Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur áhuga á að víkka út EES-samstarfið með því að fá örríki Evrópu inn í EFTA-stoð samningsins, svo sem ríki á borð við Andorra, San Marínó, Mónakó og jafnvel bresku aflandseyjarnar Gurnsey og Mön. Færeyjar hafa meira að segja verið nefndar í þessu sambandi. Ég ræddi þetta við fréttastofu Sjónvarps í gærkvöldi.
Ríkisstjórn Andorra hefur nú þegar farið fram á að framkvæmdastjórn ESB athugi þennan möguleika og fulltrúar Evrópusambandsins hafa rætt útvíkkun EFTA/EES samstarfsins við ríkisstjórn Noregs.
Norðmenn eru í svolítið erfiðri stöðu í þessu máli. Gangi Ísland í Evrópusambandið er ljóst að Noregur og Liectenstein geta ekki ein haldið EFTA-stoð EES-samningsins úti með trúverðugum hætti, í það minnsta ekki eftirlitskerfinu. Því myndi innganga Andorra, San Marínó og fleiri örríkja styrkja EFTA-stoðina gangi Ísland úr skaptinu. Mörg þessara örríkja eru skattaparadísir sem hafa farið illa út úr fjármálakreppunni.Evrópusambandið sér EES-leiðina sem möguleika til að koma þeim til hjálpar og að hafa á þeim taumhald um leið. Reynsla Liectenstein innan EFTA og EES bendir til að slík lausn geti vel hentað fleiri örríkjum Evrópu.
Norðmenn eiga þó í svolitlum erfiðleikum með að sjá sjálfa sig fyrir sér í örríkjabandalagi Evrópu. Þótt Noregur sé vissulega smátt ríki miðað við mörg önnur hafa margir Norðmenn eigi að síður litið svo á að Noregur hafi sérstöku hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi. Af þeim sökum eiga sumir þeirra bágt með að horfa framan í þá stöðu að verða hluti af þeim örríkjaklúbbi sem yrði til gangi hugmyndir framkvæmdastjórnar ESB eftir. Á móti kemur að þá yrði Noregur loksins það stórveldi sem suma Norðmenn hefur lengi dreymt um, - að vísu aðeins stórveldi meðal örríkja Evrópu, en stórveldi eigi að síður.
Þeir Norðmenn sem ég ræddi við í nýlegri Brussel-ferð, bæði innan EFTA-skrifstofunnar og fastanefndar Noregs, eru margir hverjir uggandi um framþróun þessa máls, vita satt að segja ekki í hvorn fótinn þeir eiga að stíga og kvarta sáran undan því að Ísland beiti sér lítt í málefnum EFTA og EES eftir að ESB-umsóknin var afhennt í júlí síðastliðnum.
Á fimmtuagsmorgun mun einn helsti sérfræðingur Noregs í Evrópumálum, dr. Fredrik Sejersted, formaður Evrópuréttarstofnunar Oslóarháskóla, ræða stöðu Noregs í Evrópusamstarfi undir heitinu Framtíð Noregs innan eða utan ESB – reynslan af 15 ára sambúð með EES. Það verður fróðlegt að heyra hvað hann hefur þetta mál að segja.