miðvikudagur, 7. október 2009

Drullukaka Icesave, AGS og EES

Umræður um Evrópumál geta verið flókin, myndin sem Íslendingar standa frammi fyrir í utanríkismálum er hvorki einsleit né einföld. Tengslin við Breta og Hollendinga vegna Icesave er partur af margþættri mósaíkmynd þar sem ESB-umsóknin, samskiptin við Norðurlöndin og EES-samninginn er einnig að finna. Þræðirnir þarna á milli eru ekki alltaf augljósir og stundum erfitt að feta sig eftir þeim.

Í dag hafa fjölmiðlar velt fyrir sér hvað myndi gerast varðandi ESB-umsóknina og EES-samninginn ef við myndum gefa Bretum og Hollendingum fingurinn og hafna Icesave einhliða. Ég var spurður um þetta í Fréttablaðinu og í Útvarpsfréttum Rúv. Ég sé að ýmsir hafa lagt út af ummælum mínum og aðrir rangtúlkað svo mest þeir mega. Það er eftir öðru í umræðu dagsins, lítið við því að segja.

En svarið við þessari spurningu er auðvitað ekki með öllu einhlítt, hins vegar er ljóst að eftir að gjaldeyrishöftin voru sett síðastliðið haust uppfyllum við ekki veigamikinn þátt EES-samningsins, þá hlið fjórfrelsisins sem snýr að frjálsu flæði fjármagns. Það er hárrétt hjá Össuri Skarphéðinssyni, utanríkisráðherra, að höftin voru sett í fullu samráði við AGS og ESB.

En, það er nefnilega svolítið en í þessu máli eins og mörgum öðrum. Hvað gerist ef við hendum AGS út í hafsauga og höfnum Icesave einhliða? Þetta var það sem Fréttablaðið og Fréttastofa Rúv vildu vita. Um þetta var ég spurður. Þá er nefnilega komin upp önnur staða, þá erum við ekki lengur að vinna í samráði við viðsemjendur okkar.

Við slíkar aðstæður yrði ESB-umsóknin sett í einhverja frystikistuna í Brussel, það er held ég nokkuð augljóst. Og þar með verður einnig orðið ljóst að við munum ekki geta aflétt gjaldeyrishöftunum og uppfyllt EES-samninginn eins og okkur ber. Um leið hverfur sú réttlæting sem ESB hefur nú við að horfa í gegnum fingur sér með einmitt það, að við uppfyllum alls ekki EES-samninginn.

Þá verður það hlutverk framkvæmdastjórnar ESB að segja upp þeim hluta EES-samningsins sem nær til fjármálafrelsisins og þar með verður ekki lengur sú einsleitni sem krafist er í samningnum og hann gæti því hæglega raknað upp. Keðjuverkun fer af stað sem ómögulegt er að sjá fyrir endann á. Hættan er því raunveruleg, þetta er ekki bara eitthvað tuð út í loftið.

Öfugt við það sem þvælumeistarar þjóðmálaumræðunnar eflaust vilja láta í veðri vaka eru auðvitað miklu fleiri vafamál heldur en hér eru rakin, tengsl Íslands við umheimin eru hvorki alhvít né kolsvört. Stjórnmál eru list hins mögulega og því er alltaf til einhver lausn ef vilji er fyrir hendi. Áhyggjur mínar vakna ekki síst af því að mér sýnist einmitt að sjálfan viljann sé að þverra, - bæði hér heima og einnig erlendis.

Og þá stendur nú heldur betur upp á ýmsa pótintátana hér heima að svara þeirri spurningu, hvað þá?