mánudagur, 20. apríl 2009

Verður Ísland rekið úr EES?

Mikið fjör hefur færst í Evrópuumræðuna nú í aðdraganda þingkosninga. Línur eru nokkuð að skýrast en það er þó einn flötur á málinu sem ekki hefur verið ræddur annars staðar en í pukurherbergjum stjórnarráðsins. Það er sú staðreynd, að eftir að neyðarlögin voru sett í sl. haust, uppfyllir Ísland ekki lengur skuldbindingar sínar á evrópska efnahagssvæðinu (EES).

Gjaldeyrishöftin eru þráðbeint brot á EES-samningnum og aðeins tímaspursmál hvenær Evrópusambandið fer að gera athugasemdir við þessa tilhögun. Fulltrúar ESB fylgjast grannt með þróun mála hér á landi en vegna neyðarástandsins hafa menn séð í gegnum fingur sér með þetta brot á samningnum.

En hins vegar, sjái menn ekki fram á að höftunum verði aflétt í bráð, er hætt við að Evrópusambandið neyðist til að segja EES-samningnum upp, einfaldlega vegna þess að við uppfyllum ekki lengur kröfur hans. Ef ekkert yrði að gert myndi gamli fríverslunarsamningurinn frá 1972 einfaldlega taka gildi á ný.

Sem myndi auðvitað hafa margvíslegar afleiðingar, til að mynda yrðu tollar væntanlega lagðir á ný á íslenskar sjávarafurðir inn á markaði ESB, vörur frá Íslandi fá þá ekki lengur sjálfkrafa vottun inn á Evrópumarkað með ómældu óhagræði, fjárfestingaréttur hyrfi og réttur Íslendinga til að starfa í Evrópu yrði afturkallaður. Enn fremur yrði lokað fyrir þátttöku Íslendinga í samstarfsáætlunum ESB á svið vísinda-, mennta- og menningarmála sem hafa fært gríðarlega þekkingu og fjármagn inn í íslenskt samfélag.

Þetta er vitaskuld óhugsandi niðurstaða og því þyrfti að semja um einhvers konar tvíhliða lausn ef Ísland neyðist til að hverfa út af innri markaðinum, kannski álíka og Sviss hefur gert. Vandinn við tvíhliða leiðina er þó sá, að fulltrúar ESB hafa hingað til ekki viljað ljá máls á slíku. - En mögulega breytir fjármálahrunið einhverju um það.

Við stöndum allavega frammi fyrir þessum tveimur kostum; að halda í krónuna og höftin og fara út af Evrópska efnahagssvæðinu eða þá að sækja um aðild að ESB og EMU og taka upp evru í fyllingu tímans. Aðrir kostir eru ekki boði.

Núverandi staða, að vera með annan fótinn á innri markaði ESB en hinn fyrir utan, er í það minnsta vonlaus. Það er að mínu viti fullreynt.

Nú neyðast menn til að velja. Tími frekari biðleikja er liðinn.