miðvikudagur, 22. júlí 2009

Fyrirvaraleiðin - krókur á móti bragði

Eftir því sem lengra líður frá undirritun Icesave-samkomulagsins kemur sífellt betur í ljós hversu arfaslakur samningurinn er. Bretar og Hollendingar hafa öll tromp á hendi á meðan við sökkvum enn dýpra í skuldafenið.

Af þessum sökum vilja margir nú að Alþingi hafni ríkisábyrgð á lánasamningunum við Breta og Hollendinga. Þrátt fyrir margvíslegt klúður af okkar hendi - sem nú er smám saman að koma betur í ljós - er ég þó enn á því að fyrirvaraleiðin sé betri kostur heldur en einhliða höfnun. (Sjá grein í Fréttablaðinu þess efnis 8. júlí sl: Fyrirvara verður að setja, og grein hér á blogginu 30. júní sl: Mögulegar Icesave-leiðir.)

Með fyrirvaraleiðinni getum við nefnilega komið með krók á móti bragði, lagað einhliða til þá vankanta sem eru á samkomulaginu en um leið komið Svarta Pétri yfir á Breta og Hollendinga.

Ef Bretar og Hollendinga sætta sig ekki við fyrirvarana sem við setjum, þá verður það í þeirra höndum að hafa frumkvæði að því að taka málið upp á nýjan leik. Í það minnsta væri slík aðkoma að samningaborðinu á ný mun betri heldur en að Alþingi hafni einfaldlega gerðu samkomulagi.

Héðan í frá snýst málið einkum um að endurheimta einhvers konar samningsstöðu gagnvart viðsemjendunum.