föstudagur, 6. mars 2009

Englar víts í Hafnarfirði

Hlustaði á undarlegt viðtal í síðdegisútvarpinu við eiganda vélhjólaverslunar sem talaði um Hells Angels samtökin eins og þau væru sárasaklaus skátaklúbbur sem hefði það helst að markmiði að aðstoða gamlar konur yfir gangbrautina. Hann sá ekkert athugavert við að félagið sé nú að hreiðra um sig í Hafnarfirði.

Hells Angels og margir álíka vélhjólaklúbbar á borð við Banditos og fleiri eru auðvitað harðsvíraðar og þaulskipulagðar glæpaklíkur sem fela sig á bak við áhuga á vélhjólaakstri og rokktónlist. Hells Angels og Banditos eru upprunar í Bandaríkjunum og starfa svotil um allan heim hafa um áratugaskeið barist um yfirráðin í undirheimum Skandinavíu, en sveitir þeirra stjórna nær allri fíkniefnadreifingu á Norðurlöndum ásamt umfangsmiklu mansali og öðrum glæpaverkum.

Á meðan hin frjálslyndu og friðsælu Norðurlönd lágu á velmegunarmeltunni náðu glæpagengin að hreiðra um sig og angar þeirra teygja sig nú ansi víða um hin norrænu samfélög. Í upphafi tókst þessu glæpahyski að blekkja yfirvöld og Hells Angels fengu meira að segja framlög frá danska ríkinu eins og um hver önnur æskulýðssamtök væri að ræða.

Klíkurnar hafa barist á banaspjót í undirheimum Norðurlanda og stundum berast átökin upp á yfirborðið. Menn kippa sér kannski ekki lengur mikið upp við það á meðan gengin láta sér duga að drepa og pynta hver aðra en þegar saklausir borgarar verða fyrir árásum þá fer fólk að hafa áhyggjur. En fjöldi saklausra borgara hefur fallið í valinn í Rokkarastríðunum eins þessi átök eru jafnan kölluð á Norðurlöndum.

Undanfarin ár hefur þrisvar slegið verulega í brýnu milli glæpagengjanna þannig að Norðurlöndin bókstaflega loguðu í átökum í Rokkarastríðunum eins þessi átök eru jafnan kölluð. Fyrsta uppgjörið varð á níunda áratugnum milli Hells Angels og Bullshit. Í stuttu máli fóru Vítisenglar þá með sigur af hólmi og þurrkuðu Bullshit svo gott sem af yfirborði jarðar. Það markar endalok þeirra deilna þegar Jönke, leiðtogi Vítislengla, myrti Makrílinn, leiðtoga Bullshit. Jönke flúði í útlegð og dvaldist meðal Vítisengla erlendis þar til hann snéri aftur til Danmerkur og afplánaði dóm fyrir morðið. Jönke þessi varð svo talsmaður Vítisengla í Danmörku, metsölubókahöfundur og vinsæll gestur á síðum glanstímarita.

Annað stríð hófst um miðjan tíunda áratuginn og stóð í nokkur ár en þá hafði Bandídos náð að fylla skarðið sem Bullshit skildu eftir. Á tímabili breyttist Kaupmannahöfn í blóðugan vígvöll. Þegar verst lét var jafnvel barist með vélbyssum á flugvöllum og í íbúðarhverfum og kom fyrir að saklausir borgar urðu fyrir kúlnahríðinni. Ekki þótti nóg að beita venjulegum vopnum og er talið að báðar fylkingar hafi brotist inn í vopnabúr danska hersins til þess að ná sér í stórtækari vígvélar. Átökin náðu hámarki þegar einn Bandidosliðinn skaut sprengjuflugskeyti inn í höfuðstöðvar Vítisengla, sem er í íbúðarhverfi á Norðubrú í Kaupmannahöfn, meðan árleg víkingaskemmtun þeirra stóð yfir. Ung kona sem var gestkomandi í boðinu en hafði annars engin tengsl við Vítsienglana lést í þeirri árás.

Undanfarið hafa svo blossað upp blóðug átök á milli Hells Angels og hópa innflytjenda á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Fjöldi manna hefur fallið valinn og ekki sér enn fyrir endan á þeim átökum. Skotbardagar milli náhvítra engla vítis og barnungra vígamanna Allah eru daglegt brauð í Danmörku.

Það hefur reynst þrautinni þyngri að losna við þessa óværu en á allra síðustu árum hafa lögregluyfirvöld á Norðurlödum náð töluverðum árangri með svokallaðri zero-tolerance stefnu sem felur í sér stórhertar aðgerðir gegn glæpalýðnum. Þrengt er að klíkunum og því líta þær nú annað og virðast hafa beint sjónum að Íslandi. Það má ekki leyfa þessu liði að skjóta rótum hér á landi.

Það er því algjör óþarfi að bjóða þetta lið velkomið til Íslands. Þetta er nefnilega óværa sem illa reynist að losna við fái hún frið til að hreiðra um sig.