mánudagur, 21. desember 2009

Íslensk leikkona slær í gegn í Danmörku

Fréttablaðið segir í dag frá umfjöllun í Berlingske Tidende um tvo íslenska rithöfunda, þau Hallgrím Helgason og Yrsu Sigurðardóttur. Umfjöllunin sem er á síðu tólf í menningarkálfi blaðsins síðastliðinn föstudag er lofleg og vissulega frásagnarverð.

Forsíða blaðsins í heild sinni sem og síða tvö eru hins vegar lögð undir umfjöllun um nýjustu leikhússtjörnu Danmerkur. Blaðið heldur hreinlega ekki vatni yfir óvenju hæfileikaríkri 33 ára leikkonu sem nýlega hafi komið fram á sjónarsviðið og meðal annars hlotið afar eftirsótt verðlaun; Reumert Talentprisen 2009. Í umfjöllun sinni er bent á að danskir gangrýnendur hafi beðið í röðum við að bera lof á frammistöðu leikkonunnar í sýningunni Seest. Leikkonan hæfileikaríka heitir Stefanía Ómarsdóttir og er alveg jafn íslensk og rithöfundarnir góðu sem fjallað er um inni í blaðinu.

Mikið væri nú gaman ef íslenskir fjölmiðlar gætu einnig sagt frá afrekum leikkonunnar hæfileikaríku úr Garðabæ.