þriðjudagur, 14. júlí 2009

Misskilin löggjöf ESB

Nokkurs misskilnings hefur gætt í umfjöllun sumra innlendra stjórnmálamanna og lögfræðinga um evrópsku innistæðutryggingalöggjöfina. Sagt er að þar sem ekki er kveðið upp úr með það hvaða innlenda stjórnvald eigi að tryggja greiðslur úr innistæðutryggingasjóðnum, verði hann greiðsluþrota, þá geti íslenska ríkið ekki verið skuldbundið til að greiða upp að því lágmarki sem lögin segja þó fyrir um að skuli greitt. Misskilningurinn liggur vafalaust í því að regluverk Evrópusambandsins er útbúið á annan veg heldur en hefðbundin lög innanlands.

Evrópusambandið setur lög með ýmsum hætti sem hafa mismunandi vægi. Rammalög (e. directives), - sem ranglega hafa verið þýdd sem tilskipanir á íslensku - eru viðamest. Löggjöfin um innistæðutryggingar er rammalöggjöf. Slík lög eru eru bindandi fyrir aðildarríkin en kveða ekki með beinum hætti á um ákveðnar aðgerðir heldur fela í sér markmið og er aðildarríkjunum í sjálfsvald sett hvernig eru uppfyllt heima fyrir. Sú skylda hvílir því á íslenskum stjórnvöldum að finna eigin leiðir til að tryggja þessar innistæður.

Þetta er til að mynda sá skilningur sem kemur fram í skýrslu franska seðlabankans undir stjórn núverandi bankastjóra Seðlabanka Evrópu, Jean Claude Trichet, þar sem segir að í tilvikum kerfishruns, þegar innistæðutryggingasjóðurinn dugi ekki til, komi til kasta annarra þátta öryggisnetsins, svo sem seðlabanka viðkomandi lands eða ríkisins. Þessi háttur er hafður á til að virða mismunandi hefðir og innri stjórnskipan í hverju landi fyrir sig.

Þess misskilnings hefur enn fremur gætt að hér sé á ferðinni lög Evrópusambandsins sem komi okkur ekki við. Staðreynd málsins er hins vegar sú að þessi löggjöf var á grundvelli EES-samningsins innleidd í íslensk lög eins og öll önnur lög sem Alþingi samþykkir. Íslensk stjórnvöld hafa sjálf skilið málsmeðferðina þannig að samningurinn feli ekki í sér sjálfkrafa framsal á ákvarðanatöku til hins sameiginlega vettvangs í Brussel.

Samningurinn sem íslensk stjórnvöld hafa gert við Breta og Hollendinga er að sönnu afar vondur og illa gerður af Íslands hálfu en örðugt er að sjá að innlend stjórnvöld geti snúið sér út úr málinu með því að skella skuldinni á gallað reglugerðaverk að utan.