sunnudagur, 22. mars 2009

'Þegar við héldum að Ísland gæti ekki orðið skrýtnara´

Kunningjar mínir hér í Bretlandi hafa vaxandi áhyggjur af því að breska fjármálakerfið geti hrunið, - ekki með líku lagi og á Íslandi þar sem kerfið féll svo gott sem á einum degi, heldur að það molni smám saman að innan, en semsé þannig að niðustaðan verði eigi að síður álíka.

Maður finnur glöggt að Bretar eru enn með annað augað á Íslandi, en vanþekking þeirra á ástandi mála nyrðra er samt sem áður æpandi. Þeir virðast halda að á landinu kalda sé allt í kalda koli, landið hafi endanlega glatað sjálfstæði sínu og að þar ráfi soltnir fyrrum verðbréfasalar um götur - í götóttum Armani jakkafötum - og snæði snjó.

Frá falli bankanna hef ég ekki orðið var við að nokkur einasti aðili sem telst til íslenskra stjórnvalda hafi gert nokkuð markvert til að leiðrétta yfirgengilegar rangfærslurnar um landið í erlendum fjölmiðlum.

En það er ljós í myrkrinu: Jóhanna Sigurðardóttir er ekki aðeins bjargvætturinn heima fyrir, heldur vekur hún ekki síður áhuga hér ytra. Af mæli félaga minna virðast þeir álíta hana einhvers konar Soffíu frænku-týpu. Sjálfir eru þeir að leita að einni slíkri til að taka til í fjármálakerfi Lundúna. En hér er engin slík í sjónmáli.

Það vottar fyrir virðingu þegar þeir spyrja um Jóhönnu, en að breskum sið er einnig stutt í glettni. Einn þeirra orðaði þetta svona: "Þegar við héldum að Ísland gæti ekki orðið skrýtnara þá kemur þessi lesbíska amma Íslendinga og hendir öllum vitleysingunum út úr partýinu."