mánudagur, 27. apríl 2009

Engin hjáleið í ESB

Liðsmenn Samfylkingar og Vinstri-grænna leita nú leiða til að ná sáttum í Evrópusambandsmálinu. Ýmsar útfærslur hafa verið viðraðar í dag. Ein er sú að þingið verði látið útkljá málið án atbeina ríkisstjórnarinnar. Þannig gæti VG verið áfram á móti aðild en Samfylkingin komið málinu í gegnum þingið með liðsinni Framsóknarflokksins og Borgarahreyfingarinnar.

Auðvitað er skiljanlegt að þessum möguleika sé velt upp, enda snjall leikur til að leysa hnútinn innanlands. En vandinn við þessa leið kemur utan frá. Evrópusambandið getur ómögulega hafið aðildarviðræður við ríkisstjórn sem er klofin í afstöðunni til aðildar. Ríkisstjórnin verður einfaldlega að standa heilshugar að umsókninni til þess að hún verði tekin alvarlega í Brussel.

Það væri vissulega þæginlegt fyrir stjórnálaflokkanna að gefa þingmönnum sínum lausan tauminn í málinu til að koma í veg fyrir alvarleg innanflokksátök. Veruleikinn er samt sem áður sá, að þeir munu ekki komast hjá því að leysa ágreining sinn innanlands áður en farið er af stað.