föstudagur, 2. október 2009

Í dag ráða Írar framtíð ESB

Í dag ganga Írar í annað sinn til kosninga um nýjan Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Niðurstaða kosninganna mun ráða úrslitum um hvort takist að greiða úr þeim stjórnlagavanda sem varð til í Evrópusambandinu þegar kjósendur í Frakklandi og Hollandi afþökkuðu stjórnarskrársáttmála ESB sumarið 2005 - sáttmála sem leiðtogar aðildarríkjanna höfðu þá þegar unnið að í nokkur ár.

Segja má að Lissabon-sáttmálin sé eins konar útvötnuð útgáfa af stjórnarskrársáttmálanum sáluga. Búið er að taka út allar tilvísanir í sameiginleg tákn og annað það sem einkennir stjórnarskrár almennt, en breytingar á stofnunum og ákvarðanatökukerfi halda sér hins vegar nokkurn vegin í samræmi við það sem menn ætluðu sér í stjórnarskrársáttmálanum.

Írland er eina ríki ESB þar sem stjórnarskrá kveður beinlínis á um að setja verið alla aþjóðasáttmála sem ríkið gerir í dóm kjósenda, því er framtíð Evrópusambandsins nú enn og aftur í höndum Íra en ekki borgara annarra ESB-ríkja.

Kjörstaðir loka klukkan tíu í kvöld og talning hefst í fyrramálið, Ráðgert er að úrslit liggi fyrir annað kvöld. Sjá frétt Irish times um atkvæðagreiðsluna hér.