má gera ráð fyrir að aðildarviðræður fari fljótt af stað.

Það yrði svo í höndum framkvæmdastjórnarinnar að taka út stöðuna í íslensku þjóðfélagi meðan á viðræðuferlinu stendur og meta í skýrslum fyrir ráðherraráðið, sem hefur lokaorðið um niðurstöðu samninga fyrir hönd ESB. Í ljósi þess að Ísland yfirtekur nú þegar bróðurpartinn af lagabálki ESB í gegnum EES-samninginn og Shengen-landamærasamstarfið ættu viðræðurnar að geta gengið greiðlega fyrir sig. En það eru vissulega ýmis ljón í veginum.

Megináhersla Íslands yrði að tryggja yfirráðin yfir auðlindum sjávar og ástæðulaust að gera lítið úr því viðfangsefni. Ísland verður að fá óvéfengjanlega viðurkenningu á efnahagslögsögunni. Þá er afar mikilvægt að tryggja stöðu sauðfjárræktar með vísan í menningarlega arfleið þjóðarinnar og öðlast skiling viðsemjenda okkar á mikilvægi byggðaþróunar í svo harðbýlu landi sem Ísland vissulega er.

Aðildarviðræður EFTA ríkjanna, Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar tóku innan við tvö ár. Ef Ísland verður ekki í samfloti með öðrum ríkjum í aðildarviðræðum gætu samningar tekið enn skemmri tíma. Ferillinn frá því að Ísland sækir um aðild og þar til að samningar liggja fyrir þarf því ekki að vera langur, jafnvel innan við ár gangi allt að óskum. Næsta skref yrði að setja aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu, en pólitísk sátt er um það á Íslandi að ekki verður gengið í ESB án þess að þjóðin staðfesti aðildina í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Áður en til til aðildar getur komið, að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslur, þarf að breyta stjórnarskránni. Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma komst nefnd fjögurra lögfræðinga að þeirri niðurstöðu að hann bryti ekki fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, en það var þó afar umdeilt meðal fræðimanna. Færa má rök fyrir því að þróunin á rekstri EES-samningsins hafi síðan hann var gerður verið með þeim hætti að hann takmarki fullveldi Íslands meira nú en í upphafi og brjóti orðið fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.

Full aðild að ESB felur þar að auki í sér að Ísland myndi með formlegum hætti deila ákvarðanatökuvaldi, og þar með fullveldi, með öðrum þjóðum. Því er það nokkuð samdóma álit manna að breyta þurfi 21. grein stjórnarskrárinnar áður en Ísland getur gengið í ESB. Miðað við stjórnarskrár annarra ríkja er tiltölulega auðvelt að breyta íslensku stjórnarskránni þótt það geti tekið tíma. Einfaldur meirihluti þings þarf að samþykkja breytinguna, svo þarf nýtt þing að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna að kosningum loknum.

Staðfestingaferlið fyrir ný aðildarríki ESB er enn fremur ansi flókið. Náist samningar þurfa Evrópuþingið og þjóðþing allra aðildarríkjanna að staðfesta inngöngu umsóknarríkisins. Aðildarríki Evrópusambandsins eru nú 27 talsins og starfa eftir margvíslegu fyrirkomulagi, hvert með sínu nefi eftir hefðum heima fyrir og innri stjórnskipan. Sum þinganna starfa í fleiri en einni málstofu og önnur eru byggð eftir sambandsríkjakerfi þar sem hvert og eitt undirþing þarf einnig að samþykkja inngöngu nýrra ríkja.

Í Belgíu einni þurfa til að mynda sjö aðskilin þing að staðfesta hverja einustu stækkun ESB. Svæðisþingin þrjú; í Vallóníu, Flandri og Brussel-svæðinu þurfa öll að leggja blessun sína yfir inngöngu nýrra ríkja, einnig þing tungumálasvæðanna frönsku og þýsku. Svo þurfa bæði neðri og efri deild belgíska þingsins einnig að votta allt saman. Þegar hér er komið við sögu er eins gott að búið verði að afgreiða Icesave-drauginn.

Takist það er ólíkleg að aðildarsamningur strandi í staðfestingarferlinu, en eigi að síður er rétt að hafa þetta atriði í huga, sér í lagi sökum þess að sumstaðar gætu leynst þingmenn sem telja sig hafa harma að hefna gagnvart Íslandi í kjölfarið á falli bankanna. Því er ekki útilokað að samningurinn gæti einhvers staðar lent í klandri, - til dæmis í Flandri.

Að jafnaði ganga ríki í ESB næstu áramót eftir að samningar og niðurstöður úr þjóðaratkvæði liggja fyrir. Á þeirri reglu eru þó til undantekningar. Líklega munu því í það minnsta tvö ár líða frá því umsókn er lögð fram þar til Ísland gengur í ESB, sennilega í allra fyrsta lagi um áramót 2012.

Það er svo ekki fyrr en að inn í Evrópusambandið er komið að Ísland getur sótt um aðild að Myntbandalagi Evrópu og hafið þann feril sem nauðsynlegur er áður en hægt er að skipta út íslenskum krónum fyrir evru. Fyrst þarf að sækja um aðild að ERM II og verja í það minnsta tveimur árum innan þess kerfis áður en hægt verður að taka upp evru, að uppfylltum ströngum skilyrðum fyrir því sem lögð voru í Maastricht-sáttmálanum.

Að lágmarki munu því fjögur ár líða áður en Ísland getur gengið í myntbandalag Evrópu og innleitt evru í stað krónu, frá því ákvörðun um að sækja um aðild að ESB er tekin. Líkast til mun taka tvö ár að ganga í ESB og svo rúmlega önnur tvö ár að aðlagast evrunni eftir að inn í ESB er komið. Lengur ef ekki tekst að koma böndum á verðbólguna, lækka vexti og ná jafnvægi í efnahagslífinu. Evran er því alltaf í fjögurra ára fjarlægð, að lágmarki, þar til að ákvörðun um aðildarumsókn liggur fyrir.

Þessi pistill er að stofni til byggður á eldri greinum höfundar.

þriðjudagur, 14. júlí 2009

Misskilin löggjöf ESB

Nokkurs misskilnings hefur gætt í umfjöllun sumra innlendra stjórnmálamanna og lögfræðinga um evrópsku innistæðutryggingalöggjöfina. Sagt er að þar sem ekki er kveðið upp úr með það hvaða innlenda stjórnvald eigi að tryggja greiðslur úr innistæðutryggingasjóðnum, verði hann greiðsluþrota, þá geti íslenska ríkið ekki verið skuldbundið til að greiða upp að því lágmarki sem lögin segja þó fyrir um að skuli greitt. Misskilningurinn liggur vafalaust í því að regluverk Evrópusambandsins er útbúið á annan veg heldur en hefðbundin lög innanlands.

Evrópusambandið setur lög með ýmsum hætti sem hafa mismunandi vægi. Rammalög (e. directives), - sem ranglega hafa verið þýdd sem tilskipanir á íslensku - eru viðamest. Löggjöfin um innistæðutryggingar er rammalöggjöf. Slík lög eru eru bindandi fyrir aðildarríkin en kveða ekki með beinum hætti á um ákveðnar aðgerðir heldur fela í sér markmið og er aðildarríkjunum í sjálfsvald sett hvernig eru uppfyllt heima fyrir. Sú skylda hvílir því á íslenskum stjórnvöldum að finna eigin leiðir til að tryggja þessar innistæður.

Þetta er til að mynda sá skilningur sem kemur fram í skýrslu franska seðlabankans undir stjórn núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean Claude Trichet, þar sem segir að í tilvikum kerfishruns, þegar innistæðutryggingasjóðurinn dugi ekki til, komi til kasta annarra þátta öryggisnetsins, svo sem seðlabanka viðkomandi lands eða ríkisins. Þessi háttur er hafður á til að virða mismunandi hefðir og innri stjórnskipan í hverju landi fyrir sig.

Þess misskilnings hefur enn fremur gætt að hér sé á ferðinni lög Evrópusambandsins sem komi okkur ekki við. Staðreynd málsins er hins vegar sú að þessi löggjöf var á grundvelli EES-samningsins innleidd í íslensk lög eins og öll önnur lög sem Alþingi samþykkir. Íslensk stjórnvöld hafa sjálf skilið málsmeðferðina þannig að samningurinn feli ekki í sér sjálfkrafa framsal á ákvarðanatöku til hins sameiginlega vettvangs í Brussel.

Samningurinn sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Breta og Hollendinga er að sönnu afar vondur og illa gerður af Íslands hálfu en örðugt er að sjá að innlend stjórnvöld geti snúið sér út úr málinu með því að skella skuldinni á gallað reglugerðaverk að utan.

miðvikudagur, 8. júlí 2009

Fyrirvara verður að setja

Einkum tvennt gerir vanda Icesave-samkomulagsins illviðráðanlegan; hvorki er hægt að samþykkja það né hafna því. Við höfnun segir Ísland sig úr lögum við alþjóðasamfélagið með hörmulegum afleiðingum en með því að samþykkja þann nauðasamning sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Breta og Hollendinga er þjóðin í heild sinni lögð að veði langt inn í framtíðina. Og jafnvel þótt vísir menn séu flínkir með reikningsstokkinn sinn er enn með öllu óvíst hvernig okkur mun reiða af næstu árin og hvort við verðum yfir höfuð borgunarþjóð fyrir þessum ógnarskuldum. Þessi er togstreitan í málinu.

Svona hefst grein mín í Fréttablaðinu í dag, sjá hér.

þriðjudagur, 30. júní 2009

Mögulegar Icesave-leiðir

Icesave samningurinn er sannarlega vondur, - satt að segja skelfilega vondur. Aðeins eitt væri þó verra en að samþykkja hann óbreyttan, það væri að samþykkja hann alls ekki og hætta á að einangra Ísland frá alþjóðasamstarfi og út af alþjóðlegum mörkuðum. Hins vegar eru nokkrar leiðir kannski enn færar til að laga stöðuna, þó ekki væri nema agnar ögn.

Leið 1

Í fyrsta lagi gæti verið lag fyrir íslensk stjórnvöld að fara nú aftur til bresku og hollensku samninganefndanna og segja sem svo, að ómögulegt sé að koma samningum í gegnum þingið án tiltekinna lagfæringa. Bretar og Hollendingar hafa sömu hagsmuni og við af því að ná samningum, svo þeir gætu verið viljugir til að veita svolitlar tilslakanir ef það gæti bjargað málinu frá glötun.

Til að mynda mætti hugsanlega setja inn í samninginn ákvæði um tiltekna hámarksgreiðslu á ári eins og einhverjir hafa þegar lagt til. Ríki greiða um eitt prósent af landframleiðsu í aðildargjald að ESB (og fá svo endurgreiðslur úr sameiginlegum sjóðum ESB til baka) og því mætti hugsanlega miða við slíka tölu sem hámarks greiðslubyrði. Annað viðmið væri að greiðslur vegna Icesave fari ekki yfir meðaltalsgreiðslur Evrópuríkja til varnarmála sem nú eru rétt undir tveimur próentum af landsframleiðslu að jafnaði.

Annað leiðréttingarákvæði sem brýnt er að koma inn í samninginn áður en þingið samþykkir hann er að einnig verði heimilt að nýta eignir Landsbankans til að greiða vaxtakostnað lánsins, ekki aðeins höfuðstólinn.

Leið 2

Gangi ekki að ná fram slíkum breytingum með samningum við Breta og Hollendinga getur Alþingi auðvitað sjálft sett einhliða einhverja slíka fyrirvara við samþykki sitt á ríkisábyrgð lánasamningsins. Þá verður það í höndum bresku og hollensku ríkisstjórnanna að gera athugasemdir við málsmeðferðina og meta hvort ríkin samþykki slíka meðhöndlun. Það verður þá þeirra að rifta samningum, ekki okkar.

Kannski er slíku tilfelli snjallara að hafa fyrirvarana óljósa, hnykkja á endurskoðunarákvæðum og lýsa því yfir að íslenska ríkið verði að hafa burði til að standa við samninginn síðar. Að nokkrum árum liðnum taka ný stjórnvöld á Ísland málið svo aftur upp við ný stjórnvöld í Bretlandi og í Hollandi á grundvelli þess fyrirvara.

Leið 3

Þriðja leiðin er náskyld leið 2 en er hins vegar nokkuð lævísari. Hún felst í þvi að samþykkja samninginn eins og hann kemur af skepnunni en með það fyrir augum að taka hann upp síðar meir innan ESB. Ísland yrði þá um leið að stefna inn í Evrópusambandið og ná að klófesta evruna áður en sjö ára griðartímanum líður. Þá verðum við nefnilega loks komin í jafna samningsstöðu gagnvart Bretum og Hollendum. Svo, þegar líður að fyrstu afborgun, bregðum við einfaldlega á það ráð að höfða mál fyrir Evrópudómstólnum – sem aðilarríki ESB - á þeim forsendum að samningurinn hafi verið ólöglegur nauðarsamningur sem við hefðum verið þvinguð til að samþykkja.

Ég veit það ekki. Kannski eru svona hundakúnstir allt of óheiðalegar fyrir heiðvirða þjóð en í öllu falli væru allar þessar þrjár leiðir skárri heldur en að hafna samningum og gefa dauðann og djöfulinn í umheiminn á sama tíma og Ísland gengur í gegnum mestu efnahagsörðuleika hins unga lýðveldis.

fimmtudagur, 25. júní 2009

Óvéfengjanleg sérstaða þjóðarinnar

Meginniðurstaða doktorsrannsóknar minnar í bókinni „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" er að orðræða sjálfstæðisbaráttunnar móti enn umræður um tengsl Íslands við önnur lönd.

Eitt þrálátasta stefið lýtur að óvéfengjanlegri sérstöðu þjóðarinnar sem gengur jafnt í gegnum umræður okkar Íslendinga um tengslin við NATO, EFTA, EES og ESB.

Í umræðunni um EFTA-aðildina á sjöunda áratugnum sagði Tómas Árnason, þingmaður Framsóknarflokks, til að mynda: „Íslenzka þjóðin hefur óvéfengjanlega mikla sérstöðu meðal þjóðanna og jafnvel meðal þeirra þjóða, sem eru aðilar að EFTA. Það er eðlilegt, að tengsl Íslands við EFTA markist af þeirri sérstöðu.“ Með þessu móti vildi hann réttlæta margvísleg „sérréttindi" Íslandi til handa í samstarfinu.

Hér má sjá ágrip, formála, efnisyfirlit og inngang en bókin fæst einnig í Eymundsson í Austurstræti og Bókssölu stúdenta á háskólatorgi.

þriðjudagur, 23. júní 2009

„Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar"

Ég varði doktorsrannsókn mína við Háskóla Íslands í gær: „Hið huglæga sjálfstæði þjóðarinnar" - áhrif þjóðernishugmynda á Evrópustefnu íslenskra stjórnvalda. Bókin fæst í Bóksölu stúdenta.

Ágrip

Í rannsókninni er spurt hvers vegna Íslendingar kusu að tengjast Evrópusamrunanum í gegnum Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-landamærasamstarfið en ekki með fullri aðild að Evrópusambandinu. Rannsóknin nær fram til maí 2009. Tekið er til skoðunar hvort skýri betur þessa afstöðu íslenskra stjórnmálamanna, efnahagslegir hagsmunir eða hugmyndir um fullveldi þjóðarinnar.

Ritgerðinni er skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta er fjallað um þá kenningarlegu umræðu sem fram hefur farið um tengsl ríkja við Evrópusamrunann, í öðrum hluta eru tengsl Íslands við Evrópusamrunann til skoðunar og í þeim þriðja er orðræða íslenskra stjórnmálamanna um þátttöku í evrópsku samstarfi greind í þremur afmörkuðum umræðulotum: Fyrst í aðdraganga EFTA-aðildar (1970), síðan í aðdraganda EES-aðildar (1994) og að lokum afmarkað tímabil þegar rætt var um hugsanlega inngöngu í ESB (2000 til 2003).

Innan vébanda frjálslyndrar milliríkjahyggju er því haldið fram að hagsmunir leiðandi atvinnugreina séu ráðandi um tengsl Norðurlandaríkjanna við Evrópusamrunann. Samkvæmt kenningunni eru það hagsmunir í sjávarútvegi sem móta tengsl Íslands við ESB. Sú staðreynd að ekki hafði verið látið reyna á sjávarútvegsmálið í aðildarviðræðum bendir þó til að fleiri breytur geti skipt máli. Í rannsókninni er aðferðum síðformgerðarhyggju og mótunarhyggju beitt til að greina hvort hugmyndir Íslendinga um fullveldið og þjóðina móti afstöðu íslenskra stjórnmálamanna til Evrópusamstarfsins og þá hvernig.

Í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld varð til einörð og að nokkur leyti sérstök þjóðernisstefna þar sem megináhersla var lögð á fullveldi þjóðarinnar sem heildar – fremur en á frelsi einstaklingsins sem hafði verið einn meginþráður evrópskrar frjálslyndisstefnu. Í efnahagslegu tilliti hafa íslensk stjórnvöld engu að síður álíka þörf og stjórnvöld annars staðar í Evrópu til að taka þátt í samrunaþróuninni, og kann þetta að skýra veru Íslands í EES. Samningurinn veitir Íslendingum aðild að innri markaði ESB en um leið samþykktu íslensk stjórnvöld að lúta reglum ESB í samstarfinu – og þar með afmarkað framsal ákvarðanatöku og ríkisvalds.

Þessi togstreita, á milli efnahagslegra hagsmuna og hugmynda um fullveldi íslensku þjóðarinnar, hefur síðan framkallað eins konar rof á milli orðræðunnar um hina frjálsu og fullvalda íslensku þjóð og þess raunveruleika sem blasir við í samstarfinu.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar er sú að arfleið sjálfstæðisbaráttunnar hafi haft mótandi áhrif á orðræðu íslenskra stjórnmálamanna í Evrópumálum. Sérstök áhersla á fullveldi þjóðarinnar hefur frá því á 19. öld verið einn helsti grundvöllur íslenskra stjórnmála. Af þeim sökum fellur þátttaka í yfirþjóðlegum stofnunum Evrópusambandsins illa að ríkjandi orðræðu þar sem megináhersla er lögð á vernd fullveldisins og eilífa sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar.

Hér er svo sýnishorn þar sem sjá má ágrip á ensku og íslensu, formála, efnisyfirlit og inngang.

sunnudagur, 7. júní 2009

Iceslave samkomulagið

Bretar eru glaðir með Icesave-samkomulagið, - eðlilega, enda unnu þeir fullnaðarsigur í málinu. Íslenska þjóðin verður skuldbundin þeim í breskum pundum áratugi inn í framtíðina. Íslensk stjórnvöld gera samkomulagið í þeirri veiku von að eignir Landsbankans dugi langleiðina upp í ógnarskuldina, heila 65o milljarða íslenskra króna. Hér er þó engan veginn á vísan að róa, enginn veit hvert virði eignanna eða gengi krónunnar verður í framtíðinni.

Athygli vekur að Íslendingar bera alla áhættuna en Bretar ganga frá samningaborðinu með bæði axlabönd og belti. Eins og ég hef áður sagt á þessum vettvangi og víðar þá fengu íslensk stjórnvöld gullið tækifæri til að varpa ábyrgðum á Icesave-skuldunum yfir á bresk stjórnvöld um leið og þau beittu okkur hryðjuverkalögum og frystu eignir bankans í Bretlandi. Sem var auðvitað kolólögleg aðgerð, þverbrýtur til að mynda EES-samninginn og fleiri alþjóðalög.

Þetta er til að mynda í samræmi við niðurstöðu skýrslu fjárlaganefndar breska þingsins þar sem fram kemur að ekki hafi verið tilefni til að beita Ísland hryðjuverkalögunum.

Því er óskiljanlegt að íslensk stjórnvöld hafi samþykkt að skuldbinda þjóðina á klafa skulda sem augljóslega eru á ábyrgð þeirra Alistair Darlings og Gordon Browns. Menn skyldu hafa í huga að þetta er ekki aðeins lagalegt álitamál, heldur pólitískt: Alþjóðastjórnmál lúta öðrum lögmálum heldur en innalandsstjórnmál og þjóðarréttur er mun loðnara fyrirbæri en landsréttur.

Á þessum grunni hef ég haldið því fram að þegar Bretar beittu Ísland hryðjuverkalögunum hafi orðið til tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld, - að koma með krók á móti bragði og færa fram þau rök, að þar með hefðu bresk stjórnvöld tekið yfir skuldbindingar þeirra fjármálafyrirtækja sem þau tóku traustataki með ólögmætum hætti.

En nú er semsé búið að reyra skuldaklafann pikkfastan á bak allra Íslendinga. Ég verð að viðurkenna að mér þykir svolítið erfitt að fagna slíkri niðurstöðu.

föstudagur, 22. maí 2009

Skuldasúpa og skilyrt stjórnmál

Hér í Bretlandi eru stjórnmál öll í uppnámi, ekki ólíkt því sem var í upphafi árs á Íslandi. Ég hef dvalið hér nokkuð reglulega undanfarin ár en aldrei fundið fyrir annari eins vantrú á stjórnmálastéttinni, - en sú tilfinning virðist ná þvert yfir allar helstu pólitísku markalínur. Ekki aðeins hefur Brown-stjórninni mistekist að takast á við fjármálakreppuna, heldur voru þingmenn landsins á sama tíma gómaðir með visna hönd sína á kafi ofan í sælgætiskrúsinni, hafa til að mynda látið skattgreiðendur greiða fyrir andatjörn í garðinn sinn, afborganir af lánum sem ekki eru til og ýmislegt fleira smálegt í leiðinni.

Breskur almenningur er þó í mun betri stöðu en íslenskur að einu leyti. Eins og á Íslandi hefur húsnæðisverð lækkað töluvert en þar sem vextir eru nú komnir niður í nánast ekki neitt hafa afborganir af lánum einnig lækkað stórlega sem gerir líf flestra svolítið bærilegra. Heima á Íslandi hins vegar, þar sem húsnæðislán fylgja verðlagsvísitölu, hafa lánin hins vegar vaxið flestu fólki um höfuð. En einhverra hluta vegna virðast stjórnvöld á Íslandi ekki mikið ætla að gera til að skera heimilin niður úr þeirri snöru.

Í kosningabaráttunni lögðu ýmsir fram hugmyndir um að leiðrétta þá ógnarhækkun lána sem fylgdi verðbólguskotinu, - sem nota bene varð vegna falls krónunnar en ekki vegna þenslu í hagkerfinu. En þá færðust skuggalegar fjárhæðir frá skuldurum til fjármagnseigenda. Því miður fyrir skuldsett heimili landsins var núverandi stjórnarandstöðuflokkur meðal þeirra sem lögðu slíkt til. En stjórnmál á Íslandi eru að því leyti vanþroskuð að þegar andstæðingurinn leggur fram góða hugmynd er hún nánast samkvæmt skilgreiningu samstundis dæmd úr leik, skotin í kaf á tuttugu metra færi.

Þegar Framsóknarflokkurinn lagði til tuttugu prósenta niðurfellingu lána snérust vinstri flokkarnir svo gott sem ósjálfrátt gegn hugmyndinni án þess að einu sinni að hugleiða hana. Sem er svoítið merkilegt því hingað til hefði mátt ætla að það gæti vel fallið að hefðbundinni vinstri stefnu, að lagfæra óeðlilega tilfærslu fjármuna frá skuldurum til fjármagnseigenda, - semsé frá öreigum til kapitalistanna.

Og því svamlar þjóðin nú áfram í baneitraðri skuldasúpunni.

mánudagur, 18. maí 2009

Piran-deilan

Einhverjir hafa haldið því fram að mikilvægt sé fyrir Ísland að vera í samfloti með Króötum þegar - og ef - að því kemur að staðfesta aðildarsamning við Evrópusambandið. Ég hef áður nefnt ýmsar hindranir sem geta mætt ríkjum í flóknu staðfestingarferli ESB-aðildar en 27 ríki þurfa að staðfesta slíka samninga eftir öllum sínum innri kenjum. Áður en farið er af stað í slíka vegferð er því ágætt að kortleggja helstu pytti á leiðinni. Framkvæmdastjórn ESB hefur vissulega fróm áform um að veita Króatíu aðild annað hvort árið 2011 eða 2012, en óvíst er að henni verði að ósk sinni. Slóvenía hefur nefnilega hingað til staðið í vegi fyrir því að hægt sé að ljúka aðildasamningi við Króatíu. Ástæðan er eftirfarandi:

Frá því að gamla Júgóslavía liðaðist í sundur árið 1991 hafa Slóvenar og Króatar deilt um yfirráðin yfir Piran-flóanum. Um er að ræða tuttugu ferkílómetra svæði sem nær frá slóvensku strandborginni Piran og út flóann við Adríahaf. Samkvæmt Badinter-samkomulaginu sem ákvarðaði núverandi landamæri milli fyrrum ríkja Júgóslavíu fengu Slóvenar norðaustur ströndina en Króatar suðurströndina. Í norðvestri er opið alþjóðlegt hafsvæði. Slóvenar hafa alla tíð verið afar óánægðir með þá ákvörðun, enda eru margir Slóvenar búsettir á svæðinu, svo sem í þorpum við árósa Dragonja-árinnar sem féll Króatíumegin eftir stríð. Slóvensk yfirvöld hafa allt frá því ríkið hlaut sjálfstæði í byrjun tíunda áratugarins vaktað alla spilduna þrátt fyrir úrskurð Badinter-nefndarinnar. Króatar hafa sætt sig við tvískiptingu flóans og dalsins upp af honum en Slóvenar gera tilkall til alls svæðisins. Áhugi þeirra á svæðinu er ekki síst tilkominn vegna þess að yfirráð yfir því veitir þeim beinan aðgang að alþjóðlegu hafsvæði en hafsvæði Slóveníu er nú klemmt á milli króatísks og ítalsks yfirráðasvæðis.

Þegar Króatía sótti um aðild að ESB fékk Slóvenía ansi beitt vopn í hendurnar: hefur nú þegar dregið samningagerðina úr hófi fram og jafnframt hótað að standa í vegi fyrir ESB-aðild Króatíu þar til Króatar láti dalinn af hendi.

(Uppfært kl. 21:30 samkvæmt ábendingu)

fimmtudagur, 14. maí 2009

Brown's Icelandic blame game

Af einhverjum undarlegum ástæðum grípur Gordon Brown gjarnan til þess að ráðast á Ísland þegar hann lendir í pólitískum vanda heima fyrir. Í síðustu viku laug hann því til að mynda að breska þinginu að íslensk stjórnvöld bæru ábyrgð á fjárhagsvanda krabbameinssjóðs Christies-sjúkrahússins í Manchester.

Í nýrri grein í Guardian bendi ég á að setning hryðjuverkalaganna hafi átt hlut í falli Kaupþing Singer&Friedlander og því sé vandi Christies ekki síst honum sjálfum að kenna. Þetta sé því smánarleg tilraun til að þvo hendur sínar af eigin ábyrgð.

Í greininni minni ég einnig á að með setningu hryðjuverkalaganna hafi bresk stjórnvöld ekki aðeins fryst eignir Landsbankans, heldur einnig tekið yfir skuldbindingar hans í Bretlandi, - þar með taldar Icesave-skuldbindingarnar.

mánudagur, 11. maí 2009

Alveg eins og í EFTA-málinu

Vitaskuld er merkilegt að ný ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar ætli að leggja til við Alþingi að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu. Látið hefur verið í veðri vaka að það sé sértök nýlunda að ríkisstjórn leggji slíka aðild fyrir þingið, jafnvel óvenjulega lýðræðislegt.

Svo er þó ekki. Nákvæmlega sama aðferð var notuð þegar Ísland sótti um aðild að EFTA árið 1968. Þá lagði ríkisstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks fram þingsályktunartillögu þess efnis, til að komast að raun um hvaða kjör byðust. Í athugasemdum við tillöguna kom fram að ríkisstjórnin teldi tímabært „að fá úr því skorið með hvaða kjörum Ísland gæti gengið í EFTA“. (Kannast menn við orðalagið?). En sumir þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfðu efasemdir um málið.

Fleiri líkindi eru við fortíðina. Fréttablaðið segir frá því að fimm þingmenn VG ætli að greiða atkvæði gegn tillögunni. Í EES-málinu árið 1993 greiddu þrír þingmenn Sjálfstæðisflokks atkvæði gegn samningnum á þingi en fimm þingmenn Framsóknarflokks, sem voru í stjórnarandstöðu, sátu hins vegar hjá og veittu málinu þannig brautargengi.

Fyrir umsóknina nú skiptir mestu, að ríkisstjórnin sem slík mun standa að henni, verði hún samþykkt á þingi. En varðandi málsmeðferðina koma eigi að síður nokkrar spurningar upp í hugann. Til að mynda þessi: Gera má ráð fyrir að einhverjir stjórnarandstöðuþingmenn muni leggja fram breytingatillögu, til að mynda þess efnis að farið verði í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Hvað munu fimmmenningarnir og hinir félagar þeirra í VG þá gera?

miðvikudagur, 6. maí 2009

Í klandri í Flandri?

Mikið hefur verið fjallað um hugsanlega aðildarumsókn að Evrópusambandinu en minna hefur verið rætt um það ferli sem nauðsynlegt er að fara í gegnum áður en Ísland getur orðið aðili að bandalaginu. ...

Svona hefst grein eftir mig í Fréttablaðinu í dag: Hvernig fá ríki aðild að Evrópusambandinu?

mánudagur, 4. maí 2009

Ekki hægt að lauma umsókn framhjá VG

Það er ekki rétt sem fréttavefur Rúv segir, að umæli Olli Rehn í fréttum í kvöld séu andstæð því sem ég hélt fram í bloggi fyrir fáeinum dögum, þegar ég benti á - hér og hér - að ekki gangi fyrir Samfylkinguna að lauma aðildarumsókn framhjá samstarfsflokknum á þinginu og samþykkja aðildarumsókn að ESB með fulltingi Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar. En slíkt var lagt til í umræðunni fyrir viku.

Stækkunarmálastjórinn tók það skýrt fram í fréttinni að ríkisstjórnin sem slík yrði auðvitað að standa að umsókninni. Öðru máli gegni hins vegar um það að einstaka ráðherrar séu á öndverðu meiði. Orðrétt sagði Rehn: "If the government decides to apply and the parliament endorses then of course we will negotiate."

Þetta er afar skýrt, við komumst auðvitað ekki framhjá því að ríksstjórnin sem sem slík ákveði að sækja um aðild. Ein leið til þess væri að VG myndi samþykkja að láta þingið afgreiða málið. Og kjósi meirihluti þingheims að sótt verði um aðild, setji flokkurinn sig ekki upp á móti því að ríkisstjórnin sendi inn umsókn. Þá væri kominn fram nægjanlegur trúverðugleiki.

Hins vegar, ef menn ætla sér að reyna það sem rætt var fyrir viku, að senda inn umsókn gegn vilja VG, þá er ekki aðeins umsóknin fyrir bí heldur stjórnarsamstarfið væntanlega líka.

fimmtudagur, 30. apríl 2009

Já, sei, sei

Áhugaverðar umræður um stöðu Íslands í samanburði við hin Norðurlöndin og Bretland hafa spunnist í athugasemdum við grein mína í Guardian um daginn.

Sá sem nefnir sig Marat segir að Bretar ættu að læra íslensku og losa sig við eigin ríkisstjórn.

Einhver sem kallar sig physiocrat segir að varla geti verið flókið að reka ríki sem er aðeins á stærð við hverfi í London.

miðvikudagur, 29. apríl 2009

Aðalsteinn leiðréttur

Aðalsteinn Leifsson heldur því fram í Morgunblaðinu í dag að ég hafi rangt fyrir mér í bloggi þegar ég benti á að Evrópusambandið geti trauðla hafið aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðunni til Evrópusambandsaðildar. Hann tekur dæmi af Svíþjóð máli sínu til stuðnings, þar hafi einstakir ráðherrar verið andvígir aðild. En hann misskilur.

Auðvitað er ekkert því til fyirstöðu að semja við ríki þar sem einstaka ráðherrar og hinir og þessir þingmenn eru á móti ESB-aðild. Það er alvanalegt. Hins vegar er ómögulegt að semja um ESB-aðild við samsteypustjórn tveggja flokka þar sem annar stjórnarflokkurin berst eins og ljón gegn aðild. Það segir sig eiginlega sjálft. Slíkur viðsemjandi er ekki trúverðugur.

Í slíku tilfelli er illmögulegt fyir framkvæmdastjórn ESB að mæla með því við ráðherraráðið að hefja samninga. Ríkisstjórn Íslands kemst einfaldlega ekki framhjá því að leysa málin innan eigin raða áður en hún sendir umsókn til Brussel. Svo einfalt er það nú. Kapp er best með forsjá.

þriðjudagur, 28. apríl 2009

Guardian: Iceland puts paid to Viking capitalism

Guardian birtir í dag nýja grein eftir mig um niðurstöður kosninganna hér á landi: Iceland puts paid to Viking capitalism.

Í greininni er sagt að í kosningaúrslitunum komi fram einskonar uppkjör við Víkinga-kapítalismann sem rekinn hafi verið hér á landi. Greint er frá vanda ríkisstjónarflokkanna við að hnoða saman samkomulagi í Evrópumálunum og bent á að fyrri ríkisstjórn á Íslandi hafi verið sú fyrsta sem kjósendur höfnuðu í kjölfar alþjóðlega fjármálahrunsins.

Spurt er hvort sitjandi ríkisstjórnir í öðrum ríkjum, til að mynda stjórn Verkamannaflokksins í Bretlandi, geti hlotið sömu örlög.

Minni á að hægt er að rita athugasemdir undir greinina.

mánudagur, 27. apríl 2009

Engin hjáleið í ESB

Liðsmenn Samfylkingar og Vinstri-grænna leita nú leiða til að ná sáttum í Evrópusambandsmálinu. Ýmsar útfærslur hafa verið viðraðar í dag. Ein er sú að þingið verði látið útkljá málið án atbeina ríkisstjórnarinnar. Þannig gæti VG verið áfram á móti aðild en Samfylkingin komið málinu í gegnum þingið með liðsinni Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar.

Auðvitað er skiljanlegt að þessum möguleika sé velt upp, enda snjall leikur til að leysa hnútinn innanlands. En vandinn við þessa leið kemur utan frá. Evrópusambandið getur ómögulega hafið aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðunni til aðildar. Ríkisstjórnin verður einfaldlega að standa heilshugar að umsókninni til þess að hún verði tekin alvarlega í Brussel.

Það væri vissulega þæginlegt fyrir stjórnálaflokkanna að gefa þingmönnum sínum lausan tauminn í málinu til að koma í veg fyrir alvarleg innanflokksátök. Veruleikinn er samt sem áður sá, að þeir munu ekki komast hjá því að leysa ágreining sinn innanlands áður en farið er af stað.

sunnudagur, 26. apríl 2009

Leiðin í Evrópusambandið

Í bókinni Hvað með evruna? eftir sjálfan mig og dr. Jón Þór Sturluson er farið í gegnum ferilinn að Evrópusambandsaðild. Það er svona:

Ákveði ríkisstjórn Íslands að sækja um aðild að Evrópusambandinu sendir hún einfaldlega umsókn um það til ráðherraráðs ESB. Slík umsókn þarf alls ekki að vera ítarleg, raunar gæti textinn komist fyrir á einu blaði. Ef dæma má af fyrri stækkunarlotum yrði ferillinn innan ESB með þeim hætti að ráðherraráðið myndi eftir að umsóknin berst beina því til framkvæmdastjórnarinnar að meta hvort Ísland sé yfir höfuð hæft til að verða fullgildur aðili að ESB.

Aðildarskilyrðin
Evrópusambandið setti aðildarskilyrði sín niður á ríkjaráðstefnu í Kaupmannahöfn árið 1993. Samkvæmt þeim geta lýðræðisríki í Evrópu sem búa við virkt markaðshagkerfi, stöðugt stjórnarfar og trygg mannréttindi auk þess að hafa getu til að taka yfir lagagerðir ESB, fengið aðild að ESB. Ísland uppfyllir öll þessi skilyrði. Í ljósi þess að bæði lagaumhvefi og efnahagslíf á Íslandi hefur nú þegar að mestu verið lagað að innri markaði ESB má gera ráð fyrir að framkvæmdastjórnin myndi umhugsunarlítið mæla með því við ráðherraráðið að hefja aðildarviðræður við Ísland.

Aðildarviðræður þeirra ríkja sem gengið hafa í Evrópusambandið hafa tekið mislangan tíma. Í ljósi þess að lagakerfið á Íslandi og efnahagslífið hefur nú þegar að mestu verið lagað að umhverfinu innan Evrópusambandsins í gegnum aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu má gera ráð fyrir að aðildarviðræður Íslands við ESB muni taka skamman tíma. Það yrði í höndum framkvæmdastjórnarinnar að taka út stöðuna í íslensku þjóðfélagi meðan á viðræðuferlinu stendur og meta í skýrslum fyrir ráðherraráðið, sem hefur lokaorðið um niðurstöðu samninga fyrir hönd ESB. Aðildarviðræður EFTA ríkjanna, Austurríkis, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar tóku innan við tvö ár.

Ef Ísland verður ekki í samfloti með öðrum ríkjum í aðildarviðræðum gætu samningar tekið enn skemmri tíma. Ferillinn frá því að Ísland sækir um aðild og þar til að samningar liggja fyrir þarf því ekki að vera langur, jafnvel innan við ár gangi allt að óskum. Næsta skref yrði að setja aðildarsamninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu, en pólitísk sátt er um það á Íslandi að ekki verður gengið í ESB án þess að þjóðin staðfesti aðildina í allsherjaratkvæðagreiðslu. Áður en til þess getur komið þarf hins vegar fyrst að breyta stjórnarskránni.

Fullveldisvandinn
Þegar EES-samningurinn var gerður á sínum tíma komst nefnd fjögurra lögfræðinga að þeirri niðurstöðu að samningurinn bryti ekki fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar, en það var þó afar umdeilt meðal fræðimanna. Færa má rök fyrir því að þróunin á rekstri EES-samningsins hafi síðan hann var gerður verið með þeim hætti að hann takmarki fullveldi Íslands meira nú en í upphafi og brjóti orðið fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar.

Full aðild að ESB felur þar að auki í sér að Ísland myndi með formlegum hætti deila ákvarðanatökuvaldi, og þar með fullveldi, með öðrum þjóðum. Því er það nokkuð samdóma álit meðal fræðimanna og stjórnmálamanna á Íslandi að breyta þurfi 21. grein stjórnarskrárinnar áður en Ísland getur gengið í ESB. Miðað við stjórnarskrár annarra ríkja er tiltölulega auðvelt að breyta íslensku stjórnarskránni þótt það geti tekið tíma. Einfaldur meirihluti þings þarf að samþykkja breytinguna, svo þarf nýtt þing að staðfesta stjórnarskrárbreytinguna að kosningum loknum. Ef ekki væri búið að breyta stjórnarskránni þegar aðildarsamningur liggur fyrir gæti það frestað ferlinu nokkuð.

Að jafnaði ganga ríki í ESB næstu áramót eftir að samningar og niðurstöður úr þjóðaratkvæði liggja fyrir. Á þeirri reglu eru þó til undantekningar. Líklega munu því í það minnsta tvö ár líða frá því umsókn er lögð fram þar til Ísland gengur í ESB.

Leiðin að evrunni
Það er svo ekki fyrr en að inn í Evrópusambandið er komið að Ísland getur sótt um aðild að Myntbandalagi Evrópu og hafið þann feril sem nauðsynlegur er áður en hægt er að skipta út íslenskum krónum fyrir evru.

Fyrst þarf að sækja um aðild að ERM II og verja í það minnsta tveimur árum innan þess kerfis áður en hægt verður að taka upp evru, að uppfylltum skilyrðum fyrir því. Að lágmarki munu fjögur ár líða áður en Ísland getur gengið í myntbandalag Evrópu og innleitt evru í stað krónu, frá því ákvörðun um að sækja um aðild að ESB er tekin.

Líkast til mun taka tvö ár að ganga í ESB og svo rúmlega önnur tvö ár að aðlagast evrunni eftir að inn í ESB er komið. Lengur ef ekki tekst að koma böndum á verðbólguna, lækka vexti og ná jafnvægi í efnahagslífinu. Evran er því alltaf í fjögurra ára fjarlægð, að lágmarki, þar til að ákvörðun um aðildarumsókn liggur fyrir.

laugardagur, 25. apríl 2009

Augu heimsins

Fjölmiðlar út um allan heim fylgjast grannt með kosningunum hér á Íslandi, mun nánar en nokkru sinni áður. Dagens Nyheder í Svíþjóð hafði samband við mig í gær og birtir frétt um stjórnmálaástandið hér á landi í blaðinu í dag.

mánudagur, 20. apríl 2009

Verður Ísland rekið úr EES?

Mikið fjör hefur færst í Evrópuumræðuna nú í aðdraganda þingkosninga. Línur eru nokkuð að skýrast en það er þó einn flötur á málinu sem ekki hefur verið ræddur annars staðar en í pukurherbergjum stjórnarráðsins. Það er sú staðreynd, að eftir að neyðarlögin voru sett í sl. haust, uppfyllir Ísland ekki lengur skuldbindingar sínar á evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Gjaldeyrishöftin eru þráðbeint brot á EES-samningnum og aðeins tímaspursmál hvenær Evrópusambandið fer að gera athugasemdir við þessa tilhögun. Fulltrúar ESB fylgjast grannt með þróun mála hér á landi en vegna neyðarástandsins hafa menn séð í gegnum fingur sér með þetta brot á samningnum.

En hins vegar, sjái menn ekki fram á að höftunum verði aflétt í bráð, er hætt við að Evrópusambandið neyðist til að segja EES-samningnum upp, einfaldlega vegna þess að við uppfyllum ekki lengur kröfur hans. Ef ekkert yrði að gert myndi gamli fríverslunarsamningurinn frá 1972 einfaldlega taka gildi á ný.

Sem myndi auðvitað hafa margvíslegar afleiðingar, til að mynda yrðu tollar væntanlega lagðir á ný á íslenskar sjávarafurðir inn á markaði ESB, vörur frá Íslandi fá þá ekki lengur sjálfkrafa vottun inn á Evrópumarkað með ómældu óhagræði, fjárfestingaréttur hyrfi og réttur Íslendinga til að starfa í Evrópu yrði afturkallaður. Enn fremur yrði lokað fyrir þátttöku Íslendinga í samstarfsáætlunum ESB á svið vísinda-, mennta- og menningarmála sem hafa fært gríðarlega þekkingu og fjármagn inn í íslenskt samfélag.

Þetta er vitaskuld óhugsandi niðurstaða og því þyrfti að semja um einhvers konar tvíhliða lausn ef Ísland neyðist til að hverfa út af innri markaðinum, kannski álíka og Sviss hefur gert. Vandinn við tvíhliða leiðina er þó sá, að fulltrúar ESB hafa hingað til ekki viljað ljá máls á slíku. - En mögulega breytir fjármálahrunið einhverju um það.

Við stöndum allavega frammi fyrir þessum tveimur kostum; að halda í krónuna og höftin og fara út af Evrópska efnahagssvæðinu eða þá að sækja um aðild að ESB og EMU og taka upp evru í fyllingu tímans. Aðrir kostir eru ekki boði.

Núverandi staða, að vera með annan fótinn á innri markaði ESB en hinn fyrir utan, er í það minnsta vonlaus. Það er að mínu viti fullreynt.

Nú neyðast menn til að velja. Tími frekari biðleikja er liðinn.

þriðjudagur, 14. apríl 2009

Hvorki stjórnlagaþing né persónukjör

Ekki kemur á óvart að stjórnlagaþingið hafi dagað uppi á þingi, alveg eins og loforðið um persónukjör. Eina spennan var hvernig gefin fyrirheit yrðu höfð af þjóðinni. Það varð semsé með hefbundnu málfþófi og almennri pólitískri eftirgjöf. Nú segjast þeir ætla að koma á ákvæði um stjórnlagaþing eftir kosningar. Við trúum því rétt mátulega. Þingmenn munu að líkindum finna leið til að láta málið koðna niður.

sunnudagur, 12. apríl 2009

Fréttaskýring Lóu

Lóa Pind Aldísardóttir setti saman upplýsandi fréttaskýringu um Evrópumálin í Íslandi í dag núna fyrir páska. Ég var meðal viðmælenda. Fréttaskýringuna má sjá hér.

miðvikudagur, 8. apríl 2009

Leiðrétting - ekki afsláttur

Margir hafa orðið til að gagnrýna niðurfærsluleið Framsóknarflokksins, og sumir sjálfskipaðir hagspekingar jafnvel reynt að hlæja hana út af borðinu. Mér virðist hins vegar, að þetta sé ekki aðeins skynsamleg aðgerð, heldur hreint og beint bráðnauðsynleg.

Frá hruninu í haust hefur orðið gífurleg tilfærsla fjár frá skuldurum til fjármagnseigenda. - Óverðskulduð tilfærsla gæti maður sagt því verðtryggingunni var aldrei ætlað að mæta viðlíka ástandi og nú hefur orðið. Vísitalan er mannanna verk en ekki náttúrulögmál.

Því er rétt að leiðrétta ofgreiðslur til fjármagnseigenda sem fall krónunnar hefur valdið og færa höfðustól húsnæðislána nær þeim skuldbindingum sem lántakendur samþykktu að taka á sig í upphafi, - mér sýnist tuttugu prósent niðurfærsla vera hófleg.

Og þjóðfélagið mun ekki fara neitt frekar á höfuðið við þetta en nú þegar er orðið, hér er aðeins um að ræða endurgreiðslu á ofteknu fé.

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Eldhúsþras

Í eldhúsdagsumræðum nú áðan benti nýkjörinn fomaður Sjálfstæðisflokksins á að krónan hafi fallið um tíu prósent frá því að minnihlutastjórnin tók við völdum, og taldi það til vitnis um lélega efnahagsstjórn. Hann lét þó vera að segja frá því, að þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda árið 1991 kostaði dönsk króna tíkall, þegar flokkurinn fór frá völdum nú í febrúar var hún komin yfir tuttugu krónur, semé orðin hundrað prósent dýrari. Er þetta í alvörunni boðlegur málflutningur?

mánudagur, 6. apríl 2009

Málþófsmenn og föstudagurinn langi

Þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð með stuðningi Framsóknarflokksins, var kjósendum lofað tvennu til að mæta kröfunni um aukið lýðræði, - annars vegar persónukjöri í kosningunum í vor og hins vegar að komið yrði á stjórnlagaþingi.

Eins og sjá mátti úr mílu fjarlægð, og nú er komið í ljós, var loforðið um persónukjör alla tíð innantómt, gulrót sem var dillað framan í kjósendur, en það var aldrei meiningin að leyfa fólki í alvörunni að raða frambjóðendum í kjörklefanum. Samtryggingarkerfi þingmanna kemur í veg fyrir slíkt.

Við héldum hins vegar að loforðið um stjórnlagaþing væri raunverulegt. En nú virðist það líka í uppnámi. Málþóf Sjálfstæðismanna kemur svosem ekki á óvart. En ef Samfylking, Vinstri grænir og Framsókn meina eitthvað með loforði sínu, ef þeir vilja í alvörunni standa við orð sín, þá á auðvitað að láta Alþingi funda daga og nætur yfir alla paskana, þar til málið er afgreitt.

Það fer ágætlega á því að málþófsmenn noti föstudaginn langa til að mæla gegn aðkomu almennings að stjórnskipan landsins.

laugardagur, 4. apríl 2009

Meira um Icesave og ábyrgð Breta

Spurningin um hryðjuverkalögin og Icesave er ekki aðeins júrísk, heldur ekki síður pólitísk.

Ég hef haldið því fram, að þegar Bretar beittu Ísland hryðjuverkalögunum hafi orðið til tækifæri fyrir íslensk stjórnvöld, - að koma með krók á móti bragði og færa fram þau rök, að þar með hefðu bresk stjórnvöld tekið yfir skuldbindingar þeirra fjármálafyrirtækja sem þau tóku traustataki með ólögmætum hætti.

Þessi rök eru semsé ekki aðeins júrísk, þau eru einnig pólitísk. Alþjóðastjórnmál lúta öðrum lögmálum heldur en innalandsstjórnmál og þjóðarréttur er mun loðnara og teygjanlegra fyrirbæri en landsréttur.

Með þessu móti hefðu íslensk stjórnvöld getað búið sér til samningsstöðu til að semja út frá. Út á það gengur þessi leikur. - En það virðst sumir eiga bágt með að skilja.

Og nú höfum við fengið annað tækifæri, í skýrslunni kemur fram að beiting hryðjuverkalaganna hafi verið óheppileg. Í skýrslunni er aðgerðin réttlætt þannig, að öðrum lögum hafi ekki verið til að dreifa í lagasafni Breta. Eigi að síður getum við haldið því fram að þeim hafi - að þjóðarrétti sem samstarfsþjóð í EES og NATO - verið óheimilt að beita viðlíka aðgerðum og þeir viðurkenna nú sjálfir að hafi gengið of langt.

Bretar viðurkenna ábyrgð á Icesave

Fréttablaðið segir frá því í dag að rannsóknanefnd breska þingsins hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til að beita Ísland hryðjuverkalögunum, það hafi í það minnsta verið gagnrýniverð aðgerð.

Þessi niðurstaða styrkir þá skoðun sem ég hef áður sett fram, að með beitingu hryðuverkalaganna hafi bresk stjórnvöld yfirtekið skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi. Semsé; þegar Bretar beittu Ísland almennt og Landsbankann sérstaklega, ólöglegum hryðjuverkalögum, þá tóku þeir um leið yfir allar skuldbindingar Landsbankans í Bretlandi, - þar á meðal Icesave-skuldirnar ógurlegu.

Þetta blasir eiginlega við. Því er óskiljanlegt með öllu að íslensk stjórnvöld hafa ekki enn látið á þetta reyna og hent Icesave-málinu í hausinn á breskum stjórnvöldum. Málið er augljóslega á þeirra ábyrgð og nú hafa þeir sjálfir viðurkennt það að hluta.

Í stað þess að beita þessum augljósu rökum í þjóðréttardeilunni við Breta þá völdu íslensk stjórnvöld framan af að þvæla málið í volausa deilu um samræmdar lagaskuldbindingar varðandi tryggingar innistæðueigenda. Ljóst var frá upphafi að það myndi aldrei ganga, alþjóðasamfélagið myndi aldrei standa með þjóð sem ætlaði að grafa undan trúverðugleika kerfisins.

Á endanum neyddust íslensk stjórnvöld til að undirgangast ábyrgð á Icesave, sem var ekki aðeins óþarfi heldur hreint og beint yfirgengilegt vanhæfi því við höfðum prýðileg rök - og höfum raunar enn. Einfaldara getur það varla verið: Með beitingu hryðjuverkalaganna tóku þeir sjálfir yfir ábyrgðirnar.

Mig skortir hugmyndaflug til að skilja hvers vegna íslensk stjórnvöld varpa málinu ekki yfir á herðar breskra stjórnvalda, - þar sem það á bersýnilega heima.

föstudagur, 3. apríl 2009

Sumarnám á Bifröst

Nokkur umræða hefur spunnist um þá kröfu nemenda að háskólarnir í landinu bjóði upp á sumarnám til að mæta alvarlegu ástandi í atvinnumálum þjóðarinnar. En einn er sá háskóli í landinu sem hefur um árabil boðið upp slíkt nám, - það er Háskólinn á Bifröst. Minnsti háskóli landsins býður mest framboð sumarnáms.

Þessu hafa fjölmiðlar af einhverjum völdum gleymt.

Til að mynda geta nemendu skellt sér í Meistaranám í Evrópufræðum sem hefst í júlí, með sex vikna sumarönn. Svo tekur við fjarnám í haust og vor, sem stutt er vinnuhelgum á Bifröst, svo önnur staðnámstörn næsta sumar.

sunnudagur, 22. mars 2009

'Þegar við héldum að Ísland gæti ekki orðið skrýtnara´

Kunningjar mínir hér í Bretlandi hafa vaxandi áhyggjur af því að breska fjármálakerfið geti hrunið, - ekki með líku lagi og á Íslandi þar sem kerfið féll svo gott sem á einum degi, heldur að það molni smám saman að innan, en semsé þannig að niðustaðan verði eigi að síður álíka.

Maður finnur glöggt að Bretar eru enn með annað augað á Íslandi, en vanþekking þeirra á ástandi mála nyrðra er samt sem áður æpandi. Þeir virðast halda að á landinu kalda sé allt í kalda koli, landið hafi endanlega glatað sjálfstæði sínu og að þar ráfi soltnir fyrrum verðbréfasalar um götur - í götóttum Armani jakkafötum - og snæði snjó.

Frá falli bankanna hef ég ekki orðið var við að nokkur einasti aðili sem telst til íslenskra stjórnvalda hafi gert nokkuð markvert til að leiðrétta yfirgengilegar rangfærslurnar um landið í erlendum fjölmiðlum.

En það er ljós í myrkrinu: Jóhanna Sigurðardóttir er ekki aðeins bjargvætturinn heima fyrir, heldur vekur hún ekki síður áhuga hér ytra. Af mæli félaga minna virðast þeir álíta hana einhvers konar Soffíu frænku-týpu. Sjálfir eru þeir að leita að einni slíkri til að taka til í fjármálakerfi Lundúna. En hér er engin slík í sjónmáli.

Það vottar fyrir virðingu þegar þeir spyrja um Jóhönnu, en að breskum sið er einnig stutt í glettni. Einn þeirra orðaði þetta svona: "Þegar við héldum að Ísland gæti ekki orðið skrýtnara þá kemur þessi lesbíska amma Íslendinga og hendir öllum vitleysingunum út úr partýinu."

sunnudagur, 8. mars 2009

Norðurlöndin eru skilin

Athyglisverðar umræður hafa kviknað við grein mína í Guardian um norrænt samstarf. Sumir halda því fram að á Norðurlöndum sé að finna bestu samfélög í heimi á meðan aðrir eru lítt hrifnir af sósíalísku þjóðskipulagi velferðarríkjanna. Svo deila menn um hvort betra sé fyrir norrænu ríkin að vera fyrir innan eða utan ESB.

Í greininn held ég því fram að Norðurlöndin séu í raun skilin, í það minnsta að borði af sæng eftir að Finnland og Svíþjóð gengu í ESB og skildu Ísland og Noreg eftir í EFTA.

Greinina er nú að finna á debat-síðu Guardian og öllum er frjálst að taka þátt í umræðunni með því að rita athugsemdir undir hana, - hér.

laugardagur, 7. mars 2009

Nordic five have a mystery to solve

Í dag birtist eftir mig grein í Guardian í tilefni af skýrslu Thorvalds Stoltenberg um aukið samstarf Norðurlandanna í utanríkis og varnarmálum. Í greininni held ég því fram að á meðan sum Norðurlandanna eru í Evrópusambandinu (Danmörk, Finnland og Svíþjóð) og önnur fyrir utan (Noregur og Ísland) þá sé slíkt brölt kannski til lítils. Norðurlöndin eru nefnilega skilin þótt þau vilji kannski ekki viðurkenna það.

Greinin er hér.

Helvíti á Norðurbrú

Í framhaldi af færslunni í gær um rokkarastríðin á Norðurlöndum bendi ég á ágæta grein í Berlíngnum um núverandi átök milli vítisengla og innflytjendagengja í Danmörku.

föstudagur, 6. mars 2009

Englar víts í Hafnarfirði

Hlustaði á undarlegt viðtal í síðdegisútvarpinu við eiganda vélhjólaverslunar sem talaði um Hells Angels samtökin eins og þau væru sárasaklaus skátaklúbbur sem hefði það helst að markmiði að aðstoða gamlar konur yfir gangbrautina. Hann sá ekkert athugavert við að félagið sé nú að hreiðra um sig í Hafnarfirði.

Hells Angels og margir álíka vélhjólaklúbbar á borð við Banditos og fleiri eru auðvitað harðsvíraðar og þaulskipulagðar glæpaklíkur sem fela sig á bak við áhuga á vélhjólaakstri og rokktónlist. Hells Angels og Banditos eru upprunar í Bandaríkjunum og starfa svotil um allan heim hafa um áratugaskeið barist um yfirráðin í undirheimum Skandinavíu, en sveitir þeirra stjórna nær allri fíkniefnadreifingu á Norðurlöndum ásamt umfangsmiklu mansali og öðrum glæpaverkum.

Á meðan hin frjálslyndu og friðsælu Norðurlönd lágu á velmegunarmeltunni náðu glæpagengin að hreiðra um sig og angar þeirra teygja sig nú ansi víða um hin norrænu samfélög. Í upphafi tókst þessu glæpahyski að blekkja yfirvöld og Hells Angels fengu meira að segja framlög frá danska ríkinu eins og um hver önnur æskulýðssamtök væri að ræða.

Klíkurnar hafa barist á banaspjót í undirheimum Norðurlanda og stundum berast átökin upp á yfirborðið. Menn kippa sér kannski ekki lengur mikið upp við það á meðan gengin láta sér duga að drepa og pynta hver aðra en þegar saklausir borgarar verða fyrir árásum þá fer fólk að hafa áhyggjur. En fjöldi saklausra borgara hefur fallið í valinn í Rokkarastríðunum eins þessi átök eru jafnan kölluð á Norðurlöndum.

Undanfarin ár hefur þrisvar slegið verulega í brýnu milli glæpagengjanna þannig að Norðurlöndin bókstaflega loguðu í átökum í Rokkarastríðunum eins þessi átök eru jafnan kölluð. Fyrsta uppgjörið varð á níunda áratugnum milli Hells Angels og Bullshit. Í stuttu máli fóru Vítisenglar þá með sigur af hólmi og þurrkuðu Bullshit svo gott sem af yfirborði jarðar. Það markar endalok þeirra deilna þegar Jönke, leiðtogi Vítislengla, myrti Makrílinn, leiðtoga Bullshit. Jönke flúði í útlegð og dvaldist meðal Vítisengla erlendis þar til hann snéri aftur til Danmerkur og afplánaði dóm fyrir morðið. Jönke þessi varð svo talsmaður Vítisengla í Danmörku, metsölubókahöfundur og vinsæll gestur á síðum glanstímarita.

Annað stríð hófst um miðjan tíunda áratuginn og stóð í nokkur ár en þá hafði Bandídos náð að fylla skarðið sem Bullshit skildu eftir. Á tímabili breyttist Kaupmannahöfn í blóðugan vígvöll. Þegar verst lét var jafnvel barist með vélbyssum á flugvöllum og í íbúðarhverfum og kom fyrir að saklausir borgar urðu fyrir kúlnahríðinni. Ekki þótti nóg að beita venjulegum vopnum og er talið að báðar fylkingar hafi brotist inn í vopnabúr danska hersins til þess að ná sér í stórtækari vígvélar. Átökin náðu hámarki þegar einn Bandidosliðinn skaut sprengjuflugskeyti inn í höfuðstöðvar Vítisengla, sem er í íbúðarhverfi á Norðubrú í Kaupmannahöfn, meðan árleg víkingaskemmtun þeirra stóð yfir. Ung kona sem var gestkomandi í boðinu en hafði annars engin tengsl við Vítsienglana lést í þeirri árás.

Undanfarið hafa svo blossað upp blóðug átök á milli Hells Angels og hópa innflytjenda á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Fjöldi manna hefur fallið valinn og ekki sér enn fyrir endan á þeim átökum. Skotbardagar milli náhvítra engla vítis og barnungra vígamanna Allah eru daglegt brauð í Danmörku.

Það hefur reynst þrautinni þyngri að losna við þessa óværu en á allra síðustu árum hafa lögregluyfirvöld á Norðurlödum náð töluverðum árangri með svokallaðri zero-tolerance stefnu sem felur í sér stórhertar aðgerðir gegn glæpalýðnum. Þrengt er að klíkunum og því líta þær nú annað og virðast hafa beint sjónum að Íslandi. Það má ekki leyfa þessu liði að skjóta rótum hér á landi.

Það er því algjör óþarfi að bjóða þetta lið velkomið til Íslands. Þetta er nefnilega óværa sem illa reynist að losna við fái hún frið til að hreiðra um sig.

mánudagur, 16. febrúar 2009

Aska og eldur

Daníel Hannan, þingmaður breska íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, leggur til að Ísland taki upp breskt pund frekar heldur en evru. Daníel hefur stjórnmálalegan áhuga á ríkjum í Evrópu sem standa fyrir utan ESB og sér breska pundið sem leið fyrir Ísland til að forða landinu frá ESB-aðild.

Það er þó einn galli á þessari aðferð, breska ríkisstjórnin hefur nefnilega enn þá stefnu að taka upp evru í stað punds þegar efnahagsaðstæður til þess verða taldar hagstæðar. Taki Ísland upp breskt pund gætum við því hæglega setið uppi með evru innan skamms.

Vilji menn halda Íslandi fyrir utan evrusvæðið til að forða landinu frá segulmætti Evrópusamrunans er eina raunhæfa leiðin að leita ásjár hjá Noregsbanka.

Já, vel á minnst, sá sem hefur Gamla sáttmála frá árinu 1262 í fórum sínum er vinsamlegast beðinn um að skila honum hið snarasta til fjármálaráðherra.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Pravda

Það skildi þó aldrei fara svo að maður kæmist ekki á síður Prövdu, að vísu ekki þeirrar einu og sönnu í gamla Sovét sem í heiti sínu kvaðst aðeins flytja sannleikann, en þó allavega í nöfnu hennar í Slóvakíu, sem enn kemur út. Sjá hér.

Eins og fleiri hef ég þurft að sinna því alþjóðlega fjölmiðlastóði sem hingað hefur flotið í stríðum straumum til að flytja fjárhagslegar hamfarafréttir. Margt er þar misjafnt sagt og stundum athyglisvert hvernig ólíkir miðlar í mismunandi löndum segja frá ástandinu, á því getur verið afar mikill munur.

Því miður skil ég ekki slóvensku svo ég átta mig engan vegin á hvernig þeir hjá Sannleikanum í Slóvakíu matreiða fréttina.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Víkingasambandið

Gwladys Fouché, dálkahöfundur hjá Guardian sem er staðsett í Osló, skrifar skemmtilega grein í dag um möguleikann á Víkingasambandi Íslands og Noregs í peningamálum.

föstudagur, 30. janúar 2009

The lure of the euro in Iceland - grein í Guardian

Í forsíðufrétt í Guardian í dag er því haldið fram að Ísland geti fengið flýtimeðferð inn í Evrópusambandið. Blaðið gleymir þvi hins vegar að tilvonandi ríkisstjórn hefur ESB-aðild alls ekki á stefnuskrá sinni, eins og fram kemur í grein sem ég var beðinn um að rita fyrir blaðið og birtist á vef þess nú fyrir skömmu.

Sjá hér.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Endurreisn Alþingis

Framan af einkenndist stjórnskipan Íslands af þingræði en hefur síðan þróast yfir í ráðherraræði og í allra seinustu tíð yfir í hreinræktað leiðtogaræði. Áður en fjallað er um þessa þróun er rétt að gefa gaum hvernig táknfræðin sem blasir við okkur á löggjafarþinginu undirstrikar þessa þróun.

Hæstvirtur ráðherra

Stéttaskiptingin stjórnmálanna er skýr, ráðherrar eru settir skör hærra en almennir þingmenn sem virðast eiginlega einskonar undirmenn þeirra. Fyrsta táknið blasir einmitt við í titlunum, fulltrúi okkar á löggjafarþinginu er óbreyttur þingmaður en fulltrúi framkvæmdavaldsins er hvorki meira en minna en ráðherra, - herrann sem ræður.

Þessi munur er undirstrikaður í ávarpi þingmanna í ræðustól þingsins: Háttvirtur þingmaður er virðulegt ávarp en ráðherrann er hins vegar ekkert minna en hæstvirtur.

Táknin blasa allstaðar við: Á sjálfu löggjafarþinginu sitja ráðherrar í öndvegi og horfa úr hásæti sínu yfir þingheim. Á gangi einum í þinginu er röð ljósmynda af virðulegum mönnum, þetta eru ekki helstu skörungar þingsins heldur allir ráðherrar lýðveldisins með tölu. Metnaðargjarn þingmaður sem vill komast í hópinn verður því fyrst að fá ráðherrastól.

Fleira undirstrikar stéttarmuninn; óbreyttir koma til þings á eigin bíl sem þeir leggja í nálægt bílastæði og klöngrast svo yfir bílaplanið á meðan ráðherrum er ekið í glæsibifreið upp að dyrum.

Í matsalnum var um hríð dúklagt borð fyrir forsætisráðherra og hirð hans, óbreyttir þingmenn snæða við bert borð.

Verra er, að hendingu má kalla ef lagafrumvarp óbreyttra þingmanna nær fram að ganga á löggjafarsamkundunni, en frumvörp ráðherra renna hins vegar í gegn eins og bráðið smjör. Almennir þingmenn eru að mestu hættir að mæla fyrir frumvörpum, það er nú nánast alfarið í höndum ráðherra.

Leiðtogaræði

Þetta var ekki svona og þarf ekki að vera svona. Með endurreisn Alþingis árið 1844 varð löggjafarþingið þungamiðjan í stjórnmálakerfi landsins. Eftir að framkvæmdarvaldið kom fyrst inn í landið árið 1904 var það fyrst um sinn veikt en styrkti smám saman stöðu sína gagnvart þinginu. Eftir því sem líða tók á nýliðna öld sótti framkvæmdarvaldið í sig veðrið og seig loks fram úr þinginu. Hér varð það sem kalla má ráðherraræði, í þeim skilningi að hver ráðherra varð ráðandi um mestalla framþróun í eigin málaflokki.

Undir lok aldarinnar breyttist kerfið svo aftur þegar stjórnskipanin fór í síauknu mæli að einkennast af leiðtogaræði, þar sem formenn stjórnarflokkanna véla um sífellt fleiri mál sín á milli án mikils samráðs við félaga sína í ríkisstjórn eða þingmenn flokkanna, hvað þá að stjórnarandstaða komi nokkurn tímann að málum.

Formenn stjórnmálaflokkanna hafa nánast fengið ægivald innan flokka sinna, hafa örlög þingmanna sinna svo gott sem í höndum sér, sem leiðir til þess að almennir þingmenn og fagráðherrar þora ekki að hafa sig í frammi gegn formanni sínum af ótta við að lenda á köldum klaka. Þeir sem hlaupa útundan sér, eins og það er gjarnan kallað, eru um leið settir á pólitískan ís.

Hvað er til ráða?

Endanleg gelding þingsins blasti við alþjóð þann sjötta október síðastliðinn þegar þingmenn samþykktu neyðarlög sem gjörbreyttu íslensku þjóðfélagi án þess einu sinni að lesa lagabálkinn yfir. Síðan þá hefur þingið nánast verið óvirkt og mótbárulaust samþykkt hvað svo sem framkvæmdarvaldið hefur lagt til. Þessu þarf að snúa við. Mikilvægt er að endurreisa Alþingi. En hvað er til ráða?

Í fyrsta lagi þarf að losa ráðherra af þingi, setja má þá reglu að þegar þingmaður setjist í ráðherrastól segi hann um leið af sér þingmennsku. Ráðherrar hafa þá ekki annað erindi í þingið en að standa löggjafanum skil á verkum sínum. Eins og vera ber.

Í öðru lagi má búa svo um hnútana að það verði í höndum formanna viðkomandi þingnefnda að mæla fyrir þingmálum, frekar heldur en ráðherrans eins og nú er. Þannig gæti þingið náð aftur til sín frumkvæði í lagasetningu eins og stjórnarskráin kveður á um.

Í þriðja lagi er nauðsynlegt að takmarka þann tíma sem menn geta setið við völd, bæði til að tryggja endurnýjun og ekki síður til að takmarka völd leiðtoganna. Auðvelt er að setja þá reglu að ráðherrar sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil samfellt við völd. Sem er auðvitað feikinóg. Með því móti ætti ásjóna valdsins að verða önnur og hyggilegri en nú er.

Stjórnmálaflokkarnir gætu líka sjálfir tekið upp slíkt fyrirkomulag, til að mynda að setja þá einföldu reglu að formaður geti lengst setið í átta ár. Lengri valdaseta er hvort eð er óþörf.

Í fjórða lagi er kannski kominn tími til að hreinsa út það fólk sem hefur leyft þessari óheillaþróun að verða á sinni vakt.

Fréttablaðið, 28. janúar 2008