fimmtudagur, 8. október 2009

70 óspjallaðar meyjar og annar óhróður

Í morgun hlaust mér sú upphefð að fá yfir mig skæðadrífu staksteina Morgunblaðsins. Grjótkastarinn í Hádegismóum er þó ekki hittinn þennan morguninn. Efnislega er ég sakaður um að hafa hótað þjóðinni uppsögn á EES-samningnum samþykki hún ekki Icesave, sem ég á víst að vera alveg hreint sérstakur áhugamaður um að Íslendingar samþykki, að því er virðist af þeirri ástæðu að ég ku vera svo sólginn í embættismannastarf í stofnunum ESB.

Allt er þetta kolrangt. Í fyrsta lagi hef ég engum hótað. Í gær var ég inntur eftir því í fjölmiðlum hvað myndi gerast með EES-samninginn ef Íslendingar myndu hafna Icesave og segja sig úr efnhagsáætlun AGS. Ég svaraði sem rétt er, að þá myndi líkast til vera úti um ESB-umsóknina og að erfitt yrði að aflétta gjaldeyrishöftunum í bráð, það gæti svo aftur leitt til þess að EES-samningurinn myndi á endanum rakna upp. Þetta er samdóma álit flestra fræðimanna og útskýrt hér.

Ýmsir staksteinadritarar þessa þjóðfélags hófu auðvitað um leið að teygja, toga og rangtúlka ummæli mín og gera mér upp annarlegar hvatir. Ég var hins vegar einvörðungu að miðla þeirri þekkingu sem ég hef á evrópsku samstarfi eftir áratugs rannsóknir á þessu appírati, en samkvæmt staksteinum má það má víst ekki á Ísland i dag. Sannleikurinn er víst ekki af öllum álitinn sagna verður.

Í öðru lagi hef ég frá upphafi varað við þessum árans Icesave-samningi, hroðaleg hrákasmíð þessi nauðungarsamningur, sjá hér, hér og hér. Eins og hér má sjá lagði ég strax í upphafi til að settir yrðu afgerandi fyrirvarar við þennan ólánssamning, að vísu var svo gengið allt of langt í þeim efnum og málið eyðilagt í þinginu.

Í þriðja lagi hryllir mig hreinlega við þeirri tilhugsun að verða bjúrókrati í Brussel, það langar mig alls ekki. Á meðan ég má vera fræðimaður á Ísland þá vil ég það, ef ég má. Um skeið starfaði ég sem upplýsingafulltrúi í sendiráði ESB í Osló, mér leiddist og vissi um leið að ég hef engan áhuga á svoleiðis störfum, sagði þvi starfi mínu lausu og flutti heim. Síðan ég ég unnið að fræðistörfum og vil halda þeim áfram, ef ég má.

Í skæðadrífu staksteina fljúga fleiri og enn furðulegri hlutir. Á einhvern undarlegan hátt tekst grjótkastaranum í Hádegismóum að þvæla 70 óspjölluðum meyjum inn í spilið, sem ég er sagður hafa einhverja löngun til. Hvernig svarar maður eiginlega svona ummælum? Hvað er hér eiginlega á ferðinni?

Þetta er ekki eina sendingin sem ég hef fengið frá Morgunblaðinu eftir að blaðamenn óskuðu eftir áliti mínu á afdrifum EES-samningsins. Seinni partinn í gær barst mér nafnlaus póstur úr netfanginu frsend@mbl.is. Bréfritari fer fram á að ég þagni og endar reiðilestur sinn á eftirfarandi hvatningu til mín. „Geturðu ekki bara flutt og látið okkur í friði?“

Er þetta hótun? Hver ber ábyrgð á svona póstsendingum?