mánudagur, 16. febrúar 2009

Aska og eldur

Daníel Hannan, þingmaður breska íhaldsflokksins á Evrópuþinginu, leggur til að Ísland taki upp breskt pund frekar heldur en evru. Daníel hefur stjórnmálalegan áhuga á ríkjum í Evrópu sem standa fyrir utan ESB og sér breska pundið sem leið fyrir Ísland til að forða landinu frá ESB-aðild.

Það er þó einn galli á þessari aðferð, breska ríkisstjórnin hefur nefnilega enn þá stefnu að taka upp evru í stað punds þegar efnahagsaðstæður til þess verða taldar hagstæðar. Taki Ísland upp breskt pund gætum við því hæglega setið uppi með evru innan skamms.

Vilji menn halda Íslandi fyrir utan evrusvæðið til að forða landinu frá segulmætti Evrópusamrunans er eina raunhæfa leiðin að leita ásjár hjá Noregsbanka.

Já, vel á minnst, sá sem hefur Gamla sáttmála frá árinu 1262 í fórum sínum er vinsamlegast beðinn um að skila honum hið snarasta til fjármálaráðherra.