Útspil framsóknarmanna á Íslandi og í Noregi um ofurlán til Íslands, óháð afgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins er svolítð óljóst og að sumu leyti eilítið undarlegt. Tilboðið kemur ekki frá norsku ríkisstjórninni heldur frá óbreyttum þingmanni í minnsta stjórnarflokknum, Per Olaf Lundteigen, talsmanni Miðflokksins í fjármálum. (Miðflokkurinn sækir nú á um aukin áhrif í nýrri ríkisstjórn sem enn hefur ekki verið mynduð eftir nýliðnar kosningar, sömu flokkar ætla sér að vinna saman áfram).
En allavega, öfugt við fréttafluttnig hérlendis hefur Lundteigen, samt sem áður hvergi sagt - svo ég hafi heyrt - að Noregur sé tilbúinn til að afgreiða slíkt lán óski íslenska ríkisstjórnin eftir því. Þvert á móti segir hann í viðtali ABC fréttaveituna í Noregi að tilboðið sé einvörðungu sett fram fyrir hönd Miðflokksins, ekki fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Á norsku svarar hann svona: "På vegne av Senterpartiet sa jeg til Thórallsson at vi er villige til å gi et betydelig lån opp til 100 milliarder norske kroner, til 4 prosent rente og fem års avdragsfrihet."
Leiðtogar norsku ríkisstjórnarinnar, þau Jens Stoltenberg, forsætisráðherra og formaður Verkamannaflokksins, og Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra og formaður Vinstri flokksins, hafa ekki tekið undir orð Lundteigen. Þvert á móti hafa þau bæði sagt að norska ríkisstjórnin muni einvörðungu veita Íslandi lán að undangenginni afgreiðslu AGS, sjá til að mynda hér.
Eigi að síður er vitað að þreifingar hafa undanfarið farið fram milli íslenskra og norskra stjórnvalda um einhliða aðstoð ef allt um þrýtur, - þótt upphæðin í þeim viðræðum hafi raunar ekki verið í nálægð við það sem Lundteigen nefnir.
En semsé, það sem mestu máli skiptir nú, er að skemma ekki málið áður en það er fullþroskað. Lánafyrirgreiðsla til Íslands er pólitískt afar viðkvæmt mál fyrir norsk stjórnvöld, sem eru eins og á milli steins og sleggju: Á alþjóðavettvangi vilja þau sýna að þau standi með alþjóðlegum leikreglum sem skuldbinda íslensk stjórnvöld til að ganga frá Icesave málinu (utan Íslands eru svotil allir sammála um það) en heima fyrir hefur almenningur í Noregi gjarnan viljað veita Íslendingum, frændum í neyð, hjálparhönd.
Stjórnmál eru list hins mögulega og um þetta mál alveg sérstaklega er afar vandratað. Persónulegur vinskapur er á milli leiðtoga VG á Ísland og SV í Noregi, Steingrímur J Sigfússon og Kristin Halvorsen eru í reglulegum samskiptum. Samt sem áður hefur ekki tekist að afgreiða málið.Vonandi fara samskiptin við norsk stjórnvöld ekki í hnút þótt málinu hafi nú verið þjófstartað í fjölmiðlum.Við sjáum til.
Uppfært kl. 13:55:
Og nú hefur það gerst sem ég óttaðist, raunverulegir fulltrúar norsku ríkisstjórnarinnar hafa neyðst til að bera fréttina um loforð Lundteigen til baka og allt komið í hnút á nýjan leik.